21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1931

Gunnar Sigurðsson:

Ég hefi þegar haldið tvær ræður út af styrknum til Flugfélagsins, og er það þó ekki vandi minn að halda hverja ræðuna á fætur annari, enda er ég mjög hikandi í því, hvort ég á nú að fara að reifa þetta mál að nýju.

Eins og ég hefi tekið fram áður, er gert ráð fyrir, að rekstrarkostnaður flugvélanna verði um 150 þús. kr. Til þess að mæta honum eru áætlaðar 50 þús. kr. tekjur af farþegaflutningi og 25 þús. kr. tekjur af póstflutningi, auk 55 þús. kr. framlags úr flugmálasjóði, samkv. nýsamþykktum 1. frá þessu þingi. Ennfremur er reiknað. með 20 þús. kr. rekstrarstyrk frá ríkinu, eftir till. samgmn. á þskj. 316, II. Auk þessa má geta þess, að ríkissjóður mun græða um 32.500 kr. á þessu ári vegna flugferðanna, á sölu flugfrímerkja, svo að augsýnt er, að hér er um fyrirtæki að ræða, sem gefur mikið í aðra hönd.

Stofnkostnaður þessa fyrirtækis er áætlaður 200 þús. kr. Leggur samgmn. til. á áðurnefndu þskj., að stj. verði heimilað að kaupa hluti í félaginu fyrir 50 þús. kr., og dr. Alexander Jóhannesson, sem hefir verið vakinn og sofinn í að vinna að framgangi þessa máls og er því allra manna kunnugastur, telur víst, að takast muni að fá 50 þús. kr., annarsstaðar frá. Hinn hluta stofnkostnaðarins verður að fá með framlögum frá einstökum mönnum, og er ekki að efa, að dr. Alexander muni takast það með sínum alþekkta dugnaði, enda er allverulegur hluti þeirrar upphæðar þegar fyrir hendi.

Eins og um allt, sem er á byrjunarstigi, er ekki hægt að segja með vissu, hvort þetta fyrirtæki muni bera sig, en ég lít svo á, að ekki eigi eingöngu að líta til þess, þegar um samgöngur er að ræða. Eða hvernig bera vegirnir sig? Það er vitanlegt, að þeir bera sig ekki. Og sama er að segja um strandferðirnar. Enda eru ekki gerðar þær kröfur, að þetta beri sig, heldur miðað við það, að vegir og strandferðir eru undirstaðan undir öðru, sem ber sig.

Ræða hv. frsm. fyrri kaflans var öll út í bláinn. Hann sagði, að ég hefði ekki byggt á neinum rökum, en sjálfum fannst mér honum fara eins og kerlingunni, sem vildi ekki láta breyta myndinni, fyrr en gamla fólkið væri dáið. Honum þykja flugferðir ekki tímabærar enn hér á landi og vill láta byrja á þeim einhverntíma síðar, en það á að byrja strax, eða öllu heldur halda áfram þeirri byrjun, sem þegar er hafin, enda er búið að ráða ýmsa af starfsmönnunum við þetta fyrirtæki og Alþingi búið að samþykkja l. með það fyrir augum, að síldarleitinni verði haldið áfram, vegna þeirrar góðu reynslu, sem fengizt hefir um hana þann skamma tíma, er hún hefir verið starfrækt. Er það ófyrirgefanleg vanþekking hjá hv. frsm. fyrri kaflans, ef hann veit ekki, að bak við það standa eindregin meðmæli og óskir allra þeirra útgerðarmanna, sem síldarútveg stunda.

Ég veit ekki, hvort hv. frsm. hefir verið alvara með það, að flugferðir séu ekki enn tímabærar hér á landi, en ég verð að segja, að það eru undarleg rök á móti þessu máli. Ég benti á það í dag, að stórþjóðirnar, sem hafa tíu ára reynslu í þessum efnum, leggja fram milljónir króna árlega til flugsamgangna, og eru þó samgöngur þeirra hundrað sinnum betri á öllum sviðum en hér hjá okkur, sem eigum við að stríða samgönguleysið bæði á sjó og landi. Hversu miklu meiri nauðsyn er okkur ekki á flugsamgöngum? Hversu miklu meiri ástæðu höfum við ekki til þess að reyna að koma upp flugferðum?

Hv. frsm. talaði um símann, og vissi eg ekki, hvort ég átti að skilja hann svo, að hann ætlaðist til, að verzlunarmenn ferðuðust með honum. En ef hv. frsm. skilur, hvað verzlun er, ætti hann að geta skilið, hversu mikla þýðingu það hefir fyrir verzlunarmanninn og útgerðarmanninn að geta t. d. komizt til Akureyrar á 2–3 tímum, í stað þess að þurfa að eyða í það ferðalag 2–3 dögum og jafnvel meira.

Hv. frsm. hélt því fram, að þetta mál þyrfti meiri undirbúnings við en það hefði fengið. Málið er prýðilega undirbúið. Eitthvert sterkasta flugfirma í Evrópu, Luft-Hansa, hefir staðið á bak við þær tilraunir, sem hér hafa verið gerðar til flugferða, og árangurinn orðið betri en nokkur þorði að gera sér vonir um fyrirfram. Auk þess er á það að líta, að verði flugferðunum ekki haldið áfram nú, þegar segja má, að þær séu komnar af tilraunastiginu, er með því sporið stigið aftur á bak, í stað þessa að stíga það áfram. Slíkt sætta sig ekki við aðrir en þeir, sem vilja láta fresta öllum framkvæmdum, þangað til gamla fólkið er dáið. Og læt ég hv. frsm. það eftir að sitja á bekk með þeim mönnum.

Ég neita því, að ástæða sé til þess að ætla, að Flugfélagið muni þurfa svo mikinn styrk og hér er farið fram á árlega. Eftir því sem menn kynnast þessu samgöngutæki meira, nota þeir það meira, vegna hinna miklu yfirburða, sem það hefir yfir öðrum farartækjum um þægindi og flýti, og leiðir beint af því, að félagið kemst af með minni og minni ríkisstyrk, unz styrkurinn getur fallið niður með öllu.

Hv. frsm. komst út í járnbrautarmálið, og fannst mér þó lítil ástæða til þess að fara að blanda því saman við þetta mál. En hv. frsm. er eins og sprellíkarl, sem ískrar í, og sprettur upp til þess að skýra frá því, að hann sé með járnbrautarmálinu, hvenær sem hann sér sig geta komið því við. Ég hefi oft lýst yfir því áður, að ég tel það lífsnauðsyn fyrir suðurlandsundirlendið að fá járnbraut, og ég get endurtekið það enn einu sinni, að ég er reiðubúinn til þess að styðja hverja þá stj., sem vill bera það mál fram til sigurs. Vil ég nú gera þá fyrirspurn til hv. frsm., hvort hann sé reiðubúinn til að gera slíkt hið sama?

Ég gat þess áður, að á bak við það, að síldarleitinni yrði haldið áfram, stæðu allir helztu útgerðarmenn þessa bæjar, að undanteknum hv. 3. þm. Reykv., enda gerir hann ekki út á síld. Það liggja meira að segja fyrir vottorð frá einhverjum heppnasta manni fiskiflotans, Guðmundi Jónssyni skipstjóra á „Skallagrími“, þar sem hann lýsir yfir því, að hann hafi mjög mikla trú á flugvélum í sambandi við síldveiðarnar. Og samt dirfist hv. frsm. að segja, að ég hafi farið með ósannindi um þetta atriði.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. Hafi engin rök verið í því, sem ég hefi sagt, veit ég ekki, hvað rök eru. Aðeins vil ég endurtaka það, áður en ég sezt niður, og leggja sérstaka áherzlu á það, að ef það er rétt af stórþjóðunum, sem hafa ágætar samgöngur, að leggja fram milljónir króna til flugferða, er það því fremur rétt af okkur, sem eigum við vondar samgöngur að stríða á öllum sviðum.