07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í C-deild Alþingistíðinda. (1435)

172. mál, einkasala á tóbaki

Héðinn Valdimarsson:

Það er út af orðum hv. 2. þm. G.-K., sem ég þarf að segja nokkur orð. Hann talaði um eitt atriði, sem sýnir greinilega muninn á siðferðishugsjónum okkar beggja. Hann heldur því fram, að vegna þess að ég hafði unnið í þjónustu ríkisins og fengið ýmsa þekking á þessum sviðum, þá megi ég ekki, þegar ég hefi verið rekinn úr þjónustu ríkisins fyrir atbeina íhaldsins, nota mér þessa þekking mína, vegna þess, að það komi í bága við hagsmuni kaupmannanna. Eftir þessum hugsanagangi á þjóðin að vera sama og kaupmenn. Ég taldi það hinsvegar skyldu mína að sýna, að sú þekking, sem ég hafði sem starfsmaður ríkisins, væri a. m. k. ekki minna virði en þekking kaupmannastéttarinnar almennt. Mér bar siðferðisleg skylda til þess. En hvar skyldu þess, dæmi, að menn, sem í annara þjónustu hafa unnið og skipta um stöður, noti sér ekki þá þekkingu og reynslu, er þeir hafa áður fengið, hvað þá, þegar fyrirtæki það, sem þeir hafa unnið við, er lagt niður og þeir geta á engan hátt keppt við það. Svo að einungis eitt dæmi sé tekið, er uppruni Kveldúlfs allur byggður á reynslu Milljónafélagsins sáluga í Viðey. Annars get ég sparað mér að eiga orðaskak við slíka menn sem hv. 2. þm. G.-K. Hann er kunnur að meiri ósvífni og frekju í orðadeilum en títt er um sæmilega innrætta menn. Hann hefir þann sið að hella sér yfir andstæðinginn með óbótaskömmum og upplognum sökum af allra verstu tegund. Hann svífst ekki að bera menn svívirðilegum getsökum, þessi blásni belgur. Hann ætti að spara sér allan rembing, því að af alþjóð manna á Íslandi er hann álitinn sá þm., sem gersneyddastur er almennum siðgæðis- og drengskaparhugmyndum. Ég blikna ekki fyrir þessum persónulegu aðdróttunum hans til mín; hann er of auðvirðilegur maður til þess, að á honum sé mark tekið um þessa hluti. Hans synduga og drengskaparlausa fortíð á hinum opinbera vettvangi grípur fyrir kverkar þessum lítilsiglda glamrara, þegar hann hyggst að bera andstæðinga sína slíkum sökum, sem hann hefir nú á mig borið. Ég get því sparað mér að eyða fleirum orðum að hv. 2. þm. G.-K.

Ég skal aðeins drepa á eitt atriði, sem nokkru máli skiptir. Því er oft haldið fram, og mjög ranglega, að við jafnaðarm. eigum ekki að vera riðnir við verzlunarfyrirtæki í stórum stíl. Þetta er vitanlega á engum rökum byggt. Við verðum að lifa á vinnu okkar í því þjóðfélagsskipulagi, sem nú er, eins og allir aðrir menn, og verzlun er ekki annars eðlis í sjálfu sér en ýmiskonar önnur atvinna. Verkamaðurinn á eyrinni, sjómaðurinn á skipunum, bóndinn og vinnumaðurinn í sveit, verzlunarmaðurinn í búðinni eða í skrifstofunni, starfsmaðurinn í ríkisins þjónustu vinna allir í þjónustu þess þjóðskipulags, sem nú er, enda þótt fjölda margir þeirra óski eftir og vinni að breytingu þess í jafnaðarskipulag, sem væri fyrir alla heildina. En auk þess ber sérstaklega að líta á það, að ef fleiri jafnaðarmenn hefðu verzlunarfyrirtæki með höndum, þá myndu þeir gefa Alþingi allar upplýsingar viðvíkjandi atvinnurekstrinum, í stað þess að kaupmenn íhaldsins neita jafnan að láta nokkuð slíkt í té, og ekki nóg með það, heldur nota þeir líka peningana frá atvinnurekstrinum til þess að varna því, að Alþingi geti fengið ábyggilegar upplýsingar um hag og ástand atvinnugreinanna, svo að örðugra veitist að koma fram endurbótum á þeim, almenningi í hag, en þeim sjálfum í óhag. Til þess nota þeir blaðakostinn. Hér kemur fram mikill mismunur og eftirtektarverður, og má af þessu marka hið staðlausa fleipur íhaldsins um þessa hluti.

Um till. hæstv. dómsmrh. skal ég vera fáorður. Það er nokkurnveginn augljóst, að slíkum rafveitum í sveitum verður aldrei komið á nema á kostnað kaupstaðanna. Í þessu efni má vísa til nál. þess, sem hv. fjhn. hefir haft til athugunar.

Ríkið verður að leggja fram féð, en kaupstaðirnir borga, undir núverandi skattafyrirkomulagi. Þetta er alveg auðsætt. En ef fara á þessa leið, þá er ekki nema gott að finna einhvern tekjustofn, sem hægt er að segja að hvíli ekki beint á almenningi, eins og t. d. verzlunargróði af tóbakseinkasölunni.