14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í C-deild Alþingistíðinda. (1553)

338. mál, gelding hesta og nauta

Pétur Ottesen:

Ég held, að sá ótti, sem fram kom hjá tveimur hv. dm. um að framkvæma þessi lög sé með öllu ástæðulaus. Mér er kunnugt um það úr Borgarfjarðarsýslu, að a. m. k. utan Skarðsheiðar hefir þessi aðferð nær eingöngu verið notuð síðustu árin. Það var maður, sem fæst við geldingu, sem tók þetta upp hjá sjálfum sér og hefir farizt það ágætlega úr hendi. Honum ætlaði í fyrstu að ganga erfiðlega að fá klóróform, en fyrir atbeina annara tókst það samt. Og eftir þá reynslu, sem hann hefir fengið, hefir hann haft það á orði, að ef hann ekki gæti fengið klóroform, þá mundi hann hætta að gelda hesta. Sama mun vera víðar upp tekið í Borgarfjarðarsýslu, og að ég hygg líka í Mýrasýslu. Í Borgarfjarðarsýslu mun því nálega enginn hestur vera geltur nú án þess að hann sé svæfður. Einnig er það kunnugt, að svæfing hefir verið notuð mikið í Norðurlandi. Dýralæknirinn á Akureyri hefir ferðazt um Norðurland og svæft þá hesta, sem hann hefir gelt. Þeir, sem séð hafa báðar þessar aðferðir, eru alveg sannfærðir um það, að ekki er hlítandi við gamla ástandið og að sjálfsagt er að verja hestana þeim kvölum af skurði, sem þeir verða fyrir, ef þeir eru geltir ósvæfðir. Það er alveg rétt, sem hv. form. landbn. sagði, að þetta er menningar- og mannúðarmál. — Hv. þm. Barð. er eitthvað að minnast á hordauða. Mér er nú ekki kunnugt um neitt slíkt. Og a. m. k. gefur Borgarfjarðarhérað ekkert tilefni til slíkra ummæla, enda er nú hv. þm. ekkert sérstaklega kunnugur þar. — Þá held ég, að ástæðulaust sé að fresta framkvæmd þessa um tvö ár, eins og hv. 1. þm. Árn. hefir gert till. um. Ég er viss um, að þetta veldur engum örðugleikum í höndum aðgætinna manna, og þar sem talsverð þekking er fengin um þetta víða um land, þá mun það ekki vera of hörð krafa, að lögin komi til framkvæmda þegar á næsta ári. Þykir mér vel á því fara, ef hægt verður að nota þann skamma tíma, sem eftir er af þessu þingi, til að greiða götu þessa mannúðarmáls.