24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (1394)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

* Hv. flm. hefir nú bent mér á það, sem stendur í áliti hans á bls. svo og svo. Þetta er nú bara eitt af því, sem sýnir, hve háskalega vel hv. þm. stendur að vígi gagnvart mér í þessari orðasennu okkar, sem hann mætir í svona afarvel undirbúinn, þar sem aðalstarf hans hefir sennilega verið nú um tíma að kynna sér þetta mál. En ég mæti með öllu óundirbúinn.

Ég sagði í minni fyrri ræðu, að mér gætist vel að ýmsum atriðum frv., og þau atriði geta verið fleiri en þau, sem ég hefi enn komið auga á. En í raun og veru er það þó svo, að ekki þarf nema að líta á skattstigann til þess að finna það, sem er aðalágreiningsefnið okkar á milli. Deilan stendur sem sé um það, hvort aðaltekjur landsins eigi að taka með tekjuskatti eða sem tolla, er einkum hvíla á óþarfavarningi.

Hv. flm. virtist gefa í skyn, að mikið af tollunum hvíldi á nauðsynjavöru. En ég vil benda honum á, að samkv. landsreikningi fyrir árið 1928, sem einmitt nú er útbýtt til þm., eru þeir liðir býsna háir, sem hvíla á óþarfavöru. Svo er um tóbakstollinn, kaffi- og sykurtollinn, sem ég kalla munaðarvöru, þar sem öllum er betra, að lítils sé af henni neytt. Þá er víntollurinn og ágóði af víneinkasölunni o. fl. Þá er og verðtollurinn, sem ég hefi sýnt fram á, að kæmi að nokkru leyti niður sem tekju- og eignarskattur, og hv. þm. kannaðist við, að verkaði þannig. Svo er vitanlega eftir vörutollur, sem lendir á öllum jafnt, og útflutningsgjöld, sem ekki geta talizt heppileg. Í sambandi við þetta vitnaði hv. flm. í ákvæði frv. meiri hl. n. og sagði, að sumir tollar, er hvíla á nauðsynjavöru, væru hækkaðir með því, nefndi t. d. kol, salt og slitfatnað. Ég hefi nú verið að ræða um okkar skattastefnu fram að þessum tíma, en ekki um álit meiri hl. Ég get vel verið ósammála sumu, sem þar kann að standa, og þar á meðal þessu. Ég tel ekki heppilegt að hækka toll á þessum vörum.

Hv. flm. lagði mikla áherzlu á samanburð frv. síns við það, sem tíðkaðist í öðrum löndum. En við þann samanburð kom það samt sem áður í ljós, að einungis eitt land af þeim, er hann taldi, hefir hærri tekjuskatt á 50 þús. kr. tekjum en lagt er til í frv. hans, í Englandi. Í nágrannalöndunum er hann lægri, bæði eftir þeim lögum, er nú gilda, og eftir frv. hans. Þetta sýnir, að því fer fjarri, að við séum á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessari stefnu. Við erum þvert á móti á undan þeim flestum.

En svo ber einnig á það að líta, að við erum á þessu sviði alls ekki samanburðarhæfir við aðrar þjóðir. Við höfum vegna fátæktar okkar fullkomna sérstöðu, er hlýtur að koma fram í skattalöggjöfinni. Sá maður, sem kemur til útlanda í fyrsta sinni — eða svo var a. m. k. um mig —, hlýtur að undrast þann feiknaauð, sem hvarvetna blasir við augum í stórborgunum. Allskonar stórbyggingar og hallir, hafnarmannvirki, vitar, ræktað land í stórum stíl o. fl. o. fl. Allt virðist vera búið að gera, sem gera þarf. Þetta er ekkert annað en þjóðarauður. Þetta er sá stóri munur, sem er á því, sem þar er, og því, sem við þekkjum hér heima. Hér er allt ógert. Fátæktin blasir hvarvetna við, hvert sem litið er, og mætir manni við hvert fótmál. Þess vegna er hér þörf að styðja að efnaaukningu, sem er undirstaða framkvæmdanna. Þess vegna einmitt þarf að haga skattakerfinu þannig, að hinum duglegu og athafnasömu mönnum sé gert fært að starfa og njóta sín og skapa verðmæti í landinu. Og þegar litið er á stefnu þessa frv., þá verður einmitt að gæta þess, að hér er svo að segja enginn auður. Hér eru engir slíkir menn til, sem sumstaðar finnast erlendis, er sitja sýknt og heilagt með sveittan skallann við að klippa út arðmiða. Hér eru máske til sæmilega efnaðir menn, en það eru allt menn, sem hafa efnazt vegna eigin dugnaðar og eru að nota efni sín til nauðsynlegra framkvæmda og auka þar með þjóðarauðinn. Sökum okkar miklu fátæktar verðum við einmitt að hlynna að allri viðleitni til að skapa auð.

Hv. flm. féllst á, að sumir tollar verkuðu sem tekjuskattur, en spurði að því, hvort það væri ekki einfaldari leið að leggja þann hlutann beint á sem tekjuskatt. Ég svara því neitandi. Tökum sem dæmi tvo menn með 40 þús. kr. tekjum. Annar er sparsamur, en hinn eyðslusamur. Er þá ekki betra að taka tiltölulega meira með tollum í ríkissjóð af þeim, sem hvort sem er eyðir tekjum sínum í óþarfa? Hinn sparsami leggur ágóða sinn í atvinnufyrirtæki, bætir þar með efnahag þjóðarinnar og eykur atvinnuskilyrði. Með beinum tekjuskatti væru báðir skattaðir jafnt. En með háum tolli á óþarfavarningi, þá borgar sá meira í ríkissjóð, sem notar vín, tóbak og annan slíkan óþarfa. Er nú ekki rétt að láta þann peia borga meira en ráðdeildarmanninn? Óbeini tekjuskatturinn, sem felst í verðtollinum, sem settur er á óþarfa vörur, er því heppilegri en beinn tekjuskattur. — En hér er nú sannarlega ekki um það að ræða, að enginn tekjuskattur sé, því hann er nú einn stærsti tekjuliðurinn.

Hv. flm. talaði um, að alla skatta yrði að taka af þeim tekjum, er væru umfram þarfir. Þetta er nú ekki nema að nokkru leyti rétt. Geta ekki þarfirnar orðið nokkuð mismunandi? Er ekki réttara að haga skattalöggjöfinni þannig, að sem mestur verði tekjuafgangurinn? Er ekki einmitt með sköttum hægt að draga úr því, að eyðslan verði mikil? En það má einmitt gera með því að leggja háa tolla á óþarfa varning. Ég er sammála hv. flm. um það, að þjóðfélagið skapar á ýmsan hátt möguleika til fjáröflunar einstaklinganna. Til þess veitir þjóðfélagið m. a. réttarvernd o. fl. Sumt er líka þess eðlis, að bezt fer á, að ríkið framkvæmi það sjálft. Svo er t. d. um vita og hafnargerðir. Um þetta erum við sammála. En þá fer yfir takmarkið, ef ríkiði styður einungis með annari hendinni, en kippir fótum undan þeim, er sýnir björgunarviðleitni, með hinni. Sú hönd væri eins þung og bjarnarhrammurinn í sögunni, þegar björninn ætlaði að slá fluguna af manninum, en rotaði hann um leið.

Ef svo langt væri gengið, sem lagt er til í þessu frv., þá er ég hræddur um, að það mundi draga úr krafti þeirra manna, sem athafnamestir eru. — Ég skal eigi deila lengur. Ég hefi sagt nóg til að sýna, í hvaða höfuðatriðum okkur greinir á. Læt ég því staðar numið.