22.03.1930
Neðri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Jónsson:

*) Ég býst við, að það fari nú fyrir mér eins og áður hefir farið bæði fyrir mér og öðrum, sem yrt hafa á hæstv. stj., að ég geri ekki annað en innvinna mér enn einu sinni þakklæti hæstv. forsrh. Venja hans hefir verið sú á undanförnum þingum, þegar bornar hafa verið á hann sakir, að í stað þess að bera þær til baka, þá hefir hann bara sagt: „Ég þakka“. Hann þakkaði í fyrra, þakkaði líka í hitteðfyrra. Hann þakkar enn, og þakkar eflaust líka á morgun eins og endranær. Þegar sagt er, að hann hafi brotið öll þau loforð, er hann gaf meðan hann var ritstjóri, þá bara þakkar hann. — Þegar sýnt er fram á, hve óhollur hann hefir reynzt bændastétt landsins, þá þakkar hann enn. — Ég þykist vita, að eins muni fara fyrir mér. Ég veit, að hann þakkar mér bara. En ég læt mér það í léttu rúmi liggja, því ég veit ósköp vel, hversu alvarlega það er meint. (Forsrh.: Það er meint alveg einlæglega). — Ójá, ég fer nú líka nærri um það!

Annars er talsvert skemmtilegt að athuga framkomu hæstv. forsrh. á eldhúsdegi. Um eldhúsdaginn er nú það að segja, að hann á að vera hér sem annarsstaðar talsvert nauðsynleg stofnun. Hann á að gefa andstöðuflokki stj. alveg sérstakt tækifæri til að rifja upp það, sem aflaga hefir gerzt í fari stj., og hann á að gefa stj. færi á að koma fram með sín rök til andsvara. Ræður þær sem fluttar eru á eldhúsdegi eru oft vel uppbyggðar og fast rökstuddar. Og sá er síðar vill kynna sér stjórnarfar einhvers tíma á kost góðra heimilda um það í eldhúsdagsumr. Alþt. En hæstv. forsrh. skilur eldhúsdaginn svo, að þá eigi að stofna til einhvers apa- og slönguleikhúss, þar sem allt sé undir því komið, hver mest geti sprellað og hver orðið geti fyndnastur. Ég get sem dæmi tekið svar hæstv. forsrh. áðan, þegar hann var að tala um tösku hv. 1. þm. Skagf. „Hann fór með tösku! Hann fór með tösku!“ hrópar hv. forsrh. — Alveg eins og þegar krakkar í grínleik hrópa:

„Einn í einn! Einn í einn!“ — Þetta á að vera gert til þess að menn fari að hlæja. Og svo eru svör hæstv. ráðh. svo dauðans ómerkileg. Sem dæmi um það má nefna eitt atriði í ræðu hans til hv. 1. þm. Skagf. Sá hv. þm. hafði bent á ósamræmið, sem væri milli afstöðu hæstv. forsrh. um krossaveitingar fyrr og síðar. Áður voru krossaveitingar hið tilvalda grín hæstv. forsrh. Þá vildi hann stilla öllu slíku glingri út í skemmu Haralds. Nú segist hann bara vilja vera með, ef aðrir komi fram með frv. um það efni að banna alla krossa. En hvers vegna vill hann ekki sjálfur bera þetta mikla áhugamál sitt fram? Stj. hefir þó langbezt tökin á að koma fram með frv. Hvers vegna? — Ætli það sé ekki af því, að hæstv. ráðh. er sjálfur orðinn einhver mesti krossberi þessa lands. Ég held, að hann ætti nú að minnast sinna fyrri orða og fara að sýna krossa sína í skemmu Haralds. Hann vildi láta fyrirrennara sína í ráðherrasæti gera það. Ég vil nú skora á hæstv. forsrh. að veita bæjarbúum þá fágætu skemmtun að sýna sig nú í allri sinni krossadýrð í skemmuglugga Haralds, svo sem einn klukkutíma, strax á morgun! Ég ætla ekki að rekja ræðu hæstv. forsrh. Ég tel víst, að hv. 1. þm. Skagf. fái tækifæri til að gera það síðar. Og ég býst við, að honum muni ekki reynast það erfitt verk. — Jú, það getur nú samt einmitt orðið nokkuð erfitt, því að í stað þess að ræða málin eftir því sem ræða hv. 1. þm. Skagf. gef efni til, þá er hæstv. ráðh. með þetta ógnar flug út um allt, líkt og fálki. — Og að þessu leyti er hann einmitt líkur fálkanum. Ég heyrði nú ekki það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði. En ég held nú, að í raun og veru hafi hann farið villt að nefna nokkuð fálkann í sambandi við hæstv. forsrh. Hann hefði heldur átt að líkja honum við fyrsta skjaldarmerkið, sem okkar Íslendingum var gefið. Ég held því, að hv. 1. þm. Skagf. hafi þarna farið skjaldarmerkja villt. Hæstv. forsrh. er einmitt svo afarlíkur stórum golþorski, sprellandi og úttútnuðum meðan ekkert er átt við hann, en sem verður næsta fyrirferðarlítill þegar hann er slægður og flattur. Það má t. d. taka fjósið á Hvanneyri. Í stað þess að svara með rökum, þá belgir hæstv. forsrh. sig allan út og hrópar: Komið þið bara! — Komið þið bara ef þið þorið! Ég skal standa fyrir mínu máli við bændur þessa lands. Bændur landsins munu skilja, að ekki var rétt að láta þakið detta ofan yfir kýrnar! Það getur satt verið, að ekki hafi verið rétt að láta þakið á fjósinu detta yfir kýrnar. En það var bara ekkert verið að tala um það. Hitt var talað um, að ekki hefði verið veitt á Alþingi fé til þessarar byggingar, sem kostar mikið á annað hundrað þúsund kr., að undanteknum einum 9 þús. kr. Og það var þetta, sem var átalið. Það er jafnan ámælisvert þegar fé er veitt án þess að spyrja Alþingi að, og hægt er að koma því við.

Þegar þingin voru stofnuð á þann hátt, að þjóðin sendi kjörna fulltrúa á þau, þá var mark þeirra fyrst og fremst það, að hafa gát á fjárhagnum. Það var algengt, að konungarnir notuðu fjárhirzlu ríkisins til að auka sína dýrð. Þeir eyddu peningunum í munað og hégóma, en alþýðan var pínd til að borga. Hið fyrsta, sem því er heimtað af þingunum, er, að þau hafi ráð yfir fjárhirzlum ríkjanna. Og þótt þingin fari misjafnlega með það vald, þá er þeim þó treyst betur en stj. eða konungum. Núv. hæstv. stj. virðist hafa löngun til að draga þetta vald úr höndum þingsins. Hvanneyrarfjósið er sláandi dæmi þess. Það hlýtur líka að vera óhóflegt að eyða 130 þús. kr. til að byggja eitt fjós og hlöðu. Fyrir sömu upphæð hefði mátt byggja vegi og brýr yfir heila sýslu. Ég man ekki hvað ég hefi heyrt um það, hvað þetta kostar á hverja kú. En það er alveg lýgileg upphæð. En þó er það ekki upphæðin, sem hæstv. ráðh. er víttur fyrir, heldur hitt, að leita ekki heimildar þingsins um að láta gera þetta. Hæstv. ráðh. vill sjáanlega haga sér alveg eins og einvaldskonungarnir gerðu áður. Þetta er svipað og kom fram við 3. umr. fjárl. hér nýskeð, þegar talað var um fjárveitingu til Vesturlandsvegar. Þá kom hið einkennilega fram, að hæstv. fors.- og atvmrh. vildi heldur gera þennan veg án þess að fá heimild í fjárl. til þess.

Þá minntist hæstv. forsrh. á rafveitumál Skagfirðinga að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Skagf. Það var nú ekkert einkennilegt við það, þótt þeim hv. þm. kæmi það mál til hugar í sambandi við Hvanneyrarfjósið. Í eitt fjós má veita 130 þús. kr. En til raforkuveitu fyrir stórt hérað má ekki veita miklu minni upphæð. Hæstv. forsrh. ver sig að vísu með því, að nú sé n. að rannsaka þessi mál, og ekkert megi gera fyrr en hún hefir lagt fram álit sitt. En þetta er bara tylliástæða. Þing eftir þing hefir frv. verið borið fram um þessi mál. Og þing eftir þing hefir verið neitað að afgreiða nokkuð í því máli. Það fæst því hvorki heildarlöggjöf um þetta, né heldur samþykki um einstakar framkvæmdir. Stj. stendur fast á móti því öllu saman. Hæstv. forsrh. stendur svo upp og segir: Af því ekki er til heildarlöggjöf um þetta, þá má heldur enginn byrja. Þannig er það. Eitt rekur sig á annars horn hjá hæstv. stj. Hvar annars endar þetta?

Ég hefi skrifað hjá mér Búnaðarbanka Íslands. Hæstv. ráðh. fannst ástæða til að fara að skipa bankastjórn fyrir þennan banka, enda þótt hann játi nú, að hann hafi hvorki haft hús né peninga til að byrja með. En þó var sjálfsagt að byrja að skipa stj. Og hæstv. forsrh. hélt því fram, að bankinn hefði ekki getað komizt af stað fyrr en stj. væri skipuð. En ég held nú, að hyggilegra hefði verið að bíða með skipun bankastjórnar þar til bankinn gat farið að taka til starfa. Það hefði sparað óþörf útgjöld. Það eru að vísu til fyrirtæki, sem aldrei eru annað en stj. Það eru braskfyrirtæki, sem aldrei eru annað en nafnið eitt. Þau hafa aldrei neinn sannan höfuðstól, og eru sett af stað í því einu augnamiði að svindla út fé á einn eða annan hátt. Ég veit ekki hvort hæstv. fors.- og atvmrh. hefir þótt viðeigandi, að Búnaðarbankinn hefði svip slíkra fyrirtækja. En víst er um það, að annað aðaleinkenni þeirra hefir hann: að borga há laun. Það eitt er víst, að sú bankastjórn, eða minnsta kosti aðalbankastjórinn, hefir há laun, enda þótt hæstv. stj. hafi ekki til þessa fengizt til að segja til um dýrtíðaruppbót þá, sem borguð hefir verið síðan stj. var skipuð. Áður var þessari stofnun stjórnað á mjög ódýran hátt. Og síðan breyt. var gerð á stj. hennar, hefir engri deild verið bætt við. Þar situr allt í sama farinu og áður var.

Þá vil ég víkja máli mínu að embættaveitingum þessarar stj. Mestu frægðarverk hennar, og líklega þau, sem hún getur sér ódauðlega frægð fyrir, liggja einmitt á því sviði, hvernig hún hefir valið í embætti þau, sem hún hefir veitt. Á því sviði er hún eflaust hin allra ófyrirleitnasta stj., sem setið hefir við völd í langan aldur. Að vísu er þetta þekkt úr sögunni. En slíkt hefir jafnan þótt hinn mesti blettur, bæði á stj. og mönnum, þótt ágætismenn hafi verið að öðru leyti. Ég skal t. d. nefna Odd Einarsson, sem þótti einhver hinn ágætasti maður í sinni stöðu. En á honum hvíldi sá blettur, að hann væri ranglátur í embættaveitingum. En Oddur Einarsson hafði breiðar herðar til að bera það ámæli, vegna annara mannkosta mikilla. En slíkt verður aldrei hægt að segja um núv. stj. Ég held, að þessi hæstv. stj. fái aldrei annað en heldur leiðinleg eftirmæli, og ekki sízt fyrir embættaveitingar sínar. Annars er sjálfsagt líkt farið með þetta og ýmsa aðra lesti, að þegar farið er að láta undan þeim, þá eykst og magnast ástríðan til að fremja þá. Þessu er líkt farið og með drykkjuskapinn. Og ég held, að drykkjuskapur stj. á þessu sviði fari sívaxandi.

En áður en ég vík að þessu aðalmáli mínu, embættaveitingum stj., þá vil ég minnast nokkrum orðum á annað, en það er kostnaðurinn vegna undirbúnings alþingishátíðarinnar. Þegar hæstv. fjmrh. gaf í þingbyrjun yfirlit yfir útgjöld ríkisins á liðnu ári, um leið og hann lagði fram fjárlagafrv. stj., þá kom það í ljós, að hann taldi, að varið hefði verið til undirbúnings alþingishátíðarinnar um 350 þús. kr.

Ég hafði þá ekki fylgzt svo nákvæmlega með því, hver eyðsla var orðin, að ég gæti sagt um það nákvæmlega, hve mikið mundi hafa getað eyðzt. En ég þóttist þó strax viss um, að það gæti ekki verið neitt nálægt þessu. Ég gerði þá þegar fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um það, í hverju þessi eyðsla væri fólgin. Hæstv. ráðh. svaraði því, að þessar tölur hefðu sér verið gefnar upp hjá ríkisféhirði. Um sundurliðun vissi hann ekki. Ég lét þá þetta gott heita í bili. Í hátíðarn. kom svo fljótlega þar á eftir ósk um það, að fá sundurliðaða skýrslu um þennan kostnað. Kom þá í ljós, að samkv. bókum gjaldkera n. náði útlagður kostnaður ekki hálfri þeirri upphæð, sem ráðh. hafði gefið upp, og ekkert nálægt helming.

Ég veit nú eiginlega varla, hvernig ég á að fara í þetta mál. Það er svo samantvinnað af allskonar vitleysum, að ég veit naumast hvar ég á að byrja.

Ég held ég verði þó að byrja á því, að skýra frá, að sá kostnaður, sem framkvæmdastjóri hafði ávísað, og þann einan kostnað má með réttu telja útlagðan vegna hátíðarinnar, er orðinn 128 þús. kr. En samkv. skýrslu þeirri, er ráðh. hafði frá ríkisbókara, var hann orðinn kr. 340.624,20.

Aukreitis og til skýringar því, sem hæstv. dómsmrh. tók fram í stuttri ræðu sinni áðan, þegar hann var að hæla n., sem sér um friðun Þingvalla, fyrir það, að hún væri lagin að koma af sér kostnaði af framkvæmdum þar, skal ég segja hvernig þetta er gert. Valhöll og önnur hús á Þingvöllum stóðu óheppilega, svo að þau voru til mikilla lýta og skemmdu svip staðarins, þegar að var komið. Því hafði stundum verið talað um að flytja þessi hús. En þegar um það var rætt í undirbúningsn. lagði ég áherzlu á, að hún gæti ekkert við þetta átt. Því að þegar ótal tjöld eru komin á völlunum, veitingatjöld, sem taka hundruð og þúsundir manna, og allt fullt af smærri tjöldum, þá tæki enginn eftir, þó að Valhöll og konungshúsið hefðu staðið þar líka. Það bæri lítið eða ekkert á þeim, þegar sá hátíðabragur, sem búast má við, hefir sett sinn svip á vellina.

Þá er að víkja að því, að hæstv. dómsmrh., sem er form. Þingvallan., kom með skilaboð til undirbúningsn. um það, að ef flytja ætti húsin, hvort n. áliti þá ekki bezt að flytja þau fyrir 1930. Ég bjóst strax við, að þetta væri af lævísi gert, til þess að velta þessum kostnaði yfir á undirbúning hátíðarinnar. Ég ætla að lesa hér útskrift úr fundabók hátíðarn., og skal taka það fram strax, að það, sem þar var gert, var ekki samþ. með mínu atkv. Þetta er dags. þriðjudaginn 11. sept. 1928:

„Enn var rætt um húsaflutning á Þingvöllum. Með 4 shlj. atkv. ályktaði n. að mæla með því við Þingvallan., að öll hús á þingstaðnum forna, önnur en staðarhús og kirkja, yrðu fyrir 1930 flutt á annan stað en nú standa þau, þangað, sem minna bæri á þeim“.

Þetta sýnir aðeins, að þegar hæstv. dómsmrh. spyr, hvort n. vilji ekki heldur, að húsin séu flutt fyrir 1930, þá drógust fjórir af sjö inn á það. Nokkru seinna er þetta bókað:

„Lesin var upp tilkynning Þingvallanefndar frá 17. þ. m. um, að nefndin hafi út af ályktun undirbúningsnefndarinnar á fundi 11. sept. þ. á. ákveðið, að flytja hús af þingstaðnum forna, önnur en staðarhús og kirkju, og jafnframt hafi Þingvallanefnd samþykkt, að kostnað, sem leiði af flutningi þessum, beri að telja með hátíðarkostnaði“.

Þetta er m. ö. o. sama og ef hæstv. dómsmrh. stingi upp á því við mig, hvort mér þætti ekki betra, að Arnarhvoll t. d. stæði einhversstaðar annarsstaðar en nú, og ég segði jú, og svo léti hann rífa húsið og flytja burt á mína ábyrgð. Undirbúningsn. sagði aldrei annað en, að hún kysi heldur að þetta væri gert fyrir hátíð, ef það ætti að gerast á annað borð. En ég þorði þó ekki að vera með þessu þá. Ég þekkti mína „Pappenheimera“ og vissi til hvers refarnir voru skornir.

Ég bar síðan fram till. um að mótmæla þessu. En það var þá samþ. með 4 atkv. gegn 2, að samsinna ákvörðun Þingvallan., eins og stendur í fundargerð undirbúningsn. frá 22. des. 1928:

„Hafið var máls á því, hvort greiða skyldi kostnað af flutningi Þingvallahúsanna af hátíðarkostnaði, samkv. tilmælum Þingvallanefndar, og var það samþykkt með 4:2 atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu:

já: Ásgeir Ásgeirsson, Jónas Jónsson, Sig. Eggerz, Pétur Guðmundsson.

nei: Jóhannes Jóhannesson, Magnús Jónsson“.

Með þessu er náttúrlega búið að samþykkja þessi útgjöld. En hvað varð svo þessi kostnaður mikill? Hér var eingöngu átt við það ákvæðisverð, sem um hafði verið samið við ákveðinn mann að flytja húsin fyrir. Það voru 19 þús. kr. fyrir flutning Valhallar, og við undirbúningsn. var ekki talað nema um þá upphæð eina.

En menn sjá, að þótt hér séu talin þau 128 þús., sem framkvæmdarstjóri n. hefir greitt, og bætt við 19 þús. kr., sem stöfuðu af flutningi Valhallar, þá er þó ekki kominn nema lítill partur af þessu, sem telst til hátíðarkostnaðar samkv. reikningi, sem ég skal lesa upp með leyfi hæstv. forseta.

I. (Útgjöld, sem nefndin hefir samþykkt að greiða):

Greitt af framkvæmdastjóra samtals ........

kr.

128.000,00

Efniskaup vegna alþingishátíðar

—

40.000,00

Flutningur á sama efni

—

9.000,00

Bílstæði ofan Almannagjár

—

650,00

Vegur um Fögrubrekku

—

80,00

Gangstígar í Almannagjá

—

200,00

Reiðvegur frá Vatnsviki að Sleðaási

—

400,00

Vegur frá Þingvöllum að Leirum

—

11.500,00

Flutningur Valhallar

—

19.000,00

Flutningur Konungshúss

—

13.500,00

Lagfæring umhverfis Valhöll

—

3.500,00

Vatns- og skólpleiðsla til Valhallar

—

1.300,00

Vegur að Valhöll

—

7.000,00

Vegur að Konungshúsi

—

3.350,00

Ýmis kostnaður við þessi verk

—

3.420,00

240.900,00

II.(Útgjöld, sem hafa ekki veriðborin undir nefndina):

Þingvallabærinn

kr.

35.000,00

Til Laugarvatnsskólans (verður endurgreitt)

—

42.636,20

Girðingar

—

3.000,00

Vatnsveita

—

3.500,00

Magnús Torfason

—

3.000,00

E. Schram

—

126,00

Vegur að Þingvallabæ

600,00

87.862,20

Loks eru þrír liðir, sem

n. hefir samþ., en vafasamt

er, hvort færast eiga á

kostnað alþingishátíðar:

Leynistígur að Ármannsfelli

kr.

5.000,00

Vegur frá Bolabás á Hofmannaflöt -

—

2.000,00

Breikkun vega á Þingvöllum

—

5.000,00

12.000,00

Samtals

kr. 340.762,20

Kostnaður, sem leitt hefur af flutningi húsanna á Þingvöllum er um 50 þús. kr.

Nú vil ég segja það um einstaka liði reikningsins, að sumir af þeim fólust alls ekki í því, sem undirbúningsn. hafði samþ. að greiða. Efni t. d. og flutningur þess, sem nemur 49 þús. kr. til samans, er náttúrlega kostnaður vegna hátíðarinnar. En framkvæmdastjóri n. hafði enga hugmynd um þetta. Húsameistara ríkisins var ávísað fé til þessa framhjá n. Svona embættisrekstur má ekki eiga sér stað í vesölustu búðarholu, hvað þá hjá sjálfri landsstj. Ef hún ávísar Pétri og Páli, er framkvæmdastjóranum ómögulegt að halda reikning um allt, sem til þessa fer, og þó er það bæði réttur hans og skylda að gera það. Ég verð að segja, að hæstv. fjmrh. kunni ekki sitt starf, ef hann ávísar hinum og öðrum eða til mþn. fé til framkvæmda, sem aðrir eiga að hafa umsjón með. Þá gæti hver, sem er, komið og beðið stj. um ein 10–20 þúsund og sagzt ætla að nota þau til þessa og þessa fyrirtækis, án þess að það kæmi honum nokkuð við.

Þingvallabærinn kostaði 35 þús. kr. Hvernig dettur hæstv. stj. í hug að fara að reisa nýjan bæ í sambandi við hátíðina? Aldrei var á það minnst í n. Og fyrir þetta verð! Hann virðist ekki heldur reistur fyrir neinn. Menn muna víst eftir þeim úlfaþyt, sem gerður var, þegar reist var við prestssetrið á Mælifelli fyrir 30 þús. kr. Þar býr þó prestur. Hæstv. ráðh. upplýsti það, að tveir prinzar ættu að búa í bænum meðan á hátíðinni stendur. Þetta eru víst krossaveiðar. Hann bauð meira að segja hv. 1. þm. Skagf. að gefa honum eitthvað af krossum.

Næsti liður er sá, sem okkur nm. þótti undarlegastur. Það eru 42.636,20 kr. til Laugarvatnsskólans. En það fylgdi með, að þetta ætti að endurgreiða. Vildi ekki hæstv. fjmrh. gera grein fyrir, hvort þetta sé oft gert í stjórnarráðinu, þegar búið er féð, sem fjárl. heimila til einhvers fyrirtækis? Þegar stj. leyfir sér að veita margfalda upphæð þá, sem heimild er fyrir, þá ætti hún ekki að fara að færa á milli líka. Hvernig ætli það tæki sig út, ef hún færi t. d. að veita aukagreiðslur við laun embættismanna og bera milli þeirra eftir geðþótta? Nú hefi ég heyrt, að búið sé að endurgreiða þetta. Það er gott, ef hæstv. stj. hefir vaknað með einhvern ótta út af þessu.

Nú fer að vandast málið. Hér stendur: Magnús Torfason 3 þús. kr. Enginn veit, hvað þetta er. Það sést ekki einu sinni, hver þessi maður er. Aldrei var þetta samþ. í n., svo að hún getur ekkert um það sagt. En menn segja, að þetta sé utanfararstyrkur til hv. 2. þm. Árn., þáv. forseta Sþ. Hann fór utan til að kynna sér sitthvað, sem þurfti að vita á þessari herrans hátíð. Verst að hann skuli ekki vera í þessari stöðu lengur. Ég vildi bera fram till. um, að hann kenni núv. forseta, hv. þm. V.-Ísf. eitthvað í mannasiðum. Einhver sagði annars, að hann hafi líka átt að kynna sér nýjungar í löggjöf Dana. Ekki heyrir það undir Alþingishátíðina.

Hér stendur næst: L. Schram 126 kr. Þetta er svo lítið, að n. hefir ekki hirt um að rekast í því, en ekkert veit hún til hvers það hefir verið notað.

Loks er vegur að Þingvallabæ. Hann hefir verið kostaður án þess að borið væri undir n.

Þrír síðustu liðirnir, sem nema 12 þús. kr., eru að vísu samþ. af n., en þeir eiga. eiginlega heima hjá öðrum vegagerðarkostnaði, en ekki hér.

Af öllu þessu get ég ekki séð, að neitt sé veitt með heimild nema það, sem framkvæmdastjóri hefir á reikningi sínum, 123 þús. kr. Sumt af hinu er að vísu samþ. af n. En það er alveg óverjandi, hvernig stj. hefir ávísað þeim upphæðum. Undirbúningsn. hefir ætlað sér að hafa svolítinn hemil á, hve miklu væri eytt, og þá má stj. ekki gera slíkt, án þess að n. fái svo mikið sem að vita um það.

N. hefir haft fáa fundi undanfarið vegna anna margra nm. hér á þingi, svo að mótmæli hafa ekki verið samþ. enn. En ég býst við, að það verði gert.

Ég ætlaði sérstaklega að tala um embættaveitingar stj. Það er ákaflega mikil ábyrgð, sem á hana er lögð með þessu valdi. Þegar þjóðirnar tóku valdið af einvaldskonungum sínum, höfðu þeir ekki eftir nema nafnið tómt. Þingin tóku við framkvæmdastjórninni og fela hana ráðh., sem eru ábyrgir fyrir þinginu. Reynslan sýnir, að völd þeirra geta orðið næstum einræðisvöld. Því að það er svo sjaldgæft, að flokkur stj. taki af henni völdin. Af því er svo þung ábyrgðin, og skylda að fara vel með þetta vald. Ég játa, að það er oft fjarska mikið vandastarf, og embættaveitingar ekki sízt. Stj. þarf að vega vel allar ástæður, þegar margir eru umsækjendur. Þó ætti ekki að vera mikill vandi að velja alltaf einhvern af þeim hæfu. Og umfram allt má hlutdrægni ekki komast að, hvort sem er pólitísk hlutdrægni eða sprottin af persónulegum hvötum. Hvernig hefir núv. hæstv. stj. gætt þessa?

Það er ekki hægt annað að segja, en að hún hafi oft sýnt pólitíska hlutdrægni og stundum persónulega. Þetta eru mjög þungar ásakanir. Núv. stj. hefir gengið mjög erfiðlega að hreinsa sig af þeim. Það er erfitt að losna alveg við pólitíska hlutdrægni: En það má ekki koma fyrir, að stj. verði sjálfri sér samkvæm í hlutdrægninni. Nú er hún orðin svo mikil regla hjá hæstv. stj., að ef það hefir komið fyrir, að hún hafi sýnt óhlutdrægni, og það hefir hún gert einstöku sinnum, þá hrökkva menn við, og þá ganga allmiklar sögur um rimmu innan stj. sjálfrar út af því.

Þá ætla ég að taka nokkur dæmi. Fyrst verður fyrir mér Búnaðarbankinn. Það er búið að tala dálítið um hann hér í öðru sambandi. Það er búið að skipa í hann stj., en lítið annað komið í framkvæmd. Hann er settur saman úr fimm eða fleiri pörtum, en aðeins tvær deildir eru teknar til starfa, Ræktunarsjóðurinn, sem frá upphafi er sjálfstæð stofnun og byggir starf sitt á lögum frá 1925, og Byggingar- og landnámssjóður frá 1929. Fyrir þessum sjóðum stóð sami maður, Pétur Magnússon. Það mun hafa mælzt vel fyrir, þegar honum var falin stj. Ræktunarsjóðsins, því að þessi hrm. hefir orð á sér fyrir að vera hygginn maður og ágætlega að sér. Það mun hafa verið til þess að gera lítil þóknun, sem hann hafði fyrir þetta. Þegar Byggingar- og landnámssjóði var bætt við hann, voru laun hans hækkuð, en þó urðu þau ekki eins mikil og aðalbankastjórinn hefir nú einn. Lögin um bankann gengu í gildi 1. jan. 1930. Það brást ekki, að stj. skipaði bankastjórana þrjá. Menn höfðu verið að geta sér til, hverja hún mundi skipa. Böðvar Bjarkan hafði verið tilnefndur. Hann hafði víst unnið mikið að undirbúningi málsins fyrir stj. Hann hafði um mörg ár skoðað og kynnt sér svipaða bankastarfsemi og farið utan í þeim tilgangi. Ekki er opinbert, hvers vegna hann var ekki valinn, eða hvort hann hefir ekki viljað taka við bankastjórastöðu. En samt er á almæli, að hann hafi ekki verið ráðinn vegna þess, að hann vildi ráða nokkru um, hverjir yrðu meðbankastjórar. Það er sagt, að einn þeirra manna, sem hann vildi hafa með sér, sé maður, sem stj. virðist hafa lagt í einelti í seinni tíð, Þórður Sveinsson á Kleppi. Hún hefir látið hann fara frá ráðsmennskunni þar eftir 20 ára starf. Sagt er, að 70 hestar hafi fengizt af túninu, þegar hann tók við, en það tún fæðir nú um þrjátíu nautgripi, svo að ætla má, að heyfengur sé á annað þúsund hesta.

Þetta er svipað og á Vífilsstöðum. Þar var áður kot, en allir þekkja, hvernig þar er búið nú. Slíkir menn virðast góðs maklegir. Mér er sagt, að þessu stórbýli hafi Þórður Sveinsson komið upp með undralitlum kostnaði, hann hafi haft lag á að láta sjúklinga vinna að þessu og sýnt óvenjulega hagsýni og framtak.

Það er hálf-leiðinlegt, að hæstv. stj. skyldi launa Þórði lækni þetta 20 ára starf sitt í þágu ræktunarinnar með því að víkja honum frá því fyrir tyllisakir einar. En hæstv. stj. var nú einu sinni búinn að espa sig á móti Þórði lækni, og því var engin von til þess, að hún færi að veita honum stöðu við Búnaðarbankann. Slíkt hefði verið á móti meginreglum hennar í embættaveitingum, þeirri reglu, að veita aldrei neinum pólitískum andstæðingi stöðu, hversu fær sem hann væri og vel fallinn til að leysa hana af hendi.

Ég hefi heyrt því fleygt, að einmitt af þessari ástæðu, að hæstv. stj. fékkst ekki til að veita Þórði Sveinssyni lækni bankastjórastöðu við Búnaðarbankann, hafi Böðvar Bjarkan ekki viljað taka við bankastjórastöðunni við þennan banka. Þær ástæður aðrar, sem ég hefi heyrt færðar til fyrir því, að Böðvar Bjarkan afsalaði sér þessari stöðu, eru svo smávægilegar, að mér finnst þær ekki geta komið til greina.

En hvern valdi svo hæstv. stj., til þess að gegna þessari stöðu? Val hennar féll á dr. Pál Eggert Ólason, prófessor í sögu við háskólann. Ég hefi þekkt dr. Pál frá því á skólaárum hans og skal verða manna seinastur til að neita því, að hann er framúrskarandi vel gefinn maður og duglegur eftir því, en hann er orðinn roskinn, og ævistarf hans hefir hnigið í aðrar áttir en staða hans við Búnaðarbankann bendir til. Hann hefir verið búsettur í kaupstað í mörg herrans ár og fjarlægzt það meira og meira að þekkja til um hag landbúnaðarins, enda hefir starf hans, eins og ég áðan sagði, ekki beint huga hans í þá átt. Og meðmælin, sem dr., Páli voru gefin í stjórnarblaðinu, voru eins dæmalaus og vera hlýtur, þegar verið er að verja óverjandi embættaveitingar. T. d. það, að dr. Páll hefði verið mjög duglegur við þúfnasléttur austur í Fljótshlíð í barnæsku sinni. Og að hann þekkti út í æsar sögu stórbýlanna hér á landi á 16. og 17. öld! Slíkt og annað eins gerir dr. Pál auðvitað hvorki verr né betur fallinn til þess að gegna bankastjórastöðunni við Búnaðarbankann. Hitt er annað mál, að dr. Páll er slíkur gáfu- og dugnaðarmaður að búast má við, að honum takist að setja sig inn í þetta starf með tímanum, en ef þessi regla verður tekin upp, að veita greindum mönnum stöður, sem þeir kunna ekkert til við, í þeirri von, að þeim muni takast með tíð og tíma að setja sig inn í starf sitt, er þar með búið að rugla öllum þeim reglum um embættaveitingar, sem hingað til hafa gilt, og sjálfsagt er, að gildi áfram. Stofnanir eins og Búnaðarbankinn eiga ekki að vera neinar kennslustofnanir. Það ríður á því, að þeir menn hafi öðlazt nægan undirbúning, sem við þær starfa, en komi ekki þangað til þess að læra að setja sig inn í starf sitt.

Það var sagt hér í bænum í gamni, að stj. ætlaði að gera dr. Sigurð Nordal að forstjóra við síldarbræðsluverksmiðju norður á Siglufirði. Þetta væri engu meiri fjarstæða. Dr. Sigurður Nordal er nákvæmlega jafnfær til þess starfs og dr. Páll Eggert til að vera aðalbankastjóri við Búnaðarbankann, og ég efast ekki um, að hann mundi með tíð og tíma læra þetta vandaverk, ef hann á annað borð tæki það að sér, enda þótt ég verði að telja það mjög vafasamt, að rosknir menn geti sett sig svo vel inn í óþekkt starf, að þeir standi þeim á sporði, sem starfinu hafa vanizt frá blautu barnsbeini.

Það hefir ekki fengizt upplýst enn hjá hæstv. stj., þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, hve há laun bankastjórarnir við Búnaðarbankann hafa: Þó er það víst, að þeim var fyrst í staði borguð 100% dýrtíðaruppbót, en því var hætt, að því er menn bezt vita, þegar Morgunblaðið hafði komizt á snoðir um þetta og fór að gera veður út af því. Hvað mikla dýrtíðaruppbót bankastjórarnir fá nú, það veit enginn nema hæstv. stj., og hún fæst ekki til að gefa upplýsingar um það, frekar en ýmisleg önnur útgjöld, sem hún hefir stofnað til.

Þá kem ég að veitingu rektorsembættisins við Menntaskólann.

Þó að menn séu orðnir þjálfaðir í að heyra undarlegar fregnir um embættaveitingar stj., held ég, að dottið hafi yfir flesta þegar það fréttist, að ungum manni, nýkomnum frá prófborðinu, með litla sem enga kennarareynslu, hefði verið veitt rektorsembættið við Menntaskólann.

Menntaskólinn er elzta og virðulegasta menntastofnun hér á landi. Við hann hafa starfað margir hinna ágætustu vísindamanna okkar, og það þori ég að fullyrða, að þegar rektorsembættið losnaði að þessu sinni, var enginn hörgull á ágætum mönnum innan skólans til þess að taka við því embætti. Og fyrst svo var, virtist einsætt að veita það einhverjum þeirra. Þessir menn hafa unnið við þessa kennslustofnun með lágum launum um langan tíma, og höfðu því fyllstan rétt til þessa embættis með þeirri launahækkun, sem því er samfara, auk þess sem bar að líta til þess, að þeir eru manna kunnugastir skólanum og hans högum. Fimm af kennurum skólans sóttu um rektorsembættið: Þorleifur H. Bjarnason, sem hefir starfað við skólann í yfir 30 ár, og hafði stjórnað honum sem settur rektor í 1½ ár, við hinn ágætasta orðstír og í góðu samkomulagi við hina kennara skólans. Auk hans sóttu þeir Sigurður Thoroddsen, sem verið hefir kennari við skólann í 25 ár, Ólafur Daníelsson (20 ár), Jón Ófeigsson (18 ár) og Bogi Ólafsson (12 ár). Allir voru þessir menn ágætlega hæfir í rektorsstöðuna sökum starfs síns við skólann, lærdóms, kennarahæfileika og mannkosta enda bar stjórnarblaðið þau ein boð frá hæstv. dómsmrh., sem hafði meðveitingu þessa embættis að gera, að þetta væru allt svo hæfir menn, að ekki væri hægt að velja á milli þeirra. Ef svo var, að hæstv. dómsmrh. treysti sér ekki til að gera upp á milli þessara manna, var hægurinn á fyrir hann að fylgja hinni gömlu reglu og hluta á milli þeirra, og láta þannig hendingu ráða um það, hver þeirra hreppti stöðuna, auk þess sem honum var í lófa lagið að komast hjá vali með því að veita elzta kennaranum embættið, ekki sízt þar sem sá kennari hafði gegnt rektorsembættinu á annað ár og farizt það prýðilega úr hendi. En hæstv. dómsmrh. tók annað ráð. Um rektorsembættið hafði auk þeirra, sem ég hefi þegar nefnt, sótt ungur maður, sem nýlega var búinn að taka við kennarastöðu norður á Akureyri. Honum veitti hæstv. dómsmrh. rektorsembættið, að því er virðist vegna þess, að sá munur var á honum og hinum umsækjöndunum, að hann einn átti alls ekki að fá þessa stöðu. Ég vil taka það fram, að það er fjærri mér að vilja lasta Pálma Hannesson. Ég þekki hann ekki, en mér er sagt, að hann sé vel gefinn maður, og hann hefir haft lag á því að vinna sér hylli þeirra, sem samtímis honum eru. Ég veit það, að Pálmi er af góðum ættum, og mér virðist sem kjarni sé í honum, ef dæma má eftir útliti hans. En hann átti engan rétt á þessu embætti, og með því að veita honum það er framið hróplegt ranglæti gagnvart kennurum skólans og gagnvart skólastofnuninni sjálfri.

Ein einasta ástæða hefir verið borin fram, til þess að fóðra þetta ranglæti: Að það hefði þurft að fá „nýtt blóð“ í skólann. Ég skal nú játa það, að ég þekki ekki mikið til í Menntaskólanum, en eftir því, sem ég hefi haft spurnir um, er langt frá því, að Menntaskólinn hafi verið orðinn slíkt spillingarsýki og hæstv. dómsmrh. hefir viljað vera láta. Það má vel vera, að erfitt hafi verið að halda uppi reglu, þar sem slíkt fjölmenni ungra og óstýrlátra pilta var samankomið í ekki stærri húsakynnum en er í Menntaskólanum, en það er ekkert, sem bendir til þess, að skólalífið hafi verið orðið svo spillit, að þurft hefði að grípa til örþrifaráða eins og t. d. gert var eftir „,pereatið“ fræga, þegar Bjarni Jónsson var sóttur til þess að taka við rektorsembættinu af Sveinbirni Egilssyni. En setjum nú svo, að spillingin í Menntaskólanum hafi verið eins mikil og hæstv. dómsmrh. lætur, og hyggjum að því, hvernig ástandið er nú í skólanum, hvort það hefir batnað eða farið versnandi. Er fróðlegt að fá hér umr. um það, því að vera má, að þær fregnir, sem borizt hafa út um bæinn um skólann, séu ekki sem áreiðanlegastar. Piltar hafa föst samtók um það að flíka ekki neinu, sem gerist innan veggja skólans, en samt er það nú svo, að það sigur ýmislegt út úr stofnun, sem er hér í miðjum bænum, þar sem hæstv. dómsmrh. fann bókasafnið, sællar minningar. Ég hefi t. d. handa á milli blað það, sem Menntaskólapiltar gefa út, og ætti það að vera nokkur spegilmynd þess, hvílíkur bragur er í skólanum. Þetta blað hefst á svofelldri „trúarjátningu“ nemandanna:

„Ég trúi á Jónas frá Hriflu, sem lét mér í té kamra, vindsnældur og fatasnaga. Ég trúi á hans pólitísku vindsnældu, Pálma Hannesson, sem getinn var á venjulegan hátt, píndur undir Valtý Stefánssyni og Árna frá Múla, svívirtur, smánaður, kvalinn, féll í áliti, reis upp eftir marga daga og stefndi Árna og Valtý. Ríður nú röftum í höll sannleikans og mun þaðan kveða upp áfellisdóma yfir þeim, sem völdu gullið í stað sannleikans“.

Ég læt menn sjálfa um að dæma um það, hvernig umhorfs er í skóla, þar sem nemendurnir byrja blað sitt með því að snúa út úr hinni postullegu trúarjátningu, hvað svo sem líður virðingunni, sem lýsir sér í þessari trúarjátningu piltanna fyrir hæstv. dómsmrh. og hans pólitísku vindsnældu, rektor skólans. En ég fæ ekki skilið, að það sé hollur jarðvegur, sem slíkt og annað eins sprettur upp úr, og að þurft hefði að fá mann langt að til þess að fá þennan jarðveg fram. En auk þessa virðingarleysis, sem virðist ríkja í skólanum, fyrir öllu á himni og jörðu, kveður mjög að því, hve piltar sækja illa kennslustundir. Þeir eru út um hvippinn og hvappinn um sama leyti dags og kennsla fer fram í skólanum, eins og þeir séu sjálfs sín herrar. Ég vissi til þess, að ferðamaður, sem var staddur hér í bænum, en var ókunnugur og þurfti því á hjálp að halda við erindi sín, fór að rekja þessi vandræði sín fyrir frænda sínum, sem stundar nám í Menntaskólanum. Pilturinn bauðst óðara til að hjálpa honum, og þegar þessum manni þótti þetta hálfskrítið, og spurði hann að því, hvort hann þyrfti ekki að sækja tíma í skólanum, svaraði pilturinn því einu, að það gerði ekkert til, hann réði því sjálfur. Og svo liðu tveir dagar, að pilturinn lét ekki sjá sig í skólanum, en var að hjálpa frænda sínum við þau erindi, sem hann þurfti að reka hér í bænum. Þó að það væri ekki sterk stj. í Menntaskólanum þegar ég var þar við nám, þá datt okkur piltum samt aldrei í hug að valsa um bæinn meðan tímar voru og hjálpa einum eða öðrum til að reka erindi sín. Ég veit heldur ekki, hvað rektorinn, sem þá var, Jón sál Þorkelsson, hefði sagt, hefðum við fundið upp á öðru eins háttalagi. Við þetta bætist svo, að sagt er, að slitnað hafi með öllu upp úr milli eins kennarans og nemandanna, svo að kennslan hefir fallið niður í hans grein, án þess að rektor skólans tækist að taka í taumana. Slíkt nær vitanlega engri átt, að nemendurnir geti sagt kennurum sínum upp trú og hollustu þegar þeim býður svo við að horfa, þannig, að kennsla hætti. Með slíkum vettlingatökum fer allur agi út um þúfur. Rektor skólans átti að sjálfsögðu að setja nemöndunum stólinn fyrir dyrnar og segja: Annaðhvort sækið þið tíma eða farið. En í stað þess að gera þetta, er sagt, að rektor hafi lúffað fyrir piltunum og gengið inn á kröfu þeirra um að fá nýjan kennara í þessari námsgrein.

Þannig hefir það þá reynzt þetta „nýja blóð“, sem hæstv. dómsmrh. var að veita inn í Menntaskólann. Og þetta var eina ástæðan, sem heyrzt hefir færð fyrir því, að Pálma Hannessyni var veitt rektorsembættið og þannig tekinn fram yfir alla aðra. Ég leyfi mér að fullyrða það, með tilliti til þess, sem ég nú hefi sagt, að skólalífið í Menntaskólanum hefir ekki batnað, heldur versnað, síðan nýi rektorinn tók þar við stj., að ég nú ekki tali um það ranglæti, það óverjandi ranglæti, sem kom fram í því að veita Pálma Hannessyni þetta embætti. Hæstv. dómsmrh. getur hellt sér yfir mig með skömmum, en hann getur aldrei varið þessa veitingu sína. Þó að Pálmi Hannesson væri jafnoki Caesars eða Washingtons réttlætti það ekki þessa ráðstöfun ráðh., og þar sem honum hefir ekki farið skólastjórnin betur úr hendi en ég hefi lýst, verður dómurinn yfir hæstv. stj. algjörlega fellandi.

Þá kem ég að skipherranum á Ægi. Eins og kunnugt er lét fyrrv. stj. byggja Óðinn 1925, og árið eftir keypti hún Þór af Vestmanneyingum til landhelgisgæzlunnar. Var þetta djarft spor, sem Sjálfstæðisflokkurinn steig með þessu, og mikið undir því komið, hvernig færi, einkum um val yfirmanna. Þó að gnótt væri hér góðra sjómanna var næstum enginn, sem uppfyllti þau skilyrði, sem gera verður til foringja á varðskipi. Þegar Vestmanneyingar keyptu Þór var aðeins um einn mann að gera, sem gæti uppfyllt þessar kröfur, Jóhann P. Jónsson. Hafði hann gengið á liðsforingjaskóla og auk þess gegnt liðsforingjastöðu á stríðstímunum. Þennan mann fengu Vestmanneyingar fyrir skipherra á Þór, og þegar Óðinn kom til sögunnar var hann gerður að skipherra á honum, en fyrsti stýrimaðurinn á Þór fór utan til þess að fullnuma sig og búa sig undir að taka við skipherrastöðunni á honum. Eftir þetta virtist brautin bein fram undan, og sjálfsagt að þessir tveir skipherrar hækkuðu í tigninni eftir því, sem betri og stærri skip bættust við í flotann, svo framarlega sem ekki yrði fundið að embættisrekstri þeirra. En ég held, að enginn gerist til þess að halda því fram, að þessir menn hafi brotið neitt af sér. Þeir eru báðir ágætir sjómenn og hin mestu prúðmenni í allri framkomu. Hefir það ekki lítið að segja, því að þótt þessir menn umgangist aðallega lögbrjóta vegna starfs síns, er ekki sama, hvernig fram við þá er komið. Eftir að þessir menn höfðu verið settir yfir landhelgisgæzluna lærðist okkur fyrst að reka gæzluna, og það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu fengsæl landhelgisgæzlan hefir orðið í höndum þeirra.

Næst gerist það fyrir atbeina Sjálfstæðismanna, að þriðja skipið er byggt til strandvarnanna. Er það stærsta skipið, líklega helmingi stærra en Óðinn. Sýndist nú sjálfsagt, að annarhvor gömlu skipherranna tæki við foringjastöðunni á þessu nýja skipi, og þó fremur skipherrann á Óðni, vegna þess að hann hefir lengri embættisaldur að baki.

Ef ekki var hægt að sanna upp á þessa menn, að þeir dygðu ekki til starfans, þá var ekkert, sem gat komið í veg fyrir það, að annarhvor þeirra fengi stöðuna, nema hlutdrægni. Hana vantaði svo sem ekki, enda hafði ráðh. frá upphafi lagt fæð á þessa tvo skipherra, brotið á þeim lög, lækkað kaup þeirra, og sýnt þeim allskonar ójöfnuð. Og nú seilist hann fram hjá þeim báðum, þegar hann á að veita skipherrastöðuna á þessu stærsta og vandaðasta skipi flotans, og veitir hana stýrimanni á öðru eldra skipinu. Hvað valdið hefir, eða hvort skipherrarnir hafa ekki verið nógu liðugir sem pólitískar vindsnældur, veit ég ekki, en engum dylst það, að hér hefir hið magnaðasta ranglæti verið haft í frammi. Það efast enginn um, að þessi maður er röskleikamaður og ágætur sjómaður, en hann hafði ekki fengið neina sérmenntun til þessa starfs, og hann var ekki stöðu sinnar eða reynslu vegna rétt kominn að þessu embætti. Það hefir engin áhrif á dóm minn um þetta, að einmitt sá maður, sem naut hér náðar stj., er fornkunningi minn, en hinir mennirnir mér ókunnir þar til nú fyrir skemmstu.

Í hvaða flokki, sem hv. þm. eru, hljóta þeir þó að skilja, að það er ekki rétt að launa mönnum þannig vel unnin störf, og þetta ranglæti hlýtur öllum heiðarlegum mönnum að gremjast, því að vitanlega er þetta gert af pólitískum ástæðum.

Ég ætla þá að víkja að annari persónulegri veitingu, þótt vont sé að bera skömm saman við skömm, en sama svívirðingin hefir þar átt sér stað, að embættin hafa verið veitt án þess. að tekið hafi verið tillit til verðleikanna, en óvildin gegn einstökum umsækjendum hefir þar ráðið úrslitum.

Síðan núv. stj. kom til valda hafa tvær póststöður losnað, nefnilega póstmeistaraembættið og póstmálaritaraembættið. Í bæði þessi embætti virtust sjálfsagðir menn, og ef vel hefði átt að vera komu þeir einir til greina, en af því varð nú ekki alveg. Ekkert virðist sjálfsagðara en að Guðmundi Bergssyni hefði verið veitt póstmeistarastaðan, því að hann hafði manna bezt unnið til hennar. Ég minnist þess, að þegar ég var hér í Reykjavík fyrir 20 árum, þá var bróðir minn hér á pósthúsinu, og átti ég þá stundum tal við hann um póstafgreiðsluna. Þá sagði hann mér, að hún væri nú nokkuð misjöfn, en á einum stað skeikaði aldrei í neinu, hvort sem um útlendan eða innlendan póst væri að ræða, og það væri hjá Guðmundi Bergssyni, sem þá var póstafgreiðslumaður á Ísafirði. Guðmundur Bergsson er búinn að vinna að póstmálunum um tugi ára, og nú hafði hann náð svo langt, að hann var kominn til Reykjavíkur og hafði verið skipaður póstmeistari eftir fráfall Þorleifs Jónssonar, en þegar staðan er veitt, hvað skeður þá? Þessi maður fær ekki stöðuna. Nú veit ég ekki, hvað valdið hefir, því að á síðari árum hefir hann ekki gefið sig neitt að pólitík, en líklegt þykir mér, að þessir pólitísku þefarar stj. hafi ekki fundið af honum rétta lykt, og því var sóttur sócíalisti austan af Seyðisfirði til að gegna þessu embætti. (Dómsmrh.: Sótti Guðmundur um embættið?). Já, hann gerði það. (Forsrh.: Hafði hann meðmæli póstmeistara?). Það veit ég ekki, en nú skal ég sýna fram á, hvað hæstv. stj. tekur mikið tillit til þess, þótt meðmæli fylgi umsóknum. Það vildi svo til, að póstmálaritarastaðan losnaði sökum veikinda Óla P. Blöndals, og hafði Magnús Jochumsson gegnt þessari stöðu nokkuð á annað ár, án þess að fá nokkura launauppbót. Þessi maður sækir svo um stöðuna, en tveir menn, sem aldrei hafa starfað að póstmálum, keppa við hann. Annan þessara manna þekki ég vel, því að hann er lærlingur minn, og ég veit, að hann er ágætur maður, en hinn manninn þekki ég ekkert. Báða þessa menn skorti þá þekkingu og þá reynslu, sem nauðsynleg var til þess að hægt væri að veita þeim embættið, og Magnús Jochumsson virtist því sjálfsagður í stöðuna. En hvað kemur þá upp úr kafinu?

Fyrir mörgum árum hafði Magnús Jochumsson skrifað heldur óþvegna skammagrein í eitthvert blaðið um Tryggva Þórhallsson, sem sjálfur hafði aldrei verið spar á skömmunum. Greinin mun hafa verið hvassyrt, og komið ónotalega við kaun núv. forsrh., enda hefi ég heyrt til þess tekið, hver kraftur hafi verið í greininni

Nú skyldi maður ætla, að hæstv. forsrh., sem sjálfur hafði fengið fjölda sektir fyrir rit sín, hefði ekki kippt sér neitt upp við það, þótt hann fengi óþvegna skammagrein, en greinin virðist hafa hitt markið. Þrátt fyrir það, þótt M. J. hefði náttúrlega óskoruð meðmæli aðalpóstmeistara, vildi hæstv. ráðh. ekki veita honum stöðuna sökum þessarar greinar, að því er sagt er, heldur hlaut maður stöðuna, sem alls ekki hafði sótt, og er mér sagt, að persónulegur kunningsskapur hafi ráðið því.

Það er erfitt að gera upp á milli pólitískrar hlutdrægni og persónulegrar, eins erfitt og að gera upp á milli skammar og ósóma (hlátur), en báðar tegundir virðist stj. eiga, og hér er þá komið sýnishorn af persónulegu hlutdrægninni. Það mætti ennþá nefna fjölda dæma, þar sem þessi hlutdrægni hefir komið í ljós, og get ég þá t. d. nefnt, að á Sandi átti að sameina póst og síma, og vildi símstjórinn taka starfið að sér, en af því að það var ekki rétt pólitísk lykt af honum, var öðrum auðvitað veitt það. Sömu sögu er að segja úr Árnessýslu. Þar var póstafgreiðslan tekin af séra Ólafi og flutt að Ölfusárbrú, en þótt símstjórinn sækti um stöðuna, var ekki við það komandi, að honum yrði veitt hún, heldur var maður sóttur norður í Strandasýslu, og honum veittur biti.

Ég hefi svo margt að segja, að ég sé fram á það, að tími muni ekki vinnast til að tína allt til, og verð því að sætta mig við að grípa aðeins á fáum þeim kýlum, sem líkami stj. er alþakinn af. Það gengur nú svona, að þegar maður kemst í eldhúsið, þá er nóg eldsneyti til að brenna.

Það er ekki nóg fyrir stj., að stöður losni, því að þegar stj. þykir þær ekki losna nógu ört, er hlaupið í að búa til ný embætti og stöður, og er Esjuútgerðin gott dæmi þess. Eimskipafélagið hefir gert Esju út, og bauðst nú til þess að annast þá útgerð fyrir svo lágt verð, 1800 kr. á mánuði, að óhugsandi er að gera það eins ódýrt á nokkurri sérstakri skrifstofu. Hæstv. dómsmrh. hafði í bæklingnum „Komandi ár“ skrifað um nauðsyn þess að sameina útgerðir ríkisins undir Eimskipafélagið. En nú var nýr Pálmi sprottinn, Pálmalundur stj. aukinn, en reynslan mun sýna, að af því mun leiða mikinn kostnað fyrir ríkið, því að hinn svo kallaði brauða- og flotamálaráðh. og hv. 4. þm. Reykv. munu einnig fá þarna feitan bita, enda er sagt, að þetta hafi verið gert til að útvega þessum mönnum að éta. Ég hygg, að allir landsmenn séu miklu frekar sammála hæstv. dómsmrh. í greininni „Komandi ár“, heldur en nú, þegar allt þetta fargan er gert út af einu skipi, og ef til vill nokkrum flóabátum. Það er enginn efi á því, að bezt væri að láta Eimskipafélagið taka alla afgreiðslu þessara skipa að sér fyrir lítið, heldur en að ríkið fari að kosta til þess ærnu fé.

Þá kem ég að læknamálinu, en af því að það er svo víðtækt verð ég aðeins að stikla á stærstu steinunum, og skal ég þá víkja að veiting læknisembættisins í Keflavík. Læknaembættin á samkv. 1. að veita eftir till. landlæknis. — Hæstv. dómsmrh. kunni ekki við að hafa slíkt vald við hlið sína og braut því þessa reglu. Hann gekk jafnvel svo langt, að hann veitti hvert embættið eftir annað eftir eigin geðþótta, ýmist án þess að spyrja landlækni, eða móti till. hans. Til að fóðra þetta gerræði var svo oft smalað einhverjum undirskriftum í þeim héruðum, sem hlut áttu að máli, og loks voru læknar svo brýndir af þessu, að þeir ákváðu að nota samtök sín til þess að koma á heilbrigðri reglu í þessum málum. Þeir kusu því n., til að vinna svipað verk og það, sem landlæknir á að inna af hendi, en var bægt frá að vinna: að leggja til sérþekkingu. Þetta var svo kallað ríkisupplausri í Tímanum, en hinu gleymt, að það var ráðh„ sem átti sök á þessari ríkisupplausn, ef einhver var, með því að svipta konung raunverulega veitingarvaldinu, eins og Alþýðublaðið komst svo hátíðlega að orði, og leggja það í hendur einhverra áskorenda.

En þegar læknarnir mynda samtök með sér og skipa n. til þess að gera skynsamlegar till. um þetta mál, þá rís ráðh. upp með offorsi og segir, að ríkisupplausn sé í aðsigi. Við skulum nú athuga þetta mál nokkuð ofan í kjölinn og komast að raun um, í hverju þetta gerræði læknanna var fólgið, sem hæstv. ráðh. talar svo mikið um. Jú, þeir bjuggu til ákveðið kerfi, ákveðnar reglur til þess að fylgja við veitingar læknisembætta. Það voru öll ósköpin, sem hæstv. ráðh. stendur svo mikill stuggur af, að muni hafa upplausn ríkisins í för með sér. Að þessi framkoma læknanna sé byggð á fullri sanngirni og réttlæti sést af því, hversu nákvæmar þessar reglur eru, að þær vísa algerlega á bug öllu persónulegu vali, en eru ákveðinn, fastur mælikvarði, til þess að leggja á umsækjendur. Það er t. d. eitt stig fyrir embættisaldur, eitt fyrir t. d. sérmenntun, eitt fyrir utanför til fullkomnunar, eitt fyrir hátt próf, o. s. frv. Yfirleitt allt það, sem sérstaklega mælir með umsækjanda, er nákvæmlega metið án nokkurrar persónulegrar íhlutunar. Þetta er nú þessi voðalega ríkisupplausn. Nú sjá það vitaskuld allir sannsýnir menn, að læknarnir hafa ekkert gert annað en það, sem þeir voru knúðir til þess að gera. Þetta var neyðarvörn læknanna gegn rangsleitni þessa ráðh., sem brotið hefir á þessari stétt bæði l. og venjur, og komið fram með meira ofstæki, einræði og frekju í garð læknastéttarinnar, heldur en bjóða má frjálsbornum, vel menntuðum mönnum. Gerræði ráðh. hlaut því að knýja þessa stétt til andstöðu, til varnar, og hafa þeir í þeim viðskiptum gætt fullrar sanngirni, enda þótt framkoma ráðh. gæfi einatt lítið tilefni til slíks. Nú er fróðlegt að bera saman við þetta kerfi, sem læknarnir vilja láta veita embættin eftir, það kerfi, sem hæstv. dómsmrh. fer eftir í læknaveitingum. Hann þykist vilja veita embættin eftir áskorunum héraðsbúa. Um þetta fyrirkomulag er það skemmst að segja, að það mun vera það lang-ófullkomnasta á alla lund, sem hugsanlegt er. Þá væri betra að einn maður réði óskorað, eða að héruðin kysu læknana, eða eitthvað þvílíkt. En að fara eftir áskorunum nokkurra manna í héruðunum, sem engin trygging er fyrir að séu meiri hl. héraðsbúa, það er alveg fráleitt form fyrir embættaveitingum. Það er ekkert hægt um það að segja, hversu hart hefir verið gengið að mönnum um undirskriftir, og það getur líka vel komið fyrir, að farið sé að safna undirskriftum fyrir einhvern ákveðinn umsækjanda áður en umsóknarfrestur er liðinn, og að síðar komi svo fram einhver umsækjandi, sem héraðsbúar kysu miklu fremur. Hversu meingallað slíkt fyrirkomulag er og hefir reynzt má sjá af prestskosningunum. Það kemur þrásinnis fyrir, að skorað er á prest að sækja um brauð, en sem hefir fallið þegar til kom. Er þess t. d. skemmst að minnast, að ekki fyrir löngu var skorað á prest hér í nágrenni Reykjavíkur að sækja um brauð eitt. Vegna þess, hve margar áskoranir bárust honum, lét hann að lokum undan og sótti, en — mikil ósköp — hann féll með miklum atkvæðamun. Þetta stórgallaða og stórhættulega fyrirkomulag vill nú hæstv. ráðh. innleiða um læknaveitingar. — Ennfremur ber á það að líta, að héraðsbúar eiga þess sjaldnast kost að dæma um umsækjendur af reynslu, heldur kemur þar miklu fremur ýmislegt annað til greina, sem bezt væri að blanda ekki inn í þessa hluti. Afleiðing af slíku er það, að ekkert réttlæti og skynsemi mega sín nokkurs framar í þessum efnum. Í stað þess eru það agitationir, pólitískt flokksfylgi og persónuleg kynning, sem ræður. Sérþekking, há próf, embættisaldur og reynsla eru að engu höfð í þessum efnum. Afleiðingin hlýtur að verða handahóf í veitingum embættanna, sem um leið er ranglæti gagnvart mörgum umsækjanda, gerræði og blekking gagnvart héruðunum sjálfum, og lamandi fyrir framahug læknanna í landinu, því þá er minni hvöt fyrir lækna að reyna að verða nýtir í stöðum sínum, ef þeir eiga þess engan kost síðar að fá betri héruð. Svo reynir hæstv. ráðh. að telja mönnum trú um, að þetta sé einhver háleit og göfug hugsjón, sem hann er að hrinda í framkvæmd með því að taka upp þetta fyrirkomulag. En þar hallar hann réttu máli, sem endranær.

Loks kemur hin margumtalaða veiting Keflavíkurhéraðs. Þá er það, að hæstv. ráðh. beitir einhverju því mesta einræði og gerræði, sem nokkur stjórnarherra getur gripið til. Héraðið er auglýst laust og margir sækja um. Embættan. Læknafélagsins tekur málið til athugunar á þeim grundvelli, sem hinar settu reglur ákveða, og niðurstaðan verður sú, að einhver harðasti andstæðingur ráðh. fær meðmæli n. Nú var svo sem ekki að sökum að spyrja. Vitaskuld virti ráðh. þessar vel athuguðu og óhlutdrægu till. n. að vettugi. Nú var um að gera að geta sundrað samtökum læknanna, fengið einhvern úr þeirra hópi til þess að svíkjast undan merkjum og taka við embættinu. Hann fór með þá upp á afarhátt fjall til þess að ginna þá til að þiggja embættið. En allt kom fyrir ekki. Sá, sem að lokum lét tilleiðast, gerði það mjög nauðugur, og meira að segja afsalaði sér stundum embættinu, en slíkt tjóaði nú ekki. Það þarf nú ekki í grafgötur að leita um þær hvatir, sem lágu að baki þessa atferlis hæstv. dómsmrh., það var hrein og bein pólitísk hlutdrægni, samfara hefndarfýst og persónulegri óvild. Og það, sem sérstaklega er athugandi í þessu sambandi er það, að hér var ekki leitað álits héraðsbúa, enda mun ekki hæstv. ráðh. þótt eigandi undir því, ef ske kynni að óskir héraðsbúa pössuðu ekki við vilja hans. Og það er líka á allra vitorði, að lækninum var beinlínis þröngvað upp á hérðasbúa, því hann er, sökum heilsubrests, ófær til þess að gegna stóru læknisembætti. Á þessu litla dæmi sést, að allt tal ráðh. um vilja héraðsbúa, þegar um er að ræða veitingu læknisembætta, er hreinn fyrirsláttur og ekkert annað. Um þetta hneykslismál, sem er eitt af mörgum, mætti vitaskuld tala mjög langt mál, en til þess er ekki tími að svo stöddu. Gefst mér væntanlega tilefni og tækifæri til þess að ræða það mál frekar við þessa umr.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að veitingu útvarpsstjórastöðunnar. Það er af hendingu að ég tala um hana síðast, því að um þá veitingu má segja með öruggri vissu, að hún er pólitísk hlutdrægni og verður að öðru leyti á engan hátt réttlætt. Þessi veiting er miklu alvarlegri en flestar aðrar embættaveitingar, vegna þess að embætti þessu hljóta að fylgja mikil áhrif á allt menningar- og þjóðlíf okkar. Það má segja um útvarpið, að það er það menningartæki nútímans, sem erfiðast mun að segja fyrir um, hve mikið býr í. En svo mikið mun þó óhætt að fullyrða, að útvarpið er vafalaust einn voldugasti og áhrifamesti þátturinn í menningarlífi komandi ára. Hingað til hefir ekki verið unnt að tala til nema fárra manna í einu, en með útvarpinu er mögulegt að tala til heillar kynslóðar. Með því er unnt að tala til allrar þjóðarinnar og meira að segja til annara þjóðlanda. Af þessu má ráða, hversu geysileg ábyrgðarstaða það er að veita útvarpinu forstöðu. Það er því auðsætt, að veita má slíkt embætti aðeins framúrskarandi góðum mönnum. Hér máttu sízt koma til greina pólitískir flokkshagsmunir né flokksfylgi, og allra sízt skipa þanni mann, sem ber var að því að vera harður flokksmaður. Allt veltur á, að misnota ekki þetta merkilega menningartæki. En hvernig fór? Það má að því leyti líkt um þessa veitingu segja og veitingu Búnaðarbankastjórastöðunnar, að stj. flýtti sér að slá embættinu upp, ákveða launin nógu há, þó þau vitanlega væru ekki alveg eins há og bankastjóranna, en þó til muna hærri en t. d. biskups, landsímastjóra og annara slíkra embætta. Það lá mikið á að hola þarna niður einum gæðing stj., og það þurfti að gerast strax, enda þótt ekkert útvarp væri komið á fót. Í l. í fyrra skyldi skipa útvarpsráð. Það virðist nú dálítið hæpið, hvernig það er skipað, en ég mun ekki fara frekar út í þá sálma að sinni. Í því eru þeir Helgi Hjörvar, Páll Ísólfsson og Alexander Jóhannesson. Útvarpsráðið auglýsti nú stöðuna lausa og um hana sóttu nokkrir menn, sem flestir voru prýðilega gefnir, hámenntaðir og háskólagengnir menn og alkunnir mannkostamenn, eins og t. d. Baldur Sveinsson blaðamaður, sem hefir almenningsorð fyrir mannkosti og gáfur og alveg sérstaklega mikla þekking á íslenzkri tungu. Svo má nefna ýmsa fleiri ágætismenn, svo sem Vilhjálm Þ. Gíslason magister og séra Ragnar E. Kvaran prest í Vesturheimi, sem að mörgum þótti sem mest hefði skilyrðin til þess að takast starfið á hendur. En auk þessara manna, sótti einnig ritstjóri að einu harðvítugasta og ófyrirleitnasta flokksblaði, sem út hefir verið gefið hér á landi, maður, sem orðinn var þjóðkunnur fyrir pólitískt ofstæki, ófyrirleitni og ofsa, sem mjög benti til lágrar menntunar. Þetta var ritstjóri Tímans og fyrrv. ritstjóri Dags, Jónas Þorbergsson. Frá sjónarmiði almennrar skynsemi hlaut þessi maður með öllu að vera útilokaður frá því að koma til greina í þessu sambandi, og því fremur, sem úr var að velja ágætum mönnum, menntuðum, viðurkenndum gáfu- og mannkostamönnum. En hvað skeður? Þrátt fyrir hina syndugu fortíð þessa ófyrirleitna blaðamanns, og þrátt fyrir menntunarleysi hans samanborið við hina umsækjendurna, og þrátt fyrir það þótt hann væri allra umsækjendanna lakastur að öllu leyti, varð hann samt sem áður valinn. Einhverntíma hefðu slíkt þótt mikil tíðindi og ill, en nú er maður orðinn svo mörgu misjöfnu vanur af hendi núv. stj., að jafnvel slíkt atferli hefir fremur lítið verið átalið. Það hefir verið sagt, að hæstv. forsrh. hafi þótt þessi ritstjóri ekki gera nógu mikið úr sér og sínum verkum, og hafi því gjarnan viljað losna við hann frá ritstjórn blaðsins. Því var það, að einn fyndinn náungi sagði, að Jónasi Þorbergssyni hafi verið veitt útvarpsstjórastaðan vegna ókosta hans en ekki vegna kosta hans, þ. e. a. s. ekki vegna kosta hans sem útvarpsstjóra, heldur vegna ókosta hans sem ritstjóra Tímans. Annars mætti margt um þennan mann segja, sem ekki á við á þessum stað, þar sem hann er ekki viðstaddur og jafnvel ekki hérlendis. En ef ætti í fám orðum að segja það um hann, sem að líkindum væri sanni næst, þá er það það, að hann ætti að vera áfram ritstjóri Tímans, þar hæfir hvort öðru, en útvarpsstjóri ætti hann að vera sízt allra manna. Það fór vel á því að hafa slíkan sannleikspostula fyrir stjórnarblaðinu. Þar hæfði skel kjapti.

Að lokum má benda á það gerræði í þessu máli, að umsóknarfresturinn var styttur til þess að bægja frá þeim umsækjandanum, sem að flestra dómi hafði bezt skilyrði til að gegna embættinu. Þannig var búin til átylla til þess að hundsa þessa umsókn. Með því að taka til greina umsókn séra Ragnars Kvarans hefði tvennt áunnizt að dómi margra: fengizt heim ágætur maður, sem nú dvelur erlendis, og um leið fengizt ágætur maður sem útvarpsstjóri. Hann er gáfumaður með afbrigðum, og raddmaður í bezta lagi, sem er mikill kostur á manni, sem tala á í útvarp, hann er söngvinn maður og hefir prýðilegt vit á hljómlist. Allt eru þetta kostir, sem prýða mann í þessari ábyrgðarstöðu.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þessa hluti. Þessi fáu dæmi, sem ég hefi nefnt, sýna það og sanna, hve greypilega hæstv. stj. misnotar veitingavaldið. Það er ekki nema um tvennt að ræða: pólitísk hlutdrægni eða persónuleg hlutdrægni. Allt annað víkur fyrir þessum meginlögmálum stj. Engin trygging er fyrir því framar í þessu landi, að hæfir menn, menntaðir og vel hugsandi setjist í embætti. Þetta er spilling, rotnun í opinberu lífi þjóðarinnar, sem fyrr eða síðar leiðir til ófremdar og ófarnaðar fyrir þjóðina í heild.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.