07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í C-deild Alþingistíðinda. (1429)

172. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Það er farið að bera nokkuð mikið á því nú orðið hjá hv. fylgismönnum stj., að í hvert sinn, sem andstæðingarnir hreyfa mótmælum gegn vandræðamálum þeirra eða stj., þá kalla þeir það óþarfa málþóf og orðalengingar, og skeyta því engu, þótt það liggi í augum uppi, að færð séu fram rök fyrir réttum málstað. Þetta virðingarleysi meiri hl. fyrir rökum minni hl. er ekki teikn upp á neitt gott.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að enginn efi léki á því, að einkasalan myndi auka tekjur ríkissjóðs stórum. En þá vil ég beina þeirri spurningu til hans, og vil fá ákveðið svar við henni, úr því að hv. þm. álítur þessa einkasölu blessun fyrir landið. Hvers vegna hefir þá stjórnarflokkurinn ekki fyrr horið þetta frv. fram? Hvers vegna hefir stjórnarflokkurinn vanrækt nú í 3 ár að samþ. þetta frv., ef það er eins gagnlegt og nú er látið uppi? Þetta hlýtur að stafa af einstakri vanrækslu og hirðuleysi, að hafa ekki fyrr reynt að koma fram þessu máli, sem þeir hafa slíka trú á. (HG: Laukrétt!). Laukrétt, segir hv. þm. Ísaf. og undirstrikar með mér þessa spurningu, og ég vænti þess fastlega, að henni verði svarað. Hvað hafa þessir trúuðu menn óttazt? Hafa þeir óttazt sína eigin samvizku eða áhrif minni hl.? En bendir þetta hik ekki til, að í rauninni sé trú þeirra veik?

Annars skal ég ekki fara langt út í þetta mál, því ég þóttist hafa gert allítarlega grein fyrir skoðun minni í fyrstu ræðu minni. Meginatriðið í þessu máli er það, hvort einkasalan geti haft meiri blessun fyrir þjóðina sem heild en frjáls verzlun. Er hugsanlegt, að einkasalan geri betri innkaup en kaupmenn, sem hafa náð í ágæt sambönd og hafa verzlað við erlenda framleiðendur um margra ára skeið? Ég fyrir mitt leyti er í engum vafa um, að hin frjálsa samkeppni gerir betri innkaup.

Ef það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að einkasala sé nauðsynleg á tóbaki, þá hlýtur það sama að gilda um allar aðrar vörur, og hvers vegna þá ekki að láta ríkið annast einkasölu á nauðsynjavörunum, því að það hlyti einnig að verða til ágóða fyrir ríkið? Ég hefi sýnt fram á það, að þótt tollarnir væru hærri, var samt vöruverðið lægra þegar hin frjálsa samkeppni fékk að sýna sig, og hverju er það að þakka?

Það er eitt, sem er eitur í beinum þeirra manna, sem berjast fyrir einkasölum, og það er þegar minnzt er á einokunina gömlu í því sambandi og gerður samanburður á þeim, en það er alltaf hætt við því, að eftir því, sem fleiri vörur eru færðar yfir á eina hönd, þá fari þeir annmarkar, sem einkenndu gömlu einokunina, að koma í ljós. Í fyrri ræðu minni dró ég upp mynd frá einokunartímunum, þegar bóndinn kom til kaupmannanna kengboginn af undirgefni með húfuna í hendinni og bað þá um að hafa vöruskipti við sig, en kaupmennirnir létu hann fá dýra vöru og tóku hans gegn smánarverði. Sú mynd ætti að vera öllum minnisstæð, því að þegar allt er komið á eina hönd, kemst á sama ástandið. Menn vita það vel, að þegar svo er komið, þá er það peningakúgunin, sem er í uppsiglingu, og það er þegar farið að sýna sig, hvernig þessi kúgun er farin að láta á sér bæra. Verkamennirnir eru farnir að tala um það í hálfum hljóðum, að ef t. d. einn banki sé í landinu, verði þeir að krjúpa fyrir þeim, sem þessum banka ráða, og þá verði þeir að hengja skoðanir sínar á snagann til þess að hægt verði að fá peningalán. Þar sjá menn einokunina í skýrri mynd. Hættan er sú, ef lífsnauðsynjar og peningaráðin eru færð yfir á eina hönd, að þá verði þeir menn þrælar í landinu, sem áður voru frjálsir borgarar, og ef þeir menn, sem fyrir þessum stofnunum standa, vilja beita valdi sínu til að koma á skoðanakúgun, þá sést, hvað af þessu hlýzt, og þá er gamla, svarta einokunin búin að halda innreið sína.

Þessir einokunarpostular, sem nú vaða uppi, ættu að hafa það hugfast, að hér er ekkert gaman á ferðum, heldur alvörumál, sem krefst samvizkusemi og sanngirni, en hjá þeim virðist sú tilhneiging rík, að skella skolleyrum við þeim óhrekjandi rökum, sem færð eru fram gegn öllum þessum einkasölum, sem þeir eru að berja fram. Það sýnir t. d. vel, hversu rík einkasölutilhneiging þessara manna er, að þeir reyna að koma á einkasölu á útvarpstækjum, en alstaðar annarsstaðar er slíkt álitið mesta óheillaráð, enda hvergi tekið upp nema hér. Það er kominn tími til að láta hæstv. stj. vita það, að það er kominn töluverður uggur í menn um land allt við það, ef stj. heldur áfram á þessari einokunarbraut og ætlar að berja hvert ríkisrekstrarfrv. í gegn á eftir öðru.

Hinsvegar er ég nú þeirrar skoðunar, og dæmi ég þar eftir framkomu stjórnarliðsins í þessu máli, að ef það tryði á, að happ væri að tóbakseinkasölu, þá myndu þeir hafa lagt út í hana fyrir löngu síðan. Þess vegna er ég sammála hv. 2. þm. G.-K. um það, að þessi framkoma stj. virðist leikur einn, því að það er auðsætt, að málið verður ekki afgr. á þessu þingi, ef á að slíta því fyrir páskana, og þá hefir ekki verið mikil alvara á bak við ræðu hv. frsm. meiri hl.