17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (1345)

109. mál, ágangur búfjár

Hákon Kristófersson:

Ég skal verða fáorður um þetta frv. Ég lít svo á, að í því felist ýmsar umbætur, sem eru nauðsynlegar. En ég vil skjóta því til hv. flm. og beina því til n. þeirrar, sem fær þetta mál til meðferðar, hvort þau ummæli séu í frv., sem megi heimfæra upp á það, þegar fénaður gengur í landi annara manna að sumrinu og gerir einatt mikinn usla. Ég vil beina því til hv. þm., hvort ákvæði 13. gr. taki yfir það. Í mínu byggðarlagi eru jarðir víða litlar og heimaland komið í örtröð vegna þess, að fénaður frá fjármörgum heimilum gengur þar í túni og bithögum.

Ég býst við, að megi segja það um þetta frv., að það þurfi nákvæma athugun, en það er hlutverk n., sem fær það til meðferðar, að taka af því mestu vankantana. Ég er sammála hv. flm., að ég get ekki komið auga á það, að með samþykkt þessa frv. sé stofnað til málaferla í sveitum. Ég býst við að þegar menn hafa ákvæði að fara eftir, verði það til þess, að mönnum verður greiðara að gera samninga sín á milli um ágang búfjár.

Það er vitanlega smáatriði, hvað má reka nálægt landamerkjum annara, en ég tel, að það geti verið óhagkvæmt t. d. á vetrum að mega ekki reka nær landamerkjum granna sinn en til er tekið í frv.

Þegar hv. n. tekur málið til athugunar, vildi ég koma þeirri hugsun inn hjá henni, hvernig eigi að að fara, þegar menn verða fyrir mjög miklum ágangi búfjár að sumrinu.