07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (1433)

172. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Mér þótti leiðinlegt, að ég skyldi ekki geta verið viðstaddur alla ræðu hv. 2. þm. Reykv., en ég hygg þó, að ekkert hafi komið fram í henni, sem ég hefi ekki rakið, með tilvísun til þeirra aths., sem ég hefi áður gert.

Ég heyrði, að hv. þm. hélt því fram, að ástæða væri til að taka upp einkasölu á mótorum, vegna þess að það hefði sýnt sig, að oft vantaði varastykki í þá. Ég held, að það sé lítil ástæða til að ætla, að einkasala myndi sjá fyrir þessu. Það sýndi sig a. m. k. í tunnuleysinu á síldarvertíðinni í sumar, að með einkasölu er engin trygging fengin fyrir því, að ekki verði vöntun á hinum og þessum nauðsynjavörum.

Eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv. gefur mér tilefni til að gera þá fyrirspurn til hæstv. stj., hvort sú hugmynd sé komin fram í samráði við hana, að haga innkaupum ríkisins á einokunargrundvelli. Vænti ég, að hæstv. stj. gefi mér svar við því.

Út af ræðu hæstv. dómsmrh. vil ég taka það fram, að ég tel það ekki viturlegt að taka vissa tekjustofna ríkisins og leggja þá til hliðar í ákveðin fyrirtæki. Og ég get ekki látið mér detta það í hug, að það verði til að gera einkasölufyrirkomulagið gómsætara en ella. Ég sé ekkert unnið við það að fara að búta ríkissjóðinn niður í ýmsa smásjóði.

Hvað það snertir, að tóbakseinkasalan muni gefa 200 þús. kr. í aðra hönd, leyfi ég mér að vísa til þeirra röksemda, sem ég hefi áður fært fram.

Því miður hefi ég aðeins leyfi hæstv. forseta til stuttrar aths., og verð því að láta þetta nægja.