25.02.1930
Neðri deild: 36. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (1356)

136. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson). Eins og tekið er fram í grg. frv., þá er það borið fram fyrir tilstilli mþn., sem skipuð var á síðasta Búnaðarþingi til að endurskoða stjórnarfyrirkomulag Búnaðarfélags Íslands og koma með tillögur um breyt. á því. Og þar sem ég er sá eini í stj. Búnaðarfélags Íslands, sem kosinn er af Búnaðarþingi, taldi ég mér skylt að koma frv. á framfæri, auk þess sem ég er algerlega samþykkur þessari breyt., sem frv. ráðgerir á stjórn Búnaðarfélags Íslands.

Þeir, sem kunnugir eru búnaðarmálum, vita, að þau eru enn á gelgjuskeiði hjá okkur og ekki ákveðnar skoðanir manna á milli um, hvaða stefnu ætti upp að taka. Þó má segja, að aðallega hafi komið fram tvær stefnur og þær ræddar dálitið. Önnur er sú, að láta Búnaðarfélag Íslands hverfa úr sögunni og leggja þau mál, sem það hefir áður haft með höndum, undir stjórnarráðið, þannig að sérstök búnaðarmáladeild yrði þá í stjórnarráðinu með líku sniði eins og t. d. á sér stað um vegamál landsins. — Þetta er önnur leiðin. Hin er sú, að efla og styrkja Búnaðarfélag Íslands sem sjálfstæða stofnun. Út frá þessum forsendum var gengið á síðasta Búnaðarþingi, er sú n. var kosin, er ég minntist á í upphafi ræðu minnar. Og hún leggur til að byggja þennan félagsskap upp frá grunni, þannig að Búnaðarfélag Íslands hafi eitt vald yfir þeim málum, sem undir það heyra.

Það er gert ráð fyrir, að stofnað sé búnaðarfélag í hverri einustu sveit á landinu, og að þau kjósi fulltrúa á sambandsþing. Sambandsþingið velur svo fulltrúa á Búnaðarþing, en Búnaðarþingið kýs stjórn félagsins. Með þessu móti er félagsskapurinn orðinn ein lifandi heild neðan frá og upp úr, og má vænta, að hann geti kveikt það líf, sem til þess þarf að taka á sínar herðar öll þau mál, sem reisa mega íslenzkan búnað úr rústum.

Að vísu hafa til skamms tíma ekki verið búnaðarfélög nema í fáum sveitum, og enn mun allmjög á skorta, að þau séu almenn. En með síðustu breyt., sem varð á jarðræktarlögunum, var það gert að skilyrði, að þeir einir fái styrk, sem starfi í einhverju búnaðarfélagi. Má því vænta, að þessum félögum fjölgi drjúgum, og er þú, eins og ég sagði áðan, komin lifandi heild neðan frá og upp úr.

Ég skal taka það fram strax, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að þessi till. er ekki borin fram af því, að Búnaðarþingið sé óánægt með þá tvo menn, sem Alþingi skipar í stjórn Búnaðarfélags Íslands. Búnaðarþingið er þvert á móti mjög ánægt með þá, enda þori ég að fullyrða, þó að breyt. þessi fái fram að ganga, að þessir tveir menn mundu kosnir í stj. Búnaðarfélagsins eftir sem áður, svo að hér er alls ekki um neitt persónulegt að ræða.

En það hefir Búnaðarþingið þótzt geta séð, að til vandræða gæti horft í framtíðinni, að það skuli ekki hafa yfir stjórn Búnaðarfélagsins að ráða. Það getur hugsazt, að komi upp ágreiningur milli Búnaðarþings og stj. félagsins, og þá getur stj., eins og hún er nú skipuð, neitað að framkvæma vilja Búnaðarþingsins og samþykktir án þess að þingið, fulltrúar bændanna, gætu þar nokkru ráðið. Og geta allir séð, hve óholt það er búnaðarmálum okkar, að þessir tveir aðilar, sem eiga að vinna saman, geti verið hvor upp á móti öðrum.

Hér er því, eins og ég tók fram áðan, aðeins um tvær stefnur að ræða; annaðhvort að leggja búnaðarmálin undir stjórnarráðið, sem yrði þá nokkurskonar skrifstofa þessara mála, eða að láta búnaðarfélögin í landinu ráða. Og ég er ekki í nokkrum minnsta vafa, hvora leiðina eigi að fara. Um sjálf skrifstofustörfin skiptir litlu. Þau gætu út af fyrir sig fallið undir stjórnarráðið. En hér er um meira að ræða. Það er starf allra bænda í landinu og félagsskapur þeirra, sem orðið hefir mesta lyftistöng til þess að glæða áhuga þeirra fyrir aukinni ræktun og bættum búnaði. Og það væri rothögg á allar búnaðarframfarir í landinu, ef ætti að svæfa áhuga manna með því að slíta þessi mál úr lifandi tengslum við bændurna sjálfa og leggja þau undir hálfdautt skrifstofuvald.

Eins og stendur er Búnaðarþingi gefin aðstaða til þess að gera till. um, hvernig verja skuli fé því, er Búnaðarfélagið hefir með höndum, og vald til þess að kjósa einn mann í stjórnina. En það var gert að skilyrði fyrir jarðræktarlögunum og jarðræktarstyrknum, að Alþingi tilnefndi tvo menn í stj. félagsins. Var þetta borið fram með þeim rökstuðningi, að þar sem Alþingi veitti svo mikið fé, þá væri ekki nema eðlilegt, að það skipaði meiri hluta stj. Búnaðarfélagsins, til þess að hafa eftirlit með framkvæmdum þess. En þetta var og er byggt á röngum forsendum. Jarðræktarstyrkjum er fyrirfram ráðstafað af lögunum sjálfum og ekki hægt að koma með kröfur um það, að Alþingi fái fyllra vald en áður hafði verið. Enda er alls ekki um neitt nýtt vald að ræða, sem Búnaðarfélagið fái með jarðræktarlögunum, heldur eins og hver önnur skrifstofukvöð, sem Búnaðarfélag Íslands hefir orðið að inna af höndum.

Ég veit heldur ekki, að þeirri reglu hafi verið fylgt, að þeir menn, sem Alþingi hefir skipað í stj. Búnaðarfélagsins. hafi staðið þinginu nokkurn reikningsskap gerða sinna. Þeir hafa farið sinn fram og gert það, sem þeir álitu sannast og réttast, og löggjafarvaldið gat ekki blandað sér í störf þeirra. Með því fyrirkomulagi, sem nú er á þessum málum, er ekkert samband milli stj. Búnaðarfélagsins og Alþingis.

Milliþinganefndin hefir gert að till. sinni, að atvmrh. fái að skipa annan endurskoðanda félagsreikninganna, og getur atvmrh. í gegnum hann fylgzt betur með störfum félagsins og komið fram sínum vilja og sínum till. á hvaða tíma sem er, og það af þeirri einföldu ástæðu, að hann getur alltaf vitað, hvað er að gerast. Þess vegna fæ ég ekki betur séð en að með þessu móti sé allt eins vel tryggt og áður, og það skipulag miklu eðlilegra, að Búnaðarþingið ráði stj. síns eigin félagsskapar, eins og Alþingi velur stj. ríkisins. A. m. k. óska ég ekki eftir, að stj. búnaðarmála okkar verði lögð undir stjórnarráðið, en vona, að hv. d. fallist á frv. og að þessi breyt. geti komizt sem fyrst til framkvæmda.