05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (1371)

136. mál, jarðræktarlög

Hannes Jónsson:

Mér virðast hv. þdm. sumir hverjir taka þessu frv. óþarflega ómjúklega. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það skipulag, sem frumvarpið fer fram á, er það eina rétta, og hlýtur að komast á, þó að ef til vill verði nokkuð langt að bíða þess. Hitt er annað mál, hvort þær ástæður séu nú fyrir hendi, sem til þessara breyt. þurfa. Ég get ekki séð, hversu mjög greinir þarna á milli um það, hvort meiri hl. stj. sé tilnefndur af landbn. eða kosinn af félaginu sjálfu. Það er vitanlegt, að með því fyrirkomulagi, sem er, getur stjórnarflokkur aldrei tryggt sér meiri hl. í stj. Búnaðarfél. Og mér virðist jafnvel þær nefndir, sem kosnar eru til starfa milli þinga, verða oft og tíðum í litlu samræmi við vilja þingsins, og mætti hv. 1. þm. Árn. muna slíkt, því ég hygg hann hafi allmjög komizt í mótsögn við meirihl. þingsins í till. sínum. Og ef till. þingmanna eru gersamlega í mótsögn við vilja þingsins, hvers má þá vænta um nefndir eða stjórnir félaga, sem þingið útnefnir? Það er ómögulegt að tryggja, að framkvæmdir slíkra nefnda verði nákvæmlega í samræmi við þingviljann. Og hæstv. ráðh. hefir ekkert vald um skipun í stj. félagsins; hann er bundinn við till. landbn.

Ég álít, að þá fyrst geti svo stórfelldur félagsskapur sem Búnaðarfél. orðið heilbrigður, þegar undirfélögin, sem það er samsett af, eru orðin það þroskuð, að þau hafa nokkurn veginn ljósa meðvitund um, hvað þau vilja í þessu efni. Og ennfremur, að þegar þau stofna með sér samband, sé náið samstarf milli félaganna úti um landið og aðalfélagsins. Á þennan hátt hefir S. Í. S. náð ákaflega miklum þroska á tiltölulega stuttum tíma, — einmitt fyrir þetta nána samband deildanna víðsvegar og aðalfélagsins sjálfs. Og ég hygg, að Búnaðarfélagsstarfsemin mundi aukast og margfaldast fyrir þetta nána samband, sem hugsað er með þessu nýja fyrirkomulagi. Ég tel það mjög mikils virði fyrir bændur landsins, að ríkisvaldið gefi félagsskap þeirra skilyrði fyrir því samstarfi manna alstaðar á landinu, sem honum er nauðsynlegur til þess að hann megi ná tilgangi sínum. Ég tel þetta fyrirkomulag, sem er, neyðarúrræði, sem sé tekið af því, að skilyrði fyrir hinum rétta félagsskap er ekki fyrir hendi. Því eins og er, þá er allt í molum og áhugi búnaðarfélaganna úti um landið fremur lítill. En eins og öflug félög hljóta að verða þess megnug að mynda öflugt samband, þá er ég viss um, að það er rétt að láta félögin sjálf velja sér stjórnina alla.

Mér heyrðist sumir hv. þm., sem talað hafa, telja réttast að láta frv. ekki ganga til n. og 2. umr. Ég vildi segja þessi fáu orð aðeins til þess að óska eftir því, að hv. þd. sýndi málinu þá réttmætu viðurkenningu með því að vísa því í n. og til 2. umr. Og þó að málið verði ekki afgr. á þessu þingi, þá gætu till. landbn. og umr. um málið bæði nú og við 2. umr. orðið leið til upplýsinga fyrir Búnaðarþingið, þegar það gerir sínar till. um þetta mál. Það getur vel verið, að ýmislegt af þessu kunni að valda ágreiningi hjá hv. þdm.; en þótt svo sé, þá er rétt gagnvart svo merkilegu máli að sýna því fulla virðingu með þinglegri meðferð.