24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í C-deild Alþingistíðinda. (1398)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. þm. Skagf. vildi draga það í efa, að rétt væri frá skýrt um hlutfallið milli beinna skatta og tolla, en hann getur sannfærzt um, að ég hefi skýrt rétt frá, með því að fletta upp á bls. 28 í þskj. 137, því að þar er ítarleg grg. um málið og prentuð sundurliðuð skýrsla um skatttekjur ríkissjóðs árin 1924–27 samkv. rekstrarreikningi. Reynslan hefir orðið sú, að tollarnir hafa öll árin numið margfaldri upphæð á við beinu skattana, en vitanlega lendir meginþungi tollanna á fátæklingunum, sem hafa fyrir stórum fjölskyldum að sjá, en hinir, sem eru einhleypir eða vel efnum búnir, finna ekki svo mikið til þeirra og leggja tiltölulega minna af mörkum.

Hv. þm. gat þess með réttu, að aðrar þjóðir hefðu flestar miklar tekjur af tekju- og eignarskatti, og tiltölulega meiri en við. En hann fullyrti, að flestar þeirra sæktu skatt þennan aðallega í vasa nokkurra milljónamæringa. Rétt er það, að sumstaðar greiða milljónaeigendur allmikinn hluta tekju- og eignarskattsins. En hér á landi eru líka til milljónamæringar. Skýrslur þær, er fylgja frv. mínu sýna, að hér eru þó nokkrir menn, líklega um eða yfir 10, sem eiga meira en milljónar virði hver, ef eignir þeirra væru metnar með sannvirði. Ég hygg, að í tiltölu við fólksfjölda og þjóðarauð eigum við Íslendingar fullkomlega sambærilegan fjölda milljónaeigenda við aðrar þjóðir. Og auðvitað eiga efnuðustu og tekjuhæstu mennirnir hér eins og annarsstaðar að greiða tiltölulega mest. En þeir gera það bara ekki. Hv. þm. virtist halda, að Englendingar legðu tekjuskatt og eignar aðeins á stóreignamennina. Ekki er þetta rétt. Þeir, sem kalla mætti miðlungsmenn að tekjum og eignum, greiða tiltölulega háan skatt í Englandi. Lægsti skattur þar er 10% af skattskyldum tekjum einstaklinga, en frádráttur er þar miklu meiri en hér, um 7000 kr. fyrir 5 manna fjölskyldu. Almennur tekjuskattur þar er 20%, en ofan á hann bætist svo stighækkandi yfirskattur (supertax) af háum tekjum, 40 þús. kr. og þar yfir, allt upp í 75% samanlagt. En því má ekki gleyma í þessu sambandi, að nauðsynjavörutollar eru svo til engir í Englandi, en einmitt þeir eru þyngstir fyrir alþýðuna hér.

Hv. þm. talaði um, að tekjuskattur væri misjafn frá ári til árs, og það er alveg rétt, og þess vegna er trauðla hægt að notast við hann eingöngu, en fasteignaskatturinn er hinsvegar tryggasti skattstofninn og bætir því upp tekjuskattinn ásamt með eignarskattinum, sem líka helzt nokkuð jafn frá ári til árs.

Hv. 1. þm. Reykv. tók svo til orða, að við vissum ekki, hve mörg félög væru í hættu stödd vegna of hás tekju- og eignarskatts. Mér er ekki kunnugt um eitt einasta félag, sem er í hættu vegna tekju- og eignarskatts. Þessa skatta greiða ekki önnur félög en þau, sem eiga verulegar eignir eða hafa verulegan arð. Ég hygg, að það séu aðrir skattar, sem eru félögunum hættulegri, og það eru þeir skattar, sem félögin verða að borga, hvort sem þau eiga nokkuð eða ekkert, — hvort sem þau græða eða tapa —, en það eru tollar af framleiðsluvörum. Þá á að lækka eða afnema. Þann veg er þessum félögum bezt hjálpað.

Þá beindi hv. þm. þeirri spurningu til mín, hvort afleiðingin af hækkuðum tekju- og eignarskatti yrði ekki sú, að kaupgjald hlyti að lækka. Skatturinn greiðist af hagnaði, þ. e. því, sem eftir er þegar búið er að greiða kaupgjald og allan annan kostnað. Hann hefir því engin áhrif á kaupgjaldið.

Ég drap á það áðan, að það væru aðrir skattar, sem væru hættulegri en tekjuog eignarskattur fyrir þau félög, sem berjast í bökkum. Það eru tollarnir á þeim nauðsynjavörum, sem félögin verða að kaupa, er reynist þeim þyngsti bagginn, og bezta ráðið til að létta undir með þeim er að lækka þessa tolla eða afnema með öllu.

Mér virðist sem hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Skagf. geri of mikið úr því, hvað tekju- og eignarskatturinn sé stopull, í samanburði við aðra tekjustofna ríkissjóðs, t. d. tollana. Meðaltal hans frá 1921 mun vera ca. 1200 þús. kr. á ári, og er það mikið yfir áætlun yfirleitt. Venjulegur áramunur á þessum skatti hefir verið 200–300 þús. kr., nema veltiárin 1925 og 1929, en þá fóru líka allir aðrir tekjuliðir stórkostlega fram úr því, sem áætlað var, og ýmsir miklu meira en tekjuskatturinn. Annars er það ekki mikill galli, þótt skatturinn ár og ár fari verulega fram úr áætlun. Oftast hefir hallað á þá hliðina, og mun svo verða enn, ef sömu reglum er fylgt um áætlun teknanna.