22.03.1930
Neðri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það eru mjög fá atriði í ræðu hv. 1. þm. Skagf., sem ég þarf að svara, og þá helzt út af „litlu Þingvallanefndinni“, sem við erum báðir saman í. Hefir ekki borið á öðru en að samvinnan gengi þar vel, við höfum verið mjög sparsamir báðir og tekizt með lagni að bægja frá nefndinni útgjöldum, sem aðrir vildu á hana leggja. — Út af kaupunum á Ölfusjörðunum skal ég geta þess, að Þorkell Þorkelsson veðurfræðingur hefir gert rannsóknir á hitamagninu á þessum stöðum og komizt að þeirri niðurstöðu, að þarna væru um 100 jarðhitaop. Og ef reiknað er með því kolaverði, sem nú er hér í Reykjavík, og að notaður væri helmingur af þessari orku, þá mundu jarðirnar á þennan hátt gefa af sér 2 þús. kr. á dag. Þessi notkun er að vísu ekki byrjuð ennþá. (MG: En kostar ekkert að vinna þessa orku?). Jú, að vísu, en þarna liggur mikill fjársjóður falinn, þar sem orkan er. Ennfremur hefir í tveim holunum fundizt radium. Veit ég ekki; hversu mikið það er, en það er þó alltaf mjög mikils virði. Ég vil því ráðleggja hv. 1. þm. Skagf., fyrst og fremst vegna sinnar eigin framtíðar, að bíða með alla óvinveitta útreikninga vegna þessara jarðakaupa. Annars er hætt við, að fari líkt fyrir honum og hv. 1. þm. G.-K. (BK), þegar hann reiknaði það út, að landið mundi fara á höfuðið vegna kaupa á símastaurum, þegar sími var fyrst lagður um landið.

Hv. þm. (MG) greip fram fyrir sig, þegar hann fór að tala um aðgerðir hátíðarnefndar á Þingvöllum og finna að flutningi „Valhallar“ og konungshússins af hinum helga sögustað. Það var hátíðarnefndin, sem lagði til að þetta yrði gert, og kostnaðurinn af því telst til hátíðarkostnaðar. Ég veit, að nefndin getur aldrei hlotið annað en frægð og hrós fyrir þessa ráðstöfun, og ég vænti, að hv. meðnefndarmaður minn, þm. Dal., verði í sumar fús til að taka sinn hlut af þökkunum fyrir þetta.

Í sambandi við bæinn á Þingvöllum dettur mér í hug lítil saga. Þegar konungur kom hér fyrir rúmum 20 árum, var einn maður, sem endilega þurfti að fá kross, en ráðherrann, sem þá var, sagði, að þetta andlit vildi hann ekki „presentera“ fyrir kónginum. Og svo fékk maðurinn bara medalíu. Svipað er með Þingvallabæinn, að mér fannst ekki hægt að „presentera“ hann eins og hann var fyrir hátíðagestum innlendum og útlendum. Það hefir verið talað um að láta einn eða tvo prinza búa þar í vor, og er ekki ósennilegt, að upp úr þessu hafist talsvert af krossum, jafnvel handa smærri Þingvallanefndum eins og þeirri, sem við hv. 1. þm. Skagf. erum saman i. Honum til hugfróunar skal ég nú lofa að gefa honum, í viðbót við það, sem að sjálfsögðu fellur í hans skaut sem eins af þremur umráðamönnum Þingvallabæjar, alla þá krossa, sem ég kynni að fá fyrir að vera einskonar landsdrottinn á Þingvöllum vorið 1930.

Út af fimmtardómsfrv. sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum. Hv. 1. þm. Skagf. vildi segja, að í því væri eitt, tvö eða jafnvel þrjú stjórnarskrárbrot. Þegar rætt var um fimmtardómsfrv. í hv. Ed., hafðist það upp úr umtalinu um stjórnarskrárbrot, að menn voru minntir á, að fyrir fáum árum bar hv. 3. landsk. þm., sem þá var ráðh., fram frv., þar sem var óþægilega skörp ör til hv. þm. Dal., og var sú tillaga margfalt nær því að brjóta stjórnarskrána en ákvæði þessa frv. Þetta þótti ekki bera vitni um sérlega frómt hugarfar hjá hv. 3. landsk. þm., að hann hafði í hyggju að bola þessum núverandi flokksbróður sínum frá þingsetu með lagaboði, og í þetta var vitnað í hv. Ed., um leið og það var viðurkennt, að mjög litlar líkur væru til, að fimmtardómsfrv. kæmi nokkursstaðar nærri stjórnarskránni.