21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. fyrri kafla (Jörundur Brynjólfsson):

Mér hefir nú loksins tekizt að knýja fram þau gögn, sem hv. 2. þm. Rang. býr yfir. Býst ég við, að hann hafi aflað sér þeirra hjá dr. Alexander Jóhannessyni, eftir að ég hafði beint fyrirspurn minni til hans. Er ég ekki að lasta það, þó að hv. þm. færi í smiðju, úr því að það varð til þess að upplýsa málið.

Áður en ég vík að ræðu hv. 2. þm. Rang., vil ég segja hv. þm. Dal. það, að hann hefir nú meira en áður lýst ókunnugleika sínum í Árnessýslu. Hann segir, að þar sé sími svo að segja á hverjum bæ og að þjóta megi um sýsluna þvera og. endilanga í bílum. Sannleikurinn er nú sá, að heilar sveitir í Árnessýslu eru með öllu símalausar, og það vantar mikið á, að hægt sé að bíla um alla sýsluna. Það er því langt því frá, að Árnessýsla hafi verið eitthvert óskabarn Alþingis að því er fjárveitingar snertir, og þýðir ekki að vera að flagga með því. (SE: Er hv. þm. búinn að gleyma áveitunum?). Og sussunei. (SE: En Laugarvatnsskólanum?). Hann er ekki eingöngu fyrir Árnessýslu.

Hv. þm. Dal. fór að tala um væntanleg stjórnarskipti, og var ekki laust við, að hoppaði í honum hjartað við þá tilhugsun. Ég skal gjarna segja hv. þm. Dal. það, að ef slíkt bæri á góma á eldhúsdaginn, getur vel verið, að það komi yfirlýsing frá mér um afstöðu mína til stj. (SE: Kemur þá engin bylting?). Hv. þm. þarf ekki að kvíða strax. Hver veit, hvað síðar kann að koma.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að ég hefði farið með vísvitandi ósannindi, er ég hélt því fram, að það væri fjarri því, að allir útgerðarmenn stæðu á bak við síldarleitina. En hv. þm. sannaði sjálfur mitt mál. Hann tilnefndi sjálfur einn hinna meiri útgerðarmanna, sem ekki stendur á bak við þetta. Og honum varð ekki vandratað á skýringuna: Þessi útgerðarmaður var ekki með, af því að hann gerði ekki sjálfur út á síld. Ég hélt nú, að hv. 2. þm. Rang. þekkti þennan útgerðarmann það vel — þessi útgerðarmaður er hv. 3. þm. Reykv. —; að hann þyrfti ekki að bregða honum um, að hann léti aðra eins smámuni hafa áhrif á afstöðu sína; a. m. k. hefi ég aldrei orðið þess var, að hv. 3. þm. Reykv. miðaði stuðning sinn við nokkurt mál við eiginn hag.

Það myndi enginn, sem nokkuð þekkir til hv. 3. þm. Reykv. koma fram með slík ummæli, og ég mótmæli þeim harðlega. (GunnS: Þarf ekki með). Það er gott, að hv. þm. sér að sér.

Hv. þm. kom með kostnaðaráætlun og áætlun um tekjur, en það var allt út í bláinn og án þess að hann færði nokkur rök fyrir máli sínu, og ég verð að segja það, að mér virðist það mjög hæpið, að tekjurnar geti orðið eins miklar og hann áætlar, enda póstflutningur og vöruflutningur dýru verði keyptur. En búast má við, að gjöldin verði margfalt meiri. Þetta eru allt saman eintómar ágizkanir.

Hv. þm. var enn að bera saman aðstöðu okkar og útlendinga. En skilur hann ekki, að við erum fátæk og fámenn þjóð og höfum engin efni á að kasta tugum þúsunda í fyrirtæki, sem er jafnlítið undirbúið og þetta. Sér hv. þm. ekki, að geta okkar er svo lítil, að ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir verða að sitja á hakanum og bíða betri tíma. Sjórinn í kringum þetta land er hreinasta gullnáma, — en vantar ekki vita til þess að lýsa farmönnum, og vantar ekki ýms önnur tæki til að koma í veg fyrir slys og hörmungar? Og hindrar ekki getuleysið okkur í þessum framkvæmdum? Myndi okkur ekki nær, svona fyrsta kastið, að búa betur í haginn fyrir okkur hvað þetta snertir og sjá um, að atvinnuvegirnir geti gengið vel bæði til lands og sjávar?

Fyrsta skilyrði fyrir verulegum framkvæmdum í landinu er það, að atvinnuvegir vorir geti borið þær uppi, og þess vegna ætti hv. þm. ekki að hafa í frammi nein svigurmæli um það, að þetta sé ekki fullkomið alvörumál fyrir mér, að samgöngumálin geti verið í sem beztu horfi. Hv. þm. ætti að muna það, að við höfum flutt till. saman, sem lýtur að þessum efnum, og þar sem hann er formaður samgmn., ætti hann að vita manna bezt, hvað því máli líður. En ég verð að segja, að mér kemur það einkennilega fyrir sjónir, að ekkert skuli vera farið að bóla á því. Þar er þó um að ræða samgöngubót, er kemur almenningi að notum. Annaðhvort verður það mál því mjög vel undirbúið, þegar það kemur frá nefnd, eða full ástæða virðist til að ætla, að áhugi þessa hv. þm. fyrir samgöngumálunum sé ekki alveg eins mikill og hann vill vera láta. Ég ætla mér ekki að fara að deila beint persónulega á þennan hv. þm., en það má hann vita, að ef hann ætlar að reyna að gera mig tortryggilegan í augum hv. þdm. í þessum málum, þá má hann fyrst líta í eiginn barm og sjá, hvort þar er allt svo hreint sem skyldi.

En við skulum halda okkur við málið og þær upplýsingar, sem þegar eru fengnar viðvíkjandi flugferðunum. Ég hefi haldið því fram, að þetta væri aðeins byrjun á kostnaði, sem gæti orðið gífurlegur, og nú hefir hv. þm. fært sjálfur beztu rökin fyrir því. Þeir menn, sem greiða atkv. með þessu máli, mega því ganga að því sem gefnu, að þarna verði ausið fé í fyrirtæki, sem við höfum nauðalítið gagn af, samanborið við aðrar framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru og verða þó að bíða sakir fjárskorts.