07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

19. mál, fræðslumálastjórn

Jón Þorláksson:

Ég verð að segja, að mér nægir það nú ekki, þótt vitnað sé í það, að t. d. vegamálastjóri hafi einhverjar tekjur af öðrum störfum í þágu hins opinbera heldur en vegamálastjórninni. Það getur vel farið svo um fræðslumálastjóra líka, að hann hafi aukatekjur utan embættis, en það er launaákvörðun um fræðslumálastjóraembættið algerlega óviðkomandi.

Það getur vel verið, að hv. 6. landsk., sem er formaður fjvn. og þess vegna betur inni í þessum plöggum en ég, hafi einhverja stoð fyrir þeim ummælum, að vitamálastjóri núverandi hafi líka einhverja persónulega launauppbót. Hann er líka búinn að vera á þriðja tug ára í embætti, og mætti líta nokkuð á það.

Ég er ekki að hafa á móti brtt. af því, að mér þyki launin of há, en ég get ekki látið vera að minnast á, að hér rek ég mig á það ósamræmi, sem orðið er í öllum nýrri launaákvörðunum gagnvart launalögunum frá 1919.

Ég skal ekki leggjast á móti þessu, en verði það samþ., má skoða það sem viðurkenningu þess af hálfu stj. og Framsóknarflokksins, að ekki tjái lengur að halda sér við launalögin frá 1919, heldur verði að breyta þessu bráðlega í hækkunaráttina, sérstaklega þegar um er að ræða svo umsvifamikil störf, sem fræðslumálastjóraembættið.