07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í C-deild Alþingistíðinda. (1434)

172. mál, einkasala á tóbaki

Ólafur Thors:

Ég vil svara einstökum atriðum í ræðu hv. 2. þm. Reykv. nokkrum orðum. Hann var að rekja sögu einkasölunnar og sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði barizt fyrir afnámi hennar í því augnamiði að afla fjár þeim einstöku kaupmönnum, sem verzluðu með tóbak. Þetta er grundvallarmisskilningur hjá hv. þm. Það, sem vakti fyrir Sjálfstæðisflokknum, var það, að haga tóbaksverzluninni svo, að allir aðiljar mættu hafa sem mestan hag af henni.

Það er rétt hjá hv. þm., að starfsmenn einkasölunnar náðu í bróðurpartinn, þegar einkasalan var lögð niður. En á það ber og að líta, að slík framkoma verður með engu móti talin flekklaus. Þessir menn notuðu þá aðstöðu, sem þeir sem landslaunaðir menn höfðu, og þann kunnugleik, sem þeir höfðu hlotið í þjónustu ríkisins, til þess að ná undir sig því bezta úr viðskiptum einkasölunnar. Þetta er ef til vill rétt hjá þeim, frá siðferðissjónarmiði þeirra séð (HV: Það var siðferðisleg skylda okkar), en ég myndi bera kinnroða fyrir slíka framkomu, og hygg ég, að fleirum myndi vera þann veg farið.

Hv. þm. sagði frá því, að gamla einkasalan hafi fengið betri kjör en kaupmenn. Ef svo er, hvers vegna lækkaði þá tóbaksverðið þegar einkasalan hætti, þrátt fyrir þótt tóbakstollurinn hækkaði að miklum mun? (HV: Verðlækkun úti). Ónei. Það er margupplýst, að verðsveiflur á tóbaki hafa verið líkar eftir að einkasalan hætti og í hennar tíð.

Hv. þm. segir ennfremur, að arður þeirra, sem tóku við viðskiptum einkasölunnar, sé tiltölulega minni en einkasölunnar áður, vegna þess að minni verzlunarfyrirtæki séu dýrari í rekstri hlutfallslega en þau stóru. Þetta er sjálfsagt rétt, svo langt sem það nær, en þess ber að gæta, að á móti hlutfallslega ódýrari rekstri einkasölunnar vegur það, að hún hlýtur að fá verri innkaup. Það er nú einu sinni svo, að samkeppnin er sporinn á hið mannlega eðli, og ekki sízt á sviði verzlunar og viðskipta.

Hv. þm. hneykslaðist mjög á þeim getsökum mínum, að hann kærði sig nú ekki svo mjög um að missa þann arð, sem hann hefir nú af tóbaksverzluninni. Það má vel vera, að hv. þm. hafi batnað síðan ég þekkti hann, en eftir mínum kunnugleikum á þessum manni, þá held ég, að hann hafi jafnan haft nokkra hliðsjón af eigin hag. Ég skal ekki já honum þetta út af fyrir sig, en hitt situr illa á þessum manni, að reyna að varpa yfir sig hræsnisblæju óeigingirninnar og ósérplægninnar. Ég skal aðeins henda hv. þm. á það, að hann hefir ekki gert mikið til þess að koma olíueinkasölufrv. á framfæri hér á þingi, og sýnir það bezt, hver alvara liggur að baki þessum einokunarfrv. hv. þm. Það má vel vera, að hv. þm. sé ekki eins annt um tóbaksgróða eins og olíugróða, en þó er ætlan mín, að hv. þm. myndi gráta þurrum tárum, þótt bæði þessi frv. sofnuðu svefninum langa á þessu þingi.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. dómsmrh. Mig undrar stórlega sú ræða, ef ræðu skyldi kalla, því að hún var mest sundurlaust rugl, eins og oft endranær. Mér er annars ekki vel ljóst, hvaða erindi hæstv. ráðh. átti inn í deildina að þessu sinni. Hann er vanur að láta ekki sjá sig dögum saman, en nú kemur hann um miðnætti og fer að tala í þessu máli. Síðan kemur hann með þá hlægilegu uppástungu, að láta arðinn af tóbakseinkasölunni renna til raforkumálanna í sveitum. Þetta sýnir einkar vel, hvern hug hæstv. ráðh. ber til þessa þjóðþrifamáls, því að hann veit það ósköp vel, að ekki verður um neinn arð að ræða, heldur tap. Og þetta, sem ekkert er, það vill hæstv. ráðh. leggja til framkvæmda þessu langstærsta framfara- og menningarmáli þessarar þjóðar. Hæstv. ráðh. óð svo elginn að vanda, um raforkumálin almennt, ruglaði öllu saman og fór rangt með, þar sem hann kom því við. Komst hann t. d. í mótsögn við nál. þeirrar n., sem um þessi mál hefir fjallað að undirlagi hæstv. atvmrh. Álit n. var það, að kostnaður af almenningsveitu yrði ca. 300 kr. á heimili, en af einkaveitu 1000 kr. Þetta fór hæstv. ráðh. rangt með eins og annað. Annars ætla ég mér ekki að elta ólar við rugl ráðh., en vil aðeins, að það komi greinilega fram, að þessi uppástunga hans var beinlínis hláleg, af því að samkv. henni á að veita fjárfúlgu, sem aldrei verður til, til þessara framkvæmda. En ef hæstv. ráðh. vill sýna þessu stórmerka máli nokkurn stuðning, þá ætti hann a. m. k. að ganga inn á að leggja til hliðar vissa fjárfúlgu árlega af ríkistekjunum í þessu skyni. En þetta vill ekki ráðh., af því að hann veit, að með því væri málinu tryggður framgangur. Það er ekkert til skaðlegra góðum málum en að látast vera að koma með uppástungur um framkvæmd þeirra, aðeins til þess að blekkja og til þess að sýnast. Það er mjög óviðfelldin aðferð að vilja láta taka vissa tekjuliði ríkissjóðs til vissra framkvæmda. Hitt er eðlilegra, að allar tekjur ríkisins falli ríkissjóði, en síðan sé veitt úr honum fé til þeirra framkvæmda, er Alþ. ákveður, eins og hv. þm. Dal. hefir réttilega bent á. Hæstv. ráðh. ætti þess vegna, ef hann vill vinna þessu máli, að koma með uppástungu um, að viss hundraðshluti ríkisteknanna skuli árlega renna til raforkumálanna.

Slík uppástunga væri að vísu dálítið barnaleg, en hún væri þó óskaðleg, og ég gæti eftir atvikum sætt mig við hana, ef stjórnarflokkarnir vildu sinna henni. En í þessu sundurlausa rugli hæstv. ráðh. um raforkumálin í sambandi við tóbakseinkasöluna felst beinlínis skaðleg hugsun, því að á þann hátt fellur raforkumálinu ekkert fé, og er því slík uppástunga fram komin beinlínis til þess að granda málinu á hinn ódrengilegasta og lævíslegasta hátt.