07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

19. mál, fræðslumálastjórn

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þar sem verið var að útbýta þessari brtt. nú eftir að fundur var settur, þá hefir menntmn. eðlilega ekki haft ástæðu til að taka hana til íhugunar eða taka afstöðu til hennar. Ég get því ekki gefið hv. deild neina bendingu um það, hvað n. mundi vilja leggja til, annað en það, sem ráða mætti af því, að því var ekki hreyft í n., svo að ég muni, að breyta neitt ákvæðum frv. um launauppbót.

Ég ætla það sé samt rétt, sem hv. flm. brtt. tók fram, að þeim embættismönnum, sem teknir eru til samanburðar, sé sumpart ætluð bein launabót. T. d. er það svo um landssímastjóra, en öðrum eru ætluð aukastörf, er gefa nokkrar launabætur. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að fræðslumálastjórastarfið verði það umfangsmikið, að ekki verði um aukastörf veruleg að ræða.

En sem sagt, ég get ekkert lagt til þessa atriðis fyrir n. hönd; úr þessu verður hv. deild að skera upp á sitt eindæmi.