03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í C-deild Alþingistíðinda. (1483)

198. mál, raforkuvirki

Fjm. (Haraldur Guðmundsson):

Í lögum frá 3. nóv. 1915, nr. 51, um rafmagnsveitur, var svo fyrir mælt, að sveitarstjórnir gætu tekið í sínar hendur einkasölu rafmagnstækja í sínum umdæmum, ef þar hefði verið komið á fót rafmagnsveitu til almenningsþarfa.

Þegar svo vatnalögin voru sett, féllu þessi lög úr gildi, og voru engin lög sett önnur um rafmagnsveitur þar til árið 1926. Þá voru samþ. lögin um raforkuvirki. En einhverra ástæðna vegna hefir láðzt að taka upp í þau lög ákvæðin frá 1915 um rétt sveitarfélaga til að taka upp einkasölu rafmagnstækja. Ennfremur vantar alveg í þau lög ákvæði, er heimili sveitar- og bæjarfélögum að ákveða hámarksverð á rafmagni frá raforkuvirkjum, öðrum en vatnstöðvum, sem einstakir menn eða félög eiga og reka.

Allvíða hér á landi hafa einstaklingar eða félög reist mótorstöðvar til þess að selja rafmagn frá, og sumstaðar hefir slíkum stöðvum verið veittur einkaréttur til sölu á rafmagni. Skortir alveg lagaheimild til þess fyrir bæjar- og sveitarfélög að ákveða hámarksverð á slíku rafmagni, þar sem ekki er gerður samningur við eigendur stöðvanna og ákvæði um verðlag á rafmagninu tekin upp í hann:

Mér er kunnugt um, að stj. og vegamálastjóri líta svo á, að ekki sé hægt að ákveða neitt hámarksverð þar, sem þessu er þannig fyrir komið, og geta þá eigendur stöðvanna alveg ráðið verðinu og skattlagt þá, sem rafmagnið kaupa, eftir vild. Á Ísafirði á hlutafélag rafmagnsstöðina, þá einu, sem í bænum er, og hygg ég, að ég skýri þetta mál bezt með því að lesa upp bréf, sem bæjarfógeti sendi til stj. í haust viðvíkjandi rafmagnsverðinu og viðskiptum bæjarstjórnar og hlutafélagsins. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Saga málsins er í fáum orðum á þessa leið: Hinn 18. ágúst 1920 fékk h/f Raflýsingarfélag Ísafjarðar leyfi bæjarstjórnar samkvæmt meðfylgjandi útskrift til þess að setja á stofn rafmagnsstöð með mótorafli fyrir bæinn. Að vísu er eigi tekið fram með beinum orðum, að leyfi þetta sé einkaleyfi, en þó er gert ráð fyrir, að setji bærinn upp rafmagnsstöð, sem knúð er með mótorafli, innan tilgreinds tíma, skuli hann kaupa stöð félagsins. Síðan hefir félagið verið eitt um að selja rafmagn í bænum, bæjarstjórnin engum öðrum veitt slíkt leyfi, og stöðin þannig verið rekin sem einkasala væri. Stöðin er byggð á dýrasta tíma, og svaraði ekki vöxtum framan af, þó rafmagnið væri selt á kr. 1,75 hver kílowattstund. Aldrei hafa þó eigendur stöðvarinnar orðið að greiða neitt framlag til hennar umfram hlutafé. Síðar jókst notkunin og var breytt nokkru til um starfshætti stöðvarinnar. Einnig minnkaði rekstrarkostnaður við lækkað kaupgjald og við það, að olía lækkaði mjög í verði. Fór þá Raflýsingarfélagið fyrst að kaupa upp hlutabréf sín, og síðan að borga vexti til hluthafa, í fyrsta sinn 1927–1928, þó að það lækkaði ljósagjaldið niður í kr. 1,20 kw.stund.

Árið 1927–1928 greiddi félagið 10% vexti af hlutafénu. Á þessu ári hefir það greitt 25% og jafnframt gefið von um meiri arð á yfirstandandi reikningsári. Ber það vott um blómlegan hag félagsins, að bæjarstjórnin taldi ekki fært að una þessu háa rafmagnsverði notendanna vegna. Sjálfur notar bærinn rafmagn fyrir um 12000,00 kr. á ári.

Samkvæmt skilyrðunum fyrir leyfinu á hann kröfu á sama ljósgjaldi og félagsmenn. En þegar þeim er greiddur svo óeðlilega hár arður, verður það til þess að dylja hið raunverulega ljósgjald þeirra, þar sem ýmsir menn í rauninni greiða lítið eða ekkert fyrir ljós sín á þennan hátt, og er þannig farið í kringum skilyrði bæjarins. Rafmagnið er auk þess almennt notað í bænum, og er að áliti bæjarstjórnar orðinn óþarflega hár skattur á bæjarbúum. Var því fyrst leitað eftir því við Raflýsingarfélagsstjórnina, hvort hún vildi ekki góðfúslega lækka þennan ósanngjarna taxta, og fjárhagsnefnd falið málið til meðferðar. Árangur þeirrar málaleitunar er svar stjórnar félagsins, er hér fylgir í afriti. Vildi fjárhagsnefnd til samkomulags samþykkja 1 krónu taxta, en því var ekki sinnt.

Nú þegar þess er gætt, hve hagur félagsins stendur ágætlega, hluthöfum greitt sem áður segir 25% í ársarð af hlutafé, og gefin von um meiri arð á næsta ári, og svo hins, að rafmagn er selt frá mótorstöð í Hafnarfirði, sem byggð var á sama eða svipuðum tíma, fyrir kr. 0,80 kw.stund til ljósa, en kr. 0,50 til iðnaðar, virðist ekki ósanngjarnt, að tillögur bæjarstjórnar um 90 aura til ljósa og 60 aura til iðnaðar nái fram að ganga, og það því fremur, sem félagið ætti með þeim taxtasamþykktum að geta greitt hluthöfum í árlegan ágóða 8–10%.

Þetta bréf var sent til stjórnarráðsins 7. nóv. síðastl. Hefir það haft það til athugunar síðan og sent það vegamálastjóra til athugunar. En hann lítur svo á, að félaginu sé heimilt að ákveða verð rafmagnsins.

Hinsvegar verður því ekki mælt bót, að félagið haldi þessu gífurlega háa verði áfram, til þess að geta greitt hluthöfum 25% eða meira í arð á ári, því að með þessu er lagður óhæfur skattur á aðra bæjarbúa.

Í frv. er farið þess á leit, að sveitar- og bæjarfélögum, þar sem eins stendur á og á Ísafirði, verði veitt heimild til að ákveða verðið eins og sanngjarnt þykir. En ef ágreiningur verður milli stöðvareiganda og bæjarstjórnar, skal stjórnin skera úr og ákveða verðið. Vil ég ekki trúa öðru en því, að Alþ. sjái nauðsyn þessa máls og vilji bæta úr augljósum göllum laganna. Að endingu vil ég mælast til, að frv. verði vísað til allshn.