07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í C-deild Alþingistíðinda. (1438)

172. mál, einkasala á tóbaki

Ólafur Thors:

Það var eitt atriði úr ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ég ætlaði að athuga. Hv. þm. sagði, að það væri til marks um hina mismunandi lífsskoðun mína og sína, að ég teldi hann ekki hafa farið með öllu heiðarlega að, eða það hafi a. m. k. ekki verið til neins sóma, hvernig hann hefði setzt í reitur Landsverzlunarinnar. Hann taldi það bera vott um spillingu, að skilja ekki, að hann hefði aðeins gert skyldu sína. En ég leyfi mér að leiða athygli hv. þdm. að því, að þessi þm. hefir notað sér þá aðstöðu, sem hann sem launaður starfsmaður ríkisins hafði fram yfir aðra borgara þjóðfélagsins, til þess að efla eigin hagsmuni sína í samkeppninni við aðra borgara. Bækur þessa fyrirtækis og verzlunarsambönd voru ekki eign þessa hv. þm. fremur en annara landsmanna. Það, sem rétt hefði verið að gera, var að leggja þessi gögn fram, almenningi til þeirra nota, sem hann gæti af þeim haft, en hitt var rangt, að nota þau til framdráttar einstökum manni. Þetta er það, sem hv. þm. hefir gert, og þetta er það, sem ég er að víta.

Hv. þm. sagði, að við sjálfstæðismenn öfunduðumst yfir hverjum eyri, sem félli í skaut annara en okkar sjálfra, og rægðum fyrirtæki annara manna. Ég get nú sagt það, því að ég hefi reynslu fyrir því, að það eru einmitt jafnaðarmenn, hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræður hans, sem mest hafa gert í þessu þjóðfélagi, að undanskildum einum manni, hæstv. dómsmrh., til þess að rægja einstaka menn. Svo að ekki mega þeir mikið um það tala.

Hvað hitt snertir, sem hv. þm. sagði, að ef jafnaðarmenn ættu verulegan hlut í fleiri fyrirtækjum en þeir eiga nú, mundi almenningur fá fleiri skýrslur um fyrirtækin, þá vil ég spyrja: Hvers vegna hefir hv. þm. ekki gefið skýrslu um það, sem almenning varðar meira en tóbakið, nefnilega steinolíusöluna? Ég hefi heyrt, að hún hafi grætt yfir 300 þús. kr. á síðasta ári, hún hafi selt 27 þús. tunnur og ágóðinn verið 12 kr. af tunnunni, eða alls 324 þús. kr. Þetta er haft eftir einum starfsmanni í verzluninni: ég kann ekki skil á, hvað er hæft í því, en það væri bezt, að hv. þm. gæfi skýrslu um þetta, fyrst hann álítur það svo nauðsynlegt. En um þessa verzlun vil ég að öðru leyti segja það, að ég vissi til, að hún borgaði einum hluthafa í arð upphæð, sem svaraði 9 kr. gróða á hverja selda steinolíutunnu. Ég hefi umsögn sjálfs hluthafans fyrir þessu. Slíkt álag á nauðsynjar almennings er ekki aðeins óhóflegt, það er okur. Okur, sem form. Dagsbrúnar, aðaleigandi steinolíuverzlunarinnar, umboðsmaður hins vellauðuga erlenda stórgróðafélags, British Petroleum, þingmaðurinn Héðinn Valdimarsson, ætti ekki að miklast af.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég læt mér í léttu rúmi liggja, þótt hv. þm. telji mig, öðrum frekar, líkjast útblásnum belg. Líkingin er þó ekki heppileg, — sérstaklega er hún tvíræð þegar hún er framborin af þessum þm., sem óneitanlega er ekki ósvipaður belg, sem búið er að troða í svona allt að því sem hægt er.