24.03.1930
Neðri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög 1931

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. þm. Reykv. hagaði svo ræðuhöldum sínum á laugardaginn, að engir komust til að tala aðrir en hann. Hv. þm. talaði hér í 2½ tíma samfleytt, og býst ég við, að hann beri í því af okkur ráðherrunum þegar við svörum honum, að hann noti lengri tíma. Í því sambandi vil ég aðeins rifja það upp með hv. þm., að okkur var sameiginlega kennt það, þegar við vorum við nám, að við ættum að tala í hálftíma, og var það það allra mesta. Og yfirleitt var það svo, að til þess að ganga fullkomlega frá kölska kalli og öllum hans árum var hálftími álitinn nógur.

Nú hefir hv. þm. álitið, að hann þyrfti 5 sinnum lengri tíma. Hann hefir syndgað fimmfalt hvað formið snertir og ennþá meira hvað innihaldið snertir. Ég veit ekki hvernig fer fyrir mér, en ég geri ráð fyrir, að ég syndgi ekki eins mikið og hv. 1, þm. Reykv. í þessu.

Ræða hv. þm. var í tveimur köflum. Fyrst var stuttur kafli, þar sem hann vék að einstölrum atriðum í svarræðu minni út af ásökunum hv. 1. þm. Skagf. Út af þessum ummælum ætla ég að segja nokkur orð.

Hv. þm. kvartaði undan framkomu minni hér við eldhúsdagsumr. Honum féll það illa, að þegar andstæðingar mínir eru búnir að skamma mig, skuli ég standa hér upp og þakka þeim. Mér finnst ekki sérstaklega vel viðeigandi fyrir kennara í guðfræði, að kvarta undan því, þótt menn snúist svo við, þegar þeir lenda í orðakasti. Hygg ég að hv. þm. hafi fulla þörf á að endurskoða siðfræði sína í þessu efni. En ég þykist vel skilja hvers vegna hv. þm. og flokksbræðrum hans er svo illa við þessa framkomu mína. Fyrst þetta bítur svona á ráðh., að hann þakkar okkur, þá hljóta að vera einhver mistök hjá okkur. Jafnvel þegar við tökum hans eigin vopn, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði, þakkar ráðh. Þetta hlýtur að hafa mistekizt hjá okkur. — Og þetta er alveg rétt hjá hv., þm.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um eldhúsdaginn og þýðingu hans. Hv. þm. gat þess réttilega, að við hefðum ólíka skoðun á þýðingu þessa dags. Hv. þm. áleit hann þýðingarmikinn og alvarlegan dag. Hann áleit eldhúsdagsumr. sérstaklega góða sögulega heimild. Verð ég að segja, að mér virðist ekki fara vel á því, að prófessor í sögu við háskólann skuli leggja slíkt mat á það, hvað séu góðar sögulegar heimildir.

Ég er ósammála hv. þm., því að mér virðist þessi eldhúsdagur vera eins og hinir fyrri. Þeir hafa aðallega verið þannig, að hv. stjórnarandstæðingar hafa lesið heila dálka upp úr Morgunblaðinu og látið prenta þá í Alþingistíðindunum. Hv. þm. kom líka með heilan árgang af Morgunblaðinu eða Ísafold, og lagði hann á borðið hjá sér þegar hann fór að tala.

Nú er það lýðum ljóst, hversu góð söguheimild greinarnar í Morgunblaðinu eru. Og ekki verða þær betri fyrir það, þó að þær séu endurprentaðar í Alþingistíðindunum.

Ég lít á eldhúsdaginn, eins og hv. stjórnarandstæðingar stunda eldamennskuna nú, sem ómerkilega tilraun til að lengja þingið. Í fyrra var hann ekkert annað en það, að prenta upp það, sem blöð Íhaldsmanna höfðu flutt árið á undan. Þess vegna álít ég, að það hefði verðið miklu einfaldara fyrir þessa hv. þm., að merkja þá dálka með rauðu, sem þeir vilja láta prenta upp, og koma með þá þannig í prentsmiðjuna, heldur en að vera að slíta sér út á því að vera að tala þetta hér á Alþingi og þreyta okkur á því að hlusta á þá.

Hv. þm. drap á einstök atriði í ræðu minni til hv. 1. þm. Skagf. Fyrsta atriðið, sem hann lagði mikla áherzlu á, var fjósið á Hvanneyri. Hv. þm. lagði svo mikla áherzlu á það, hvað þetta hefði lýst miklu einræði hjá stj. Hún hefði gert þetta algerlega í heimildarleysi. Ég hefi vikið nokkuð að þessu í svarræðu minni til hv. 1. þm. Skagf., en vil þó víkja að því nánar.

Þegar ráðizt var í að byggja fjósið, já fyrir samþykkt frá Alþingi til þess að gera það. Einungis var gert ráð fyrir lægri upphæð og að unnt væri að nota veggi gamla fjóssins. Sú breyt., sem á þessu var gerð, var gerð í samráði við fjvn. Nd., því við rannsókn húsameistara ríkisins kom það í ljós, að ekki var hægt að byggja á sama grunni og áður. Að þessu leyti er því alrangt að tala um einræði stj. í þessu efni. Hún hafði til þessa góðar heimildir. En ég vil í því sambandi minna á tvö hliðstæð dæmi frá tíð fyrirrennara míns, hv. 1. þm. Skagf.

Annað er um aðra húsbyggingu á Hvanneyri. Það var ekki fjós, sem þá var byggt, heldur íbúðarhús. Og eftir þeim upplýsingum, sem fengizt hafa, kostaði það ekki 130 þús. kr., heldur tvisvar sinnum 130 þús. kr., eða um 260 þús. kr. Ég veit ekki með hvaða heimild hann hefir gert það. Ég áfelli hann ekki fyrir þetta. Það var ekkert undanfæri að byggja húsið þá, alveg eins og nú var ekkert undanfæri að byggja fjós.

Þá er annað hliðstætt dæmi frá hinum bændaskólanum, á Hólum. Það var árið 1927, þegar hv. l. þm. Skagf. var atvmrh. Þá lá hér fyrir Alþingi till. um að reisa fjárhús á Hólum. En sama daginn og ég sem frsm. fjvn. talaði fyrir þessari till. var útboð í verkið auglýst í Morgunblaðinu. Það var því gert áður en nokkur heimild var til þess fengin. Ég ásaka ekki hv. 1. þm. Skagf. fyrir þetta. Hann varð að gera þetta. Það varð ekki hjá því komizt. En nú ásaka þeir félagar og nafnar mig, er ég hafði miklu réttari heimild.

Svo klykkir hv. 1. þm. Reykv. út með þeim orðum um mig, að ég hafi sérstaka ást á því að nota fé án heimildar í fjárl.

Hv. þm. nefndi sem dæmi, að ég hefði við 3. umr. fjárl. ekki viljað fá fjárlagaheimild til að fullgera Vesturlandsveginn og ætli mér að láta leggja þann veg án fjárlagaheimildar. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Það eina, sem ég ætla að gera og það hefir hver einasta stjórn leyfi til að gera, — er að flytja fjárveitingar, sem heimild er fyrir á fjárl., til milli ára. Þetta dæmi er því óheppilega valið hjá hv. þm., því það er einmitt dæmi um það, að ég hefi heimild í fjárl. fyrir því, sem ég ætla að láta framkvæma.

Hv. þm. minntist á Búnaðarbankann og tók þar undir með hv. 1. þm. Skagf. og beindi því til mín, hvers vegna ég hefði skipað stj. svona fljótt. Ég verð að segja hv. þm. það, að það var ekki hægt að koma neinu af stað fyrr en bankastjórn hafði verið skipuð. Hverjir eiga að vinna að því að gera reglugerðir fyrir bankann og ráða fyrirkomulagi hans í einstökum atriðum? Hverjir eiga að gera það aðrir en bankastjórarnir? Það er skiljanlegt hjá hv. þm., að hann vilji ekki láta skipa bankastjóra, því hann hefir aldrei viljað láta stofna neinn Búnaðarbanka. Það kom skýrt fram hjá hv. þm. í fyrra, og raunar hjá fleiri íhaldsmönnum. Hv. þm. er þar í fullu samræmi við sjálfan sig. En hvernig getur hv. þm. verið að ásaka mig fyrir það, að ég hefi komið fram áhugamáli mínu? Hv. þm. mun ekki fá hljómgrunn fyrir þessu úti um byggðir landsins.

Þá vék hv. þm. að rafveitu Skagfirðinga. Hefi ég áður sagt ástæðu mína fyrir því, að ég vil ekki afgreiða þetta mál nú. Hún er sú, að engin heildarlöggjöf er til um þetta efni, en málið hinsvegar mjög vandasamt. Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki borið fram frv. til neinna heildarlaga á þessu þingi eða öðrum. En til þess var enginn von, því að það er enn verið að vinna undirbúningsvinnuna að því, að setja löggjöf um málið. Hinsvegar er það nú alviðurkennt, að það frv., sem íhaldsmenn hafa borið fram um þetta efni, er byggt á rammskökkum grundvelli og að því unnið með hinni mestu hroðvirkni, og aðeins til að sýnast.

Þá skal ég snúa mér að aðalefninu hjá hv. 1. þm. Reykv., sem er embættaveitingar stj. Hv. þm. beindi ræðu sinni mest til mín, enda hafa langflestar embættaveitingar borið undir mig.

Ég skal þá geta þess fyrst, að hv. þm. hélt því fram, að stj. færi eftir fastri reglu um allar embættaveitingar. Ég man ekki, hvort hv. þm. sagði, að það væri nær eða alveg ófrávíkjanleg regla, en þessi hv. þm. er vanur að komast skýrt að orði. Reglan var þessi: Stjórnin fer annaðhvort eftir pólitískri eða persónulegri hlutdrægni um embættaveitingar.

Hv. þm. hefir bezta aðstöðu til að kveða upp dóm um þetta, því hann er einn þeirra, sem hefir orðið fyrir því að koma til greina við embættaveitingar af þessari stj. Ég veit ekki, hvort það hefir heldur verið af persónulegri eða pólitískri hlutdrægni, að hann fékk veitingu fyrir því embætti. (MJ: Það er bezt að spyrja flokksmenn hæstv. stjórnar. Þeir hafa skammað stj.). Ég var nú að spyrja hv. 1. þm. Reykv. Ég spyr nú hv. þm. alveg ákveðið: Hvort var það heldur pólitísk eða persónuleg hlutdrægni, er ég veitti honum prófessorsembættið?

Árásir hv. þm. á mig hafa aðallega verið á þrem sviðum, um skipun bankastjóra Búnaðarbankans, póstmannaembættin og útvarpsstjóraembættið.

Hv. þm. ásakaði mig einkum fyrir skipun aðalbankastjórans í Búnaðarbankanum, og virtist hneykslast mjög á því, að mér hefði dottið í hug að setja dr. Pál Eggert Ólason í það embætti. Hneykslun hv. þm. stafaði einkum af því, að honum fannst alveg sjálfsagt að taka einhvern bankamann. Ég er á allt annari skoðun en hv. þm. Það er svo gersamlega ólíkt að starfa sem starfsmaður í banka, t. d. við bókhald eða gjaldkerastörf, og að vera bankastjóri, sem sé ráða því, hvert eigi að beina peningastraumnum í landinu. Bankamenn geta auðvitað haft þá hæfileika, sem bankastjóra eru nauðsynlegir, en þeir geta líka verið lausir við slíka hæfileika og samt verið vel fallnir til síns starfs. Í bankastjórastöðuna þarf að fá gáfaðan mann, duglegan og sjálfstæðan, sem er gagnkunnugur öllum högum landsins, og landbúnaðarins sérstaklega. Og jafnvel hv. 1. þm. Reykv. hefir játað, að Páll Eggert Ólason hafi þessa hæfileika í ríkum mæli. Svo að ég haldi mér við ummæli ýmissa samherja hv. þm., get ég sagt það, að einn af menntuðustu blaðamönnum í hans flokki hefir sagt, að hann áliti dr. Pál Eggert einhvern alhæfasta manninn í þessum bæ til að vera bankastjóri Búnaðarbankans, og annar samflokksmaður hv. þm., sem situr hér skammt frá mér, hefir látið svo um mælt, að hann álíti veitinguna óaðfinnanlega. Það væri kannske hægt að beina þeirri ásökun til mín, að ekki hefði verið rétt að taka slíkan dugnaðarmann sem dr. Páll Eggert er úr því starfi, sem hann hefir gegnt. En þó að mér sé sagan kær, er mér þessi nýja stofnun enn kærari. Mér er Búnaðarbankinn svo kær, og það er svo áríðandi, að hann fari vel af stað, að ég lét ekkert annað en velgengni bankans ráða þessari veitingu. Ég vissi, að allt hefir blessast í höndunum á Páli Eggert, og um allt hefi ég á honum hið fyllsta traust. Þess vegna veitti ég honum embættið. — Hv. þm. hefir ekkert ásakað mig fyrir að gera Pétur Magnússon að bankastjóra, en út af Bjarna Ásgeirssyni var hann eitthvað óánægður. En ég vil segja, að Bjarni Ásgeirsson er sérstaklega vel að sér á búnaðarsviðinu, einkum er hann vel kunnur öllum nýjungum á sviði búskaparins, enda var hann á síðasta búnaðarþingi endurkosinn í stjórn Búnaðarfélagsins með öllum (12) atkv. Nei, eina stóra ásökunin í þessu máli var sú, að ég skyldi hafa tekið Pál Eggert Ólason, mann, sem er viðurkenndur fyrir frábæra vitsmuni og dugnað. Og þessi ásökun kemur frá manni, sem reis upp hér í hv. d. í fyrra og mælti á móti því, að Búnaðarbankinn yrði stofnaður. En ég veit, að eftir nokkurn tíma verður það einróma dómur þjóðarinnar, að valið á forystumanninum hafi tekizt farsællega, alveg eins og dómur þjóðarinnar var á móti hv. 1. þm. Reykv. í fyrra.

Hv. þm. kastaði til mín þeirri hnútu, að við í stj. værum að leggja Þórð Sveinsson lækni í einelti. Hann hefði verið í stj. Ræktunarsjóðsins í fyrra, en væri ekkert riðinn við Búnaðarbankann núna. Þegar Bjarni Ásgeirsson varð bankastjóri, losnaði hann úr þeirri sérstöku nefnd, sem á að vera stjórn Búnaðarbankans til aðstoðar um lánveitingar úr Byggingar- og landnámssjóði, en Þórður Sveinsson var skipaður í stað hans: Þórður tók þeirri skipun greiðlega og hefir starfað með áhuga í nefndinni, eins og hans var von og vísa. Þetta er nú eltingarleikurinn sá.

Hv. þm. sagði, að ég hefði flýtt mér að búa til útvarpsstjóraembættið. Á þinginu 1928 voru sett lög um þetta mál, en það var ekki fyrr en í ársbyrjun 1930, að útvarpsstjórinn var skipaður. Alþingi skoraði á mig á þinginu 1929 að flýta þessu máli. Ennfremur lágu fyrir till. frá útvarpsráðinu í þessa átt. M. ö. o. var það alveg sjálfsögð ráðstöfun að skipa útvarpsstjóra. Hv. þm. sagði, að ég hefði flýtt mér að ákveða launin. Nefnd var skipuð 1927, og hún ákvað launin í nál. og ég fór eftir því. Sannleikurinn er sá, að þingið hefir oftar en einu sinni verið að reka á eftir mér í þessu máli, sagt mér, að ég þyrfti að flýta mér, — og svo fæ ég aftur skammir fyrir, þegar loks er farið af stað.

Um sjálfa veitinguna ætla ég ekki að segja margt. Vitanlega orkar alltaf tvímælis um slíkar stöður, einkum þar sem ekki getur verið um reynda menn að ræða. Nú hittist svo á, að frá útvarpsráðinu og landssímastjóra komu 4 till. Allt voru það góðir menn, sem stungið var upp á, og ég var þeim öllum kunnugur. Þar sem útvarpsráðinu bar ekki saman, hlaut ég að taka mest tillit til þess, sem formaðurinn sagði, og hann tilnefndi Jónas Þorbergsson. Þetta var nú formlega hliðin. Um efnislegu hliðina er það að segja, að ég trúði á mestan dugnað hjá Jónasi Þorbergssyni af þeim fjórum mönnum, sem til voru nefndir. Hv. þm. sagði, að útvarpsstjórinn mætti umfram allt ekki vera pólitískur maður. Þá var vandlifað fyrir mig, því að allir þessir menn voru pólitískir. Þrír af þeim voru ritstjórar við pólitísk blöð og séra Ragnar Kvaran er yfirlýstur sócíalisti. En hitt er ég sammála hv. þm. um, að þegar þessi pólitíski maður er orðinn útvarpsstjóri, á hann að vera hlutlaus. Jónas Þorbergsson á mest í húfi sjálfur, ef hann verður hlutdrægur. Loks kom rúsínan hjá hv. þm. Hann sagði, að ég hefði veitt Jónasi Þorbergssyni embættið af tveim ástæðum. Annarsvegar af því, að Jónas Þorbergsson væri einhver ákveðnasti og harðsnúnasti vinur minn og samherji. Hinsvegar af þeirri ástæðu, að Jónas Þorbergsson væri orðinn á móti mér og gerði mér allt til bölvunar. Með öðrum orðum: Af tveimur ástæðum veitti ég Jónasi Þorbergssyni embættið:

annarsvegar af því, að hann var svo mikið með mér,

hinsvegar af því, að hann var svo mikið á móti mér.

Slík er rökvísi hv. þm. Þeim, sem nota önnur eins rök og þetta, á að útvarpa. Loks kem ég að póstmönnunum. Áður en ég vík að póststöðunum í Reykjavík, ætla ég að minnast á 3 breyt., sem gerðar voru úti á landi. Hv. þm. fann að því, að ég hefði tekið póstafgreiðsluna af séra Ólafi Sæmundssyni í Hraungerði. Ég gerði þetta af því, að póstafgreiðslan var flutt frá Hraungerði að Ölfusárbrú. Svo stóð á að búið var að fullgera nýja rjómabúið við Ölfusárbrú. Ölfusárbrú varð þá auðvitað enn miklu frekar en áður miðstöð fyrir héraðið, svo að það var alveg sjálfsagt, að þar átti póstafgreiðslan að vera. Hraungerði liggur í miðjum Flóanum og var vel sett fyrir póstafgreiðslu á sinni tíð. Nú er allt öðru máli að gegna, enda hefir póstmálanefndin hiklaust lagt til, að afgreiðslustaðurinn yrði fluttur. Engum einasta manni í Árnessýslu dettur í hug að áfellast mig fyrir þetta.

Þá ásakaði hv. þm., mig fyrir, að póstafgreiðslan í Vestur-Skaftafellssýslu skyldi vera flutt að Klaustri. En það er öllum vitanlegt, að þegar póstafgreiðslan var fyrir nokkrum árum flutt frá Klaustri, var það af pólitískum ástæðum gert, svo að ég var bara að gera sjálfsagða leiðrétting. Kirkjubæjarklaustur er miðstöð í héraðinu, og þar á póstafgreiðslan að vera, enda lagði póstmálanefndin það einróma til.

Það þriðja, sem hv. þm. nefndi, var afgreiðslan á Sandi. Við Framsóknarmenn höfum ekki vitað til, að þar ættum við nokkra fylgismenn, en þegar einn samflokksmaður hv. 1. þm. Reykv. ber þar fram till. um að ásaka mig fyrir afskipti mín af póstmálunum þar, er hún felld þar á 2 fundum af andstæðingum mínum.

Loks kem ég að þyngstu ásökun hv. þm., um veitingu póstmeistara- og póstritaraembættanna hér í Reykjavík. Þeir menn, sem embættin fengu, hafa báðir um áratugi verið í þjónustu póststjórnarinnar og farizt það hið bezta úr hendi. Hv. þm. setti upp reglu, sem sé þá, að ráða mætti með vissu af embættaveitingunum, að mennirnir væru flokksmenn stj. Annar maðurinn, sem um er að ræða, Sigurður Baldvinsson, er jafnaðarmaður: Hinn, Egill Sandholt, er íhaldsmaður. Hvorugur þessara manna er því flokksbróðir stj. Annarsvegar sótti um póstritarastöðuna mjög eindreginn flokksmaður minn frá heimili í Strandasýslu, þar sem búa einhverjir öruggustu fylgismenn mínir. Þessi maður var Einar Guðnason. En ég veitti honum ekki embættið. Hv. þm. vildi halda fram Guðmundi Bergssyni. Hann er vafalaust vandaður maður, en hann er kominn á gamals aldur og póstmálastjóri lagði ekki til, að hann fengi embættið. Ég veitti það Sigurði Baldvinssyni, sem um langt skeið hefir gegnt samskonar störfum á Seyðisfirði og getið sér hinn bezta orðstír. En um leið verður póstafgreiðslustaðan á Seyðisfirði lögð niður og sameinuð stöðvarstjórastöðunni. Sparast ríkissjóði árlega álitleg fúlga við það. Hinsvegar veitti ég þeim manni póstritarastöðuna, sem aðalpóstmeistari lagði eindregið til, að yrði póstmeistari hér í bænum. Þeirri stöðu fylgir mikil peningaábyrgð, umsjón með öllum frímerkjabirgðum og öllum fjárreiðum í fjarveru póstmálastjóra. Ég veitti Agli Sandholt embættið í samráði við póstmálastjóra. Ég leitaði upplýsinga um manninn og treysti honum bezt, að fengnum upplýsingum, og veitti honum þess vegna embættið.

Þá kem ég að stóru syndinni, sem hv. þm. sagði, að væri ekki pólitískt glappaskot, heldur annað miklu verra. Hv. þm. sagði, að persónuleg hefndarlöngun hefði ráðið gerðum mínum. Hv. þm. gat þess, að fyrir, mörgum árum hefði ég lent í blaðadeilum við Magnús Jochumsson, og nú hefði ég hefnt mín á honum, með því að veita honum ekki þá stöðu, sem hann sótti um. Það er erfitt fyrir mig að sanna, að persónulegar hvatir hafi ekki ráðið þessari veitingu. Undir slíkum kringumstæðum komast venjuleg rök ekki að. Og þegar ég nú legg út í að tala um þetta kemst ég ekki hjá því að vera nokkuð persónulegur.

Hv. þm. segir, að ég hafi vegna skammagreinar hefnt mín á gömlum skólabróður á ódrengilegan hátt. Hann segir, að ég hafi misbeitt valdi mínu til þess að níðast á Magnúsi Jochumssyni.

Fyrst vil ég þá spyrja: er það einsdæmi, að skammagrein sé skrifuð um Tryggva Þórhallsson? Nei, þær skipta hundruðum og jafnvel þúsundum. Hv. 1. þm. Reykv. ætti því sannarlega að geta rökstutt það með mörgum dæmum, hvernig þessi vondi maður, Tryggvi Þórhallsson, hefir hefnt sín fyrir þessar skammagreinir. Ég hefi sem sé haft betri aðstöðu en nokkur annar maður á Íslandi til að hefna sín, bæði sem þingmaður og ráðherra. Dæmin ættu því að vera mörg fyrir hendi. En slík dæmi hefir hv. þm. alls ekki nefnt. Ég ætla aftur á móti að leyfa mér að nefna nokkur dæmi, sem benda nokkuð í aðra átt.

Ég nefni þá fyrst til viðskipti mín við annan skólabróður minn. Margar skammagreinir fóru okkar í milli, miklu harðari en milli mín og Magnúsar Jochumssonar. Við háðum saman hina harðvítugustu kosningabaráttu. Og enn harðari varð viðureign okkar, því að hann lögsótti mig og fékk mig dæmdan í fésektir. Síðar fékk ég tækifæri til að nefna mín, og hafði vissulega meiri ástæðu til þess gagnvart honum heldur en Magnúsi Jochumssyni. En hvernig hefndi ég mín? Það kom fram á Alþingi nokkrum árum síðar, þegar hv. þm. Barð. flutti till. um fjárstyrk til þessa skólabróður míns, og það valt á mínu atkvæði, ef ég man rétt, til samþykktar. Svona hefndi ég mín á honum.

Ég get ennfremur nefnt annan skólabróður minn, embættismann nú á Norðurlandi. Við skrifuðum hvor um annan margar skammagreinar, hinar mestu óbótaskammir, sem sézt hafa í blöðum á síðari árum. Það leið ekki á löngu, að ég fengi tækifæri til að hefna mín, — og hvernig gerði ég það? Þessi skólabróðir minn sendi erindi til Alþingis, sem var miklu þýðingarmeira fyrir hann en þessi 500 kr. launaviðbót til Magnúsar Jochumssonar. Ég greiddi atkvæði með þessu erindi, fyrst í fjvn. og svo í þingdeildinni. Miklu meiri ástæðu hafði ég til að hefna mín á honum en á Magnúsi Jochumssyni. Svona hefndi ég mín gagnvart þessum skólabróður mínum.

Þá nefni ég þriðja dæmið, og þar hlýt ég að verða enn persónulegri. En ég þarf að verja hendur mínar gegn mjög illvígri persónulegri ásökun, þeirri ásökun, að ég hafi misbeitt valdi mínu gegn gömlum skólabróður. En ég vil jafnvel fá hv. 1. þm. Reykv. til þess að sannfærast um það og játa, að þessi áburður hans er rangur, að ég hafi verið að hefna mín út af lítilfjörlegri skammagrein: Ég vil minna hv. þm. á það, þegar við fyrir nokkrum árum síðan kepptum um embætti hér við háskólann. Það var embætti, sem faðir minn hafði gegnt um skeið og sem ég hafði verið settur til að þjóna í 9 mánuði. Þetta er hið eina embætti, sem mig hefir langað mikið til að fá, en hv. þm. tók það frá mér. Það eru mestu vonbrigðin, sem ég hefi orðið fyrir um æfina. Hversu miklu meiri ástæðu hafði ég ekki til þess að hefna mín grimmilega gagnvart þeim skólabróður, sem hremmdi þetta embætti frá mér, enda þótt hann veitti það ekki. En hvernig hefndi ég mín? Þar sem við höfum nú starfað meira og minna saman á ýmsum sviðum í 10–20 ár, þá vil ég nú snúa mér að honum með þá spurningu, og leggja undir drengskap hans, hversu hann svarar:

Hvernig hefi ég komið fram við hann í okkar viðskiptum? Hefir hann orðið var við hefndarhug frá mér í sinn garð? Og ef ég er svona hefnigjarn, sem hv. þm. vill vera láta, þá hafði ég sérstaka ástæðu til að gera það í þessu tilfelli. — Síðastl. sumar bar svo til, að það heyrði undir mig, í forföllum hins reglulega dómsmrh., að veita prófessorsembætti við guðfræðideild háskólans. Þar fékk ég tækifæri til að sýna í verki, hversu hefnigjarn ég væri. Ég get gjarnan sagt það, að ég sóttist eftir því að veita þetta embætti, og hvatti til þess fyrr, að svo yrði sett í embættið sem var. Og svo veitti ég hiklaust þessum gamla skólabróður mínum embættið.

Og nú segir hann, að útaf lítilfjörlegri skammagrein, fyrir mörgum árum, hafi ég hefnt mín á Magnúsi Jochumssyni.

Öðrum fórst, en ekki hv. 1. þm. Reykv., að beina, því til mín, að ég notaði tækifæri til þess að hefna mín í embættaveitingum. Hv. l. þm. Reykv. hefir sízt allra manna átyllu til þess. Ég þykist vita, hvaða vitni hann muni bera mér um þetta, og samvinnu okkar yfir höfuð, og treysti drengskap hans til þess að játa það, sem rétt er.

Ég vil ljúka máli mínu með því að beina þeirri áskorun til hv. 1. þm. Reykv., að hann taki aftur þá ásökun sína í minn garð, að ég hafi níðst á gömlum skólabróður mínum í hefndarskyni, með því að neita honum um póstritaraembættið. Við veitingu þess embættis hafði ég það eitt í huga, að veita það þeim manni, sem ég gæti borið fullt traust til, að því er snertir hina fjárhagslegu ábyrgð, sent því er samfara.

Hv. þm. hefir ásakað mig fyrir fjórar embættaveitingar. Tvö af þessum embættum voru veitt samflokksmönnum mínum, en hin tvö mönnum, sem ekki eru í mínum flokki. Þar er því ekki hægt að bregða mér um pólitíska hlutdrægni. Ég vil ennfremur benda á, að undir mína stjórnardeild heyra flestar embættaveitingar, og ég hefi veitt yfir 100 embætti og opinber störf, síðan ég tók við stjórn. Og svo kemur þessi ötuli stjórnarandstæðingur með marga árganga af íhaldsblöðum og ræðst á mig fyrir veitingu á þessum fjórum embættum. Tvö af þessum embættum eru veitt bráðduglegum gáfumönnum, dr. Páli E. Ólasyni og Jónasi Þorbergssyni, en hin tvö mönnum, sem eru vammlausir og hafa staðið vel í sínum stöðum, en það eru Sigurður Baldvinsson póstmeistari á Seyðisfirði og Egill Sandholt.

Mér þykir leitt að þurfa að hryggja hv. 1. þm. Reykv. með því að þakka honum eins og áður, ekki fyrir þær persónulegu aðdróttanir, sem hann hefir beint til mín, heldur af því að hann, sem er svo glöggur maður og ötuli stjórnarandstæðingur, hefir ekki getað fundið fleira að gerðum mínum til að ásaka mig fyrir en ræða hans bar vott um.