21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1931

Gunnar Sigurðsson:

Með því að ég tel víst, að hv. frsm. sé nú dauður eða næstum því það, þá skal ég ekki gefa honum mikla ástæðu til andsvara eða tilefni til að bera af sér sakir.

Hv. frsm. talaði um, að ég hefði leitað í smiðju, og er það að nokkru leyti rétt, því að dr. Alexander Jóhannesson hefir gefið mér upp kostnaðaráætlunina, en sjálfur hefi ég unnið með honum í mörg ár að þessum málum. Hvað tekjunum viðvíkur, þá er það að segja, að raunin hefir sýnt, að þær eru allmiklar, og því meiri sem reksturinn er lengri. (JörB: Það er stórhalli af rekstri þeirra erlendis). Það kann að vera, að svo virðist á pappírnum, en veit hv. þm., hvað hinn óbeini hagnaður er mikils virði. Til þess að sýna hv. þm. dæmi þess, get ég nefnt honum eitt, og það var þannig, að á Akureyri bilaði vél í skipi, en þar fengust ekki nauðsynlegir varahlutir. Skipið hefði því orðið að liggja inni og misst mikinn afla, ef flugvél hefði ekki strax verið fengin til að sækja þessa varahluti til Reykjavíkur og þannig bætt úr þörfinni. Þetta dæmi sýnir, hve mikill óbeinn hagnaður getur orðið fyrir landið að hafa flugvélar við hendina, en það er ekki hægt að meta þann hagnað til fjár, því að svo mikill getur hann verið, en hinsvegar er afar erfitt að koma fólki í skilning um gildi ýmissa nýjunga. Því til sönnunar get ég sagt hv. þm. þá sögu, að það var mjög fátækur maður, sem fyrstur fann upp skipsskrúfuna og fékk auðmann til að reyna hana. Fólk hló að þessum manni og taldi hann vitlausan, að ætla að fara að skrúfa í sjóinn, en þegar það sá, að skipið fór á stað, þá kom annað hljóð í strokkinn.

Ég er líka sannfærður um það, að þótt þessi hv. þm. standi svo mjög á móti þessu máli nú, þá muni hann vera kominn á aðra skoðun þegar t. d. 10 ára reynsla er fengin fyrir notagildi flugvéla, og þá mun hann hafa komizt að raun um, að það verða flugvélarnar, sem munu bæta upp slæmar samgöngur bæði á sjó og landi.