14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (1311)

104. mál, hafnargerð á Akranesi

Hannes Jónsson:

* Fyrst hv. 2. þm. G.-K. var að rétta mér prjón, verð ég að segja hér nokkur orð. — Hv. þm. var að bera það á mig, að ég hefði haldið hér sömu ræðuna hvað eftir annað. Þetta gerir hann sjálfur, þegar hann stendur hér upp. Og hv. þm. hefir gert meira en ég, því hann þræðir aftur og aftur það allra þynnsta úr allri þeirri þynnku, sem hann hefir áður sagt hér í þessari hv. deild. Hv. þm. hefði þó átt að geta setið á strák sínum, þótt hann sé að tala hér sem frsm. minni hl. (HK: Þetta hefðu ekki þótt þingmannleg orð, ef ég hefði sagt þau).

Ég skal gjarnan segja það sama um þetta sem hin bryggjumannvirkin, að það er alveg óþarft. Og hvers vegna á endilega að samþ. þetta nú, ef ekkert verður gert í þessu á næstu árum, eins og hv. flm. leggja svo mikið upp úr? Þeir hafa hver eftir annan tekið það fram, að hér væri engin hætta á ferðum, því ekkert yrði aðhafzt fyrr en þessi fjárveiting væri tekið upp í fjárlög, og það verði ekki á næstu árum. En þó er nauðsynlegt að koma þessari löggjöf á nú, eða í hvaða tilgangi eru þessir hv. þm. að burðast með þessa löggjöf? Það er eitthvað annað, sem þessir hv. þm. eru að berjast fyrir. Það eru ekki framkvæmdir, heldur það eitt að geta séð þessi „produkt“ sín á pappírnum. En það finnst mér heldur lélegt starf af þingmönnum.