07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í C-deild Alþingistíðinda. (1430)

172. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

* Það lítur út fyrir, að hv. meðmælendur þessa frv. hafi ekki mikinn áhuga fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga, því að þeir vilja sem minnst tala um það, og bendir það á, að þeir búist ekki við, að það verði afgr. á þessu þingi.

Hv. 1. þm. N.-M. kom dálítið inn á það atriði, að bera saman gömlu einokunina og þessa einkasölu, sem nú er verið að berja í gegn og ég hefi gert samanburð á í fyrri ræðu minni. Það er vitanlegt, að hér væri um glæpsamlegt atferli að ræða, ef hv. þm. væru að reyna að koma á því mesta böli, sem hefir dunið yfir þessa þjóð, og færa landsmenn aftur í þá ánauð, sem þeir eru nýsloppnir úr. Þessar tvær verzlunarstefnur eru að vísu ólíkar í sumum smáatriðum, en öll aðalatriðin eru hin sömu. Gamla einokunin var ekkert annað en ríkiseinkasala, þótt einstökum mönnum væri falið að hafa hana á hendi, því að konungurinn, sem var einvaldur í ríkinu, seldi verzlunina á leigu og tók nokkuð af þeim hagnaði, sem á henni varð. Stundum rak hann verzlunina fyrir eiginn reikning og hafði umsjón með henni að öllu leyti. Þess vegna er það auðvitað vitleysa, sem hv. frsm. sagði, að verzlunin hefði verið rekin til hagsbóta fyrir einstaka menn, því að þetta var ekkert annað en sú verzlunarstefna, sem þá ríkti, nefnilega „merkantilisminn“. Þessi stefna var sprottin af þeim þjóðfélagsskoðunum, sem þá ríktu, og þess vegna er það hreinn barnaskapur og fáfræði að láta sér detta það í hug, að verzlunin hafi verið rekin með þessu fyrirkomulagi einungis til þess að auðga einstaka menn. Þessi stefna orsakaðist af því, að sú skoðun var þá einvöld, að það væri um að gera að halda peningunum í ríkinu og leggja sem mest höft á verzlunina til þess að auka atvinnu þegnanna, en menn höfðu þá ekki fengið skilning á því, að hagur þegnanna er beztur þegar frjálsræðið er mest. Meðmælendur þessa frv. hafa talað um það, að andstæðingarnir væru að búa til grýlur, er þeir héldu því fram, að slík frv. sem þessi miðuðu að því að gera menn ánauðuga, — en hver getur um það sagt nema þetta verði? Því er líka svo farið með þau fyrirtæki, sem ríkið rekur, að afgreiðsla vill þar oft verða treg, og er þá skemmst að minnast þess, þegar menn voru látnir bíða 4 klst. hér á pósthúsinu eftir að ná í böggla, sem komu frá Frakklandi. En því er svo farið með flm. þessa frv., að þeir eru fullir af vanalegum einkasöluderringi og vilja ekki taka neinum sönsum, þótt óhrekjandi rök séu færð fram í málinu og dæmi tekin frá reynslu liðinna ára. Menn mega minnast þess frá því er tóbakseinkasalan var, að þá var fluttur inn svartur tóbaksruddi, sem skemmdi menn í nefinu og hleypti bólgu í andlit þeirra, en aftur á móti neitaði einkasalan um skeið að flytja inn tóbak frá Brödrene Braun, af því að hún þóttist ekki komast að nógu góðum skilmálum við þá. Algengar tegundir, sem menn höfðu vanizt á að nota, fluttust ekki inn í landið, svo að þeir urðu annaðhvort að taka þann rudda, sem til var, eða þá ekki neitt. (HV: Þetta er vitleysa). Nei, það vita allir, að þetta er rétt. (ÓTh: Já, og svona er það líka með áfengisverzlunina). Aðalatriðið við þetta mál er það, að það á ekki að tryggja kaupmanninn, heldur hitt, að kaupendurnir fái rétta vöru fyrir rétt verð, en það verður bezt tryggt með frjálsri samkeppni.

Tilgangurinn með gömlu einokunina og hinar nýju einkasölur er alveg hinn sami og afleiðingarnar verða eins, en hið eina, sem hægt er að segja til huggunar þessum einokunarpostulum, er það, að menn munu kannske fyrirgefa þeim, af því að þeir vita ekki, hvað þeir eru að gera. Nei, gamla einkasalan komst á af misskilningi, og af sama misskilningnum er það sprottið, að reyna að koma á nýrri einkasölu.

Þá ætlaði hv. 1. þm. N.-M. að sýna fram á, að vænta mætti góðs af einkasölu, sökum þess í fyrsta lagi, að hún hirti heildsöluhagnaðinn, og í öðru lagi gæti hún gert miklu betri kaup erlendis, og í þriðja lagi yrði miklu minni rekstrarkostnaður. En þessu til sönnunar sýndi hann bara gömul pappírsgögn, sem hafa verið marghrakin bæði fyrr og síðar. Það hefir verið margsýnt fram á, að þrátt fyrir allt fái kaupmenn betri innkaup heldur en einkasalan. Þó að það megi slá þessari setningu fram: því meira vörumagn, því betri kaup, þá er það nú svo, að við verðum hér að líta nokkuð á mannlegt eðli eins og það birtist í reynslunni. Sá atvinnurekandi, sem verður að eiga viðgang sinn og velgengni undir því, að hann geri sem bezt kaup hvað verð og vörugæði snertir, hann hlýtur að leggja sig betur fram en hinn, sem veit, að ekki er í annað hús að venda til þess að fá vöruna, sem hann verzlar með. Sá, sem kaupir fyrir einkasöluna. hann gerir það auðvitað forsvaranlega, en hann er ekki knúður til að vanda sig eins og kaupmaðurinn í hinni frjálsu samkeppni.

Það var dálítið gaman, að hv. þm. virtist að nokkru leyti vera inni á okkar skoðun, þegar hann var að tala um, að svona óþarfavörur eins og tóbak væru hentugar til einkasölu. Hann virtist halda því fram, að einkasalan væri heppilegasti verzlunarmátinn með innkaup og alla hluti, og því þá ekki að innleiða einkasölu fyrst og fremst á nauðsynjavöru? Nei. Það var eins og leyndist einhver slæðingur í huga hv. þm. um það, að það gætu orðið slæm mistök á einkasölu, en það gerði bara minna til, þegar um óþarfavöru væri að ræða, eins og tóbak. Þarna erum við hjartanlega sammála, og ég gleðst yfir því, að hv. þm. skyldi vera inni á þessari sömu hugsun.

Þá þóttist hv. þm. hafa fundið ágæta sönnun fyrir því, að við í raun og veru játuðum, að það væri ekki eins hentugt, að ríkissjóður tæki tekjur sínar af tóbaki með tolli einum. Það er rétt, að þegar farið var fram á að hækka tóbakstollinn, voru menn mjög ósammála um það. Ég man sérstaklega, að Jakob Möller, sem þá var l. þm. Reykv., áleit, að það ætti ekki að hækka tollinn. En samt sem áður var það gert í varúðar skyni, til þess að hafa fulla vissu, að ríkissjóður skaðaðist ekki á breytingunni. Ég hygg það láti mjög nárri, að skoðun þessa fyrrv. hv. þm. væri rétt. En tollhækkunin var skaðlaus, af því að það sýndi sig, að varan hækkaði ekki í verði. Annars er það helber hugsunarvilla hjá hv. þm. að ætla að telja það sem sönnun fyrir sínum málstað, að við hækkuðum tollinn, þegar einkasalan var afnumin. Því að þegar einkasala er, þá er hégómi að greina milli þess, hvað er tollur og hvað er verzlunarhagnaður. Það má hafa tollinn lágan og leggja þeim mun meira á vöruna, ef einkasala er, en allt kemur í sama stað niður. Og ef við ættum nú t. d. að gefa vínverzlun frjálsa, þá væri engin meining annað en hækka tollinn stórkostlega. Grundvöllurinn hjá okkar tóbakseinkasölu var sá, að hún áskildi sér miklu hærri gróða en hún þurfti og heldur en mundi verða í frjálsri verzlun. Þetta hefir glögglega komið fram. Þess vegna er það hyggt á hugsanavillu, þegar hv. 1. þm. N.-M. hyggst geta sannað veilu í okkar skoðun í þessu máli. Hv. þm. var að tala um það, að sumir þeirra, sem voru með einkasölu áður, séu nú á móti. Þó að ég hafi alltaf verið á móti einkasölu, get ég samt skilið þá, sem vildu gera tilraun með hlut eins og þennan. Þessi tilraun var gerð, og tóbakseinkasalan stóð í nokkur ár. Síðan hefir verzlunin verið frjáls nú í nokkur ár, og það hefir sýnt sig, að einkasölu er engin þörf til þess að ríkissjóður fái sitt, heldur þvert á móti. Og einmitt þessa vegna er það svo miklu óafsakanlegra að vilja nú aftur fara að setja upp þetta margbrotna og erfiða form. Hitt get ég skilið, að jafnaðarmenn muni vera með þessari einkasölu eins og öðrum einkasölum; það er bara stefnumál.

Nú vil ég beina einni fyrirspurn til hv. 1. þm. N-M. Hvernig stendur á því, að ríkissjóður hefir fengið meiri tekjur síðan verzlunin var gefin frjáls heldur en á einkasöluárunum, ef einkasölu fyrirkomulagið er miklu heppilegra í þessum þremur eða fjórum atriðum, sem hann minntist á?

Reynslan er ólygnust. Og ef reynslan mælir á móti kenningum, þá þýðir það það, að við verðum blátt áfram að endurskoða kenningarnar. Mér dettur í hug franska vísindafélagið, sem gaf þann úrskurð, að steinar gætu ekki komið úr loftinu. Steinarnir voru nú áþreifanlegir, en þessir vísindamenn — og þar á meðal voru margir hinir ágætustu vísindamenn — samþykktu, að steinar gætu ekki dottið úr loftinu. Síðan vita menn, að það er staðreynd, að steinar detta úr loftinu. Og nú veit ég, að þeir, sem ekki eru sérstakir einokunarpostular, hafa endurskoðað sína skoðun á einkasölu og látið reynsluna kenna sér.

Það er nú búið að prófa ýmsar einkasölur, og reynslan af þeim er sú, að það mun vera talið eitt af þeim stóru óhöppum, sem hentu menn, þegar sú þjóðfélagsstefna, sem styður einokunarstefnuna, náði yfirtökum í landinu um stund.