22.03.1930
Neðri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Guðmundsson:

Það er með samþykki okkar stjórnarandstæðinga, að eldhúsdagsumr. hefir verið frestað þangað til nú. Var það sérstaklega gert til þess að tefja ekki fyrir fjárlfrv. — Okkur virðist, að þingið hafi verið aðgerðalítið hingað til, og viljum ekki tefja fyrir málum þegar hægt er að komast hjá því.

Þingið er nú búið að standa á 3. mán., og hefir litlu verið afkastað af því, sem lagt var fyrir það af málum í upphafi. — Þetta er 16. þingið, sem ég hefi setið á, og ég minnist ekki að hafa verið á jafnafkastalausu þingi síðan 1918, þegar beðið var eftir sambandslagasamningnum frá Danmörku.

Ég veit, að ein meginástæða þess er sú, að stuttu eftir þingbyrjun kom Íslandsbankamálið upp, og skyggði það á öll önnur mál þingsins um mánaðartíma, svo ekkert sé ofsagt.

Mér er það vel ljóst, að í þetta skipti er mikið eldsneyti til handa þessum degi, — en ég ætla ekki fyrir mitt leyti að stuðla að því, að umr. verði langar. Ég ætla þar fyrir ekki að skorast undan umr. eða orðaskiptum við hæstv. stj., en læt hvern og einn sjálfráðan um, hversu margorður hann vill vera.

Ég ætla fyrst að minnast nokkrum orðum á skuldir ríkissjóðs, enda er það efni, sem vissulega er viðeigandi að ræða um, þegar fjárlagafrv. er til meðferðar.

Skuldir ríkissjóðs hafa undanfarið verið samkv. landsreikningum eins og hér segir, í milljónum króna, en ég tilfæri þær ekki nánar en svo, að broti úr 100 þús. kr. er sleppt eða hækkað, eftir því hvort það er yfir 50 þús. kr. eða undir. Skuldirnar 31. des. ár hvert voru :

1917 ....... 13,7 millj.

1918 ......... 19,6 —

1919 ......... 16,1 —

1920 ......... 14,7 —

1921 ......... 16,4 —

1922 ......... 15,8 —

1923.......... 18,1 —

1924 ......... 16,6 —

1925 .......... 11,8 —

1926 .......... 11,5 —

1927 .......... 11,3 —

1928 .......... 13,6 —

1929 ......... 18,5 —

Um skuldirnar í árslok 1929 er þess að geta, að ég hefi talið þær eftir því, sem ætla má að rétt sé samkv. ræðu þeirri, er hæstv. fjmrh. hélt, er hann lagði fjárlagafrv. fyrir þessa hv. d. Að sönnu sagði hann í þessari ræðu, að skuldirnar hefðu frekað minnkað á árinu 1929, en þetta getur ekki verið rétt, því að í sömu ræðu upplýsti hæstv. sami ráðh., að stj. hefði í haust er leið tekið um 5½ millj. kr. lán í Englandi, og því láni verður sannarlega að bæta við ríkisskuldirnar í árslok 1929, ef rétt útkoma á að fást. Ég veit að sönnu ekki, hve miklu er eytt af þessu láni, en það, sem óeytt kann að vera, ber þá að telja sem peningaeign ríkissjóðs í árslok 1929, og kemur það vitaskuld í sama stað niður um hag ríkissjóðs. Ég geng út frá, að um 600 þús. kr. hafi verið afborgað af skuldum ríkissjóðs 1929 eftir föstum samningum. Skuldaaukningu á árinu 1929 tel ég því 1,9 millj. kr., og eru þá skuldirnar í árslok 1929 18,5 millj. kr., eins og ég áður taldi.

Þá liggur næst fyrir að spyrja hvernig muni fara um ríkissjóðsskuldirnar á yfirstandandi ári. Minnka þær eða vaxa þær? Um svarið við þessu getur varla leikið á tveim tungum. Skuldirnar hljóta að vaxa. Lán á að taka til nýrrar símastöðvar hér í bænum, til nýrrar útvarpsstöðvar, til síldarverksmiðju á Siglufirði, til Landsbankans, Búnaðarbankans, Íslandsbanka o. fl. Til alls þessa hefir landsstj. fengið heimild til að taka 16½ millj. kr. lán, en þar frá ber að draga þær 5½ millj. kr., sem teknar voru að láni í Englandi til bráðabirgða síðastliðið haust. Eftir verða þá 11 millj. kr., sem langsennilegast er, að tilætlunin sé að taka á yfirstandandi ári, því að ella mundi stj. ekki hafa útvegað sér heimildir þessar, enda eru vextir nú svo lágir í umheiminum, að allar líkur eru fyrir, að hægt sé að fá hagstæð vaxtakjör.

Ef nú svo verður — og mér sýnist það nærri óhjákvæmilegt, eftir því hvernig er í pottinn búið — að þessi lán verði að meira eða minna leyti tekin á yfirstandandi ári, þá er það bert, að í lok þessa yfirstandandi árs verða ríkisskuldirnar orðnar 25–30 millj. kr., og er það miklu meira en nokkru sinni hefir verið fyrr.

Mér sýnist óhjákvæmileg nauðsyn að benda á þetta, því að nú verður að stinga fótum við og athuga hvert stefnir. Við megum ekki halda þannig áfram á skuldaaukningabrautinni. Ef það verður gert, fer óðar en varir mikill hluti teknanna í vexti og afborganir. Vextir og afborganir fyrsta árið af 30 millj, kr. til 20 ára með 6% vöxtum eru 3,3 millj. kr., þ. e. rúmlega ¼ allra tekna, eins og þær eru áætlaðar í frv. hæstv. stj. fyrir 1931, því sem hér er til meðferðar.

Í fjárlagafrv. fyrir 1931 eru vextir og afborganir áætlað tæplega 1,2 millj. kr. Ég er ekki í neinum efa um, að þetta er alltof lágt, enda er alls ekkert áætlað í vexti af þeim lánum, sem sumpart hafa verið tekin á síðastl. ári, sumpart tilætlunin að taka á yfirstandandi ári. Vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., hvernig á því stendur, því að vissulega verður þó að borga vexti af þeim á árinu 1931, og sennilega afborganir líka. Hve mikið til þessa þarf, veit ég ekki nákvæmlega, og enginn veit það um hin óteknu lán, en hæstv. ráðh. hlýtur að geta farið nokkuð nærri um það, því að ég geri ráð fyrir, að hann hafi lagt niður fyrir sér, hve mikið ríkissjóði muni endurgreiðast frá þeim stofnunum, sem hin nýju lán eru tekin til. Væri mjög æskilegt, að hæstv. ráðh. vildi upplýsa þetta.

Ég sé af 13. gr. D. fjárlagafrv., að þar eru færðar 48 þús. kr. meðal útgjalda símans, og eru það vextir og afborganir af hinu umsamda símastöðvarbyggingarláni. Eins er um vexti og afborganir af útvarpsláninu. Þetta verð ég að telja rangt. Fyrst sérstök grein er í fjárl. fyrir vexti og afborganir af lánum, þá á að sjálfsögðu að færa þetta til þar. Til símans hafa áður mörg lán verið tekin og þau færð í 7. gr., og því þá ekki þetta lán líka? Þetta miðar að því að fela vexti og afborganir og villir efnisniðurröðun fjárl.

Eftir því, sem ég áður tók fram, eru allar líkur á, að í tíð núverandi stj. komist ríkisskuldirnar upp í 25–30 millj. kr., en þær voru rúmlega 11 milljónir, er hún tók við. Í þessu sambandi er gagnlegt að minna hæstv. forsrh. á það, hver ummæli hann hafði á niðurlægingartímum sínum sem ritstjóri um fjárstjórn hv. 3. landsk. og mína. Hv. 3. landsk. kallaði hann „skuldakóng landsins“ og alkunnugt er, að hann rómaði lítið fjárstjórn mína árin 1920–1921. Sannleikurinn er nú sá, að þegar hv. 3. landsk. varð fjmrh. voru ríkisskuldirnar rúmlega 18 milljónir, en þegar hann fór frá rúmlega 11 milljónir. Ef hann því er réttnefndur skuldakóngur, þá hlýtur það að vera af því, að hann réði yfir skuldunum — borgaði þær að miklu.

En ef „skuldakóngur“ á að þýða þetta, og það eitt getur verið rétt, hvað vill þá hæstv. forsrh. kalla þá, sem auka skuldirnar eins og núv. stj.? Ég finn ekki neitt betra nafn á þeim en að kalla þá „skuldaþræla“, ef halda á líkingunni.

Skráin hér að framan sýnir, að þegar ég tók við fjármálaráðherrastarfinu eftir áramótin 1919–1920, voru ríkisskuldirnar 16,1 millj. kr., en þegar ég fór frá rétt eftir áramótin 1921–1922, voru þær 16,4 millj. Meiri var ekki skuldaaukningin þessi ár, þótt það væru mestu dýrtíðarárin, sem yfir okkur hafa komið. Laun embættismanna voru t. d. þá nærri tvöfalt hærri en nú vegna dýrtíðaruppbótarinnar. — Hver mundi nú trúa því, að þessi væri niðurstaða umræddra ára, sem eingöngu hefði lesið blað hæstv. forsrh.? Þessar tölur verða ekki rengdar, þær eru teknar eftir landsreikningunum. Ég man eftir, að ég hafði einu sinni með mér landsreikningana í stjórnmálafundaferð, og las að gefnu tilefni upp þær tölur úr þeim, sem máli skiptu, og bauð andstæðingunum að sjá, hvort ekki væri rétt frá skýrt. Þeir kærðu sig ekki um það, en fjöldi manna kom til mín eftir fundinn og sögðust aldrei skyldu trúa Tímanum oftar. En þetta var dálítill útúrdúr frá skuldaaukningunum, sem ég aftur mun snúa mér að.

Auðvitað dettur mér ekki í hug að halda því fram, að þau lán, sem tekin hafa verið og takast eiga, séu eyðslueyrir, en þau hvíla á ríkissjóði um vaxtagreiðslu að meira eða minna leyti á næstu árum, og fyrir því verður að gera.

Ég man eftir, að hæstv. forsrh. sagði í deilunum við mig út af „fjáraukalögunum miklu“, að ég hefði gefið þinginu 1922 falska skýrslu um gjöldin 1921, af því að þegar landsreikningurinn fyrir 1921 kom, þá sýndi hann hærri upphæð en ég hafði gefið upp. Nú kom það fyrir þennan ráðh. í fyrra, að hann átti að gefa þinginu skýrslu um gjöld ársins 1928, og þegar landsreikningurinn 1928 kom, þá sýndi hann gjöld nærri ½ millj. kr. hærri en ráðh. sagði þinginu. Hann hefir þá eftir sínum eigin orðum gefið þinginu falsaða skýrslu. En það stóð eins á um okkur. Báðir gáfum við skýrslu; sem bundin var því skilorði, að frekari gjöld kæmu, og báðir erum við því jafn sekir eða jafn saklausir. Mér er óneitanlega dálítil ánægja í að húðstrýkja þennan hæstv. ráðh. með hans eigin vendi. Það er alltaf skemmtilegt að taka vopn mótstöðumannanna og vinna á þeim sjálfum með þeim. Og það er nú svona um hæstv. forsrh., að hann hafði vopnin mjög á lofti í ritstjórnartíð sinni, en nú eru flest eða öll þessi vopn komin í hendur andstæðinganna, því að svo að segja hvarvetna hefir hann sem ráðh. snúizt gegn því, sem hann áður hélt fram, og það er meinleysi og hlífð okkar andstæðinganna að þakka, að hann hefir stundarfrið. Sem dæmi má nefna, að meðan hann var ókrossaður vildi hann leggja skatt á heiðursmerki, en nú, þegar hann er orðinn einhver mesti krossberi landsins, nefnir hann þetta ekki á nafn, að hann fjandskapaðist móti öllum sendimönnum erlendis, en flýtir sér þó að skipa mann í slíkt sæti, sem losnaði í hans stjórnartíð, að hann ávítaði Jón sál. Magnússon harðlega fyrir að taka 4.000 kr. í risnufé, en tekur sjálfur 8.000 kr., að hann taldi fyrrv. stj. hafa gleymt tekjufrv., ef þau komu ekki fram í þingbyrjun, en nú kemur tekjufrv. fram, þegar langt er liðið af þingi, að hann taldi óheimilt að áætla með tekjuauka í fjárlagafrv., sem bygðist á væntanlegum nýjum lögum frá þinginu, en þó er þetta gert í frv. því, sem hér liggur fyrir, o. fl. o. fl.

Ég veit, að hæstv. forsrh. hefir látið lána kaupmanni einum hér í bænum 300 þús. kr., meira en milljónar-fjórðung úr sjóði Brunabótafélags Íslands, til þess að reisa stórhýsi til verzlunar hér í bænum. Þetta þykir mér ákaflega undarleg ráðstöfun og raunar óverjandi, Fjöldi hreppsfélaga og sýslufélaga þarfnast mjög lánsfjár gegn ágætum tryggingum til mjög nauðsynlegra framfarafyrirtækja, og mér finnst, að það hefði verið stórum mun réttmætara að lána þetta fé til þeirra hluta en til verzlunarstórhýsis hér í bænum, fyrst Brunabótafélagið hafði safnað svo miklum sjóði, að það gat lánað þetta. Mér finnst sem sé, að hér í Reykjavík sé nóg af verzlunarhúsum, og hið opinbera þurfi því ekki að hjálpa til að byggja stórhallir í þessum tilgangi. Fjöldi nauðsynjafyrirtækja úti um land verður að bíða sökum þess, að ekki er unnt að fá lán til þeirra. Þessi stóra fjárhæð hefði getað bætt úr þeirri nauðsyn á mörgum stöðum, en hæstv. stj. hefir þótt réttara að láta hana koma þannig niður, og tel ég það mjög ámælisvert. Eftir skrifum hæstv. forsrh. undanfarið mundu fáir álíta, að hann væri svo mikill vinur kaupmannanna í Reykjavík, að hann steingleymdi þörfunum úti um landið fyrir hagsmunum eins kaupmanns hér í bæ. En það kemur fram hér sem víðar, að orð hans og athafnir eru sitt hvað, ekki skyldari en suðrið norðrinu, eða hvítur litur svörtum.

Næst vil ég víkja nokkrum orðum að fjós- og hlöðubyggingu á Hvanneyri, sem hefir kostað um 130 þús. kr. Margir munu álíta, að þessi bygging sé nokkuð dýr. Ég ætla að sleppa því, að hæstv. forsrh. hefir hér að mestu leyti byggt yfir gripi skólastjórans á Hvanneyri, sem er mágur hans, en ég vil snúa mér að því atriði, hvaða heimild hæstv. forsrh. hafi haft til þess að leggja fram þennan gífurlega byggingarkostnað. Ég mundi ekki eftir, að hæstv. stj. hefði hjá þinginu fengið samþykki til þess að nota þessa stóru upphæð í þessu skyni, og tók mér fyrir hendur að athuga þetta nánar. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að í fjárl. fyrir árið 1929 voru veittar 9 þús. kr. til aðgerðar fjósi á Hvanneyri, en enga aðra heimild hefi ég fundið fyrir þessari 130 þús. kr. greiðslu. Af þessum fjósbyggingarkostnaði voru um 80 þús. kr. greiddar á árinu 1928, en 50 þús. kr. á árinu 1929. Nú var það svo, að á þinginu 1929 lágu fyrir fjáraukalög fyrir árið 1928, og verð ég að láta í ljós mikla undrun mína yfir, að hæstv. forsrh. skyldi ekki telja sér skylt að fá samþykki fyrir þessari miklu greiðslu. Hann stendur í þeim sporum á þinginu í fyrra, að hann hefir greitt 80. þús. kr. án þess að hafa neina fjárveitingu frá þinginu, og hann er í þeim sporum, að hann veit, að hann heldur áfram að borga í stórum stíl, en samt leitar hann alls ekki heimildar þingsins. Með þessu hefir hann sýnt fjárveitingavaldi þingsins hina megnustu fyrirlitningu. Hann borgar 16–17 sinnum hærri upphæð en veitt var, og hirðir þó ekki um að fá samþykki þingsins, þótt tækifæri væri til. Svona aðferð verður þingið að átelja. Hæstv. forsrh. hefir hvað eftir annað sagt, að hann muni ekki greiða umfram fjárveitingu, en svona eru efndirnar á því. Nú spyr ég hann og krefst svars: Er allur þessi fjóskostnaður nú greiddur, eða er von á meiru? Ég tel mig hafa fulla ástæðu til að spyrja, því að mér er kunnugt um, að nýlega voru greiddar 10 þús. kr. til fjóssins. Ég vil vita, hvort áframhald á að verða á greiðslum í þessu skyni, svo að maður geti átt von á kannske í allt 200 þús.kr. kostnaði við þessar byggingar.

Ég vil einnig spyrja, hvernig hagað hafi verið þessari byggingu, sérstaklega hvort um ákvæðisvinnu hafi verið að ræða eða ekki.

Það, sem ég hér hefi sagt, sýnir það, að hæstv. ráðh. telur rétt að leggja fram úr ríkissjóði heimildarlaust á 2. hundrað þúsund kr. til þess að byggja yfir gripi einstaks manns, því að ríkissjóður á ekki nema tiltölulega fáar af kúnum á Hvanneyri. En þegar 8–10 hreppar úti á landi fara fram á styrk til raforkuveitu hjá sér, þá gerir hæstv. forsrh. það að flokksmáli að neita um þennan styrk. Hann veit þó, að fátt eða ekkert verður betra gert fyrir þessar sveitir en hjálpa þeim til þessa. Hann þykist vera vinur sveitanna, en breytnin er samt svona.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á Búnaðarbankann, þennan banka, sem bæði er húsnæðis- og peningalaus. Það er nú nærri ár síðan 1. um hann voru samþ. hér á þingi. Eftir þeim l. á hann að starfa í 6 deildum, en aðeins 2 þeirra eru starfandi, Ræktunarsjóðurinn, sem starfað hefir mörg ár, og Byggingar- og landnámssjóðurinn. Sparisjóðs-, veð-, smábýla- og bústofnslánadeildir eru ekki enn teknar til starfa eftir nærri ár. Til samanburðar er nógu fróðlegt að minnast þess, að forðum daga, þegar það drógst nokkra mánuði, að Búnaðarlánadeildin tæki til starfa, ætlaði þáv. ritstj. Tímans; núv. forsrh., að rifna af vandlætingarsemi, og átti hann þó sem meðlimur stj. Búnaðarfélags Íslands sök á nokkru af drættinum. Minnir mig, að við skiptumst þá á opnum bréfum um þetta, og hlægir það mig nú að geta minnt hann á að nú hefir hann dregið að koma á fót lánstofnun fyrir landbúnaðinn lengur en þá var gert, og þótti honum það þó óhæfilegt, en nú telur hann víst allt í beztu reglu.

Ég sagði, að dregizt hefði að koma lánsstofnun þessari á fót, en eitt var það, sem ekki drógst, og það var að skipa bankastjórana. Þeir fæddust, 3 að tölu, og er almennt álitið, að þeir muni ekki vera ofreyndir af störfum. Laun er sagt að þeir hafi rífleg, að minnsta kosti 1 þeirra, sumir segja 18 þús. kr. á ári, aðrir 24 þús. kr. Hæstv. forsrh. hefir verið spurður um þetta hér í d. og engu svarað. Nú endurtek ég spurninguna um þetta og vænti, að hæstv. ráðh. svari, því að slíkt sem þetta á ekki að vera launungarmál.

Annars var aðalástæða mín fyrir að hreyfa þessu máli sú, að ég vildi spyrja hæstv. ráðh. hvenær hinar 4 nefndu deildir bankans muni taka til starfa. Það er atriði, sem varðar fjölda sveitabænda.

Úr því ég er að ræða við hæstv. forsrh. get ég ekki gengið fram hjá því, hversu honum hefir farizt formennska bankaráðsins í Íslandsbanka. Þessu starfi hefir hann gegnt hér um bil 2½ ár, og gegnir enn. Þetta starf hans hefir borið þann árangur, að bankinn er lokaður eins og kunnugt er, og þingið hefir neyðzt til að leggja fram, eða lofa að leggja fram stórfé til þess að bjarga viðskiptalífi landsins og lánstrausti þess. Allan þennan tíma, sem hæstv. forsrh. hefir verið form. bankaráðsins, hefir verið eindæma góðæri, en áður hafði bankanum verið haldið á réttum kili á neyðarárum dýrtíðar og viðskiptakreppu án nokkurs fjárframlags úr ríkissjóði.

Hvað er það nú sem veldur þessu? Hvers vegna skiptir svo í tvö horn eftir því hver á heldur?

Ég held, að það sé af því, að fyrri forsrh. hafa skilið þýðingu bankans fyrir viðskiptin í landinu. Þeir sáu, að bankann þurfti að styðja, ekki vegna bankans sjálfs — því að bankarnir eru til vegna viðskiptalífsins, en viðskiptalífið ekki vegna bankanna — heldur vegna almennings í landinu. Þeir höfðu því stöðugt auga með hag bankans og veittu aðstoð strax og með þurfti. Á þennan hátt var hægt að hjálpa útlátalaust, og á þennan hátt hélt bankinn áfram störfum sínum án áhættu og útláta fyrir ríkissjóð. En þegar hæstv. forsrh. tók við æðstu stj. bankans, þá brast hann skilninginn á þessu. Hann skildi ekki þýðingu bankans fyrir þjóðarheildina. Þetta segi ég ekki út í bláinn né athugunarlaust. Ég hefi veitt athygli hug hæstv. forsrh. til bankans á þinginu síðan 1924, og það hefir jafnan andað kalt frá honum og hans flokki, með nokkrum undantekningum þó, í garð bankans. Ég kenni þetta ekki illum vilja, heldur skilningsleysi á nauðsyn þess að halda lífi í bankanum.

Ég tel, að með því að veita ábyrgð ríkissjóðs á öllum innstæðum í Landsbankanum, eins og gert var 1928, undir forystu hæstv. forsrh. og í skjóli hins nýskapaða þingmeirihluta, hafi Íslandsbanka verið veitt svöðusár, enda var strax á það bent í þinginu það ár. Það gefur sem sé öllum að skilja, að þegar 2 bankar, og hvorugur sterkur, eru í landinu, þá er þeim þeirra, sem fær ríkisábyrgð á inneignum landsmanna, veitt ótvíræð aðstaða til að soga til sín sparifé landsmanna úr hinum bankanum. Menn láta helzt fé sitt þar, sem það er tryggast. Með þessu er soginn mergurinn úr hinum bankanum, því að bezta starfsféð, sem bankar hafa, að undanskildu eigin fé, er sparifé.

Og ég hefi séð fleiri merki skilningsleysis á þýðingu bankans. Ég hefi séð þau á þessu þingi átakanlegast og greinilegast. Ég hefi séð hæstv. forsrh. halda fast við lokun bankans þangað til brakaði í stólnum undir honum. Þá og þá fyrst kenndi hann sín og iðraðist eins og fálki, sem fæst við rjúpu, sem hann hefir drepið.

En þetta skilningsleysi hefir orðið og verður landsmönnum dýrt, hvernig sem fer. Lánið til að bjarga bankanum mun hvíla allþungt á oss fyrst um sinn, en ennþá verra, langtum verra, hefði það verið að hlaupa ekki undir bagga. Því miður er þetta mál ekki enn til lykta leitt. Ennþá er bankinn lokaður og ég get ekki neitað því, að ennþá er ég ekki ugglaus um lausn málsins, þegar ég hugsa til skilningsleysisins og þess, hve hæstv. stj. er háð jafnaðarmönnum, sem alkunnugt er, að hafa barizt ósleitilega fyrir lokun bankans.

Mín skoðun er því sú, að hún hafi orðið oss dýr bankaráðsformennska hæstv. forsrh. Hann hefir leyft blöðum sínum sýknt og heilagt að rýra og naga traust bankans, þar til hann féll, en landsmenn borga brúsann, til þess að lenda ekki í enn meiri vandræðum.

Þetta er þá líkræðan yfir bankaráðsformennsku hæstv. forsrh., því að hvernig sem fer, er sú formennska á enda. Líkræðan er samin eftir beztu vitund. Það fullvissa ég hæstv. ráðh. um.

Hæstv. forsrh. hefir sjaldan hin síðustu 6–7 árin minnzt á mig án þess að minnast á „fjáraukalögin miklu“ (fjáraukalögin 1920–1921). Í hvert sinn, eða því sem næst, sem okkur hefir lent saman í ræðu eða riti — og það hefir verið talsvert oft —, hefir aðalvopn hans verið fjáraukalögin miklu. Með þeim hefir hann reynt að vega mig sýknt og heilagt.

Nú hefir hæstv. ráðh. verið forsætisráðherra 2 heil ár, árin 1928 og 1929. Nú er því hægt að bera saman, hvor okkar hefir eytt meiru upp á væntanlega aukafjárveitingu, ég eða hann. Árin 1920–1921 falla á mitt bak, en árin 1928–1929 á hans.

Áður en ég fer út í nokkurn samanburð um þetta ætla ég að minna á orð hæstv. ráðh. sjálfs, er hann sagði í þinginu 1928, og til þess að sýna, að ég fer rétt með, skal þess getið, að þessi orð standa í Alþt. 1928, B. 298. dálki: „Við ætlum ekki að ganga með „fjáraukalögin miklu“ á bakinu; í þær íhaldsspjarir ætlum við ekki að fara. (MG: Við sjáum nú til). Nei, það er áreiðanlegt, að við gerum það aldrei“.

Eins og hin tilfærðu orð sýna, hefi ég tekið fram í ræðu hæstv. ráðh. við þetta tækifæri og sagt, að við skyldum sjá til. Ég ætla að enda þetta og athuga, hvort hæstv. ráðh. getur staðið við þetta eða ekki.

Stj. hefir nú lagt fyrir þingið frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1928. Þar er farið fram á aukafjárveitingu að upphæð rúmlega 1.800 þús. kr. Ennfremur hefir stj. gefið bráðabirgðaskýrslu fyrir árið 1929. Samkv. þeirri skýrslu eru gjöld þess árs rúmlega 14400 þús. kr., en fjárveiting fjárl. var 10.850 þús. kr. rúml. Umfram fjárveitingu hefir því verið greitt á árinu um 3½ millj. kr. Þar við bætist svo það, sem ógreitt var um miðjan jan. í ár af gjöldum ársins 1929. Það áætla ég 1½ millj. kr., eða alveg eins og það var í fyrra. Greiðslur umfram fjárveitingar verða þá 4 millj. kr. 1929. Nú veit ég, að ekki kemur öll þessi upphæð á fjáraukalög að ári, en eftir að hafa athugað þetta mál, sem ég er nauðkunnugur, er ég viss um, að minna en 2,6 millj. kr. kemur ekki á fjáraukalög fyrir árið 1929, ef fylgt verður sömu reglu og hingað til. Ef gengið er út frá þessu í frv. hæstv. stj. fyrir árið 1928, þá verða fjáraukalög þessara ára 4,4 millj. kr., en „fjáraukalögin miklu“ voru ekki nema 4,3 millj. kr.

Hæstv. forsrh. sýnist mér því hafa sokkið í þann pytt, sem hann svo að segja sór og sárt við lagði, að hann myndi ekki gera. Ég sé ekki betur en að hann muni verða talinn höfundur „fjáraukalaganna mestu“, og skilst mér þá, að stimpillinn, sem hann ætlaði að setja á mig, muni lenda á honum sjálfum: Ef hæstv. ráðh. skyldi vilja reyna að verja sig með því, að hann hefði ekki verið fjmrh. þessi ár, þá vil ég fyrst og fremst benda honum á, að hann hefir verið fjmrh. nokkurn hluta tímabilsins, og allan tímann hefir hann verið það, sem meira er en fjmrh., sem sé forsrh., og ábyrgð hans því mest allra ráðh.

En það er annað, sem gerir árin 1920–1921 og 1928–1929 ósambærileg. — Árin 1920–1921 eru mestu dýrtíðarárin, sem yfir oss hafa gengið. Gott dæmi til að sýna mismuninn er það, að árið 1920 var dýrtíðaruppbót embættismanna 120% og 1921 137%, en 1928 og 1929 var hún 10%. Allir sjá, hve gífurlegur munur þetta er.

Þetta munar milljónum fyrir ríkissjóð. Og svona er þetta á öllum sviðum. Kaupamannskaupið komst t. d. á þessum árum upp í 100 kr. á viku, en nú mun mega telja það um 50 kr. að meðaltali. Til þessa tók forsrh. ekkert tillit, þótt það auðvitað hlyti að koma niður á ríkisbúskapnum í öllum greinum. Enginn þáttur ríkisbúskaparins var ósnortinn af þessu. Alstaðar lagði dýrtíðin sína helköldu hönd á. Vegir, brýr, vitar, símar, skólar, spítalar, embættislaun, eftirlaun, póstgöngur, prentun, söfnin, allt varð um það bil tvöfalt dýrara en það er nú.

Mér dettur í hug að nefna hér eitt dæmi um hina lamandi hönd dýrtíðarinnar, sem ég vænti, að hæstv. forsrh. rengi ekki. Það er þetta:

Jónas Þorbergss., fyrrv. ritstj. Tímans, reit fyrir nokkru og birti opinberlega æfiágrip Hallgríms sál. Kristinssonar. Þar er sagt frá því, að á þessum dýrtíðarárum hafi Hallgr. sál. verið hugsandi mjög yfir skuldum þeim, sem hlóðust á kaupfélögin og Sambandið vegna dýrtíðarinnar. Honum hafi stundum fundizt sem lífsverk sitt væri að hrynja til grunna, því að skuldlaus eða skuldlítil verzlun var áhugamál hans. Nú spyr ég: Vill hæstv. forsrh. kenna Hallgr. sál. um skuldasöfnunina? Eða vill hann kenna bændum um hana? Ég vil það ekki. Ég kenni þetta rás viðburðanna, sem enginn ræður við. Ég þakka hamingjunni fyrir það, að á þessum árum tókst að verja ríkissjóðinn bölvun skuldaaukningarinnar, og ég álít, að þeir, sem fyrir því stóðu, eigi, að minnsta kosti kröfu á að vera lausir við álygar óhlutvandra manna.

Áætlanir þingsins fyrir árin 1920–1921 reyndust minnst 100% lægri en veruleikinn krafði. Ekki hefir hæstv. núverandi stj. þá afsökun yfirleitt fyrir umframgreiðslum sínum. Sumir liðir hafa verið of lágt áætlaðir. Það viðurkenni ég, en stj. hefir borgað út stórfé, sem enga stoð hefir í fjárl. Ég vil geta þess til, að meðfram sé orsökin sú, að góðæri hefir verið óvanalegt þessi ár. En þá vaknar sú spurning, hvort stj. eigi eða hafi heimild til að greiða gífurlegar upphæðir utan fjárl. af því að tekjur fara fram úr áætlun. Mér er ljóst, að dómur um þetta fer mikið eftir því, til hvers greiðslan hefir farið, hvort það er til nytsamra framkvæmda, eða ónauðsynlegra bitlinga eða fánýts nefndafargans. Ég verð að segja, að mér þykir það undarleg fjármálaspeki eftir hin ágætu ár, sem á undan hafa gengið, að við skulum þurfa að taka lán til t. d. símastöðvar og útvarpsstöðvar. Hefði ekki verið viturlegra að láta af nægtum þessara góðæra til þessa, heldur en setja þessi fyrirtæki sem bagga á komandi ár, 10–15–20, sem sennilega verða sum vond og sum góð? Ég held, að lánin geti orðið mörg hjá okkur, ef í hvert skipti á að taka lán, er stórbygging er reist. Mín skoðun er sú, að það hafi verið mjög heppileg ráðstöfun, er fyrrv. stj. notaði hinn mikla tekjuafgang ársins 1925 til skuldagreiðslu:

Mér er kunnugt um, að hæstv. stj. hefir keypt jarðir nokkrar í Ölfusi fyrir 100 þús. kr., vegna þess að þar er jarðhiti. Nú vil ég spyrja: Hvað ætlar hún að gera við þessar jarðir? Í fasteignamati eru þær metnar á rúml. 30 þús. kr., og þykir mér kaupverðið því hátt.

Eins og kunnugt er voru á þinginu 1928 sett lög um friðun Þingvalla. Eftir þeim lögum er Þingvallasveitin friðlýstur helgistaður frá 1. jan. 1930, og verja á landið fyrir ágangi sauðfjár. Sem betur fer er enn lítið gert til þess að uppfylla ákvæði þessara 1. og við, sem börðumst gegn þessum l., höfum fengið sannanir fyrir, að það, sem við sögðum um kostnaðinn af framkvæmd þeirra, er sízt ofmælt, en það mál mun ég sennilega rekja betur síðar, ef af framkvæmdum verður.

Það er þó ekki svo að skilja, að ekkert hafi verið gert á Þingvöllum í skjóli þessara friðunarlaga. T. d. hefir presturinn verið flæmdur burtu, bæjarhúsin rifin og byggt þar veglegt steinhús, sem ég veit ekkert hvað á við að gera, ef þar verður ekki prestur. Kunnugt er og, að Valhöll og konungshúsið hefir verið flutt með ærnum kostnaði. Hinn beini flutningskostnaður er þó hið minnsta, sem af þessu leiðir. Óbeinn kostnaður er margfallt meiri, því að til þess að komast að þessum húsum, þar sem þau eru nú, þurfti að leggja langan veg, með steypubrú á Öxará, leggja vatnsleiðslur m. m. Þar við bætist, að Valhöll var sett rétt hjá mýrarsvakka, svo að miklu fé hefir þurft að verja til þess að fylla svo upp í kring um hana, að hægt væri að ganga þar í kring þurrum fótum. Hve mikið allt þetta hefir kostað veit ég ekki, en það hlýtur að vera að minnsta kosti 100 þús. kr., og ég verð að segja, að ég hefi aldrei vitað gálauslegar og heimskulegar með fé farið. Ég er í Þingvallafriðunarnefndinni, og ekkert af öllum þessum verkum hefir verið undir mig borið, nema sjálfur flutningur húsanna, sem ég auðvitað var alveg mótfallinn. Mér blöskrar og sárnar að sjá þannig farið með fé, er ég hugleiði hinar mörgu knýjandi þarfir hvarvetna á landinu. Ég veit ekki hvort meðnm. minn, hv. 4. landsk., hefir samþ. þetta, en ég gæti bezt trúað, að hæstv. dómsmrh., sem er 3. maður í n., hafi einn ráðið þessu, og er það ekki meira en annað gerræði hans. Hann skeytir ekkert um lög né reglur, heldur fer því fram, sem honum sýnist í það og það skiptið.

Ég get ekki endað þessi orð mín án þess að minnast nokkrum orðum á fimmtardómsfrv. það, sem hæstv. stj. hefir lagt fyrir þingið. Í þessu frv. eru alveg auðsæ stjórnarskrárbrot. Hæstv. stj. hefir eins og við hinir þm. unnið eið að því að halda ákvæði stjskr. Hún hefir unnið tvöfaldan eið að henni, þingeið og embættiseið. Ég ákæri hana fyrir að hafa rofið þennan endurtekna eið, ég ákæri hana fyrir að hafa leyft sér að reyna að raska þeim hornsteinum, sem stjórnskipulag vort er byggt á. Ég mun taka þetta nánar til athugunar síðar hér í d., ef frv. þetta gengur gegnum Ed., sem mér þykir mjög ólíklegt.