25.02.1930
Neðri deild: 36. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (1361)

136. mál, jarðræktarlög

Einar Jónsson:

Vegna þeirrar glöggu og skýru ræðu, sem síðast var haldin, get ég þegar tekið það fram, að það verður mjög stutt, sem ég þarf að segja.

Það vita nú allir, að það fer ekki verr, þótt hv. þm. Borgf. segi frá atriðunum heldur en ég, og ef ég er þar sammála, læt ég ætíð hjá líða að endurtaka hans orð. Ég er yfirleitt þakklátur þeim tveim hv. þm., sem hafa tekið þetta frv. til athugunar, þeim hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Borgf.; hygg ég það nægilega yfirskoðun á breyting jarðræktarlaganna, sem nú er á dagskrá. En annars datt mér í hug, að rétt væri að minna á gamla málsháttinn: Maður, líttu þér nær, liggur í götunni steinn. Það er annar Þrándur í Götu, sem er stærri en þetta atriði í bændanna garð, sú breyt., sem Búnaðarfélag Íslands hefir leyft sér að taka upp um úthlutun jarðræktarstyrksins á þessu ári, einmitt um það leyti, þegar Alþingi var nýstaðið upp frá störfum og sömuleiðis Búnaðarþingið. Var hvorug þessi stofnun spurð til ráða um það, sem stjórn Búnaðarfélagsins ætlaði sér þá að gera og kom í framkvæmd, sem var það, að lækka jarðabótastyrkinn að miklum mun, en sú tilbreytni kemur bændum svo illa, að það verður til að hindra framkvæmdir þeirra að stórum mun. Það er þetta atriði, sem mér finnst liggja nær fyrir stj. Búnaðarfélagsins að athuga heldur en að koma fram fyrir þingið með svona frv.

Það er rétt hjá hv. þm., að lækkun styrks með aukinni vinnu í hverju dagsverki mun nema 1/6 hluta kostnaðar. Þetta verður fátækum mönnum svo óhentugt, að það getur algerlega staðið í vegi fyrir því, að þeir geti haldið áfram þeim framkvæmdum, sem þeir annars höfðu hugsað sér og getað komið fram, ef þeir hefðu haft sama styrk. En þar sem búið er að upplýsa, að í öðrum póstum er fjármagn það, sem Búnaðarfélagið hefir yfir að ráða, orðið svo mikið, að nærri lætur 1 millj. kr. — það er nú þegar orðið 700 þús. kr. —, þá fyndist mér ekki úr vegi, að sömu reglu yrði fylgt með val og ákvæði stj., að Alþingi hafi nokkra íhlutun um framkvæmdir stj. þeirrar, sem hefir svo miklu fé yfir að ráða frá alþjóð. Tel ég, að hv. 1. þm. Árn. hafi farið þar mjög sanngjörnum orðum um. En um aðalefni þessa máls vildi ég í fáum orðum segja það, að það er ósk mín, að stj. Búnaðarfélagsins sæi sér fært að hafa sömu reglu um úthlutun jarðabótastyrks eins og áður, en minnka ekki styrkinn að Alþingi og Búnaðarþinginu forspurðu, öllum til ónota og óhagræðis. Óska ég, að réttur Alþingis verði ekki rýrður frá því, sem verið hefir, í vali stj. Búnaðarfélags Íslands, en þar sem hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn. hafa tekið flest fram, sem ég vildi sagt hafa, þarf ég ekki að hafa orð mín fleiri að sinni, en vænti þess, að á þá hafi verið hlýtt og orð þeirra tekin til greina.