14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í C-deild Alþingistíðinda. (1549)

338. mál, gelding hesta og nauta

Hákon Kristófersson:

* Hv. 1. þm. Árn. hefir nú tekið fram margt af því, sem ég ætlaði mér að segja, en þó skal ég bæta nokkru við. — Það verður varla talin nein nýlunda, þótt stórmál séu afgr. með afbrigðum frá þingsköpum svona rétt í þinglokin. En þó sætir það undrum, að þvílíkt mál sem þetta skuli vera afgr. þannig, að ómögulegt er eða illmögulegt að bera fram brtt. Skal ég við engan deila um það, hvort andstaða mín gegn þessu frv. sé af því sprottin, að ég sé minni dýravinur en aðrir, eða af einhverjum öðrum orsökum. En þó finnst mér hálft í hvoru, að þessi dýravinátta, sem gripið hefir suma hv. þm. nú hinar síðustu klukkustundir þingsins, kunni að stafa af því, að þeir finni til sektar gagnvart þeim mönnum, er í landinu búa, fyrir framkomu sína hér á Alþingi. Nú er eins og þeir ætli að bæta ögn fyrir sér með göfugri framkomu gagnvart dýrunum. — Ég vil alveg neita því, að hér sé um nokkurt stórkostlegt nauðsynjamál að ræða, eins og m. a. segir í grg. frv. Málið er ekki merkilegra en svo, að engum hefir komið til hugar að bera það fram, fyrr en nú fyrir örfáum dögum. Og það er víst, að mörg stærri mál munu fá að bíða afgreiðslu, er þessu þingi lýkur. (SÁÓ: Það á ekki að deila um þetta mál!). Ég held nú, að hv. 4. þm. Reykv. hafi deilt um mörg mál, sem ósæmilegra er að deila um en þetta. Vanalegum, skynsemi gæddum mönnum hefði þótt þurfa að deila um það, hvort heldur ætti að flytja fáeinar tunnur af hafnarbakkanum út í Esju núna eitt kveldið, eða hvort skipið ætti að bíða hér alla nóttina eftir þessum tunnum. (SÁÓ: Þetta er ekki þingmál). Ég kem aðeins með þetta til samanburðar, svo að það sjáist, út af hverju hv. 4. þm. Reykv. telur sæmandi að deila.

Ég held, að allvel hefði farið á því, að málið hefði gengið skipulegan og venjulegan gang gegnum þingið. Ef hv. þm. eru svo fullir af umhyggju fyrir skepnunum, sem þeir nú láta, þá er næsta undarlegt, að ekkert skuli bóla á þeim áhuga fyrr en komið er að þingslitum. Ég get tekið undir með hv. 1. þm. Árn., að það geti verið viðsjárverður hlutur að leggja háar sektir við brotum á þessu, meðan þekking manna á aðferðinni er ekki næg.

Ég býst svo við, að ekki þýði að tala meira um þetta mikla menningarmál, — að dómi hv. flm. sjálfra, en sem þó var ekki ofar í þeim en það, að þeir vöknuðu fyrst til þess á síðustu stundu. Ég vildi láta þess getið, að ég get fullyrt, að ekki verður frekar farið eftir þessum lögum en hverjum öðrum pappírslögum frá Alþingi fyrr og síðar, svo að umbætur hv. þm. ná þá ekki tilgangi sínum einu sinni enn.