15.03.1930
Neðri deild: 54. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í C-deild Alþingistíðinda. (1317)

104. mál, hafnargerð á Akranesi

Sigurjón Á. Ólafsson:

* Það er út af nokkrum orðum hv. þm. Borgf., að ég vil segja nokkur orð. Hefi ég þó enga löngun til þess að deila við hann á þeim grundvelli, sem hann byrjaði. Það er engin ástæða til þess að kasta illyrðum í þessum umr., og sízt ávinningur fyrir hv. þm. Borgf. En þess skal ég þó geta, að þau orð, sem hann hafði eftir mér, voru sumpart rangfærð og sumpart slitin úr réttu samhengi. Í rauninni er ekki svo mikill meginmunur á skoðunum okkar, svo að hann hefði þess vegna getað sparað sér svona langa ræðu að þessu sinni. Ég skal ávallt vera fyrstur til þess að viðurkenna þörf bættra hafna og lendinga, hvar á landinu sem er. Sama get ég því sagt hvað Akranes snertir. Um þessa hlið málsins er enginn ágreiningur. Um hitt er hinsvegar deilt, hver þátttaka ríkisins eigi að vera í framkvæmd slíkra mannvirkja, og hversu mikið það eigi að leggja af mörkum í hlutfalli við aðra hlutaðeigendur. Ég hefi áður lýst minni skoðun á því atriði, og sé því enga ástæðu til þess að fara frekar út í þá sálma að sinni.

Á undanförnum þingum hafa komið svona kröfur, en það hæsta, sem farið hefir verið fram á þar, er 1/3 hluti kostnaðar. Nú er heimtað hér 2/5 hlutar, og er það fulllangt gengið, ekki svo mjög vegna hverrar einstakrar hafnar, heldur þegar margar hafnir fara fram á það sama. Svona lagaðar fjárbeiðnir eru beinlínis til að tefja fyrir því, að ríkið geti lagt fram fé til hafnargerða, sem er þó bráðnauðsynlegt.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir nokkuð athugað, hvaða munur er á fjárframlaginu og ábyrgðinni í frv. og í nál. meiri hl. Fjárframlagið munar 80 þús. kr., en ábyrgðarheimildin 100 þús. kr. af 1200 þús. kr., sem fyrirtækið á að kosta. Ég veit, að hv. þm. segir, að þetta muni nokkru, en mér er kunnugt um það, að nú er svo högum háttað á Akranesi, að menn þar mundu vilja leggja talsverðar byrðar á sig til að fá þessa höfn, og jafnvel þó að bætt yrði við þeirri upphæð, sem hv. þm. og meiri hl. skilur á um, þannig, að þeir yrðu að taka hana á sig líka. En ég býst nú við, að þó að þetta frv. yrði að lögum, eins og hv. þm. vill og aðrir fleiri, sem slík frv. eiga, mundi verða dagur og vika þangað til ávöxtur sæist af slíkri lagasmið. Hér er um svo stóra fjárupphæð að ræða af hálfu ríkissjóðs, að það getur orðið örðugt að koma henni inn í fjárl., og þó að það takist, þá sé ég ekki, hvað menn eru bættari að eiga þarna lög, ef til vill árum saman áður en nokkur árangur sést af þeim. Ég er sannfærður um það, að því minna sem farið er fram á, að ríkissjóður leggi fram, því hægara verður að gera það að lögum, og þar sem búið er að samþ. till. minni hl., en það var gert í gær, þá tel ég sjálfsagt að sama gildi um það frv., sem hér liggur fyrir nú.

Ég hefi enga tilhneigingu til að gera upp á milli manna eða héraða í slíkum málum sem þessu, en ég mun auðvitað fylgja þeim till., sem ég hefi verið með og borið fram, þó að þær verði í minni hluta. Annars held ég, að n. hafi tekið málið hálfgerðum vettlingatökum. Mér var það ljóst, að minni hl. í n. var um og ó að bera fram þær till., en réð það þó af. Hinn minni hl. vildi ekkert gera við frv. nema vísa því til stj. Ég var þarna mitt á milli. Ég vildi ekki, að svona merkilegt mál yrði að sæta þeirri afgreiðslu, að það yrði saltað hjá stj. Ég vildi fá málið hér fram, en ekki skrifa undir nál. minni hl. Á síðasta þingi var farin sú leið, sem ég er sannfærður um, að sé rétt, og þá sömu leið hefði ég viljað láta fara nú, en það var það, að hafa ábyrgðarheimildina fulla, en ég sá enga von til, að því fengist framgengt, vegna reipdráttarins milli hinna stærri flokka. Málið er þó komið í þingið fyrir minn atbeina, en annars hefði því verið vísað til stj. (PO: Það hefði nú komið fyrir þingið fyrir því). En þá hefði það fengið aðra afgreiðslu. (PO: Það hefði fengið alveg sömu afgreiðslu). Það er mikil spurning, hvort það hefði orðið.

Ég ætla ekki að ræða frekar við hv. þm. um þau orð mín, sem hann tók út úr samhengi, en aðeins taka það fram, að svona mál, sem lengi bíða eftir framkvæmdum, séu í raun og veru fyrir þann þm., sem ber þau fram, ekkert nema silkihúfa, sem hann getur skreytt sig með framan í kjósendur sína. En hvað sem hv. þm. segir um hvatir mínar viðvíkjandi þeim málum, sem ég hefi borið hér fram, þá hefir raunin orðið sú, að mörg þeirra hafa orðið að lögum.

Sum mál virðast mér vera þess eðlis, að þau eru til einskis nema fyrir fólk að horfa á þau; því miður er það svo um mörg þau frv., sem fyrir þingið hafa komið.

Ég skal ekki fara langt út í aðrar hliðar málsins, aðeins minnast á það, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði. Hann var að tala um, að þetta væri barátta. Því er ég algerlega ósamþykkur. Ég vona, að við getum smátt og smátt byggt fleiri og fleiri hafnir meðfram ströndum landsins. Þær eru vitanlega fyrst og fremst þeim til hagsbóta, sem þar búa, en einnig til góðs fyrir allt landið.