24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í C-deild Alþingistíðinda. (1396)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Guðmundsson:

Ég hjó eftir því hjá hv. þm. Ísaf., að hann taldi beinu skattana ekki nema meiru en 40% af öllum ríkistekjunum, en þá óbeinu 60%. (HG: Hlutföllin eru 41% á móti 59%).

Þetta atriði var tekið til athugunar af skattamálanefndinni, og ég man ekki betur en að niðurstaðan yrði sú, að skattarnir vægju salt, að hvortveggja skatturinn næmi jafnmiklu af ríkistekjunum.

Nú er það svo í sumum tilfellum, að álitamál getur verið, hvað beri að skoða sem beinan skatt og hvað sem óbeinan, og má því vera, að hv. þm. Ísaf. hafi komizt að þessari niðurstöðu af því, að hann telji þann skatt óbeinan, sem við meðnefndarmenn hans í skattamálanefndinni teljum beinan, en ég hygg þó, að varla geti borið hér svo mikið á milli af þessari ástæðu. A. m. k. slæ ég því föstu, að beinu skattarnir nemi hér um bil jafnmiklu sem óbeinu skattarnir, og undir þeim kringumstæðum finnst mér ekki rétt að hækka beinu skattana.

Hv. þm. Ísaf. tók Danmörku sem dæmi í þessu efni, en það verður að gæta þessa, að þar er um stærri þjóð að ræða en okkar, þjóð, sem á sín á meðal marga stóreignamenn, sem greiða gífurlega háan tekju- og eignarskatt. Þessir menn hækka þau hlutföll, sem hér er um að ræða. Hér á landi er þessum mönnum ekki til að dreifa; þeir eru ekki til. Af því leiðir svo, að okkar hlutföll eru lægri.

Ef tekjuskatturinn hér og í Danmörku er borinn saman, kemur í ljós, að hér er goldinn meiri skattur en þar af sömu tekjum. Og ég vil stinga því að hv. þm. Ísaf., að þó að tekjuskatturinn sé lægri í Danmörku en hér á landi, og flokksbræður hv. þm. fari þar með völd, hafa þeir þó ekki komið fram með till. um að hækka tekjuskattinn. Þeir hafa ekki séð sér það fært.

Ég vil benda á eitt atriði, sem er sérstætt um okkur Íslendinga, og það er það, hve atvinnuvegum okkar farnast misjafnlega frá ári til árs. Það er ekki óalgengt, að fyrirtæki, sem græðir 50 þús. kr. þetta árið, tapi sömu upphæð á því næsta. Til þessa verður að taka tillit í skattálögunum.

Meiri hl. skattamálanefndarinnar hefir ekki getað fallizt á að hafa meðaltalsreglu 2 til 3 ára, og af því leiðir, að ekki má skatta þessi fyrirtæki jafnhátt eins og ef gengið væri út frá jöfnum gróða. Ef gengið væri út frá meðaltalsreglunni, mundi fyrirtækið, sem ég nefndi í dæminu hér á undan, engan skatt greiða. Þegar þessari reglu er ekki fylgt, kemur skattgreiðsla á allar tekjur fyrra ársins, en aftur á móti enginn skattur á síðara árið. Skatturinn á aftur á móti að greiðast á síðara árinu, þegar tapið varð, og verður að taka tillit til þessa, þegar skatturinn er ákveðinn.

Ég þykist hafa sýnt það oft áður, að ég er vínveittur tekjuskatti, en ég er ekki blindur á það, að það verður að nota hann innan vissra takmarka.

Það er reynsla allra þjóða, að þegar skatturinn er farinn að verða mjög hár, fer að bóla á ýmsum göllum á honum. Fyrst er nú það, hve illt er að ná réttu framtali. Þá er það ennfremur galli, hve erfitt og jafnvel oft ómögulegt er að innheimta skattinn. Ég held, að ég megi segja, að í svo að segja hverjum landsreikningi verði að strika út hundruð þúsunda af þeim ástæðum, að ekki hefir verið unnt að ná skattinum inn. Ennfremur má benda á það, að eftir töflunum um, hvað tekjuskatturinn hefir numið frá því að hann var settur, kemur í ijós, að skatturinn er þrefalt hærri árið eftir góðæri en eftir illæri.

Þetta, sem ég nú hefi nefnt, eru gallar á þessum tekjustofni, frá ríkissjóði séð. Frá gjaldendanna hlið er auðvitað ekki nema fyllsta sanngirni í því, að þeir séu látnir borga minna, þegar illa árar, en það sýnir, að tekjuskatturinn er ekki nothæfur fyrir ríkissjóðinn, nema með öðrum sköttum.

Mér þykir þetta frv. vera seint fram komið, þar sem nú er liðinn fullur mánuður af þingi, og mér skilst, að það þýði litið að vera að ræða málið. Ég skil þennan drátt hv. þm. Ísaf. á að bera fram frv. svo, að hann búist ekki við, að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Ég hefi þó ekki á móti því að ræða aðalatriði þessa máls, en ég verð að segja, að það er ekki hægt að búast við, að þm. geti sinnt þessu máli, auk allra annara mála, sem liggja fyrir þessu þingi, þegar það kemur ekki á dagskrá fyrr en þingannir eru að verða sem mestar.