24.03.1930
Neðri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 1. þm. Reykv. hóf ræðu sína með því að setja upp hvítasunnuandlit og tala um það með miklum fjálgleik, hve alvarleg athöfn það væri, er stofnað væri til eldhúsdags hér í þinginu. Var helzt að skilja á honum, að eldhúsræðurnar myndu valda einhverjum straumhvörfum. En ég held, að óhætt sé að fullyrða, að þótt hv. þm. finni sjálfur köllun hjá sér til að vera hér siðameistari og leiðtogi, þá muni ekki margir aðrir taka hann alvarlega. Menn muna eftir manninum, sem um sama leyti gaf út Pál postula og Alþingissöguna, þar sem réttdæmið og sannleiksástin áttu í minnsta lagi upp á pallborðið. Og fyrst svo var um atburði, sem hv. þm. var sjónar- og heyrnarvottur að, hvers má þá vænta um Pál postula, sem hv. þm. hefir hvorki heyrt né séð. (MJ: Hann þótti þó töluvert betri bók en hin). Það er gott, ef svo hefir verið.

Hv. þm. finnst það auðsjáanlega heyra til hirðisstarfi sínu, að halda syndum annara til haga, og væri þá gott, ef hann vildi bera þær líka. (ÓTh: Það ætti að veita hæstv. ráðh. skáldastyrk).

Það var auðheyrt á hv. þm., að hann taldi sig vera hinn eina í alþingishátíðarn., sem hefði hreint mjöl í pokanum. Annars var allt það, er hv. þm. sagði í ræðu sinni, löngu áður komið fram, og í henni var ekki nema örstuttur kafli, sem snéri að mér, og mun ég víkja að þeim kafla örfáum orðum.

Hann talaði um óreglu á bókfærslu í fjmrn., sem stafaði af því, að ég kynni ekki mitt verk. Ég hafði nú aldrei efazt um, að hv. þm. liti svo á, að ég eða aðrir alþýðumenn væru óhæfir í slíka stöðu. Ég skal heldur ekki deila við hann um það. Hann og aðrir flokksmenn hans geta ekki skilið það ennþá, að þeir séu ekki bornir til þess að ráða lögum og lofum. Það má undravert heita, hve illa þeir hafa borið ósigur sinn.

Þá vík ég að því, er hann sagði um bókfærsluna. Að fjárhæðir séu færðar á skakka liði til að byrja með, eru þeir smámunir, að varla tekur að tala um það. Það er algengt, að húsameistari, vitamálastjóri og vegamálastjóri fái ávísað upphæðum, sem síðan eru lagðar inn í banka og notaðar eftir þörfum. Vegamálastjóri fær oft ávísað fé til brúagerðar, sem síðan er varið til vegagerðar. Það fé, sem ávísað er til sýsluvega, fer oft til þjóðvega o. s. frv. Sama er að segja um það fé, sem húsameistara er ávísað. Á eftir eru liðirnir gerðir upp, og þá kemst allt til leiðréttingar. Þetta eru því smámunir, sem ekki er vert að minnast á.

Það er útlit fyrir, að þessi hv. þm. telji sig dómbæran á öllum sviðum, og þó einkum um það, hvernig fjármálum skuli skipað. Hann var í bankaráði Landsbankans, fór í mál við ríkið, þegar hann varð að víkja þaðan, og vildi láta borga sér fyrir að vera þar ekki. Nú er hann þó kominn þangað aftur. Hefði mátt ætla, að hann hefði reynzt kunnugri ágreiningnum um skyldur Landsbankans til að greiða vexti af stofnfé en raun hefir á orðið. Hann grein fram í fyrir mér og efaðist um, að minn skilningur væri réttur. Þar sem hv. þm. hefir undirbúið l. Landsbankans og auk þess átt sæti í bankaráði, hefði mátt ætla, að hann vissi betur. Ég leitaði upplýsinga hjá bankastjórunum um það, sem okkur bar á milli, og fékk þau svör, að ég hefði haft rétt fyrir mér. Hv. þm. ætti að vera kunnugri fjármálunum á því sviði, er sérstaklega heyra undir hann, úr því að hann er að finna að gerðum annara.