24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (1395)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hygg, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð að þessu sinni. Hv. 1. þm. Reykv. hefir gefið í skyn, að það, sem okkur greinir á um, sé það, hvort skattleggja skuli óþarfa og munaðarvörur, eða afla ríkissjóði tekna með tekju- og eignarskatti. En þetta er að snúa málinu alveg við. Ég hefi hvergi komið fram með neinar till. um að fella burtu eða lækka tolla á óhófs- eða munaðarvörum. Kaffi og sykur, sem að vísu eru ekki óþarfavörur að mínu áliti, eru, þótt frv. mitt yrði að 1., tollaðar með allt að 40% af innkaupsverði, í stað 60%–85% nú. Ég hefi, í von um samkomulag, ekki farið fram á meiri lækkun að þessu sinni, en tel sjálfsagt síðar að lækka þennan toll enn meira. En ótvíræð óhófsvara eins og freyðandi kampavín er aðeins tolluð með 30% og það með samþ. hv. þm. (MJ). Þetta tel ég að mætti að skaðlausu hækka, ef við ekki — sem við ættum að gera — losnum alveg við slíkan innflutning. Að vísu er líka söluágóði af víninu, það skal ég játa. En kaupmenn og aðrar verzlanir skammta sér líka söluágóða af kaffi og sykri. Hann rennur bara ekki í ríkissjóð. En hann er engu léttari á kaupendum fyrir því. Loðkápur, gull og silfurskraut og þess háttar óþarfi er líka tollaður með aðeins 30% og gefur ekki ríkissjóði hálfar þær tekjur, sem kaffi- og sykurtollurinn einn gefur. En að þessu mun ég koma síðar í sambandi við breyt. á tollalöggjöfinni. Hv. þm. sagði mig hafa játað, að verðtollurinn yrði í framkvæmd einskonar tekjuskattur. Þessu hefi ég aldrei játað, enda á það sér ekki stað nema í sárfáum tilfellum, þegar um alveg ónauðsynlegar vörur er að ræða. Að vísu er þá tollurinn hærri af dýrari vörum, t. d. fatnaði, en þær endast þá líka lengur. Fátæklingarnir, sem ódýrt kaupa, þurfa alltaf að vera að kaupa, og borga verðtoll. Drýgstir tollar koma af þeim nauðsynjavörum, eins og sjá má á skýrslu minni, vörum, sem ómögulegt er án að vera, svo sem er algengur fatnaður o. fl.

Hv. þm. sagði, að við værum á undan öðrum þjóðum um hæð skattstigans. Já, skattstiginn er hærri hér en í Danmörku. Noregi og Svíþjóð. En sé aftur á móti lítið á það, hve mikinn hluta af öllum tekjum sínum ríkið fær með þessum sköttum, þá nema beinir skattar miklu meiri hluta af heildartekjunum þar en hér, eru miklu hærri að tiltölu við tollana. Hér eru beinir skattar, þar með útsvör, um 40% af öllum tekjum ríkisins, en tolltekjur um 60%. Í Danmörku eru þessi hlutföll alveg öfug. Þar nema beinu skattarnir 60% af heildartekjum ríkisins, en þeir óbeinu 40%. Þó er þetta hlutfall ekki alveg rétt, að því leyti, sem tekjur af ríkisfyrirtækjum, svo sem pósti og síma, eru ekki teknar með í Danmörku, en hér er svo gert í meðaltölum áranna 1924–27. Beinu skattarnir í Danmörku eru því a. m. k. 2/3 hlutar allra teknanna. Ættu eftir sama hlutfalli að vera hér 10 millj. í stað 6, en tollarnir hér ættu eftir sama hlutfalli að vera 5 millj. í stað 9 millj.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að fátæktin væri svo mikil hér á Íslandi, að við yrðum að leggja allt kapp á efnaaukninguna. Ekki skal ég neita því að þörf sé efnaaukningar, en ég býst hinsvegar við, að okkur hv. 1. þm. Reykv. greini allverulega á um það, hvernig efnahagsaukningunni megi hepplegast við koma. Ég tel okkur engu bættari, þótt við eignumst nokkrar millj. í viðbót, ef hagur almennings versnar eða batnar ekki.

Hv. 1. þm. Reykv. hélt því jafnframt fram, að mismunur ríkra og fátækra væri ekki svipað því eins mikill hér á landi sem erlendis. Ég hefi oft heyrt þessu haldið fram áður, en það er hið mesta rangmæli, eins og hv. þm. getur sannfært sig um með því að kynna sér þær skýrslur, sem prentaðar eru í grg. frv. Þær sýna það, að örfá % af landsmönnum eiga mestan hluta eignanna og fá tiltölulega mestan hluta teknanna í sinn vasa. Vitaskuld er um minni upphæðir að ræða hér en erlendis, vegna þess, hve hér er allt í smærri stíl en þar. En hlutfallslega er munurinn engu minni hér en erlendis.

Það kann að vera, að hér sitji enginn með sveittan skallann við að klippa arðmiða, enda hygg ég, að þess séu ekki dæmi víða annarsstaðar. Auk þess munu þeir, sem svo eru settir, áreiðanlega ekki vera að sveitast við slíkt verk sjálfir, heldur fá sér aðstoð til þess. (MJ: Þetta var sagt í gamni). Jæja. — En í alvöru: Árið 1925 töldu einir 13 menn fram til eignarskatts nærri 11 millj. skattskyldra eigna, en 95% af öllu fólkinu átti ekkert eða nær ekkert.

Þá drap hv. 1. þm. Reykv. á það, að með því að tolla munaðarvörurnar mætti draga úr notkun þeirra. Það er nú í sjálfu sér þarflaust að vera að ræða þetta atriði í sambandi við þetta frv., því að hvorki í því né öðrum frv. mínum er gert ráð fyrir að lækka tolla á þessum vörum, en annars væri hægt að ræða um það, hvort heppilegasta leiðin til að hafa tekjur af þessum svokölluðu munaðarvörum sé sú, að tolla þær. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar — og ég veit, að annar meðnm. minn í skattamálanefndinni er einnig þeirrar skoðunar —, að heppilegast sé að láta ríkið hafa einkasölu á munaðarvörunum, svo að það ekki einungis hafi skatttekjur af þeim, heldur njóti einnig verzlunarhagnaðarins, sem oft er geysimikill. Þá getur ríkið og haft hönd í bagga með innflutning á þeim og takmarkanir ef þörf þykir. Og ég vænti þess, eftir því, sem lá á bak við orð hv. 1. þm. Reykv. um áfengisverzlunina, að hann verði með því frv. um einkasölu á tóbaki, sem ég ásamt hv. 1. þm. N.-M. mun flytja hér í hv. deild.

Þó að hv. 1. þm. Reykv. játaði, að þjóðfélagið skapaði mönnum möguleika til tekjuöflunar, komst hann þó að þeirri endanlegu niðurstöðu í ræðu sinni, að sá hluti, sem ríkið eftir þessu frv. tæki af tekjunum, væri svo mikill, að það mundi draga úr framkvæmdalöngun manna. Ég hygg, að þetta sé mjög fjarri sanni. Þessi sami söngur hefir alltaf kveðið við frá því að fyrst var farið að tala um tekjuog eignarskatt, en reynslan hefir svnt, að þetta er á engum rökum reist. Get ég sem dæmi bent á England og Þýzkaland, en í hvorutveggja þessu landi hefir auðsöfnunin ekki minnkað við tekju- og eignarskattinn, heldur þvert á móti vaxið. Þó er þessi skattur í báðum þessum löndum miklu hærri en hér er gert ráð fyrir. Tekjuskatturinn á Englandi nemur 45% eða 9 sh. á hvert pund, þegar um mjög háar tekjur er að ræða, en er yfirleitt 5 sh. af pundi, eða 20%, en þó að skatturinn sé svona hár, hefir þó ekki borið á því, að dregið hafi úr viðleitni manna til auðsöfnunar. Sú viðleitni virðist fremur aukast en minnka.

Ef einstakir liðir þessa frv. eru athugaðir, býst ég við, að menn muni sannfærast um, að ekki sé ástæða til að óttast neinn afturkipp í athafnalífinu vegna þess, hve það fari fram á háan tekjuskatt. Ég hygg t. d., að það muni ekki draga úr viðleitni manna til að afla sér 20 þús. kr., þó að þeir, eftir frv., eigi að greiða 2700 kr. í skatt af þeim, í stað 1800–1900 kr. eftir núgildandi l. Sama hygg ég að gegni, þó að um mejri tekjur sé að ræða. Eftir núgildandi l. nemur tekjuskatturinn af 50 þús. kr. 8900 kr., og ég er þess fullviss, að viðleitni manna til að afla sér 50 þús. kr. tekna muni ekki minnka, þó að skatturinn sé hækkaður upp í 10800 kr., eins og frv. gerir ráð fyrir. Það eru röskar 2000 kr., sem munar, og ég er ekki í neinum vafa um það, að slíkt verður ekki til að lama athafnalífið eða draga úr löngun manna og viðleitni til að afla sér þessarar fjárhæðar.

Auk þessa er á það að líta, að þeir, sem einkum koma til með að greiða þennan tekjuskatt, en það eru útgerðarfélög og einstakir atvinnurekendur, fá í móti, ef frv. mín ná fram að ganga, mikla ívilnun, þar sem er lækkun á tolli af þeim vörum, sem til útgerðarinnar þarf, svo sem salti, veiðarfærum og kolum.

Eftir núgildandi 1. nemur verðtollurinn af kolum og salti um 3%, og eftir frv. meiri hl. skattamálanefndar (MG og HStef) 5%, en eftir mínum till. lækkar hann niður í 1%. Þetta hefir afarmikið að segja fyrir útgerðina og vegur að miklu leyti upp á móti þeirri hækkun á tekjuog eignarskatti, sem þetta frv. fer fram á.

Ágreiningurinn milli mín og hv. l. þm. Reykv. er aðallega um það, hvort réttara sé að afla ríkissjóði tekna með tollum á nauðsynjavörum og framleiðsluvörum, eða með tekju- og eignarskatti. Hvort réttara sé t. d. að láta útgerðarfélögin, að því er þau snertir, greiða þúsundir króna í ríkissjóðinn í hreinum tapsárum með tollum á kolum og salti, eða láta þau greiða heldur hærri skatt af eignum sínum og tekjum, þegar vel árar. Hvort skattana eigi að leggja á þarfir eða ágóða og eignir.

Ég lít svo á, að það sé heppilegra, bæði fyrir þjóðfélagið og einstaklingana, og líka fyrir útgerðarfélögin, að þau séu látin greiða hærri skatt af tekjum sínum, þegar vel gengur og sleppa við skattinn í tapsárum.

Eftir núgildandi l. verða útgerðarfélögin að greiða þúsundir króna í toll af þeim vörum, sem til framleiðslunnar þarf, þó að stórtap sé á útgerðinni. Sjá allir, að það er hvorki réttmætt né sanngjarnt.

Hitt er þó ennþá ranglátara og heimskulegra, að láta fjölskyldumann, sem ef til vill verður að þiggja 100–200 króna framfærslustyrk, greiða um 300 krónur í ríkissjóðinn í tolla af nauðsynjum sínum og sinna.