24.03.1930
Neðri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

1. mál, fjárlög 1931

Héðinn Valdimarsson*):

Þegar Hrafna-Flóki snéri héðan af Íslandi og kom til Noregs, þá lastaði hann mjög Ísland. Þórólfur skipverji hans kvað aftur á móti drjúpa smjör af hverju strái, en Herjólfur sagði kost og löst á landinu.

Nú virðist Íhaldið hafa tekið að sér hlutverk Flóka, og hæstv. stj. hlutverk Þórólfs smjörs, og virðist þá eigi nema rétt, að við jafnaðarmenn tökum að okkur hlutverk Herjólfs og segjum kost og löst á stjórnarfarinu.

Það er enginn vafi á því, að ástæðan til þess, að Framsóknarflokkurinn er við völd er sú, að honum hefir tekizt að vinna hylli bænda með því að leggja meiri rækt við landbúnaðinn en Íhaldið gerði, og jafnframt það, að Framsóknarflokkurinn hefir tekið betur í umbótakröfur verkalýðsins, þegar harðast hefir að sorfið. Það var auðséð, að fjandskapur og aðgerðaleysi Íhaldsins á báðum þessum sviðum hlaut að leiða til þess, að Íhaldið færi í hundana. Og Íhaldið líkist Flóka í fleiru en því, að leika hlutverk hans á eldhúsdegi. Hann var fyrsti maður á landi hér, sem drap kvikfénað sinn úr hor. Á sama hátt hefir Íhaldið stuðlað að því að eyðileggja landbúnaðinn.

Framsóknarflokkurinn hefir gert mikið fyrir landbúnaðinn með stuðningi jafnaðarmanna, og nú orðið með stuðningi Íhaldsmanna líka, og sé litið á fjárl. sést, að styrkir til landbúnaðarins eru að síaukast. Lagafrv. um aukin fjárframlög til landbúnaðarins koma fram á hverju þingi, og ef þessu heldur áfram, fer að halla á þá sveifina, að of miklu fé sé varið til landbúnaðarins samanborið við aðra atvinnuvegi. Sumt af þessari löggjöf gengur heldur ekki í rétta átt, eins og t. d. l. um Landnámssjóð, sem leggur fram styrk til býla án tillits til lífsskilyrða og þess, hvort margir njóta eða ekki.

Þá vil ég víkja nokkuð að stefnu flokksins og flokknum sjálfum. Því hvað er hæstv. stj. ef hún hefir ekki flokkinn að baki sér?

Þó að Framsóknarflokkurinn fyrst í stað virtist ætla að beita sér fyrir málefnum verkalýðsins í kaupstöðum, er varla hægt að búast við miklu af honum í því efni framvegis. Því nú upp á síðkastið hefir það sýnt sig, að þó að hagsmunamál verkalýðsins hafi verið flutt hér á Alþingi hafa þau verið svæfð eða drepin með tilstyrk Framsóknarflokksins. Stundum eru það aðeins sumir úr flokknum, sem hafa beitt sér gegn hagsmunum verkalýðsins, en vitanlega ber flokkurinn ábyrgð á því. Álit mitt á flokknum fer því versnandi; og eru mikil líkindi fyrir því, að svipað fari um Framsóknarflokkinn sem fór um Íhaldsflokkinn, að traustið á honum fari minnkandi með þjóðinni.

Þá vil ég gera stutta aths. um embættaveitingar hæstv. stj.

Mér þykir leitt, að hv. 1. þm. Reykv. er ekki hér inni, því ég ætlaði að tala um hann. En á meðan hann kemur ekki ætla ég að minnast á vegavinnukaupið.

Um þetta mál hefir verið rætt á undanförnum þingum, og hæstv. stj. hafa borizt kvartanir um þetta bæði frá verkamönnum í kaupstöðum og sveitum. Því að kaupið í vegavinnu er svo lágt, að sennilega er ekki við neitt fyrirtæki á landinu borgað svo lágt kaup sem þar, og í sumum atvinnugreinum er borgað miklu hærra kaup. Þetta hefir ekkert lagast hjá núv. hæstv. stj., frá því, sem var hjá fyrirrennurum hennar. Ég vil nú skora á hæstv. stj., að hún sjái um, að slíkri þrælkun verði ekki beitt við þá menn, sem verða í þjónustu ríkisins á komandi sumri.

Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Reykv., að það eru ýmsar embættaveitingar hæstv. stj., sem ég hefi töluvert við að athuga. Svartasti flekkurinn á núv. hæstv. stj. í þessu efni er það þó, þegar hún setti og síðan skipaði Magnús Jónsson, hv. 1. þm. Reykv., prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands. Ég álít, að það sé eitthvert hið mesta hneyksli, sem þekkist í sögu þessa lands, að slíkur maður sé skipaður af ríkisstj. til að uppfræða prestaefni þessa lands um sannleika og réttlæti. Þessi maður, sem hefir reynt að nota þekkingu sína á kirkju og kristindómi til þess að úthúða andstæðingum sínum í stjórnmálum í nafni kristinnar trúar og halda því fram, að þeir séu yfirleitt fjendur kristninnar. Slíkur maður ætti ekki einu sinni að vera docent, hvað þá prófessor.

Mér skildist á ræðu hæstv. forsrh., að hann hefði veitt þetta embætti með tilliti til gamallar venju um slíkar embættaveitingar. Mér finnst þetta vítavert. Ef margar embættaveitingar hæstv. stj. eru eins og þessi, á hún ekki langt líf fyrir höndum.

Þá vildi ég víkja nokkuð að brottrekstri vitavarðar Ólafs Sveinssonar á Reykjanesi.

Það hafa komið greinar í blöðunum með umsögn allra nábúa hans um það, hvernig hann hefir rækt sitt starf. Að dómi nábúa sinna hefir hann rækt starf sitt sem gæzlumaður við vitann með frábærum dugnaði. Því hefir verið haldið fram, að hann hafi verið óreglumaður, en eftir því, sem komið hefir fram, hefir því ekki verið til að dreifa um langan tíma. Ég verð að segja, að mér er þessi brottrekstur algerlega óskiljanlegur. Því þótt bréf vitamálastjóra um þetta efni hafi nýlega verið birt í Tímanum, gefur það ekki miklar upplýsingar. Það, sem Krabbe kvartar helzt um, er, að kveikt hafi verið korteri of seint á vitanum einhverntíma á árinu 1928. Það hafa reyndar komið kvartanir eftir þann tíma en um það gefur vitamálastjóri þær upplýsingar, að þá hafi það verið skúrir, sem dregið hafa úr ljósinu. Og þó að vitamálastjóra hafi sinnazt við vitavörðinn síðast, þegar hann var staddur hér í bænum, virðist ekki ástæða til þess að reka hann frá fyrir það, ef honum hefir ekkert nýtt orðið á.

Þá álít ég, að Ragnar Kvaran hefði verið betra efni í útvarpsstjóra en Tónas Þorbergsson, því hann er hinn mesti fyrirlesari og músíkalskur mjög. Jónas Þorbergsson er að vísu gáfaður maður, en ég álít, að Kvaran hefði verið enn betur til þessa starfa fallinn.

Þá hefir hæstv. atvmrh. skipað n. manna til þess að endurskoða fiskimatslöggjöfina. Í henni eru þó einungis íhaldsmenn. Ég sé enga ástæðu til, að þegar skipuð er n. til að athuga mat á fiski, séu eingöngu valdir til þess menn úr einum stjórnmálaflokki. Þetta atriði varðar sjómenn svo miklu, að þeir hefðu að minnsta kosti átt að hafa 1 mann í n. Í þessu sambandi vil ég loks spyrja hæstv. ráðh., hvaða störf n. hefir af hendi leyst.

Það er svo mikið búið að rífast um Íslandsbankamálið, að ég skal ekki fara langt út í það. Ég vildi aðeins gera þá kröfu til hæstv. forsrh., að þau skeyti verði birt, sem farið hafa milli Sveins Björnssonar sendiherra og Jóns Þorlákssonar um þetta mál. Það er sumt á huldu í þessu máli, en hæstv. forsrh. getur náð í þessi skeyti og látið birta þau.

Þá hefir hæstv. atvmrh. ráðizt í það að kaupa lóð rétt hjá Alþingish. undir nýja símstöð. Ég verð að álíta, að þessi staður sé ekki heppilega valinn, að minnsta kosti ef það skipulag nær fram að ganga, sem skipulagsn. hefir stungið upp á. Þótt nokkuð sé örðugt að komast á pósthúsið, verður þó enn örðugra að komast á símstöðina, því þá verður að fara krókinn hjá Alþingishúsinu, því engin gata liggur frá símstöðinni út í Austurstræti. Þar að auki veit ég ekki betur en hæstv. atvmrh. hafi verið því fylgjandi, að sameina póst og síma sem mest. Þetta hefði verið auðvelt, ef pósthús og símstöð hefðu verið hvort hjá öðru. En þessi fjarlægð, sem á að vera milli stöðvanna, gerir þessa sameiningu örðuga. Mér finnst því hæstv. atvmrh. hafa gengið hér móti sínum eigin málum, af hvaða ástæðum, sem það er.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. að vita það, að Pálmi Hannesson, hefði verið skipaður skólastjóri Menntaskólans. Ég vil ekki fara langt út í það mál, enda hefir hlutaðeigandi ráðh. svarað því fyrir sitt leyti.

Ég tel það vel til fallið, að Pálmi Hannesson var skipaður skólastjóri Menntaskólans. Það, sem hv. þm. tók til sannindamerkis um, að P. H. væri illa þokkaður í skólanum, tel ég lítils virði, enda ekki rétt með farið, sem reyndar er ekki að búast við af þeim hv. þm. Það, sem hann las hér upp, er ekki úr venjulegu skólablaði, heldur verður að skoða það sem gamanblað, enda stendur í blaðinu sjálfu, að enginn eigi að taka mark á því, sem þar stendur. Auk þess er það, sem um rektorinn stendur, ekki eins miklar skammir eins og eru þar um annan mann, Jón Ófeigsson, en það er sá maður, sem hv. þm. vildi gera að rektor.

Þá er það ekki neinn nýr andi í skólanum, að piltar skoði kennara sína sem fjandmenn, og vilji sem minnst viðskipti við þá hafa. Það hefir verið svo allt frá því að ég var í skóla, og úr þessu verður ekki bætt með því að gera þann mann að rektor, sem lengi hefir verið við skólann, og lifað hefir í slíku andrúmslofti. Til þess að fá þessu breytt verður að taka utanskólamann, og þá munu fáir menn hæfari til þess en þessi maður, sem fenginn var til skólans, þótt vitanlega séu margir, sem eru eldri kennarar en hann, og hefðu því átt að standa þessu embætti nær en hann. (JAJ: Á þá ekki að skipa nýjan rektor á hverju ári?). Gjarna, ef hann reynist illa, en ekki ef hann reynist vel.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum til hæstv. dómsmrh. Ég skal viðurkenna, að það hefir komizt betra lag á áfengisverzlunina hjá hinum nýja forstjóra, en þó er eitt atriði, sem ég vil gera athugasemd við.

Því hefir verið haldið réttilega fram, að ríkisfyrirtæki eins og landsverzlunin og áfengisverzlunin, ættu ekki að kaupa gegnum innlenda eða erlenda milliliði. Nú hefir þessi nýi forstjóri gert ráðstafanir til þess að áfengisverzlunin fengi sömu kjör framvegis og erlendir umboðsmenn, þar sem þeir eru. En þetta umboð hefir áfengisverzlunin ekki fengið enn í sínar hendur. En ég sé enga ástæðu til að hafa þessa milliliði hér á landi, þó að þeir, sem selja vínið, vildu láta sína umboðsmenn hér á landi njóta áfram sömu kjara og hingað til. Það á auðvitað að svæla þá úti með því að kaupa ekki þær tegundir, sem einstakir menn hafa umboð fyrir. Það eru margar þús. kr., sem fara þannig í umboðslaun, og er óþarfi, að ríkissjóður tapi því.

Magnús heitinn Kristjánsson ráðh. lofaði því á síðasta þinginu, sem hann lifði, að Landsspítalinn skyldi taka til starfa haustið 1930, eða í ársbyrjun 1931. Nú hefi ég ekki orðið var við, að neitt sé veitt í fjárl. sem rekstrarkostnaður til spítalans, og ég hefi ekki orðið var við, að hæstv. stj. hafi gert ráðstafanir til að geta staðið við loforð fyrirrennara síns. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. og hæstv. dómsmrh., hvort þetta loforð á að standa eða ekki.

Hv. 1. þm. Reykv. fór nokkrum orðum um embættaveitinguna á foringjum varðskipanna. Í því sambandi er rétt að rifja upp það, sem nú er fram komið. Ég hefi nýlega skrifað grein í Alþýðublaðið um, hvað hafi komið fram í máli Belgaums þegar hann var tekinn. Þá var lagt fram sem réttarskjal útdráttur úr dagbók Þórs 1924. Þór var þá ekki á vegum landsstj., en var björgunarskip og styrktur af ríkinu sem varðskip. (JJós: Styrkurinn frá ríkinu var eingöngu miðaður við björgunarstarfið. Það kom fram í umr. á þinginu). Þessi útdráttur úr dagbókinni sýnir, að 20. marz 1924, kl. 12¼ eftir miðnætti, stöðvar Þór undir Þykkvabæ og lætur reka til kl. 5 um morguninn. Þar stendur ennfremur, að nokkrir togarar hafi verið reknir úr landhelgi, 2 togarar verið staðnir að ólöglegum veiðum, og sá 3. að ólöglegum útbúnaði veiðarfæra. Þór hefir því verið varðskip á þessum tíma, því það er engin björgun að reka togarana úr landhelginni, nema að því leyti, að þeir voru ekki reknir til yfirvalds, því það einkennilega var, að enginn þessara togara var kærður. Það hefir aðeins verið bókað síðar á spásíuna, að farið hafi verið um borð í tvö af þessum skipum, en eftir vitnisburði manna þar var hætt við rannsókn á þessu máli. Þetta sannar það, sem haldið hefir verið fram áður hér á þingi, að Jóhann P. Jónsson og Friðrik Ólafsson hafa ekki verið eins strangir gagnvart íslenzkum skipum og þeir ættu að vera. Íhaldsmenn hér í d. ætluðu að verða hamstola á þinginu 1927, þegar þessu var haldið fram. En útdrátturinn úr dagbók Þórs sannar þetta nú fyllilega. Ég vil því skora á hæstv. dómsmrh. að láta athuga dagbækur varðskipanna, hvort slíkt hefir orðið víðar enn á Þór. Því ef svo er, eru þeir menn ekki færir um að gegna stöðu sinni.

Holdsveikraspítalinn á Lauganesi er gjöf frá Oddfellowum, og var gefinn með því skilyrði, að hann yrði notaður fyrir holdsveika. Og ef breytt væri tilgangi, þyrfti samþ. Oddfellowa til þess.

Eins og allir vita er holdsveiki smitandi, og sérstök 1. hafa svo ákveðið, að holdsveikum mönnum skuli safnað þar saman á spítalann, svo að þeir smiti ekki aðra menn. Þeir mega ekki umgangast aðra vegna þeirrar hættu, sem stafar af sjúkleika þeirra.

Nú hafa þau undur gerzt, að fólk er farið að flytja þangað inneftir í nokkuð stórum stíl nú upp á síðkastið. Þetta byrjaði í stjórnartíð Jóns Magnússonar, þegar hann leyfði Haraldi prófessor Níelssyni að flytja þangað, og mun hann ekki hafa borgað fyrir það að fá að búa þar. Nú hefir hæstv. dómsmrh. ekki látið sér þetta nægja, heldur hefir hann nú eytt stórfé til þess að búa til íbúðir í spítalanum. (MJ: Haraldur Níelssom mun hafa greitt húsaleigu af launum sínum). Og þeir, sem fá þarna íbúð, munu flestir ekki eiga neina kröfu á því að fá húsnæði ásamt launum sínum. Ég veit t. d. um einn starfsmann í stjórnarráðinu, sem þannig mun vera ástatt um. Eftir því, sem ég veit bezt, mun nú vera komið allmargt fólk þangað inneftir. Þetta er vitanlega móti ráði læknisins, því hann telur það ekki hættulaust að fólk, sérstaklega börn, sé þar innanum sjúklingana.

Ég verð að segja, að mér finnst það einkennilegt að verja miklu fé úr ríkissjóði til þess að kona upp íbúðum í spítalanum, enda er þetta gert án nokkurrar lagaheimildar. Þetta fólk mun heldur ekki borga neina húsaleigu. Þetta er líka brot á þeirri reglu, að sjúklingarnir skuli vera einangraðir og megi ekki umgangast annað fólk. En til hvers er að hafa það í l., ef því er ekki framfylgt? Ef hæstv. dómsmrh. ætlar hér að byggja fyrir einstaka menn, er það ný tegund verkamannabústaða. Vænti ég skýringar á þessu frá hæstv. dómsmrh.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.