24.03.1930
Neðri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1931

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það mætti líkja þessum eldhúsdagsumr. við sýningar á fjöllistaleikhúsum erlendis. Þar eru sýnd margskonar númer með mismunandi blæ. Nú síðustu árin hefir það einkum verið eitt númer á eldhúsdeginum okkar, sem hefir alltaf sinn sérstaka blæ, og er það þáttur hv. þm. Borgf. Honum liggur fremur hátt rómur, og er ágætis sérfræðingur á smælki. Í þetta skipti tókst honum dável með hlutverk sitt, því hann var allskemmtilegur, svo mann syfjaði ekkert undir ræðu hans, þó hún væri löng.

Þá skal ég víkja að þeim hluta af ræðu hv. þm., sem hann beindi til mín. Ég vil vekja athygli á því, að allur fyrri hluti ræðunnar virtist vera eintómar árásir á þann gamla syndum hlaðna ritstjóra Tímans, en ekki á núverandi stjórnarformann. Þessi gamli ritstjóri, Tryggvi Þórhallsson, þykir hv. íhaldsmönnum svo ákaflega ólíkur núv. ráðherra, Tryggva Þórhallssyni.

Þá fór hv. þm. að tala um eldhúsdaga almennt. Er það mjög vel til fundið að gera ofurlítinn samanburð á eldhúsdeginum fyrr og nú, og þykir mér vænt um að fá tækifæri til þess. Áður en stjórnarskiptin urðu, var ég síðustu árin valinn af flokksmönnum mínum til að deila á stj. á eldhúsdegi. Talaði ég þá venjulega einn tvisvar til þrisvar sinnum, og lukum við þannig eldhúsdagsumr. af á einum degi. En á eldhúsdeginum í fyrra töluðu íhaldsmenn allir nema einn, og hver þeirra eins oft og þingsköp leyfa. (HK: Það er ósatt). Það má vera, að hv. þm. Barð. hafi verið undantekning og ekki talað nema einu sinni, en að öðru leyti sanna Þingtíðindin, að þessi ummæli mín eru rétt. Þessa framkomu hv. stjórnarandstæðinga veit ég, að þjóðin fordæmir. Nú virðast hv. stjórnarandstæðingar ætla að ganga lengra en áður. Áður hefir verið látið nægja, að hver þm. flokksins tæki ákveðinn þátt af athöfnum stj. og þyldi upp það, sem um hana hefir verið sagt í Morgunblaðinu, Ísafold og Verði.

En nú er farið að endurbæta vinnubrögðin, þannig að fyrst þylur hv. 1. þm. Skagf. upp eftir Morgunblaðinu, og svo þylur hv. þm. Borgf. aftur eftir hv. 1. þm. Skagf. og lætur prenta romsuna upp í þriðja sinn.

Það getur verið vinnusparnaður fyrir ríkisprentsmiðjuna, ef hún getur notað sömu dálkana tvisvar í Þingtíðindin. Og það er mjög fallegt af hv. þm. Borgf. að vilja hlaupa undir bagga með vini sínum, hv. 1. þm. Skagf., þegar honum finnst hann illa staddur. En að ég fari að svara aftur þeim atriðum, sem ég var búinn að svara hv. 1. þm. Skagf., það kemur ekki til mála.

Þegar hv. þm. Borgf. var svo búinn að bæta um ræðu hv. 1. þm. Skagf. eftir því, sem honum þótti ástæða til, og skýra nánar ýms atriði hennar, bætti hann við nokkrum atriðum, sem áttu að sýna muninn á fyrrv. ritstjóra Tímans og núv. forsrh. Skal ég nú ofurlítið drepa á þau atriði. Hefi ég skrifað hjá mér ein 10 dæmi, sem hv. þm. vildi láta sýna, að ég hafi brugðizt mínum fyrri skoðunum.

Fyrsta atriðið, sem hv. þm. nefndi, var það, að ég hefði borið fram frv. á fyrstu þingunum, sem ég átti sæti á, um að leggja niður ýms embætti, en síðan ég varð ráðh. hefði ég enga tilraun gert til að fækka embættismönnum.

Mér finnst hv. þm. nokkuð misjafnlega minnisgóður á þetta efni. Ef hann vildi muna eins vel eftir því, sem ég hefi gert síðan ég varð ráðh., eins og því, sem ég gerði áður, þá hefði hann t. d. munað, að ég bar fram frv um að fækka dýralæknum eftir að ég varð ráðh. En þingið vildi ekki fallast á það. Hv. þm. minntist á Spánarlegátann. Ég dró að veita það embætti og leitaði fyrir mér, t. d. hjá sjútvn. þingsins um, hvort ekki fengist samkomulag um að leggja það niður, en það var eins og að höggva í harðan stein. (PO: Hæstv. ráðh. bar ekki neitt frv. fram um að leggja embættið niður). Ég gerði það fyrir nokkrum árum, og þá mætti það svo harðvítugri mótstöðu, að ég sá ekki til neins að gera það aftur, nema ég fengi sæmilegar undirtektir hjá nefndunum. Fyrr á árum beitti ég mér sem fulltrúi fyrir ákveðinn atvinnuveg, landbúnaðinn; nú, þegar ég er orðinn forsrh., kann ég því ekki við að nota aðstöðu mína til að svipta sjávarútveginn fulltrúa sínum á Spáni án þess að fá samkomulag um það. Hefði það verið lagt mjög illa út fyrir mér. En ég ráðstafaði embættinu á annan hátt en áður var gert, nefnilega með svo stuttum uppsagnarfresti, að það er hægt að leggja það niður þegar þingið vill.

Um störfin við póst og síma er það að segja, að ég fékk samþ. frv. um að sameina þau störf eftir því, sem hægt væri, og er ég nokkuð byrjaður að fækka starfsmönnum á því sviði. Það er því algerlega rangt, að ég hafi aðra stefnu en áður í embættismálunum.

Annað atriðið, sem hv. þm. nefndi, var það, að ég hafi verið með frv., sem Þórarinn Jónsson bar fram, um það, að lengja vinnutímann í stjórnarráðinu, og að ég hafi barizt á móti, að því væri vísað til stj. Það var mjög eðlilegt, því ég treysti ekki stj., sem þá sat að völdum, og var því yfirleitt á móti því að vísa til hennar málum. Nú veit hv. þm., að hv. 3. landsk. gerði tilraun til að lengja vinnutímann í stjórnarráðinu í sinni ráðherratíð, en það mistókst að koma því í framkvæmd. Þó ég hafi ekki gert tilraunina aftur, sem mislukkaðist jafnharðvítugum manni á þessu sviði og hv. 3. landsk., þá er ég alveg sama sinnis í þessu máli og áður.

Þá benti hv. þm. á það, að ég hefði árið 1925 borið fram till. um það, að stj. skyldi fresta að veita embætti, sem losna, þangað til búið væri að athuga, hvort þingið vildi ekki leggja það niður.

Ég hefi þegar bent á, að ég frestaði að veita sendiherraembættið á Spáni. Og dýralæknisembættið frestaði ég að veita og reyndi að koma gegnum þingið frv. um að leggja það niður, þó að það tækist ekki.

Annars hefi ég aldrei vanrækt að bera þetta undir þingið, enda nefndi hv. þm. Borgf. ekkeri dæmi þess. Fræðslumálin heyra alls ekki undir mig, svo að hv. þm. verður að snúa sér í aðra átt með ásökun sína út af starfi Sigurðar Einarssonar.

Fjórða dæmið, sem hv. þm. tók, var það, að sem ritstjóri 1925 hefði ég ásakað stj. fyrir að lækka ekki vextina, en sjálfur hefði ég ekkert gert í því máli, eftir að ég komst í stj. Fyrst og fremst er þess að gæta, að aðstaða stj. er önnur nú en hún var þá, og svo er ég ekki fjmrh. Þá hafði ríkisstj. slík bein yfirráð yfir Landsbankanum, að hún gat með fullum myndugleik lækkað vextina. Nú er búið að setja upp bankaráð, sem öllu slíku ræður. Annars vil ég láta hv. þm. Borgf. vita, að ég hefi átt tal um þetta við bankaráðsmenn Landsbankans og hiklaust sagt þeim, að mér þætti vextirnir of háir.

Fimmta dæmið, sem hv. þm. tók, var það, að ég hefði 1924 viljað lækka skattana. En hverjar væru efndirnar? Nú, ég var fjmrh. í 3–4 mánuði, og eitt af mínum verkum, sem ég var þá mest skammaður fyrir, var einmitt að lækka skattana. Ég hafði heimild til að innheimta tekju- og eignarskatt með 25% viðauka, en ég gerði það ekki. Ég vil ennfremur minna á, að aðstaðan var allt önnur 1924 en nú. Þá voru undangengin kreppuár. Nú höfum við fengið hvert góðærið á fætur öðru, sem hafa lyft mjög undir framfarahug hjá þjóðinni, og Alþingi hefir verið samtaka um að nota þessi góðu ár til að hrinda í framkvæmd ýmsu, sem þarf að gera. Ég minnist hv. þm. Borgf. sem vildi raflýsa sveitirnar, og hann vildi gera það fyrir afgangana af sköttum landsmanna. En hvernig á að fara að því, ef ekkert er afgangs? Þetta 5. atriði hv. þm. hefir því við engin rök að styðjast.

Sjötta atriðið, sem hv. þm. kom að, var það, að ég hefði viljað verðfesta krónuna, áður en ég varð ráðh., en enginn hugur hefði fylgt máli hjá mér. Þetta er ekki satt. Ég vil segja hv. þm., að ég er alltaf jafnákveðinn í því, að það eigi að verðfesta peningana, en við framsóknarmenn höfum ekki bolmagn til að koma því fram. Ég hefi alveg sama vilja og áður; en ég er ekki almáttugur. Það er þingið, sem verður að gera slíkt.

Hv. þm. kom inn á svið, sem er bezt bæði fyrir hann og mig að tala sem minnst um, sem sé vínblöndun áfengisverzlunarinnar. Við hv. þm. Borgf. höfum lítið vit á vínblöndunarmálum. Við höfum verið kallaðir björgunarbátar í þingveizlum, hvor fyrir sinn flokk, og ég vona, að við séum báðir reiðubúnir til að vera það áfram, ef á þarf að halda. En í þessu sambandi vil ég upplýsa, af því að hv. þm. staðhæfði, að blöndunin yki drykkjuskap, að það hefir ekkert verið blandað síðan 1928, en aldrei meira drukkið en 1929. „Dogbrandurinn“ kemur fullblandaður sunnan úr Portugal.

Áttunda alriðið var um afstöðu mína til Good-Templara. Í því sambandi kom hv. þm. að styrknum til Stórstúkunnar og sagði, að aldrei væri friður um hann. Hver veldur ófriðnum? Hv. þm. Borgf., sem er alltaf að flytja brtt. Mitt hugarfar í þessu máli er það sama og áður, og við framsóknarmenn viljum halda styrknum óbreyttum. Brtt. hv. þm. hafa að vísu gengið í þá átt, að hækka styrkinn. En ég skal játa, að ég álít, að þó að þessi félagsskapur sé ágætur og góðs maklegur, verði að vera einhver takmörk fyrir fjárveitingum til hans. Annars þarf ég ekkert að eiga undir dómi hv. þm. Borgf., hvað þetta snertir. Æðsti maður reglunnar hefir sem sé mjög nýlega gefið mér fagran vitnisburð.

Níunda atriðið átti að vera um launagreiðslur til embættismanna. Hv. þm. sagði, að ég hefði áður viljað skera laun embættismanna við neglur mér, en það væri nú ekki lengur, sagði hv. þm., og nefndi laun útvarpsstjórans. Sú launagreiðsla er ekki ákveðin af mér, svo að hv. þm. hefir valið heldur óheppilegt dæmi. Hinsvegar er ég sammála hv. þm. um það, að mikið misrétti á sér stað um launagreiðslur embættismanna. Ég vona nú, að hv. þm. Borgf. og aðrir íhaldsmenn vilji hjálpa mér til að koma á verðfesting krónunnar, svo tímabært verði að endurskoða launalögin. Hv. þm. tók dæmi um símaverkfræðinginn, Guðmund Hlíðdal. Hann hefði fengið uppbót á launum sínum frá 1925. Ég get upplýst, að Guðmundur Hlíðdal var sérstakur aðstoðarmaður símastjórans, og í veikindum hans gegndi hann embætti hans. Krafa hans kom ekki til greina fyrr en búið var að ráðstafa embættinu. 1928 var því ráðstafað svo, að Guðm. Hlíðdal fékk ekki embættið. Þá fyrst kom hann fram með kröfu sína, svo að það er alls ekki um neinn snúning að ræða hjá mér.

Tíunda atriðið hjá hv. þm. var enginn samanburður á fornu og nýju, heldur spurði hv. þm. enn á ný, hver dýrtíðaruppbót bankastjóra Búnaðarbankans væri. Hv. þm. hefir fengið svar. Dýrtíðaruppbótin er engin enn sem komið er. Hver hún verður, skal ég ekki um segja, en hún verður áreiðanlega ekki eins og Morgunblaðið sagði. Sennilega verður hún annaðhvort 40% eða 60%.

Ég hefi nú farið í gegnum öll ádeiluatriði hv. þm. Borgf. Hv. þm. er ekki vanur að sjá stórar upphæðir, enda sundlaði hann þegar hann var kominn upp að 10, og þá datt honum í hug, að fernt væri óteljandi á Íslandi. En þó að ég hafi nú hrakið öll þessi 10 atriði hjá hv. þm., vil ég bæta því við, að um eitt hefi ég snúizt. Ég átti því að fagna að starfa í fjvn. Nd. með hv. þm. Borgf. 1924–27 og árangurinn af því starfi varð meðal annars sá, að ég fékk mjög gott álit á hv. þm. Mér fannst hann ekkert láta ráða um fjárreiður ríkissjóðs nema ríka ábyrgðartilfinning. En mér hefir farið eins og hæstv. fjmrh. Ég get ekki lengur treyst á ábyrgðartilfinning hv. þm. Borgf. Og ég verð að segja, að það er mikill munur á því, hvernig við framsóknarmenn hegðuðum okkur í fjvn. 1924 og 1925, og hvernig íhaldsmenn hegða sér nú, þar á meðal hv. þm. Borgf. Ég veit, að hv. þm. gerir mikið af þessu á móti sínu eðli, en hann hefir látið of mikið undan þeim, sem ógætnari eru.

Næst vék hv. þm. að afstöðu minni til krossa. Ég get nú í því efni vísað til þess, sem ég sagði í fyrra. Það má gleðja hv. þm. Borgf., að mínar „prívat“-skoðanir um krossa eru nákvæmlega óbreyttar frá því, sem var, áður en ég varð ráðh. En hv. þm. Borgf. þykir orðið svo ákaflega gaman að tala um krossa. (PO: Ég er að stríða ráðh.). Já, ég veit það, og fyrirgef hv. þm. Borgf. Og ég skal, hvenær sem er, vera reiðubúinn til að leggja mikinn skatt á krossa, og láta skattinn bera allan kostnað af krossunum. Ég skal taka til athugunar, hvort ég get borið þetta fram sjálfur, en a. m. k. skal ég fúslega greiða atkv. með því, ef aðrir bera það fram.

Það fer nú að styttast í því, sem ég þarf að segja við hv. þm. Borgf. En ég vil geta þess, að næst á eftir hugleiðingum hans um mig sem ritstjóra og ráðh. kom hann inn á sína sérfræðigrein, smælkina. Sumt af þessu heyrði undir mig, og því ætla ég að svara. Hv. þm. fann að því, að nokkrum hundruðum króna hafði verið varið til að rannsaka tryggingar fyrir enska láninu. En mér fannst ríkið ekki geta verið þekkt fyrir annað en að borga þá rækilegu vinnu, enda gerði ég það með góðri samvizku. (PO: Treysti hv. ráðh. ekki Jakobi Möller?). Nei, ekki einum. Betur sjá augu en auga, eins og hv. þm. veit. Hv. þm. fann að því, að borgað hefði verið fyrir lagaþýðingar. Já, ég býst við, að hv. þm. fái á komandi árum að sjá meira af slíku. Aðrar þjóðir gera meiri og meiri kröfur til þess að fá að fylgjast með í okkar löggjöf. Við verðum að borga fyrir þessar þýðingar, einkum þar sem við erum svo settir, að enginn skilur mál okkar nema við sjálfir.

Þriðja atriðið var ríkisstj. óviðkomandi, sem sé, hvaða menn sambandslagan. tekur í sína þjónustu.

Fjórða atriðið var það, að Árna Björnssyni tryggingafræðingi hefir verið borgað fyrir að undirbúa tryggingarlöggjöf okkar. Alþingi lagði fyrir stj. 1928 að gera þetta, og 1929 var rekið á eftir henni. Fyrst snéri ég mér til Brynjólfs Stefánssonar. Hann hefir enga borgun fengið ennþá, en á auðvitað að fá hana. Það er undarlegt, að hv. þm. skuli ásaka mig fyrir þetta. Ég fór eftir ítrekuðum fyrirmælum þingsins, og enginn sérfræðingur var til í stjórnarráðinu.

Hv. þm. bar fram 2 fyrirspurnir. Önnur var viðvíkjandi eftirliti með vélum og verksmiðjum, en hin viðvíkjandi eftirliti með bifreiðum. Mér var ekki ljóst, hvort fyrri fyrirspurnin var borin fram í ásökunarskyni. Til þess starfa voru valdir tveir ágætismenn, annar ungur sérfræðingur og hinn gamli maður, sem hefir mesta „praktiska“ reynslu allra innlendra manna í þessum efnum. Hv. þm. talaði um, að 11 þús. kr. hefði verið eytt í þetta. En það er ekki nema partur af því launagreiðsla. Samkv. l. er lagt gjald á verksmiðjur, til að standast kostnað við eftirlitið. En af því að við höfum, enn sem komið er, enga mynd af því, hvað þessar tekjur verða miklar, er ekki endanlega ákveðið um kjör eftirlitsmannanna.

Hv. þm. spurði á sama hátt, hvort gjöldin, sem lögð væru á bifreiðar, rynnu bara sem launagreiðslur til mannanna.

Nei, þeir fá vissa upphæð fyrir sitt starf. En það er rétt, að þetta er ekki komið inn í fjárl. ennþá, meðan ekki verður sagt með vissu, hvort það borgar sig. Þessu eftirliti fylgja ferðalög allmikil og skrifstofuhald.

Að lokum ætla ég að víkja örfáum orðum að því, sem hv. þm. sagði um allar þær n., sem störfuðu fyrir stj. Ójá, þær eru að vísu nokkuð margar, en það kemur til af því, að þessi stj. er starfsamari en fyrri stj. og færist meira í fang, þó að deila megi um, hvort verk hennar séu betri eða verri en verk fyrri stj. Núv. stj. vill láta verða margvíslegar breytingar bæði á löggjöfinni sjálfri og framkvæmdum í landinu. Þess vegna er ekkert undarlegt, þó að hún taki sér nokkra aðstoð. Hv. þm. sagði, að þessar n. væru bara til fyrir gæðinga stj. En hv. 2. þm. Reykv. var fyrir nokkrum klukkustundum að skamma mig fyrir, að ég tæki bara íhaldsmenn í n.

Það er algerlega rangt hjá hv. þm. Borgf., að það sé stj., sem beri ein ábyrgð á þessum nefndarskipunum. Hann nefndi sjómannalagan. til dæmis. Alþingi lagði svo fyrir stj. að láta vinna að þessum undirbúningi. Það var snúið sér til þriggja manna um þetta, samkv. fyrirmælum Alþingis. Það var ekki fært að inna þetta starf af hendi í stjórnarráðinu.

Skattamálan. er kosin af Alþingi. Klakálan. er skipuð samkv. till. frá Búnaðarfélaginu og Fiskifélaginu. Mþn. í landbúnaðarmálum er kosin af Alþingi.

Ef við förum í eftirtekjurnar, þá held ég því fram, að n. hafi allar innt af hendi gott og mikið starf. Till. sjómannalagan. komu seint á þingi í fyrra, en verða vonandi afgr. í frv.formi nú. Skattamálan. hefir lagt myndarlegt frv. fyrir þingið. Póstmálan. lagði fram mjög myndarlegt álit og í samræmi við það, sem í ráði er að lögákveða. Kirkjumálan. hefir samið lagabálka til að leggja fyrir þingið. Er þar um mjög nauðsynlega löggjöf að ræða fyrir landslýðinn. Og mþn. í landbúnaðarmálum hefir lagt mjög myndarleg og merkileg frv. fyrir þetta þing og þingið í fyrra.

Meira hefi ég þá ekki að segja við hv. þm. Borgf. Mér er ánægja að því að fá tækifæri til að koma mörgu af þessu að, og get þess vegna látið hann fá það, sem hann óskar eftir, — þann part af þakklætinu, sem hann hefir mjög vel verðskuldað frá minni hálfu.