12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég mun að þessu sinni tala mjög stutt. Ég get að mestu leyti vísað til nál. að þessum kafla, sem sé 1.–13. gr. Eins og sést á nál. fjvn., hefir n. ekki tekið tekjubálkinn neitt verulega til meðferðar við þessa umr. Ef hv. þm. kann að einhverju leyti ekki að þykja fullupplýst um hinar einstöku brtt. í nál., vænti ég, að þeir láti það í ljós, og skal ég þá svara þeim eins og ég veit sannast og réttast.

Þegar litið er á fjárlagafrv., sem fyrir liggur, eru tekjurnar áætlaðar meiri en í gildandi fjárl. og gjöldin sömuleiðis. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en ég vil beina því til hv. þm., að þeir gæti varúðar í því að hækka mjög mikið gjaldahliðina. Þó að tekjur færu mikið fram úr áætlun á síðasta ári, verðum við að gæta þess, að árferði til lands og sjávar var óvenjulega gott og verzlun og viðskipti með örasta móti. Þegar um slíka árgæzku er að ræða, drýpur drjúgum í ríkissjóðinn, og er mjög óvarlegt að byggja á slíkum tekjum, hvernig sem árar. Mér þykir hlýða að víkja stuttlega að þessu atriði. Enda þótt frv. sé svo úr garði gert, að tekjur og gjöld eru meiri en áður hefir verið, hefir fjvn. ekki komizt hjá að bera fram tillögur til hækkunar á gjöldunum, sem nema rúmlega 300 þús. kr. Nokkuð af þeim tillögum er bara leiðréttingar, eða um 70 þús. kr., sem sé greiðslur, sem yrði að inna af hendi, hvað sem fjárlögunum liði. N. fannst sjálfsagt, að slíkar fjárhæðir yrðu færðar á fjárlögin. Menn getur vafalaust greint á um þær till., er n. ber fram, en ég hygg, að yfirleitt megi segja, að þær séu til mjög gagnlegra hluta. Og jafnvel því fé, sem getur ekki beinlínis heimfærzt undir þessar greiðslur, má segja, að sé mjög vel varið. Mér er óhætt að segja, að ef fjvn. hefði árætt að gera frekari till. til útgjalda, mundi hún hafa gert það, því að hún hafði fullan vilja á að bera ýmsar slíkar till. fram, til frekari framkvæmda og umbóta. Slíkt er þó ætíð álitamál, og hv. þm. kunna að líta misjafnlega á það, enda taldi fjvn. sér vera skyldara en öðrum að fara varlega í þessu efni.

Um till. einstakra hv. þm., sem nema um 240 þús. kr., ætla ég ekki að segja margt. Ég læt það bíða, þangað til ég hefi heyrt flm. þeirra gera grein fyrir þeim. Allar þessar till. nema samtals um 550 þús. kr. þegar frá er dreginn tekjuafgangur frv., verður tekjuhallinn um 500 þús. kr.

Fyrsta till. n. er á þskj. 229, við 5. gr. Hún er þess efnis, að tekjur menningarsjóðs og skemmtanaskattur verði færðar á fjárlögin. N. telur fara betur á, þó að þessar tekjur komi ekki beinlínis ríkissjóði við, að þær standi í fjárlagafrv.

Ég ætla, að ég þurfi ekki að gera grein fyrir næstu liðunum, út að 7. lið. Ég skal aðeins geta þess um till. n. um greiðslu til lögmanns, að tillögur hans bárust ráðuneytinu svo seint, að ekki var hægt að taka þær til greina, þar sem búið var að prenta frv.

7. brtt. n. er um styrk til læknanna Ólafs Þorsteinssonar og Vilhelms Bernhöfts. Þeir hafa haft þennan styrk fyrir kennslu við háskólann. Reglugerð háskólans mælir svo fyrir, að læknanemar eigi að fá kennslu í þessum efnum, svo að þessi upphæð verður að greiðast.

Um styrkinn til Jóns Kristjánssonar læknis skal ég geta þess, að n. virtist það vera rétt, að hann fengi þennan styrk nú eins og áður, með því skilyrði, að hann veitti fátæklingum ókeypis læknishjálp.

Næst kemur brtt. við 12. gr. 8, um styrk til utanferða héraðslækna. Landlæknir óskaði eftir þessari hækkun, og n. varð við þeirri ósk. Landlæknir gat þess, að margir héraðslæknar hefðu siglt til þess að afla sér frekari þekkingar; þeir hefðu orðið svo margir, að fjárhæðin, sem ætluð væri í því skyni á þessu ári, væri fyrirfram greidd, og væri því hin mesta nauðsyn að hækka þennan lið.

Næsta brtt. er um matvælakaup að Kleppi. Ég ætla í þessu efni að láta nægja að vísa til nál. 9. till. er um hækkun á styrk til Halldórs Arnórssonar. Halldór Arnórsson er eini Íslendingurinn, sem kann þá iðn að búa til gervilimi, og n. leit svo á, að það væri mun þægilegra og meiri sparnaður fyrir þá ólánsömu menn, sem þurfa að fá sér gervilimi, að geta fengið þá innanlands en að þurfa að leita til útlanda.

Þá gerir n. 3 till. til hækkunar á framlagi til þriggja vega, 5.000 kr. á hvern. Ég get líka um þessa till. vísað til nál. Þessir 3 vegir, Kjósarvegur, Biskupstungnabraut og Blönduhlíðarvegur, eru ákaflega fjölfarnir og mjög mikils virði, að þeir séu í sæmilega góðu lagi. Virtist n. því ekki rétt að draga úr fjárframlögum í gildandi fjárlögum. N. fannst sanngjarnara, þó að vitanlega þurfi að bæta vegi á milli héraða, að þeir biðu lengur, þangað til hægt væri að veita meira fé í einu.

Ég læt þetta nægja um þær brtt., sem n. flytur við 13. gr. B., og skal víkja nokkrum orðum að 13. gr. D. Ég ætla, að í nál. sé drepið á helztu atriði, sem eru þess valdandi, að n. ber þá till. fram, að lækka framlag til nýrra símalagninga, en verja fénu til að kaupa fjölsímatæki. Eins og segir í nál., hefir landssímastjóri lagt það til, að keypt verði fjölsímatæki. Áhald þetta kostar 150 þús. kr., svo að sú fjárhæð, sem við viljum verja til þess núna, nægir ekki nema að hálfu leyti. En n. gerir ráð fyrir, að síðari greiðsla verði veitt í fjárlögum fyrir 1932. Með því að skipta þessu, er hægt að sinna óskum landsmanna og verja 100 þús. kr. til nýrra símalagninga. Frá landssímastjóra hefir n. borizt erindi um það, hvaða línur hann telur aðkallandi. Þeirra er getið í nál. og ekki ástæða til að fara um þær frekari orðum.

Um brtt. n. við 13. gr. D. IV.-V. skal ég geta þess, að þegar landssímastjóri gerði tillögur í því efni til stjórnarráðsins, hafði hann hugsað sér að skipta greiðslum á húsbyggingarláni símans á milli landssímans og bæjarsímans. Þá var ekki búið að ganga frá lántökunni. Síðar kom það í ljós, að lánskjörin urðu betri en búizt var við, og taldi símastjórinn því réttast að gera ekki þá skiptingu, sem hann hafði upphaflega ætlazt til. N. féllst á till. landssímastjóra í þessu efni og ber því fram þessar brtt. En vegna þess, hvað kjörin urðu betri en landssímastjóri bjóst við í fyrstu, lækkar þessi liður um 47 þús. kr.

Um þá brtt. n., að hækka laun símritara, skal ég geta þess, að landssímastjóri lét svo um mælt, að sakir þess, hve launin væru lág, væri ekki hægt að fá verulega góða og æfða menn í þessar stöður. Landssímastjóri gat þess, að einhleypir menn gætu komizt af með kjör þau, sem símriturum væru boðin, en fjölskyldumenn ekki. Um aukavinnu er tæplega að ræða fyrir þá menn, sem þessu starfi gegna. Landssímastjóri sagði líka, að ef ekki væri vel fyrir þessu starfi séð gæti það leitt til hinnar mestu óreiðu á afgreiðslu á símritun. Landssímastjóri gat og þess, að ekki væri örgrannt um, að þesskonar hefði komið fyrir, en að það mætti alls ekki eiga það á hættu, og lagði hann yfirleitt mikla áherzlu á, að úr þessu yrði bætt.

Þá leyfir n. sér að bera hér fram brtt. við 13. gr. E., um byggingu nýrra vita. Vitamálastjórinn gerði n. grein fyrir því, að mjög æskilegt væri að geta hraðað byggingu vita víðsvegar með ströndunum. Taldi hann marga staði, þar sem hann áleit nauðsynlegt að byggja vita hið bráðasta, eftir því sem þingið sæi sér fært að veita fé til. N. efast ekki um, að vitamálastjóri hefir rétt fyrir sér, að það geti verið nauðsynlegt að hraða þessum framkvæmdum. En hinsvegar treysti hún sér ekki til að verða við þeim óskum, sent hann flutti fram, heldur leggur hún til, að liðurinn verði hækkaður svo sem hermir í brtt., úr 50 þús. kr. upp í 80 þús. kr. Verður þá vafalaust farið að byggja þann vita, sem vitamálastjóri taldi einna mesta þörf að fá sem allra fyrst.

Um 2. lið, sem n. flytur, viðvíkjandi ýmsum gjöldum; get ég látið nægja að skírskota til þess, sem sagt er. í nál., enda er hér ekki að ræða um stórar upphæðir.

Þá kem ég að brtt. um lendingarbætur og bryggjugerðir, að sá liður verði hækkaður úr 20 þús. upp í 91 þús. kr. Mönnum kann að virðast, að n. fari hér allfreklega í það að auka gjöldin. En það er skemmst af að segja um þessa liði, að n. virtist, sem það væri um svo góðar og gagnlegar framkvæmdir að ræða á öllum þessum stöðum, sem sóttu um og hér er vikið að, að hún treysti sér ekki til þess að gera upp á milli þeirra, og heldur ekki til þess að mæla á móti, að eitthvað yrði gert. Eftir þeim skjölum, sem fyrir n. lágu, virtist n. sem það væri hlutaðeigandi héruðum afargagnlegt, að hægt væri að koma þessu verki í framkvæmd. Hinsvegar eru þessar framkvæmdir dýrar og n. virtist engin tök á því að veita allan þann ríkisstyrk, sem til þarf, á einu ári. Tók því það ráð, að þessum meiri háttar greiðslum yrði jafnað niður á 3 ár. Í nál. er gerð grein fyrir, hvað mikið fer til hvers eins og í hvað mörg ár greiðslur eiga að fara fram. Ég ætla, að það sé gerð nægileg grein fyrir hverri einstakri till. á bls. 10 í nál., og læt mér nægja að vísa til þess. Ef einhver hv. þm. kynni að óska frekari skýringa, býst ég þá við að geta orðið við því síðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að þessu sinni að segja meira fyrir hönd fjvn. Ég hygg, að ég hafi drepið á þau atriði, sem mestu máli skipta og kannske hafa ekki verið tekin nógu glögglega fram í nál.

Eina brtt. á ég hér, og það, sem ég segi hér eftir, er fyrir minn eiginn reikning, en ekki n. Nota ég tækifærið að mæla ofurlítið með henni. Till. er á þskj. 260, VI, til ferju á Hrosshyl, 250 kr. Þessi styrkur hefir staðið í fjárlögum um nokkur ár. Reyndar var eitt sinn gripið til þess bjargarráðs að fella hann niður í 150 kr., að ég ætla. Þá þótti þröngt í búi hjá ríkissjóði, og var því þetta ráð tekið. Það ár var einmuna góðæri. Aflanum var ausið upp úr sjónum og góðæri hið mesta til landsins. Hagur ríkissjóðs komst í hinn mesta blóma á því ári, — og auðvitað gerði þessi 100 kr. sparnaður sitt til. Nú brá mér mjög kynlega við, þegar ég sá, að búið var að fella þennan styrk algerlega niður í fjárlagafrv. Sérstaklega vegna þess, að í ráði er að byggja dýra brú á þessum stað áður en langt líður, sökum umferðarinnar. Nú er það efalaust, að þarna er einhver sú mesta drápsferja, sem nú er til á landi hér, svo að ef ekki er gætilega að farið og af knáleika sótt, er lífshætta að fara yfir ána. Það geta þeir um borið, sem farið hafa. Hinsvegar er meira en dagleiðar krókur niður á Þjórsárbrú, og að sumarlagi fara mjög margir menn þarna einmitt um annatímann, sem bændum er langdýrmætastur. Á þessum bæ er fátækur fjölskyldumaður með fullt hús barna. Ég hefi áður vikið að þessum ástæðum, svo að hv. þm. mega vera þær kunnar. Og ég ætla alls ekki, að biðja mér liðs um þennan fjárauka. Hv. þdm. verða að sýna það drenglyndi og þann manndóm, sem þeir eiga, í því, hvernig þeir líta á till.