25.03.1930
Neðri deild: 62. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurður Eggerz:

Það eru einkennilegir tímar, er við lifum á.

Er ég kom hér niður á þing í dag, þá vatt maður sér að mér, er ég þekki, og hvíslaði að mér: „Heldurðu ekki, að það sé rétt, Sigurður minn, að depla góðlátlega augunum framan í hverja spillingu, sem er í meiri hl. í landinu“. Ég hvesti augun á manninn. En svipurinn var svo þýður og vingjarnlegur, svo að ég deplaði augunum góðlátlega framan í hann, og með óminn af þessari einkennilegu lífsspeki í eyrunum kem ég hér nú í eldhúsið.

Tíminn 22. marz segir, að ég skríði fyrir Dönum þegar á liggi. Er hér sjálfsagt átt við póstsjóðslánið, sem ég náði samningum um við Dani. Áður en þeir samningar fengust, var mikið um það rætt, hve mikil hætta væri fyrir Íslandsbanka, að hægt væri að heimta þetta fé fyrirvaralaust. Voru þessar aths. að vísu réttar. Ég fór tvær ferðir til Danmerkur í þeim erindum að semja um lánið. Er samningarnir svo fengust með ágætum kjörum, þá minnist ég ekki, að nokkur yrði til þess að þakka, hve vel þetta hafði tekizt. En er tímar liðu fram, var málið tekið upp, ekki til þess að þakka mér, heldur til þess að ámæla mér fyrir, að ég hefði fengið hina góðu samninga með því að skríða fyrir Dönum. Löngunin til þess að hefna sín á mér var ríkari en viljinn til þess að viðurkenna það, ef einhverjum tekst að vinna gott verk fyrir þjóðina.

Svo ekki meira um það.

Í sama blaði Tímans er rætt um grein hæstv. dómsmrh., sem birtist í Tímanum 15. febr. og ræðir um sambandið milli Íslands og Danmerkur. Segir Tíminn, að grein þessi hafi vakið hina mestu eftirtekt í Danmörku, og er mjög svo kampakátur yfir henni.

Þessi grein er þannig vaxin, að á hana verður að minnast. Það er sízt að furða, þó að stjórnarblaðið sé hreykið yfir þessari grein. Með boðskap þeim, sem hæstv. dómsmh. flytur sambandsþjóðinni í grein þessari, er íslenzka þjóðin snoppunguð.

Og þessi snoppungur stj. á sína eigin þjóð þýtur um öll dönsku blöðin, þaðan gegnum Evrópublöðin og víða. Eftir því, sem Tíminn skýrir frá, þá má ætla, að í Danmörku sé þessi grein skoðuð sem manna, fallin af himnum niður.

Sögulegur inngangur er að greininni, og skal hann ekki rakinn.

Ekki get ég þó stillt mig um að taka hér upp lýsingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar:

„Danir beittu á þessum tímum venjulegum vopnum þess sterka, en Íslendingar sóttu á með úrræðum hins veika.

Skorti ekki á af hálfu Íslendinga stóryrði og sífelda tortryggni í garð Dana. sem venjulega reyndust þó þróttlítil þar til verulegra átaka kom . . . . “.

Hér er hæðst að Íslendingum, samúðin öll Danamegin.

Höfundur segir, að viðhorfið hafi breytzt eftir 1918. Danir höfðu viðurkennt þjóðfrelsi Íslendinga og þeir vildu standa við samninginn.

„Fyrir mörgum meðal hinna beztu manna í landinu mun hafa vakað sú hugsun, að þessar tvær frændþjóðir mundu geta lifað um langa stund við það jafnrétti, sem fengið væri með þeim breyt., sem reynslan sýndi, að við þyrfti“.

Engum dylst, að hæstv. ráðh. hefir samúð með því, að Íslendingar og Danir lifi um langa stund við það jafnrétti, sem þeir hafa fengið.

En íhugið stjórnarboðskapinn um jafnréttið.

Knútur Berlín viðurkennir, að það sé ekkert jafnrétti fólgið í því, að þjóð, sem er 4 millj. að íbúatali, hafi ábúðarrétt í landi voru, þó vér, 100 þús. menn að tölu, höfum sama rétt í Danmörku.

Danir fara með utanríkismál vor, en vér ráðum engu um þeirra.

Er það jafnrétti?

Er Knútur Berlin sanngjarnari í vorn garð en hæstv. dómsmrh.

Greinin verður alltaf þyngri og þyngri í garð okkar Íslendinga.

Hæstv. ráðh. segir enn í greininni : „Leið svo, að ekki bar til tíðinda, þar til Morgunblaðið og einstöku stjórnmálamenn nátengdir því hófu, að því er virðist tilefnislaust, einskonar herferð á móti Dönum, og var tilefnið það, að Danir sætu á svikráðum við frelsi landsins og vildu í verki innlima íslenzku þjóðina í danska ríkið. Menn eins og Sig. Eggerz, þegar hann átti sæti í landsstj., hafði umyrðalaust fyrir landsins hönd haft yfirumsjón landhelgisgæzlunnar, er dönsk skip framkvæmdu, ritaði nú hverja ádeilugreinina á fætur annari út af hinu samningsbundna starfi varðskipanna hér við land. Vinna varðskipanna hér við land var alveg hin sama 1922–1924 eins og 1927–1929. En á síðari árum var Sig.

Eggerz farin að nota íslenzkt utanríkismál sem kosningabeitu, og að því stafaði hið breytta viðhorf“.

Er því svo slegið föstu, að Sig. Eggerz og Ól. Thors hafi viljað nota viðhorfið til dönsku þjóðarinnar sem æsingamál innanlands.

Sagnritun hæstv. dómsmrh. er mjög einkennileg.

Rétta frásögnin af þeim viðburði í lífi þjóðarinnar, sem dómsmrh. virðist eiga við, er sá, að 1. des. 1927 vakti ég eftirtekt á því í mjög hógværri ræðu, er ég fyrir hönd stúdenta flutti af svölum Alþingishússins, að tími væri kominn til þess að festa augun á fyrirheitinu í sambandslögunum um uppsagnarréttinn.

Smátt og smátt var þessu máli veitt meiri eftirtekt.

Á þinginu 1928 lýsti stj. sú, sem dómsmrh. á sæti í, yfir því, að hún vildi vinna að því hjá þjóðinni, að hún segði upp sambandslögunum á hinum tilsetta tíma. — Lagði þing og stj. í einu hljóði samþykki sitt á uppsögnina. Í ræðu þeirri, sem ég hélt í þinginu og tilefni gaf til svars stj., rökstuddi ég eins ítarlega og ég gat nauðsynina á uppsögninni. Benti þar á meðal á þá hættu, sem stafaði af þeim réttindum, sem Danir hafa hér á landi, en í þessu fólst auðvitað engin árás á dönsku þjóðina.

Í yfirlýsingu þeirri, sem stj. gaf þinginu, öll stj., dómsmrh. þá einnig, var fallizt á þá pólitík, sem ég hafði borið fram.

En því er þá dómsmrh. að klaga fyrir Dönum? Því er hann að afsaka?

Allir vita, að þetta mál var ekki tekið upp vegna haturs og óvildar til dönsku þjóðarinnar, heldur af óbilandi trú allra þjóðrækinna manna á það, að þjóðin íslenzka yrði að eignast sitt eigið land kvaðalaust. Því er verið að leita að öðrum ástæðum en þeim sjálfsögðu alísl. ástæðum fyrir þessu alíslenzka máli? Hve óviturlegt væri að prédika hatur og andúð gegn hinni hámenntuðu sambandsþjóð vorri. Hitt er annað mál, að vér munum jafnan fjandskapast gegn hinum danska yfirráðaanda, hvenær sem hann rekur höfuðið upp. Og íslenzkir menn mega ekki blása lífi í þann anda. Því mun aldrei fylgja gifta.

Inn í aðalmálið fléttar svo hæstv. dómsmrh. landhelgisgæzlunni. Talar um greinar, sem ég hafi skrifað um hana. Veit þó, að ég hefi ekki skrifað þessar greinar, þó sammála hafi verið efni þeirra.

Annars lét ég mér ekki síður annt um landhelgisgæzluna hið fyrra tímabil, sem hæstv. ráðh. talaði um, heldur en hið síðara. Lagði á fyrra tímabilinu grundvöllinn undir íslenzku landhelgisgæzluna. Fékk Dani til að falla frá skoðun sinni um það, að hér mætti aðeins vera ein landhelgisgæzla undir þeirra forustu. Hefi áður skýrt frá þessu; endurtek það ekki.

Það er rauði þráðurinn í boðskap hæstv. dómsmrh., að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið grundvallaður á óvildinni til Dana.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa upp meginatriði úr stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins.

„Að vinna að því og undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og 25 ára samningstímabil sambandslaganna er á enda“.

Hvar gægist nú fram óvildin til Dana í þessari stefnuskrá?

Hefir danska þjóðin ekki lagt samþykki sitt á, að sambandinu yrði slitið eftir 25 ára tímabil; ef viljinn til þess væri nógu sterkur hjá Íslendingum?

Er það að fjandskapast gegn sambandsþjóðinni að gera það sem hún hefir lagt samþykki sitt á?

Ég get ekki komizt hjá því að minnast á skýrslu, er hæstv. ráðh. gefur í þessari grein um fund, sem sambandslagan. átti síðastl. sumar í Khöfn. Ég mun ekki ræða þá fundargerð alla, minnast aðeins á eitt atriði, er mér þykir merkilegt. Segir svo í greininni: „En er leið að fundarlokum, kvaddi Kragh fulltrúi vinstrimanna sér hljóðs og óskaði eftir, að fram kæmu frá hálfu Íslendinga skýringar á því, hvað Danir hefðu gert á hluta Íslendinga, sem hefði þurft að leiða til þess, að heill landsmálaflokkur væri myndaður á Íslandi með nafni og stefnuskrá, sem lenti til þess, að nokkrum hluta Íslendinga þætti líklegt, að Danir væru að innlima landið pólitískt, fjárhagslega eða menningarlega“.

Er það virkilega rétt, að jafn merkur stjórnmálamaður og Kragh fyrrv. innanríkisráðherra, hafi verið að skipta sér af því, hvaða nafni íslenzkur stjórnmálaflokkur kallaði sig? Ekki mundi Dönum líka, að vér færum að blanda oss inn í, hvaða nöfn flokkar þeirra bæru. Eina fyrirspurn vil ég bera fram til hæstv. stj. í sambandi við þetta: Er það eftir kröfu, sem komin er frá danskri hlið í sambandslagan., að hæstv. stj. og flokkur hennar kallar Sjálfstæðisflokkinn alltaf Íhaldsflokk?

Er sjálfstæðisflokksnafnið svo íslenzkt, að það hljómi illa í dönskum eyrum? Er skýringin nú komin á því óskiljanlega, að sjálf ríkisstj. uppnefnir aðalandstæðingaflokk sinn?

En mikill veraldarinnar aumingjaskapur er að taka danska kröfu eins og þessa til greina.

Ég held, að hæstv. stj. ætti nú að reyna að gera nýjan snúning til að losa sig undan þessum grun, og kalla nú flokkinn héðan af réttu nafni.

Í tilvitnuninni, sem tekin er upp hér að framan, er spurt um, hvað Danir hafi þá gert á hluta Íslendinga, svo að heill flokkur taki sér ofangreint nafn.

Segir hæstv. ráðh., að lítið hafi orðið úr svörum hjá hinum íslenzku nm., og standa þau ummæli fyrir hans eiginn reikning. Sjálfur segist ráðh. hafa sagt, að í sambandslögunum felist „fræðilegur möguleiki“ fyrir stærri þjóðina að bera hina smærri ofurliði.

Hér hefir því ekki verið haldið fram, að Danir hafi enn sem komið er notað sér ábúðarrétt sinn svo, að af því hafi stafað hætta, en þar sem hæstv. dómsmrh. segir, að í 6. gr. sé aðeins fræðilegur möguleiki til að stærri þjóðin beri hina smærri ofurliði, þá er það hin mesta fjarstæða. Það er ekki aðeins fræðilegur möguleiki, en það er praktískur möguleiki fyrir því, að Danir geti notað þann rétt, sem þeir eiga hér samkv. sambandslögunum.

Þó danska stj. nú vilji beina væntanlegum fiskiflota Dana norður í höf annarsstaðar en til Íslands, þá getur komið stj. eftir þessa stj., sem nú er í Danmörku, sem lítur öðruvísi á málið. Hið danska einstaklingsframtak getur, án þess að spyrja stj., notað sér réttinn til fiskveiða hér við land, sérstaklega ef fiskveiðarnar norður í höfum yrðu arðvænlegar fyrir Dani. Auðvitað yrði þá alltaf freistingin til þess að leita þangað, sem fiskimiðin eru bezt.

Hér er því um meira en fræðilegan möguleika að ræða.

Það var enginn vandi að svara Kragh, ef svara átti þessari spurningu um nafnið og annað; ekki þurfti annað en afhenda honum stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins.

Í grein hæstv. dómsmrh. segir enn: „Einn merkur stjórnmálamaður í Danmörku segir út af pólitík Sig. Eggerz og Ólafs Thors, að það væri nýstárlegt að reyna að byggja upp pólitískan flokk á gagngerðum ósannindum um erlenda þjóð“.

Hver er þessi danski stjórnmálamaður?

Í þessu felst svo mikil móðgun við íslenzku þjóðina, að ef danskur stjórnmálamaður hefir sagt annað eins og þetta, þá hlaut æðsti maður þjóðarinnar að mótmæla slíku harðlega.

En hver var þessi stjórnmálamaður? Þá stendur enn í grein hæstv. dómsmálaráðherra:

„Frjálsar og vel menntaðar þjóðir umgangast hver aðra með kurteisi og velvild. Ekkert þykir í milliríkjaskiptum ósæmilegra en að gera nágrannaþjóð tortryggilega“.

En nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh., með hverju er hægt að gera nágrannaþjóð tortryggilega, ef ekki með því að skýra þjóðinni frá því, að stærsti stjórnmálaflokkurinn í landinu sé stofnsettur í óvild til sambandsþjóðarinnar.

Hvað mikinn fjandskap sem ríkissj. elur í brjósti til andstæðuflokksins, má ekki láta þeirrar óvildar gæta út á við í jafn ríkum mæli og hér virðist hafa átt sér stað.

Það er blátt áfram óskiljanlegt, að í stjórnarboðskapnum til nágrannaþjóðarinnar sé sagt, að andstöðuflokkur stj. sé skapaður af óvild til sambandsþjóðarinnar. Er hægt með öðru betur að blása að ófriðareldi meðal þjóðanna?

Ég hefi leyft mér að víta þessa grein. Þeir verða áreiðanlega fleiri, sem taka í sama streng.

Það stendur sannarlega margt í málgagni stj., Tímanum, sem marga rekur í rogastanz yfir.

Ég minni á lofsönginn mikla í því blaði yfir lausn bankamálsins. Ég hélt, að sá lofsöngur myndi enda með því, að skipað væri að hringja kirkjuklukkunum alstaðar á landinu í viðurkenningarskyni fyrir hið mikla starf stj. í því máli. En hve undarlegur er ekki þessi lofsöngur frá sjónarmiði þeirra, sem vissu, hvað fram fór í því máli.

Allir vita, að stj. barðist með hinum mesta ákafa gegn endurreisn bankans, enda vildi hún í byrjun ekkert gera til að koma í veg fyrir, að bankanum yrði lokað. Það var engin veiklun í þeim ræðum, sem hæstv. ráðh. héldu gegn bankanum og endurreisn hans. Flokksskoðunin í Framsóknarflokknum, eða sú skoðun, sem stj. fyrirskipaði í málinu, var í eina átt: „Niður með bankann“. En sérskoðun einstakra manna eða hin pólitíska samvizka nokkurra manna í flokknum varð sterkari en flokksskoðunin, og þessir menn, 6 talsins, heimtuðu endurreisn bankans. En þá fór stj. að verða hrædd um sitt litla líf, og þá kom brátt í ljós, að öllu yrði að offra til að bjarga því. Nú lofaði stj. allt í einu mörgum milljónum í bankann til þess að bjarga sínu eigin lífi.

Þetta var allt að þakka hjartslætti þeim, sem stj. fékk fyrir aðstöðu þeirra 6, sem hlustuðu á rödd sinnar eigin pólitísku samvizku.

Þessir góðu 6 menn létu sér þó nægja að laga þannig til í neðri byggðinni í þessu stórmáli, en þeir lögðu ekki út í að lyfta stj. upp í hærra veldi. Þetta minnir mig á ofurlítið rússneskt æfintýri. Einn af púkunum gerði uppreisn í neðri byggðinni. Sá gamli varð andvaka vegna uppreisnarinnar, en er það kom í ljós, að aðalmark uppreisnarinnar var, að uppreisnarpúkinn vildi sitja nokkuð nær höfuðpaurnum, þá endaði uppreisnin svo, að sá gamli bauð hann velkominn í hið nýja sæti og allt var gleymt. Í hverju æfintýri er oft einhver en ekki allur sannleikur, og svo mun nú einnig hér.

Málinu var bjargað, og það var þakkarvert, en skrítin er hún, grein hv. þm. V.-Ísf., þegar hann er að lýsa málalokunum. Hv. þm. sveipar málið inn í einhvern mjög undarlegan silkivef og í gegnum vefinn glitrar í hið spámannlega andlit forsrh., og hann er látinn sjá allt fyrir og hafa verið með í björguninni. Sannarlega grillti enginn í þetta spámannlega andlit, þegar hæstv. forsrh. var að hamast gegn bankanum svo tröllslega, að svo leit út, að allt væri tapað, ef bankinn væri ekki steindrepinn.

Þar sem málalokin urðu allt önnur en stj. margoft hafði lýst yfir, að hún vildi, þá vil ég nú leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann hafi ekki gleymt að biðja um lausn.

En þó svo hefði verið, þá mætti bæta úr þeirri gleymsku enn með því að biðja nú um lausn.

Sannfærður er ég um, að slík athöfn mundi vekja mikla samúð um allt land. Ég hefði aldrei haldið, að syndir stj. væru eins mýmargar og komið hefir fram nú í ræðunum á eldhúsdeginum. Þær gleymast jafnóðum, eins og flest gleymist, en nú voru þær rifjaðar upp.

Ef nú öllum þessum syndum væri troðið í einn poka, hvílíkur poki — hvílíkur voða syndapoki yrði það. Og það versta er, að það er ekki hæstv. stj. ein, sem þarf að bera pokann, heldur verður hver einasti af flokksmönnum hennar að bera hann, þegar þeir koma út til þjóðarinnar. Syndunum verður þá ekki skipt jafnt á milli þeirra, svo að hver þeirra fái sinn pinkil: Nei, hver um sig verður að taka allt á sitt bak. Ég sé í anda þessa pólitísku pílagríma, þegar þeir bognir af syndaþunganum koma til þess að leita fyrirgefningar þjóðarinnar. Ég bið fyrir þeim í hljóði. (LH: Það er gott að eiga von á því).

Á eldhúsdaginn á ekki aðeins að leggja áherzlu á syndir stj., heldur á einnig að draga fram það, sem hún hefir gott gert. Ég hefi nú verið að leita að einhverju þess háttar undanfarna daga. Þess vegna lít ég svona þreytulega út. Ég hefi leitað lengi og vandlega en ég hefi ekkert fundið, ekkert.

Fyrst leitaði ég um skólamálin. Hið mikla blað, Tíminn, hefir talað svo mikið um afskipti hæstv. landsstj. af þeim málum. Það hafa verið reistir skólar, ekki er hægt að neita því. Skólinn á Laugarvatni er kominn upp og hefir kostað mikið fé, ærna fé, enginn veit hve mikið. Það er líka sagt, að hæstv. stj. hafi látið, eða ætli að láta gera glerhimin yfir þennan skóla. En minna hefir heyrzt um þá andlegu vakningu, sem frá slíkri stofnun á að berast. Ég er nú svo gerður, að ég vil heldur glerhiminslausan skóla, sem hefir holl andleg áhrif á nemendurna og héraðið, heldur en skóla með glerhimni, sem engir andlegir straumar berast frá. Um það, hvernig hæstv. stj. fór með vilja héraðsbúa, er hún valdi skólastaðinn, skal ég ekki tala að þessu sinni.

Þá hefir gagnfræðaskólinn á Akureyri verið gerður að menntaskóla. Ég hefi ávallt haft þá skoðun, að þarna hafi verið stigið rangt spor. Ég áleit betra að hafa einn góðan menntaskóla en tvo lakari. Um það leyti, sem þessi nýi menntaskóli var stofnaður, var sérstaklega verið að kvarta undan því, að stúdentar væru of margir í landinu. Hæstv. stj. lét svo, sem sér væri þetta mjög ljóst, og hún fann þetta einkennilega ráð til að draga úr fjölgun stúdenta: að stofna nýjan stúdentaskóla.

Þessi mál mega vissulega bæði fara í pokann hjá hæstv. stj.

Þá eru „umbæturna“ á Menntaskólanum hér. Jú, hann hefir verið málaður og settir í hann snagar, — og það er auðvitað ágætt. En jafnframt er ástæða til að andmæla því, að settar hafa verið takmarkanir fyrir því, hversu margir fá inntöku í skólann. Þetta er einhver svartasta ráðstöfun hæstv. stj. í menntamálum, og hún á áreiðanlega heima í pokanum. (ÓTh: Ætli það komist þar öllu fleira?). Þó að pokinn sýnist alveg fullur, er eins og hæstv. stj. hafi alltaf lag á að koma þar einhverju fyrir til viðbótar.

Þegar ég fann ekkert hæstv. stj. til málsbóta í skólamálunum, þá leitaði ég inn á annað svið. Ég fór að leita í dómsmálunum, hvað þar hefði verið gert. Ég fann, að það hefði verið reistur letigarður á Eyrarbakka. Hann er ef til vill þarflegur, en samt finnst mér a. m. k. staðurinn undarlega valinn og furðu fjarri höfuðstaðnum. En það er áreiðanlega annað mál á þessu sviði, sem hlýtur að fara í pokann: Það er tilraun hæstv. dómsmrh. til að leggja dómsvaldið undir umboðsvaldið. Það er eitthvert alvarlegasta málið, sem fyrir hefir komið í þjóðfélagi okkar. Dómsvaldið er ein af höfuðstoðunum undir þjóðfélagsskipun vorri. Sína aðalvernd á einstaklingurinn undir dómstólunum.

Þegar stj. beitir hinu mikla valdi sínu til þess að ráðast á einstaklingana, þá er verndin hvergi nema hjá dómstólunum.

Á nú einnig að taka þá vernd frá einstaklingunum?

Ég hefi áður við annað tækifæri talað um afskipti stj. af peningamálunum. Þar eru nú hvítu blettirnir fáir. Allt fer þetta niður í pokann.

Mig furðar sérstaklega á því, hvernig hæstv. stj. fær alla flokksmenn sína til að bera með sér syndapokann.

Ég lá andvaka eina nóttina og var að hugleiða með sjálfum mér, hvað það var óeðlilegt, að þjóðarinnar útvöldu vildu láta sjá sig með svona poka á bakinu. En áður en ég vissi af, var ég farinn að raula fyrir munni mér þessa gömlu vísu:

Grýla kallar á börnin sín,

þegar hún fer að sjóða:

„Komi þið hingað öll til mín,

Leppur, Skreppur, Lápur, Skrápur

og Leiðindaskjóða“.