26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í C-deild Alþingistíðinda. (1407)

138. mál, fasteignaskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Í sjálfu sér er óþarft að láta mörg orð fylgja þessu frv. Er það að formi til ekki ósvipað núgildandi lögum um fasteignaskatt. Gert er ráð fyrir verulegri hækkun yfirleitt á skattinum af lóðum og löndum, en aftur á móti talsverðri lækkun á húsaskattinum þar, sem hann er hæstur. Því verður ekki neitað, að verðhækkunin á löndum og lóðum hér á landi á síðustu árum er að mestu leyti til orðin vegna, aðgerða hins opinbera. Hefi ég reynt að gera mér nokkra grein fyrir, hversu miklu þessi hækkun hafi numið á síðustu árum, eins og sjá má af grg. frv. Telst mér til, að síðan 1907 til þessa tíma hafi verð landa og lóða hækkað um nálægt 500%, en þess ber þó þar að gæta, að á þessum tíma hefir verð peninga lækkað mikið. Dýrtíðin er um 100–150% meiri og verðgildi peninga tilsvarandi minna en 1907. En á móti þessu vegur það talsvert, að matsverð fasteigna er yfirleitt sett úr hófi lágt, eða a. m. k. 50–80% neðan við sannvirði. Raunveruleg hækkun er því líklega um 400% á þessum 23 árum. Þá er nú á það að líta, að þeir, sem mestan hagnað hljóta af framkvæmdum hins opinbera, eru fasteignaeigendurnir, vegna verðhækkunar fasteignanna, sem framkvæmdir hins opinbera skapa. Er því ekki nema rétt og sjálfsagt, að þeir leggi mest til opinberra þarfa.

Það er að sjálfsögðu álitamál, hversu langt skuli ganga í því að skattleggja fasteignir. Menn líta vitanlega misjöfnum augum á það eins og hvert annað mál. En ég tel svo skammt gengið í þessu frv., sem frekast er hægt á þessu stigi. Ég vil geta þess áður en lengra er haldið, að hækkun verðs fasteigna er yfirleitt skaðleg þjóðfélaginu. Það er vitanlega eðlilegt, að fasteignir hækki sem nemi þeim upphæðum, er aðgerðir hins opinbera kosta, en heldur ekki meira. En þess eru mörg dæmi, að þær hafa hækkað margfalt meira en því nemur, og það án aðgerðar einstaklinga. Svo hefir það t. d. verið um lóðir í kaupstöðunum. Verðhækkun á þeim nemur yfirleitt margfalt meiru en þær umbætur, sem gerðar hafa verið, svo sem bryggjur, hafnarmannvirki, götur o. þ. h. hafa kostað. Fasteignaskattur hamlar slíkri óeðlilegri verðhækkun. Og það er tvímælalaust til hagnaðar bæði fyrir þjóðina og einstaklinga. Hækkað verð fasteigna kemur fram sem skattur á þá, sem landið nota, hvort sem skatturinn kallast leiga eða afborganir og vextir.

Þegar rætt var hér í fyrradag um frv. mitt um tekju- og eignarskatt, þá var talað um það, að skattstofnarnir þyrftu að vera þannig valdir, að sem minnstar breyt. yrðu á tekjuupphæð þeirri, er þeir gæfu af sér frá ári til árs. Fasteignaskatturinn hefir einmitt þennan kost. Hann gefur eftir eðli sínu jafnar og vissar tekjur í ríkissjóð frá ári til árs, þótt árferði sé misjafnt. Sama er að segja um eignarskattinn. Þessir tveir skattar bæta því fullkomlega upp óvissu tekjuskattsins.

Eins og hv. þdm. sjá, þá er allmikill munur gerður í frv. þessu frá því, sem er í gildandi lögum um flokkun fasteigna til skatts. Þeim er nú skipt aðeins í 2 flokka. En í frv. er lagt til, að flokkarnir verði fjórir. Áður voru flokkarnir aðeins: hús og jarðir. En vegna þess að miklu meiri hækkun hefir orðið á lóðum í kauptúnum heldur en á jörðum úti um sveitir, þá tel ég rétt að aðgreina þetta. Því er lagt til, að óbyggðar byggingarlóðir, sem oft ganga kaupum og sölum í gróðabralli, séu hæst skattaðar. Þá eru byggðar byggingarlóðir næst í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa yfir 500 íbúa. Í þriðja flokki jarðskattsins lenda allar aðrar jarðir og lendur og lóðir í smærri kauptúnum.

Þegar rætt er um skatt af jarðeignum, verða menn að gæta þess, að hann leggst á jörðina sjálfa, en ekki beint á framleiðsluna, sem sjá má af því, að skatturinn er jafn, hvort sem jörðin er notuð eða ekki. Skattur af 5000 króna jörð er hinn sami hvort sem hún er vel eða illa setin, gefur af sér lítið eða mikið. Skatturinn hvetur því til að nota jörðina sem bezt. Til þess að gefa gleggri hugmynd um verðhækkun þá, sem orðið hefir á lóðum á síðari árum, skal ég geta þess, að allar lóðir í Reykjavík voru 1907 metnar á 2290 þús. kr. Eftir síðasta fasteignamati, frá 1920, að viðbættri hækkun vegna endurmats, hefir verð lóða og lendna í Reykjavík, miðað við árið 1926, verið um 17 millj. kr. Ég tel líklegt, að nú í ár, þegar nýja fasteignamatið verður framkvæmt, komist matsverð lóða og lendna upp í ca. 25 millj. kr., eða um 11 sinnum meira verð en 1907. Enda þótt það yrði nokkru minna, þá mun þó óhætt að fullyrða, að lóðaverðið hér hafi 10-faldazt á þessu árabili, frá 1907–1930. Þessi hækkun er um helmingi meiri en almenn verðhækkun lands á sama tíma er til uppjafnaðar á öllu landinu.

Enginn getur neitað því, að þessi gífurlega verðhækkun hafi skuggahliðar. Hún eykur húsaleigu og dýrtíð í bænum afskaplega. Og ég hygg, að enginn mótmæli því, að þessi verðhækkun, sem stafar nær öll frá aðgerðum hins opinbera, eigi að verða til gróða fyrir þjóðfélagið, en ekki eingöngu fyrir þá menn, sem klófest hafa lóðirnar, stundum aðallega til að braska með þær.

Í frv. er gert ráð fyrir þeim breyt. frá því, sem nú er í lögum, að skatturinn hækki á jörðum og lóðum, en húsaskatturinn lækki ekki óverulega.

Húsaskatturinn til bæjarins er hér nú 8‰, að viðbættu 1½‰ til ríkissjóðs, eða samtals 9½‰. En samkv. frv. mínu getur húsaskatturinn hér orðið mest 5‰, 2½‰ til ríkissjóðs og 2½‰ til bæjarsjóðs. Þar við bætist hreinsunargjald, sem má vera hæst 3‰. Alls getur því skatturinn samkv. frv. mínu orðið hæst 8‰, ef leyfið til að leggja hann og hreinsunargjaldið á er notað út í æsar. Lækkunin er því um 16%. Í sveitum, þar sem sýsluvegasjóðssamþykktir hafa verið gerðar, má mest leggja á fasteignir til þeirra þarfa 6‰. Að viðbættum fasteignaskatti af húsum til ríkissjóðs, sem er 1½‰, getur skattur á húseignum þar orðið 7½‰. Þar er ekki um neitt hreinsunargjald að ræða. Samkv. frv. verður skatturinn samtals 5‰ af húsum, ef sveitirnar nota sinn rétt til húsaskatts. Þar er, því um 33% lækkun að ræða á húsaskattinum.

Ég hefi á bls. 9 í frv. gert nokkra grein fyrir því, hvernig breyt. þessi mundi verka. Í kaupstað, þar sem verðmæti lóðarinnar er 1/7 hluti af verði allrar fasteignarinnar, húss og lóðar, yrði skatturinn óbreyttur. Ef lóðin er minni hluti en 1/7, þá lækkar skatturinn, en hækkar eftir því, sem verðhlutfall lóðarinnar hækkar. Skatturinn myndi því lækka á öllum þorra húseigna hér, á öllum þeim húseignum, sem ekki standa á dýrustu lóðunum. En á þeim húseignum, sem standa á dýrustu lóðunum, sem kostað hafa máske 200–300 kr. hver fermeter, hækkar skatturinn vitanlega samkv. frv. En einmitt á þeim hefir hið opinbera skapað mesta verðhækkun. Í sveitum, þar sem sýsluvegasjóðsgjaldið hefir verið sett í hámark, mundi þar, sem hlutfallið milli jarðarverðs og húsaverðs er 5:8, skatturinn standa í stað. Ef fasteignamatið er athugað, þá sést, að þetta eru mjög venjuleg hlutföll. En þar sem jarðir eru miklum mun verðhærri en húsin, sem á þeim standa, hækkar skatturinn. Annars er enginn fastákveðinn húsaskattur nú nema 1½‰; sveitirnar leggja enga húsaskatta á nema sýsluvegasjóðsgjaldið. Svo þar sem sýslur nota sér ekki heimild um fasteignagjald til sýsluvegasjóða, hækkar skatturinn vitanlega.

Allir viðurkenna, að það sé sjálfsagt að fasteignirnar séu tekjustofn bæði ríkis og sveitarfélaga. Er því margt, sem mælir með því, að skatturinn sé lagður á í einu lagi og síðan skipt eftir ákveðnum hlutföllum milli ríkisins og sveitarfélaganna. En þótt þetta kæmi til umtals í n., þá þótti viðurhlutamikið að stíga það spor að forspurðum öðrum aðila, sveitarfélögunum. Þótti mér því rétt að sinni að ákveða aðeins skattinn til ríkissjóðs, en heimila jafnframt sveitarfélögunum að leggja á til sinna sjóða jafnháan skatt af fasteignunum. Innheimtan er sjálfsagt að sé sameiginleg.

Helztu nýmæli önnur í frv., frá því, sem er í gildandi lögum, eru ákvæði 5. gr. frv. um það, hver borga skuli skattinn. Nú er fasteignaskattur af jörðum greiddur af leigjendum samkv. lögum. En samkv. 5. gr. frv. fer það eftir því, hve há leigan eða afgjaldið af jörðinni er, hvor skattinn greiði: eigandi eða leigjandi. Ef leigan er 6% af fasteignamati eða meira, þá greiðir eigandi skattinn, en sé hún 4% eða minna, þá greiðir leigjandi hann. Sé leigan milli 45% og 6%, skiptist greiðslan milli þeirra og fer skiptingin eftir reglum, sem fjmrh. setur.

Það kann að orka tvímælis, hvar þessi mörk eiga að vera. En ég vona, að sú hv. n., sem fær frv. til meðferðar, athugi, hvar réttlátast muni að setja þau. Hitt tel ég eigi, að geti orkað tvímælis, að ef leigjandi er látinn borga okurleigu eftir jörð eða lóð, þá sé næsta ósanngjarnt að láta hann borga skattinn líka.

Þá er og annað nýmæli í frv., það, að fasteignir sveitar- og bæjarfélaga séu undanþegnar skatti. Eignir ríkissjóðs eru það nú, svo réttmætt er, að eignir bæjar- og sveitarfélaga séu það líka, einmitt þegar þess er gætt, að þarna er um að ræða sameiginlegan skattstofn, sem þessir aðilar báðir skipta tekjunum af. Ég hefi gert lauslega áætlun um, hve miklu tekjuauki bæjar- og sveitarsjóða mundi nema eftir þessu frv., ef þau nota sér heimildina til að taka sama skatt og ríkissjóður til fulls. Telst mér svo til, að tekjuauki þeirra mundi verða um 650 þús. kr. á ári, eða um 1105 þús., í stað 455 þús., sem fasteignagjöld til þeirra nema nú. Tekjuauka sömu sjóða samkv. frv. um tekju- og eignarskatt má áætla minnst 950 þús. kr. Nemur þetta hvorttveggja um 1600 þús. kr. á ári. Útsvörin námu á öllu landinu 1926 alls 4 millj. og 200 þús. kr. Ef til vill hafa þau hækkað eitthvað síðan, en eru þó sennilega enn minna en 4½ millj. kr. Mundu því aukaútsvörin lækka um 36–40%, ef þessi tvö frv. yrðu að lögum og heimildirnar væru notaðar. Tekjuauki ríkisins af frv. þessu mundi nema um 600 þús. kr. Fasteignaskatturinn hefir verið nál. 250–260 þús. kr. undanfarin ár. Ef tekið er tillit til þeirrar hækkunar, sem væntanlega kemur fram við fasteignamat það, sem nú er framkvæmt, þá mundi þessi skattur samkv. frv. til ríkissjóðs ekki nema minna en 850 þús. kr. á ári, eða 600 þús. kr. meira en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Um þessa upphæð mætti þá lækka tolla á nauðsynjum, og ef frv. um tekju- og eignarskatt einnig yrði samþ., um 850 þús. kr. í viðbót, eða samtals um fullar 1450 þús. krónur.

Skal ég svo ekki mæla fleira að sinni, en óska, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til fjhn.