24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í C-deild Alþingistíðinda. (1392)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

* Það er mikill skaði, að þetta frv. kemur svo síð, að það hefir í raun og veru enginn tími unnizt til að athuga það nema fyrir þá menn, sem starfað hafa að því í mþn. Það hefir því ekki verið hægt að athuga það eins og þurft hefði einmitt nú við 1. umr. Ég stend því ekki upp hér af því, að ég trevsti mér til að ræða málið óundirbúinn eins rækilega og ég vildi gera, heldur af því, að ég vil ekki, að frv. gangi svo í gegnum 1. umr. hér, að ekki verði vart við, að neinn taki eftir, hvað hér er á ferðinni með þessu frv. Ég get þó sagt það, eftir að hafa lítið lauslega á frv. og hlustað á framsöguræðu hv. flm., að í þessu frv. eru einstök atriði, sem ég get vel fellt mig við og tel vera sanngjarnar till. En aðalatriðið í þessu frv. virðist mér vera það, að þar er farið fram á stórfelldari stefnubreytingar í skattamálum en nokkurn tíma hefir áður komið hér fram, a.m.k. á síðari árum. Það er sem sé sú stefna, að ríkissjóði sé sem mest aflað tekna með beinum sköttum, þar sem farið er fram á, að skattstiginn hækki svo gífurlega.

Hv. flm. sagði, að hækkunin væri um 50%, en af háum tekjum er hækkunin miklu meiri. Þar hækka skattarnir úr 26% upp í 40%. Samt get ég nú fallizt á það, að ýmislegt mæli með þeim breyt., sem frv. fer fram á. Hér er ekki um neina nýja uppgötvun að ræða, enda hélt hv. flm. því ekki fram, heldur er hér um stefnubreyt. að ræða í því, hvernig afla skuli ríkissjóði tekna.

Hv. flm. kom með nokkrar tölur, sem áttu að sýna, hve mikið af allri skattabrðinni er tekju- og eignarskattur og hvað mikið tollar. En þar við er það að athuga, að mikið af þeim tekjum, sem koma sem tollar, er í raun og veru nokkurskonar tekjuskattur. Og þeir, sem efnaðir eru, borga oft meira af þessum skatti, þó að svo sýnist, sem hann gangi jafnt yfir alla. T. d. má nefna alla tolla af óþarfavöru, svo sem vini, tóbaki og enda kaffi. Efnað fólk kaupir helzt dýrustu tegundirnar og borgar því mesta upphæð, og verðtollurinn verkar beinlínis sem tekjuskattur. Dýrari tegundirnar, sem efnafólkið kaupir, eru venjulega hæst tollaðar. Því lendir sá tollur tiltölulega mest á því fólki. Það er því villandi, þegar kaffi- og sykurtollur er sagður nema 40%, en tekju- og eignarskattur 11%.

Eftir því, sem mér heyrðist hv. fjm. segja, þá áleit hann þessi atriði ekki skipta mestu máli, heldur hitt, að fram að þessu hefði löggjöf okkar um skatta og tolla verið mesta handahófsverk, aðeins verið hugsað um að fá tekjur í ríkissjóð, en ekki verið hugsað um að miða þau rétt við þessa gjaldstofna. Þetta held ég, að sé alls ekki rétt. Auðvitað eru til einstöku tekjustofnar, sem eru til komnir eingöngu af því, að þurfti að ná í peninga, t. d. útflutningsgjald, sem er ekki heppilegur tekjustofn.

Tollarnir verða því heppilegastir fyrir þjóðfélagið, eins og nú standa sakir. Það á að leggja háa tolla á þær vörur, sem óþarfar eru og hættulegt að neyta að miklum mun. Þessari stefnu hefir verið fylgt hér nú hingað til, að takmarka innflutning á óþarfa vörum og láta verðtollinn hækka eða lækka eftir því, hvort vörurnar voru þarfar eða óþarfar. En nú kemur hv. flm. þessa frv. og segir: „Þetta er ekki sú heppilega stefna. Það, sem nú á að gera, er að leggja þarfir ríkissjóðs á tekjur manna og eignir“. — Ég treysti mér ekki að setja þetta svo skýrt og vel fram, sem æskilegt væri, svona óundirbúinn, en þetta verður að athuga vel, hvaða áhrif þessar tvær stefnur geta haft á hag þjóðfélagsins.

Það er vitanlegt, að allar framfarir og aukin skilyrði til atvinnurekstrar verða að koma af tekjum. Eins er með viðhald, sem er nauðsynlegt á öllu, sem úr sér gengur. Þessi tekjuafgangur getur gengið til nauðsynlegra framkvæmda og til að leggja í ýmis fyrirtæki, ef ekki á að vera algerð kyrrstaða eða afturför. Nú álítur hv. flm., að heppilegast sé, að sem mest af þessum tekjuafgangi renni í ríkissjóð og síðan til ýmissa þarflegra fyrirtækja. En það verður nú oft svo, að þegar þetta fé er komið í ríkissjóð, þá fer sumt af því til að bæta persónulega afkomu einstaklinganna, sumt í þarflegar framkvæmdir, en sumt beinlínis til óþarfa. Það er þess vegna óhætt að segja það, að féð mundi ekki fara allt til að auka ræktun, kaupa ný skip eða koma upp verksmiðjum. Sumt mundi fara í óþarfa, en mundi ekki gera það, ef það væri ekki dregið í ríkissjóð með þessum fyrirhugaða skatti. En sé skatturinn tekinn af óþarfavörum, þá er bersýnilegt, að það mundi draga úr neyzlu á þessum vörum og þar að auki gæfi það peninga í ríkissjóð, sem yrðu þar að miklum notum.

Hér er því um það að ræða, hvort fremur beri að skattleggja þá menn, sem starfa að nauðsynlegum fyrirtækjum, eða þá, sem nota mikið óþarfavörur. Og ég hygg, að það sé réttara að tolla óþarfar vörur en leggja háa skatta á framtaksmennina.

Ég skal ekki tefja þessar umr. lengur að sinni, en aðeins benda á það, sem hv. þdm. er kunnugt, að hér er um mikið „princip“-atriði að ræða. Fá mál hafa verið eins mikið „princip“mái og þessi tekjuskattsfrv. frá hv. þm. Ísaf. og mþn., sem liggja hér fyrir.