25.02.1930
Neðri deild: 36. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í C-deild Alþingistíðinda. (1359)

136. mál, jarðræktarlög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það hefir verið lýst brtt. og m. a. tekið fram, að ég hafi fallizt á þær flestar. Þó eru örfáar brtt., sem ég get ekki fellt mig við og hefi því sérstöðu um. Sú fyrsta er b-liður 5. till., við 13. gr. Ég er á þeirri skoðun, að heppilegast sé að hafa uppsagnarfrestinn eins og við höfum lagt til í frv. — 1 mánuð fyrir yfirmenn, og 1 viku fyrir undirmenn. Ég hygg, að þegar allt kemur til alls, þá muni menn fella sig bezt við, að einhver frestur sé fastákveðinn, og ekki mjög stuttur. Ég játa, að þetta kemur misjafnlega niður á ýmsum tímum. Þegar ekla er á fólki og mikið að gera, eru menn fúsari til skipta. En aftur á móti ef mikið er framboð og menn vilja gjarnan fá sitt fasta pláss, þá vilja þeir hafa einhvern uppsagnarfrest. Ég veit, að þetta gengur sitt á hvað. En ég held, að þegar maður gerir þetta upp, þá sé fyrir báða aðilja heppilegast, að uppsagnarfrestur sé nokkur, til þess að menn geti með nokkrum fyrirvara vilað, hvað í vændum er. En um nokkurt skeið hefir það verið svo, að mönnum er sagt upp, ekki með sólarhrings fyrirvara, þó að gert sé ráð fyrir svo löngum fresti í eldri lögum. Stundum hefir fyrirvarinn ekki verið nema einn klukkutími. Allir eru sammála um, að það sé óheppilegt. Hinsvegar kemur sér illa fyrir útgerðina, ef sjómaður segir upp starfi á sömu stundu og skip skal leggja af stað.

Ég held þess vegna alveg fast við þá brtt., sem við höfum borið fram, að uppsagnarfrestur sé ein vika. Hitt er minna atriði, sem 7. brtt. fer fram á. Um þennan ágreining milli útgerðarmanna og sjómanna út af því, hvað greiða skuli fyrir legudaga, hefir fallið dómur, sem grundvallaður var á því, sem áður gilti í dönskum lögum. En yfirleitt eru menn þeirrar skoðunar, að útgerðarmanni beri að annast húsnæði sjómanna í veikindatilfellum, hvort heldur þeir liggja heima hjá sér eða á spítala. Venjulega tapa þeir líka kaupi í sínum veikindum, svo að þeir eru ekki ofhaldnir af þessu. Um langt skeið hafa verið greiddir dagpeningar í þessum tilfellum, 3 kr., en ekki lyf né læknishjálp. Útgerðarmönnum þótti þetta heldur mikið og spannst þref út af því. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu, að þessi upphæð mætti teljast sæmileg. Það kemur fyllilega í ljós í Norðurlandalöggjöfinni, að farmenn eru tryggðir í heimahúsum fyrir öllum kostnaði, sem leiðir af veikindum. Ég verð því að lýsa yfir því, að ég er á móti þessari 7. brtt., enda þótt ég játi, að hún sé ekki sérlega stórvægileg.

Um brtt., sem ég tek aftur, er ekkert að segja. En um 9. brtt., sem hv. 2. þm. G.-K. flytur, má eiginlega segja, að hún sé orðabreyt. En ég hefði viljað fá eitt skýrt hjá honum í sambandi við þessa brtt. Ef t. d. maður drukknaði af skipi og lík hans næðist, myndi þá ekki að sjálfsögðu útgerðarmaður eiga að annast útförina, eins og þótt maðurinn dæi af sjúkdómi eða meiðslum? (ÓTh: Jú, alveg tvímælalaust. Það bið ég þingskrifara að bóka). Með slíkum fyrirvara get ég gengið inn á þetta orðalag.

Hv. frsm. hefir nú gert aðalatriðum þessa máls svo skýr skil, að ég tel óþarft að fjölyrða um þau á þessu stigi málsins. Við hljótum líka að ganga inn á þá reglu, sem er algild um öll Norðurlönd, og þótt víðar sé leitað, að útgerðarmenn tryggi fatnað og muni skipverja gegn eyðileggingu af óviðráðanlegum orsökum. Ég fjölyrði ekki heldur um það, en álít, að við getum varla verið þekktir fyrir að haga okkur öðruvísi í þessu efni en aðrar þjóðir, sem ég hefi nefnt. Á brezkum siglingaskipum gilda þessi ákvæði einnig.

Hv. 2. þm. G.-K. talaði nokkuð um það, að bagi væri að uppsagnarfrestinum, og fleiri ummæli hefi ég skrifað hjá mér, sem ekki er þörf að svara frekar.

Því hefir verið haldið fram, að þetta frv. sé ekki til bóta. En ég hygg, að reynslan sýni, að þegar farið verður að framkvæma þessi lög, muni þau þykja til mikilla bóta. Það yrði of langt mál að skýra í öllum atriðum, í hverju réttarbæturnar felast; til þess er ekki tími nú. En til að svara fyrirspurn skal ég geta þess, að þessi löggjöf hjá okkur gildir um öll skip yfir 12 smál., nákvæmlega það sama og hjá nágrönnum okkar austan megin hafsins.

Þá sagði hv. þm., að ekki væri tekið tillit til okkar sérstöku staðhátta. Um þetta má lengi þræta. En ég er ekki sammála um það, að við höfum neina sérstöðu. Við miðum við okkar nágranna. Við höfum togaraútgerð eins og Bretar, og við höfum fiskiveiðar með allskonar öðrum tækjum eins og nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum. Og ég finn ekki neina sérstöðu hjá okkur. Við höfum síðan 1914 búið við norræna sjólöggjöf, og þetta er stæling á þeirri löggjöf, eins og hún er nú. Á það hefir verið bent af hv. frsm., að ef nokkuð á að vera sameiginlegt með þjóðum, þá skal það vera siglingalöggjöfin. Þess vegna er ekki rétt að deila á okkur, þótt við höfum ekki þrætt neinar nýjar götur. Allt miðar að því að sameina þessa löggjöf sérstaklega meðal þjóðanna.