14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í C-deild Alþingistíðinda. (1555)

338. mál, gelding hesta og nauta

Frsm. (Lárus Helgason):

* Hv. 1. þm. Árn. taldi hæpið, að hægt væri að samþ. þetta frv. óbreytt, enda kom hann með brtt. við það. M. a. fann hann að því, að greinar frv. væru óskýrt orðaðar. Kannske hefir það verið yfirsjón landbn. að fara ekki í smiðju til hv. þm. og fá hann til að semja frv. um. Þá hefðu ekki orðið gallarnir á orðalaginu. Ég held nú samt, að þeir, sem skilja mælt mál, telji gr. ekki óljósar. Og allir sjá, hver kjarni frv. er. Um það er engin spurning. En kjarni frv. er sá, að skepnurnar séu ekki lengur kvaldar að nauðsynjalausu. Hvað lærdóminum viðvíkur, þá er hann ekki annar en sá, að kunna að fara með klóróform. Og ég sé ekki, að það sé svo vandasamt, að meira þurfi en ár til að menn læri það. Í hverju héraði landsins er læknir, sem getur kennt það, og auk þess höfum við fjóra dýralækna. Væri ekki ofverk þeirra að gefa út erindi um það, hvernig menn skyldu að fara við notkun svæfingarlyfs. — Ég tók það fram áður, og hv. þm. Borgf. hefir líka bent á það, að menn hafa af sjálfsdáðum komizt upp á að nota það. Og það er vitanlegt, að þetta hefir gengið vel þar sem það hefir verið reynt. Ég veit, að svo er það í mínu byggðarlagi, og hv. þm. Borgf. segir hið sama úr sínu. En hér á Alþ. er verið að reyna að gera þetta mál flókið. En það er öðru nær en að það sé það. Ég sé ekkert á móti því, að menn um allt land geti að tilhlutun sýslunefnda lært að fara með efnið. Það er ekki svo mikill vandi. Meira að segja eru í hverju læknishéraði fleiri og færri menn, sem kunna þetta. Það er ekki meiri vandi að svæfa skepnur en menn. Ég hefi nokkrum sinnum aðstoðað við að svæfa menn og farnazt vel. Hv. 1. þm. Árn. vildi halda því fram, að hverjum manni væri heimilt að fara með efnið. Ég segi nei. Það er ekki öðrum heimilt en þeim, sem sýslunefnd tiltekur.

Hv. þm. Barð. var að furða sig á því, að þessu máli væri hraðað svo mjög gegnum þingið, að til þess væru notuð afbrigði, þar sem ýmsum stórmálum væri ekki hraðað. Ég tel einmitt, að auðveldara sé að hraða smærri málunum, vegna þess að þau eru einfaldari, þegar nauðsyn er á að koma þeim fram. Hann taldi mikla bót, ef brtt. hv. 1. þm. Árn. væri samþ. Það mundi mikið bæta úr heimsku landbn. En mér er sama, hvort hv. þm. kallar frv. heimskulegt eða ekki. Hv. deild mun skera úr því, og undir þann úrskurð vil ég beygja mig. — Hv. þm. þótti undarlegt, að þetta frv. skyldi vera látið bíða fram á síðustu stund og áleit, að áhugi fyrir því hefði þá fyrst vaknað. En frv. þetta hefir orðið að bíða af sömu ástæðu og mörg önnur mál, af þeim hlut, að þau hafa ekki komizt að. En það er eðlilegt, að því sé hraðað, þar sem það er einfalt mál, en nauðsynlegt að það gangi fram. — Um brtt. er það að segja, að ég tel hvoruga þeirra nauðsynlega. Og till. hv. 1. þm. Árn. er beint til spillis, þar sem hún frestar framkvæmd laganna um eitt ár.

Till. frá hv. 1. þm. Skagf. er meinlaus, en ekki nauðsynleg. Ég veit ekki betur en að hestar og naut séu húsdýr. Er því fyrirsögnin ekkert rangnefni á frv.

Sé ég svo enga ástæðu til að tefja hv. deild lengur með ræðu minni. óska þess eins, að frv. verði samþ.