05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í C-deild Alþingistíðinda. (1375)

136. mál, jarðræktarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég var ekki viðstaddur fyrri hluta þessarar umr., þegar minnzt var á þær breyt., sem gerðar voru á síðastl. ári um mat á jarðabótadagsverkum. En af því að þetta er nú aftur dregið inn í umr., þá verð ég að gefa á því nokkrar skýringar. — Ég lít svo á, að stjórn Bf. Ísl. og atvmrn. verði að taka fullkomið tillit til þess, sem búnaðarmálastjóri Sigurður Sigurðsson og jarðræktarráðunautur Bf. Ísl. segja fyrir um, að eigi að vera í dagsverki. Þegar þessir fagmenn í jarðræktarmálunum koma til stj. Bf. Ísl. með ákveðnar till. um, hvað skuli lagt í dagsverk, þá er óforsvaranlegt annað en að taka til greina umsögn þeirra. Annars var nokkur ágreiningur um þetta í stjórn Bf. Ísl. Við tveir, sem eigum sæti hér í þessari hv. þd., gátum fallizt á þessar till. búnaðarmálastjóra og jarðræktarráðunautsins; en þriðji maðurinn í stj., Magnús Þorláksson, vildi stækka dagsverkið meira í vissum flokkum, eða minnka jarðræktarstyrkinn, eins og hv. 1. þm. Skagf. orðaði það. Úrslit urðu þau, að nokkurt tillit var tekið til beggja, en þó aðallega haldið sér við till. Sig. Sigurðssonar og Pálma Einarssonar.