07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í C-deild Alþingistíðinda. (1428)

172. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Ég gat þess við upphaf þessarar umr., að ekki væri ástæða til að hefja almennar umr. um málið fyrr en við 3. umr. Ég bjóst við, að hv. þdm. vildu gæta þingskapa. Nú hafa nokkrir hv. andstæðingar talað og tínt fram rök, sem þeir þykjast hafa móti frv. Að mestu leyti eru það ástæðurnar frá 1925, þegar tóbakseinkasalan var lögð niður. Í raun og veru eru það ekki nema tvær ástæður, sem færðar eru gegn frv., önnur sú, að engin tekjuvon sé af samþykkt frv., og hin, að vörugæðin verði minni en með frjálsri sölu. Þetta eru ástæður, sem jafnan eru taldar fram móti allri einkasölu. Þar sem þetta frv. er borið fram og rökstutt eingöngu sem tekjuöflunarfrv., er ekki þörf að ræða aðra ástæðuna. Það lítur út fyrir, að nokkur straumhvörf hafi orðið í huga manna, sem halda nú, að engar tekjur geti orðið af tóbakseinkasölu, því að í upphafi var tóbakseinkasalan sett eingöngu í því skyni. Aðgerðir andstæðinga tóbakseinkasölunnar 1925 sýndu og sönnuðu, að menn trúðu ekki þeirri kenningu, að tekjur verði engar. Því að þegar einkasalan var afnumin 1925, var að ráði þeirra, sem felldu hana, samþ. tollhækkun til að vega á móti tekjumissinum. Með þessu hafa þeir sjálfir viðurkennt, að tóbakseinkasalan gaf og getur gefið tekjur. Gagnstæð staðhæfing þeirra nú er því einskis virði.

Álíka haldlaust er um vörugæðin, að þau verði minni undir einkasölu en frjálsri samkeppni. Ég man þá tíma áður en einkasalan kom, að sumar tegundir tóbaks voru þá miklu verri en nú er. Umbæturnar á tóbaksgæðunum komu einmitt með einkasölunni. Þetta á einkum við um reyktóbak. Aðrar tegundir voru mest þær sömu, t. d. munntóbak og rjól, og ég held, að ekki sé hægt að færa neinar sönnur fyrir því, að þær séu orðnar aðrar eða betri nú undir frjálsri samkeppni.

Hv. andmælendur hafa fleiri en einn sagt, að þeir skilji ekki, í hverju hagnaðurinn geti verið fólginn. Ég get vel sagt þeim það. Fyrst og fremst fær ríkissjóður allan heildsöluhagnaðinn. Hann væri þá tekinn af þessum örfáu einstaklingum, er nú hafa gróðann. Það er einmitt þetta, sem hv. andmælendum er svo sárt um; þeirra hagsmuni vilja þeir vernda. (JAJ: Hafa þeir einkaleyfi?). Ætlar hv. þm. að neita því, að heildsalar ætli sér hagnað? — Annað atriði í þessu máli er, að því stærri innkaup sem hægt er að gera á einhverri vörutegund, því líklegra er, að hægt sé að fá lægra verð. Þetta er alkunnugt í viðskiptum. — Þriðja atriðið er, að eftir því sem reksturinn innanlands verður stórfelldari, má gera ráð fyrir tiltölulega minni rekstrarkostnaði á fyrirtækinu, miðað við veltuna. Þessi þrjú atriði sýna og sanna, að réttmætt er að búast við tekjum í ríkissjóð, ef þetta verður að lögum, enda er það sannað með þeirri staðreynd, að andstæðingar einkasölunnar hækkuðu tóbakstollinn, eins og áður er sagt, til þess að vega nokkuð upp á móti tekjumissinum af því að leggja hana niður.

Þá segja sumir hv. andmælendur, að ef menn vildu afla ríkissjóði meiri tekna, þá sé ekki annað en að hækka tollinn enn meir. Með því að hækka tollinn má fá meiri tekjur, allt þangað til tollálagningin verður svo mikil, að það fari að draga úr kaupum. Tollhækkunin mundi þá hækka verðið fyrir neytendum. En hér er ætlunin að ná tekjunum án þess.

Hv. andmælendur hafa æðimikið rætt um það, að þetta séu tóm látalæti, en annarsvegar segja þeir, að það sé gert af eftirlátssemi og hræðslu við jafnaðarmenn. Þessar ástæður stanga hver aðra. og þó geta menn ekki hætt að tönnlast á þeim háðum í senn.

Ég leyfi mér að spyrja þá, sem áttu frumkvæðið að því að setja einkasöluna á stofn, hvort þeir hafi einnig gert það af tillátssemi við jafnaðarmenn.

Þá var það einhver, sem var að hafa í frammi nokkurskonar ógnanir við stj. og stjórnarflokkinn í sambandi við mál þetta, og sagði, að það myndi ekki verða svo vinsælt, ef það næði fram að ganga, en myndi geta valdið falli stj. við kosningar. Ég hafði satt að segja búizt við öllu öðru en vinsamlegum ráðleggingum frá þeirri hlið til okkar framsóknarmanna, því að ég hafði búizt við, að andstæðingarnir yrðu mjög kampakátir, ef þeir gætu orðið stj. að falli, og myndu því láta frv. hlutlítið, svo að það næði fram að ganga til að spilla fyrir stj. við næstu kosningar. Maður skilur það líka á ýmsu öðru, að þessir menn eru ekki eins öruggir og þeir þykjast vera, heldur eru slíkar fullyrðingar aðeins í nösunum á þeim, því að þeir vita, að reyndin verður önnur, er til kemur.

Þá var einhver af andstæðingum málsins, sem sagði, að ef það væri rétt, að tóbakseinkasalan gæfi drjúgar tekjur í ríkissjóð, þá myndi því sennilega líkt farið með aðrar vörutegundir. Þetta má nú kannske til sanns vegar færa, en ég vil aðeins benda þeim hv. þm. á það, að allar vörutegundir eru ekki eins vel hæfar til einkasölu og munaðarvörur, en til þeirra verður tóbak að teljast.

Þá fékk hv. deild að heyra langan lestur um það, að hér væri verið að koma á einokun, og var þá óspart vísað til einokunarinnar gömlu, og það er náttúrlega von, að það sé gert, ef hv. þm. eru svo sljóir að miða eina vöru við allar. Hér er aðeins um eina munaðarvörutegund að ræða, og einkasala ríkisins á slíkri vörutegund er gerð til þess eins að auka tekjur heildarinnar, en áður fyrr voru það einstaklingar, sem tóku verzlunina á leigu og fengu hagnaðinn af henni. (ÓTh: Heldur hv. þm., að þetta hafi ekki líka verið boðorðið þá, að einokunin væri höfð í þágu heildarinnar?). Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þdm. skilji þetta betur en þessi hv. þm., en ég geri ekki ráð fyrir að sannfæra hann, þótt ég færi að útskýra málið nánar fyrir honum.

Þótt næstir á undan mér hafi nú 4 andmælendur þessa frv. talað, hygg ég, að ég sé búinn að hrekja öll þau rök, sem þeir höfðu fram að færa, og hirði því ekki um að hafa mál mitt lengra, því að ég ætla ekki að fara að keppa við þá um mærð.