05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í C-deild Alþingistíðinda. (1372)

136. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þótt ég eigi ekki eftir nema stutta aths., vona ég, að hæstv. forseti sjái ástæðu til að sýna mér langlundargeð.

Hv. 1. þm. Árn. byrjaði mál sitt með því að segja, að mjög fátt nýtt hefði komið fram í minni ræðu. Ég get ekki sagt það sama um hans ræðu, því að þar var svo mikið nýtt af misskilningi og fjarstæðum, að tæplega var heil brú í sumu, sem hann sagði. M. a. var hann að bera saman það vald, sem hæstv. atvmrh. hefir á stj. Búnaðarfél. gegnum þessa alþingiskjörnu stjórnendur, við það vald, sem hann hefir á vegamálastjóra og bankastjórum. Ég vil benda hv. þm. á, að hér er sá meginmunur á, að vegamálastjóri stendur beint undir atvmrh., sem Búnaðarfél. gerir ekki. (PO: En bankastjórar?). Sá ráðh., sem skipar bankastjóra, getur undir vissum kringumstæðum vikið þeim frá. En getur atvmrh. vikið þessum mönnum frá? Ég veit ekki betur en að landbn. ákveði þessa menn raunverulega, og ráðh. verði að sitja með þá. Það er hrein og bein reginvitleysa og, ímyndun, að atvmrh. hafi vald yfir þessum mönnum. Hv. þm. var að tala um, að það gæti farið fram ráðagerð milli atvmrh. og þessara stjórnenda. Vitanlegt er það, og slíkt gæti alveg eins verið, þótt þeir væru skipaðir af búnaðarþingi. En hvaða vald er það, þótt atvmrh. geti ráðgazt við þá?

Ég er sammála hv. 1. þm. Árn. um, að það er neyðarúrræði, sem ég vona, að komi aldrei til, ef atvmrh. þarf að beita því valdi gagnvart stj. Búnaðarfél., að hóta af svipta það fé, ef honum líkar ekki framkoma þess. En það er það eina vald, sem embættið veitir honum til að ráða gerðum félagsins. Það er ekkert annað vald lagt upp í hendurnar á landsstj., þó að þessir menn séu kosnir af Alþ.

Ég vil óska hv. 1. þm. Árn. til hamingju með hreinleikavottorðið frá skoðanabróður hans í þessu máli, hv. þm. Borgf., sem taldi hann hafa gert hreint fyrir sínum dyrum. Þessir hv. þm. geta báðir verið ánægðir með hreingerninguna fyrir sig, en ég er ekki hrifinn af henni.

— Ég hefi þá líka með þessu svarað hv. þm. Borgf. um það mikla vald, sem atvmrh. á að vera tryggt yfir Búnaðarfél. Íslands með því að Alþingi kjósi tvo menn í stjórn þess; ég hefi sýnt, að það tryggir honum ekkert meira vald en það, sem hann getur haft með aðstoð þess trúnaðarmanns, er þetta frv. ætlar honum að skipa, sem annan endurskoðanda Bf. Ísl. Í gegnum hann getur ráðh. fengið vitneskju um það, sem gerist í Bf. Ísl., og falið honum sérrannsóknir á framkvæmdum þess og málum.

Hv. þm. Borgf. vildi neita því, að í mþn. Búnaðarþingsins, sem hefir samið þetta frv., væru fulltrúar íslenzkra bænda. Hann má kalla þá hverju nafni sem hann vill. En þessi 3 manna nefnd var kosin á Búnaðarþingi og kemur því fram fyrir hönd íslenzkra bænda. Þó að þessar till. n. hafi ekki formlega verið lagðar fyrir Búnaðarþing, þá skiptir það ekki miklu máli; þær eru gerðar í anda þess.

Viðvíkjandi því, er hv. þm. Borgf. sagði um ánægju Búnaðarþings þegar ræktunarlögin voru samþ., er það að segja, að opinberlega komu ekki fram nema tvær raddir á Búnaðarþingi, sem lýstu óánægju yfir stjórnskipulagsbreytingum laganna. En Búnaðarþingið gerði það ekki með góðum hug eða ánægju að beygja sig undir þau. Það var hin knýjandi nauðsyn, sem beygði Búnaðarþingsfulltrúana þegjandi undir þau skilyrði, sem sett voru í ræktunarlögunum fyrir hinum auknu fjárframlögum úr ríkissjóði til jarðræktarinnar og landbúnaðarins. Búnaðarþingið gerði það nauðugt. og get ég fært sannanir fyrir því síðar, þó að ég hafi þær ekki við hendina nú.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. talaði um, að stj. Bf. Ísl. hefði tekið sér vald til þess að breyta reglugerð jarðræktarlaganna, þá er það alveg rangt með farið. Atvmrh. gefur út reglugerðina og gerir breytingar á henni á sína ábyrgð, en Búnaðarfélag Íslands hefir þar aðeins tillögurétt. Og núv. atvmrh. fór í þetta sinn algerlega eftir till. Bf. Ísl. — Hinsvegar er það alls ekki víst, að allir ráðh. geri það, og áður hefir það komið fyrir, fyrst eftir að reglugerðin var gefin út, að þáv. atvmrh. tók ekki til greina till. Bf. Ísl. í einstökum atriðum. (MG: Hvaða atriði var það?). Um það, hvenær mætti taka jarðabætur upp á skýrslur. (MG: Þetta mun ekki vera rétt). Það er víst rétt, og það er hægt að sanna við tækifæri, utanþings eða innan. (MG: Þá skora ég á hv. þm. að gera það). — Ég er nú um það bil að vera dauður, en þetta skal ég sanna, þó að ekki verði fyrri en í öðru lífi.

Því er alveg slegið föstu í lögunum, hvað háan styrk á að greiða út á hvert dagsverk. En að hið upphaflega mat á dagsverkinu eigi að hafa ævarandi gildi og vera nálega óbreytanlegt. nær engri átt. Því til sönnunar skal ég lesa upp úr grg. mþn. í landbúnaðarmálum við frv. um breyt. á jarðræktarlögum, sem flutt var á þinginu 1928, þessi orð um 2.gr. frv.:

„Má ætíð, eftir því sem vinna og efni hækkar eða lækkar í verði, færa til ílagningu í dagsverkið, án þess að lagabreytingu þurfi að gera“.

Með þessu er ótvírætt gefið í skyn, að n. ætlast til, að dagsverkið hækki eða lækki eftir hinu raunverulega gildi þess og verðlaginu í landinu, alveg eins og verðlagsskráin er gerð eftir raunverulegu verðlagi vara hvert ár. Þetta hvorttveggja er jafneðlilegt og réttmætt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta, einkum af því að hv. þm. V.-Húnv. hefir tekið fram nokkuð af því, sem ég ætlaði að benda á.