21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í C-deild Alþingistíðinda. (1534)

309. mál, iðja og iðnaður

Flm. (Magnús Jónsson):

* Með lögum nr. 18, 31. maí 1927, um iðju og iðnað, var gerð tilraun til þess að skipa málum þessa atvinnuvegar landsmanna með lögum. Það má náttúrlega segja, að slíkt spor, sem stigið var með þessum lögum, orki nokkuð tvímælis, eftir því hvernig litið er á tilgang slíkra ákvæða. Annarsvegar er frelsi manna til atvinnunnar, athafnafrelsið, og ef þau takmörk eru óvarlega sett, getur það orðið til þess að auka dýrtíð og erfiðleika í landinu. Hinsvegar er nauðsynlegt að setja ýmsar reglur um slíka atvinnugrein sem iðnað, til þess að tryggja þá, sem njóta starfa iðnaðarmanna, fyrir því, að það séu menn, sem ekki kunna starfið og geti því ekki látið nema svikna vöru af hendi.

Um mörg störf er það svo, að þeir, sem láta vinna verkið, geta ekki ætið dæmt um, hvort það er vel unnið eða ekki. Þeir verða oft að treysta því, að þeir, sem verkið vinna, kunni það og fær maður stjórni því, svo að það verði sæmilega af hendi leyst. Það þarf því að tryggja það, að aðrir fáist ekki við þessi efni en þeir, sem fengið hafa þann undirbúning, sem nauðsynlegur er.

Þar sem hér er aðeins um smámál að ræða, skal ég ekki fara frekar út í það. Ég vil aðeins geta þess, að iðnaðarmenn eru ekki fullkomlega ánægðir með l. frá 1927 og hafa fundið til þess, að breyta þarf einstökum atriðum og gera þau fyllri og nákvæmari. Þeir hafa talað um þetta við þm. og óskað eftir, að þeir bæru hér fram frv. um þetta efni. Síðast hafa þeir nú skrifað þm. bréf það, sem birt er hér sem fylgiskjal með þessu frv. á þskj. 309, sem við hv. þm. N.-Ísf. flytjum. Þar er farið fram á nokkrar breyt. frá því, sem nú er, en þær eru flestar mjög smávægilegar. Þó eru sumar allverulegar, t. d. að fella burt ákvæði 13. gr., er undanþiggur þá menn frá að hafa iðnbréf, sem einungis reka iðnað með aðstoð maka síns og barna undir 21 árs aldri. Það er því farið fram á, að einnig þessir menn þurfi iðnbréf.

Þá er einnig farið fram á, að mörg ákvæði laganna, sem nú ná aðeins til kaupstaða, skuli einnig taka hér eftir til allra kauptúna.

Þá er í 3. lagi farið fram á, að enginn megi taka nemendur til iðnaðarnáms nema sá, sem hefir meistarabréf.

Þessar 3 óskir Iðnráðsins sáum við flm. ekki fært að taka til greina að svo komnu. Ég fyrir mitt leyti vil fylgja 3. atriðinu, því það er stórt atriði, að enginn taki nemendur nema hann sé til þess fær. En mér finnst réttast, að sú breyt. komi smátt og smátt. Við tökum því ekkert af þessu, en berum hér fram frv. í 3 gr., og skal ég taka þetta fram um þær:

1. gr. er breyting á 1. tölul. 18. gr. laganna frá 1927, en hann er um það, að ef enginn maður er til í kauptúni eða kaupstað, sem rekur tiltekna grein iðnaðar, má veita manni iðnbréf, þótt hann uppfylli ekki skilyrði laganna. Eftir frv. á hér við að bætast, að iðnbréfið gildi þá ekki nema í því lögsagnarumdæmi, þar sem það er gefið út, enda beri bréfið það greinilega með sér. Þetta sýnist vera ógætni í lögunum. Það nær vitanlega engri átt, að menn geti streymt til slíkra staða og fengið þar iðnbréf og farið svo jafnharðan til annara staða, þar sem skilyrðin eru strangari, og fengið þar þann rétt, sem þeir hafa, sem uppfylla skilyrði laganna. Mér finnst rétt, að þau bréf gildi aðeins þar, sem svo illa er ástatt um iðnaðarmenn. Ég held þetta geti varla orkað tvímælis.

Aðalatriði þessa frv. er í 2. gr. Þar er farið fram á, að sett verði á stofn, eða réttara sagt löghelgað ástand, sem þörfin hefir skapað. Það er, að skipað sé iðnráð í kaupstöðum landsins, til þess að sjá um framkvæmd þessara og annar laga, sem til eru og sett kunna að verða um iðnað. Ég sagði, að hér væri farið fram á að löghelga ástand, er þörfin hefði skapað, því að hér í Reykjavík hefir verið komið á fót iðnráði, sem hefir haft það hlutverk að gæta þess, að þessum lögum og öðrum væri hlýtt. Skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta. Vona, að hv. þdm. sjái, hver nauðsyn er á þessu. Hér er verið að koma upp svipaðri stofnun og Búnaðarfélagið og Fiskifélagið er fyrir hina tvo stærstu atvinnuvegi landsins. Þeir, er þennan atvinnuveg stunda, geta sjálfir valið sér menn, sem eigi tillögurétt um þeirra málefni, og í kaupstöðum landsins á það að vera iðnráð, sem sjái um framkvæmd laganna. Þeir eiga t. d. að sjá um, að nemendur læri það, sem þeir að lögum eiga að læra hjá þeim, sem taka þá til kennslu, þeir, sem ganga undir sveinspróf, hafi rétt til þess, brotthlaupnir nemendur séu ekki teknir af öðrum meisturum, hvort rétt sé að slíta samningi. Það þarf ekki annað en að líta á þetta til þess að sjá, hve erfitt það er fyrir þá, sem laganna gæta, að hafa eftirlit með þessu. Það verður ekki í neinu lagi, nema stéttin sjálf hafi rétt til að gæta þess. Það er eins eðlilegt, að iðnaðarmenn hafi fulltrúa um landið, sem gæti þess, að lögunum sé framfylgt og lög sett, eins og Búnaðarfélagið hefir það.

3. breytingin, sem farið er fram á, er smávægileg. Hún gengur út á það, að menn, sem stunduðu iðn áður en lögin frá 1927 komu til framkvæmda og leyft var að halda þeirri iðn áfram, fái nú ókeypis iðnbréf. Það virðist rétt, að allir, sem iðn mega reka, hafi iðnbréf og fái ella engan starfa. Þá verður líka hægara að hafa eftirlit með lögunum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég vona, að hv. deild sýni þessu frv. þá vinsemd að vísa því til 2. umr. og að umr. lokinni til allshn.