17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í C-deild Alþingistíðinda. (1344)

109. mál, ágangur búfjár

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég mun ekki að svo stöddu fjölyrða um þetta mál frekar en hv. meðflm. minn gerði um næsta mál á undan (frv. til ábúðarlaga).

Þótt skoðanir manna kunni að vera skiptar um einstök atriði þessa máls, munu þó allir geta viðurkennt, að nauðsynlegt sé að setja ný lög um ágang búfjár. Það er nú svo, eins og allir hv. þdm. kannast við, að þau lagafyrirmæli, sem gilda í þessu efni, eru frá 13. öld, nefnilega í Jónsbók, og eru því orðin úrelt og að sumu leyti dauður bókstafur fyrir löngu síðan. Það eru að vísu til yngri ákvæði í fjallskilareglugerðum, ákvæði um ágang afréttapenings, en ágreiningur er meðal lögfræðinga um það, hvort frekar gildi ákvæði Jónsbókar eða reglugerðirnar, þegar þessu tvennu ber ekki saman.

Mér er það hinsvegar ljóst, að þótt lög verði sett um þetta efni, þá ná þau engan veginn yfir öll ágreiningsatriði, sem upp kunna að koma í sveitum út af ágangi búfjár. Það er til gamalt máltæki, sem segir: „Garður er granna sætt“, og ég býst við, að ágreiningur út af búfé falli ekki niður milli granna fyrr en girðingar eru orðnar svo almennar, að ágangur geti ekki lengur átt sé r stað. Menn kunna nú að segja, að eftir því sem girðingum fjölgi verði þörfin á lagaákvæðum í þessu efni minni, og er það vafalaust rétt, en enn munu þó líða langir tímar áður en girðingarnar geri slík lagaákvæði óþörf. Menn vita, að það er einmitt ágangur búfjár, sem langoftast orsakar nágrannakrit, og hefir oft af þeim sökum sprottið úlfúð og jafnvel fjandskapur milli manna. Hefir lausn slíkra mála oft orðið erfiðari en þurft hefði að vera, vegna þess að skýr lagafyrirmæli vantaði. Nauðsyn nýrrar lagasetningar um þetta efni hefir líka verið viðurkennd á liðnum árum, eins og sést á því, að þær milliþinganefndir í landbúnaðarmálum, sem skipaðar voru 1870 og 1904, hafa báðar tekið þetta mál til meðferðar og afgr. frumvörp um það, þó tillögur þeirra hafi ekki náð fram að ganga. Mþn. sú, er nú starfar, viðurkenndi einnig þessa nauðsyn og taldi því sjálfsagt að gera till. um þetta mál, og er því frv. þetta fram borið.

Eins og allir sjá, sem hafa lesið þetta frv., er aðalstefna þess sú, að allt land sé friðheilagt fyrir ágangi búfjár og hver eigandi búfjár verði að bera ábyrgð á því tjóni, sem ágangur af hans skepnum veldur. Það er enginn efi á því, að svo er víða háttað í sveitum, að sá hluti bænda, sem fátækari er og fjárfærri, líður mikið af ágangi af þeirra hálfu, sem meira eiga af búpeningi. Það er stefna þessa frv. að tryggja rétt þessara manna og að tryggja betur en áður hefir verið gert friðhelgi lands.

Í skýrslum, sem flestir hreppstjórar landsins sendu mþn. þeirri í landbúnaðarmálum, sem starfaði frá 1904–1907. eru nefnd ýmis dæmi því til sönnunar, hversu óþolandi ágangur af búfé sé víða á landinu, og að þeir, sem fáan fénað eiga, verði helzt fyrir honum.

Það getur verið, að einhverjir vilji segja sem svo, að þetta hafi slarkað af vandræðalítið hingað til og muni geta slarkað ennþá, þó að ekki sé farið að setja lög um það.

Þær raddir hafa heyrzt, þó að ekki muni hafa verið rætt mikið um frv. frá því í fyrra, að það mundi verða til þess að auka á deilur í sveitum landsins, en ekki til þess að sefa þær. Ég held, að þetta nái engri átt. Að fá skýr lagaákvæði um skyldur og réttindi manna í þessu efni, álít ég, að verði til þess, að síður verði deilur og óvinátta út af þessu en verið hefir. Ég tel enga hættu á, að þetta frv., ef að lögum verður, verði til að fjölga málssóknum. Ég held, að þegar menn vita skýrt um, hvaða skyldur og rétt þeir hafa í þessu efni, þá muni það leiða til samkomulags í stað þess, að hingað til hefir mönnum oft haldizt það uppi að sýna nágrönnum sínum ágang. T. d. þegar tvær jarðir liggja saman, þannig að varla er hægt að komast hjá því, að búpeningur af annari jörðinni gangi á hinni, mundi fara svo í flestum tilfellum, að gerðir yrðu samningar um það og ákveðnar bætur fyrir áganginn, en hingað til hefir oft verið svo, að menn hafa verið sama og varnarlausir fyrir ágangi.

Ég ætla alls ekki að eyða tíma í það að fara út í einstök. atriði þessa frv. Bæði álít ég það ekki rétt samkv. þingsköpum við þessa umr. málsins, og ef byrjað er á því, er ómögulegt að komast hjá að eyða til þess talsverðum tíma. Ég hygg, að málið verði athugað nægilega, bæði í þeirri hv. n., sem fær það til athugunar, og síðan við þær umr., sem um það verða. Ég skal því ekki fjölyrða meira um málið að sinni, heldur legg til, að því verði vísað til landbn. að þessari umr. lokinni.