31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í C-deild Alþingistíðinda. (1576)

343. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. þm. Borgf. lét í ljós undrun sína á því, að ég hefði ekki fylgt þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Það er rétt, að í frv. eru allmörg ákvæði, sem brjóta talsvert í bág við eldri ákvæði og eru nýmæli í okkar laxveiðilöggjöf. Að því leyti var það rétt, að frv. er þess vert, að því fylgi nokkru frekari grg. en enn er orðið. Ástæðan til þess, að ég lét enga framsöguræðu fylgja frv. var sú, að allmjög var liðið á fundartímann og ég vildi eigi tefja fyrir því, að málið kæmist til nefndar. En þó fer því fjarri, að ég hafi nokkuð á móti því, að aths. við frv. komi nú fram. Ég set því ekkert út á það, þótt hv. þm. Borgf. kæmi nú með sínar aths. til að lýsa sjónarmiði sínu, þótt ég sé honum hinsvegar í nær engu atriði sammála. Ýms af þeim atriðum, sem hv. þm. tók til meðferðar, eru þess eðlis, að það hefir mikla þýðingu fyrir málið, hvernig Alþingi snýst við þeim, og vil ég því gera þeirra grein frá mínu sjónarmiði. En ég hlýt að draga mál mitt mjög saman, því að ég býst við, að sumum hv. þm. finnist nú önnur enn alvarlegri störf framundan í kvöld, þar sem er framhald eldhúsdagsumræðna, og má búast við, að mál mitt verði sundurlausara fyrir þessar sakir.

Fyrst sagði hv. þm. Borgf., að þar sem laxveiðilöggjöfin hefði staðið því nær óbreytt frá 1886 og fram á þennan dag og ekki hefði orðið vart sérlegrar óánægju með hana, mætti það virðast benda í þá átt, að þessi löggjöf væri nú við hlítandi. En þetta er enganveginn svo. Laxveiðilögin, sem sett voru 1876 og breytt nokkuð 1886 voru engan veginn sett með góðu samkomulagi. Hagsmunir þeirra, sem ofar og neðar búa með ánum, rákust þá á, eins og þeir hafa gert síðan, og mikið var þá um þetta deilt. — Niðurstaðan af þessum deilum varð sú, að laxveiðalöggjöfin varð mjög ófullkomin, eins og glöggum mönnum var þegar ljóst árið 1886, er lögin voru sett. Enda mun það vera mála sannast, að ef þessum lögum hefði nokkurntíma verið framfylgt eins og þau hljóða, hlyti þeim að vera löngu breytt. En lögin hafa verið margkrossbrotin út við sjó og upp til dala. Það er illt að þurfa að segja þetta, en það er svo.

Tilgangur okkar, sem þetta frv. höfum samið, hefir verið sá, að gera lögin svo úr garði, að unnt yrði að halda þau og að þau gætu orðið til heilla fyrir alda og óborna. Hversu þetta hefir tekizt, skal ég ekki um dæma, en það er hyggja mín, að fái þessi lög að standa um hríð, muni þau reynast gagnleg og verða til þess að auka þessi hlunnindi landsmanna.

Hv. þm. drap síðan á nokkur einstök atriði frv., sem hann taldi mjög til hins verra, og skal ég nú snúa mér að þeim.

Hv. þm. var mjög á móti takmörkunum þeim, sem frv. gerir á veiði á ýmsum stöðum. En þetta er einmitt eitt helzta atriðið í breytingunni á gildandi löggjöf og sérlega áríðandi, að vel sé frá því gengið. Má raunar segja með nokkrum sanni, að við höfum ekki mikla reynslu í þessu efni, en það hafa aðrar þjóðir, og við það hefir nefndin mjög stuðzt. Lifnaðarhættir og ganga lax og silungs er með hinum sama hætti hér og í öðrum löndum, og því má nota þeirra reynslu. Það hefir alstaðar sýnt sig, að nauðsynlegt er að takmarka mikið veiðina, til að geta haldið þessum hlunnindum handa framtíðinni. Laxveiðin sérstaklega hefir alstaðar farið smáminnkandi, og eftir því sem veiðiaðferðir hafa batnað, hefir aukizt hættan á því, að hún yrði upprætt með öllu. Með óbreyttri löggjöf hér, og ef menn fara að nota öll þau fullkomnari tæki, sem nú þekkjast, til laxveiði, ásamt meira fjármagni, má búast við, að veiðin verði upprætt með öllu á fáum árum.

Í þessa átt bendir og reynsla annara þjóða, og er illt að hafa ekki tíma til að skýra hér frá henni með nokkurri nákvæmni.

Fyrsta atriðið til takmörkunar á laxveiði er það, að við leggjum til, að hún sé með öllu bönnuð í sjó. Þetta er ekki af því, að sérstök hætta stafi af sjávarveiðinni eins og er, heldur vegna hættunnar, sem yfir vofir, ef hún eykst. Þarna höfum við einmitt annara reynslu að fara eftir. Við Ameríkustrendur hefir veiðin verið mjög mikil áður, bæði í sjó og ám. En sakir þess, hve kappsamlega sjávarveiðin hefir verið stunduð, hafa þessi hlunnindi þorrið stórkostlega, og á síðari árum er laxganga í ár afarmikið minni á sumum stöðum, t. d. við Newfoundland. En það þarf ekki að fara til Ameríku til að fá þessa reynslu. Í Danmörku hefir sjávarveiði verið stunduð um langa hríð og með þeim árangri, að laxgengd í ósalt vatn er nærri horfin. Munu Danir hafa misst alla von um að geta úr þessu bætt eða bjargað laxveiðinni. Í Svíþjóð var veiðiskapur eitt sinn mikill, en vegna sjávarveiði þvarr hann mikið er fram í sótti. Nú er það svo með Svíum, að jarðaverð styðst m. a. við þessi hlunnindi, og því hefir þar ekki verið að því horfið ennþá að banna sjávarveiði með öllu. En í Svíþjóð er mikið um það rætt að bjarga laxveiðinni, og þar mundu menn fegnir vilja, að aldrei hefði verið komizt eins langt og orðið er út á þá braut að veiða lax í sjónum. En nú er svo mikill hluti af ágóðanum af þessari veiði horfinn inn í jarðaverð í landinu, að ekki þykja tiltök að svo komnu að banna hana með öllu. — Þá er Noregur. Þar var laxveiðiskapur í ám áður mjög mikill og drjúg tekjulind. En hann hefir minnkað mikið á síðustu árum. Norðmenn hafa gert ýmislegt til að halda við veiðinni og auka hana aftur, t. d. byggt mörg klakhús. En nú er svo komið, að 85% af veiðiskap Norðmanna eru í sjó, og mörg klakhúsin standa tóm, vegna þess að í ánum fæst ekki nægur lax í þau. Í Noregi hefir mikið verið um það rætt að banna með öllu sjávarveiði á laxi, og hafa verið skipaðar þar nefndir til að athuga þetta. Vegna þess hve veiðin er almenn, hafa þeir þó ekki treyst sér til að banna hana alveg. En þeir vildu fegnir, að þeir hefðu aldrei byrjað á henni. Norðmenn hafa reist harðar skorður við því, hvernig haga megi sjávarveiðinni, en telja þó hæpið, að þeir fái borgið laxveiðinni í landinu, fyrst veiði í sjó er ekki með öllu bönnuð. — Það er þessi reynsla annara þjóða, sem við eigum nú að nota okkur, og byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Við eigum að banna algerlega laxveiði í sjó, áður en hún er orðin nokkur atvinnuvegur í landinu. (JAJ: Hvernig er það með laxveiðina í Alaska?). Ég get svarað hv. þm. því, að ég efast ekki um, að laxinn í Alaska sé sömu náttúrulögum háður og annarsstaðar á hnettinum. Hann deyr út, ef hann kemst ekki í ferskt vatn til að halda sér við.

Hv. þm. Borgf. drap á, að í frv. væru ýmsar takmarkanir, sem snertu réttindi manna, t. d. hvernig væri ráðstafað innlausn á réttindum, ef veiði hefir verið leigð eða seld frá jörð. Þetta var með ráðnum hug gert af okkur nm. Við töldum bezt, að veiði fylgi þeim jörðum, sem áður hefir fylgt. Þetta eru hlunnindi, sem hafa fylgt jörðunum frá fornri tíð, og koma þá bezt að notum, að þau séu eign almennings. Má því ekki samkv. frv. skilja veiði frá jörðum eða ábúð, nema um stuttan tíma í senn, og það einungis stangarveiði um mest 10 ára bil í senn, nema sérstaklega standi á og ráðherra og veiðimálastjóri eða veiðimálanefnd leyfi. Þótt með því móti, sem ráð er fyrir gert í frv., sé nokkuð þrengt að umráðarétti manna, þá er það ekkert nýmæli, að löggjafarvaldið setji slík ákvæði, þegar almenningsheill krefst þess, að slíkar takmarkanir séu gerðar. Í þessu tilfelli er vissulega ástæða til að láta slíkt ráða.

Þá þótti hv. þm. athugaverð ákvæði 3. gr., sem fjalla um það, að eigendum jarða sé heimilt að krefjast innlausnar á fráskildum veiðiréttindum hver fyrir sínu landi, ef meiri hl. krefst þess. Ég er nú sannfærður um það, að þar sem veiðiréttur á annað borð er nokkurs virði, þá verði menn sammála um að innleysa hann. Það er áreiðanlega mikill áhugi fyrir því um land allt, að veiðirétturinn fylgi þeim jörðum, sem hann hefir áður fylgt. Og ég er viss um, að menn vilja mikið á sig leggja til þess að tryggja, að þessi réttur fylgi jörðum þeirra.

Hv. þm. drap á sjávarveiði og kom þar fram með skoðun, sem fer algerlega í bága við skoðun n. Hv. þm. vill ekki viðurkenna, að sjávarveiði sé hættuleg, og telur, sem er, að hún hafi stundum borið góðan árangur. En þótt svo sé, þá er öðru nær en að það sanni það, að þessi veiði sé ekki hættuleg og skaðleg. Það er einmitt sjávarveiðin og takmarkalítil veiði í árósum, sem hefir orðið orsök þess, að veiðin hefir þorrið. Ég býst varla við því, að hv. þm. hafi kynnt sér, hvernig veiði var háttað fyrr og nú. Það eru að vísu ekki til ljósar sagnir frá fyrri tímum, en þó eru til allvíða um land heiti á ám (laxár), sem gefa nokkra hugmynd um þetta. En þegar safnað var drögum til jarðabókar Árna Magnússonar, þá kemur það nokkuð vel í ljós, hversu þá hefir verið ástatt. Og ég skal benda á, hvernig það var þá, til að sýna nokkuð, hvað það gildir að stunda veiðina óskynsamlega. Ég skal lesa upp tölur, er sýna fjölda veiðijarða í hverju héraði, þegar safnað var drögum til jarðabókar Árna Magnússonar, og til samanburðar geta þess, hvernig það er nú.

Jarðab. Á. M.

1928

1.Árnessýsla …

50

38

2.Gullbr.ogKjósars…

26

8

3.Mýra-og Borgarfjs.

90

60

4. Húnavatnss….

85

46

5. Skagafjarðars…

55

13

6. S.-Þingeyjars….

21

9

Samtals

327

174

Af þessu má sjá, að veiðijörðum hefir fækkað afarmikið á landinu, en auk þess er víða svo, að þar sem áður var mikil veiði, er nú lítil eða nálega engin veiði. Og þess ber einnig að gæta, að svona er komið, þrátt fyrir mjög ófullkomnar veiðiaðferðir á liðnum tímum. En með nýtízku veiðiaðferðum er fljótlega hægt að uppræta það, sem eftir er. En í veg fyrir það verður að koma með lögum. Það er því ekki rétt að segja, að varhugavert sé að banna veiði í sjó. Það er miklu nær að snúa setningunni við, og væri þó ekki nógu sterkt að orði kveðið, því með mikilli veiði í sjó má hreint og beint uppræta allan lax. Og það mun brátt sýna sig, að klak og skynsamlegar veiðiaðferðir gefa fljótlega beinan gróða. Þótt veiði minnki máske í bili, þá eykst hún fljótlega og verður þá arðsamari, bæði vegna meiri veiði og vegna þess að minni tími fer í veiðiskapinn, þegar laxgengdin hefir vaxið.

Hv. þm. talaði þá um bann gegn veiði í sjó og þótti kenna nokkurs ósamræmis, að n. vill leyfa þá veiði, sem er fyrir löngu byrjuð, en banna þá, sem væri nýlega byrjuð. — Við því er það að segja, að einhversstaðar verður að leggja merkjalínur. En ég held, að þetta ákvæði verði hvergi tilfinnanlegt. Það ákvæði nær ekki nema til örfárra manna.

Þá drap hv. þm. á, að það væri í alla staði eðlilegt að greiða þeim bætur, sem yrðu að eyðileggja veiðitæki vegna þeirrar veiði, er þeir hefðu haft í sjó, en sem væri þeirri ekki lengur heimil, og að það væri jafneðlilegt eins og að greiða bætur fyrir útrýmingu sels. Og í sambandi við þetta gat hann þess, að frv. um útrýmingu sels hefði fallið hér í deildinni af því þingið hefði ekki viljað ganga inn á það, að ríkið greiddi bætur til landseta sinna. — Ég verð nú að segja það, að mér þykir leiðinlegt að heyra þetta, ef það er rétta ástæðan fyrir því, að þingið vill ekki hlynna að veiði, sem snertir fjölda manns, vegna þess að það teldi eftir einhverjar smábætur, er það yrði að greiða um stund vegna eyddrar selveiði. — En þetta er hreint ekki sambærilegt við bætur fyrir veiðitæki. Fyrir selalátur koma því aðeins bætur, að þau hafi staðið lengi og séu friðlýst. (PO: Hér er verið að taka af mönnum rétt!). Það má kannske segja svo, en ekki þó meiri en á ýmsum öðrum sviðum, t. d. um bann gegn veiðum í landhelgi. Hv. þm. drap á, að samkv. frv. mundu sumir missa mikil veiðiréttindi. Það er mjög leiðinlegt, ef svo verður. En ég held, að ekki ætti að þurfa að fara svo. Hv. þm. drap á eina jörð í Borgarfirði, sem mundi tapa sínum veiðirétti við þetta. En ég held nú, að svo mundi ekki fara. Ég býst við, að undanþáguákvæðið í 15. gr. 3. lið eigi við í því tilfelli, er hv. þm. nefndi. Í þeirri gr. er heimild til að veita undanþágu, ef það er ekki hættulegt vegna fiskigöngu. (PO: Þessi heimild kemur þar ekki að liði!). Ef svo er, þá er rétt að taka það til athugunar og leiðrétta, ef það kemur ekki í bága við fiskigöngu. Það er vilji okkar að koma í veg fyrir það, að menn séu ástæðulaust sviptir rétti sínum.

Þá drap hv. þm. á ádráttarveiði og þær skorður, sem reistar eru gegn henni, og um friðun. N. taldi nauðsynlegt að búa þessi ákvæði svo úr garði. Menn kunna að líta misjöfnum augum á það, hvað nauðsynlegt þykir, en ég hugsa, að n. hafi ekki gert þessa kröfu harðari en nauðsyn ber til. Um friðunina er það að segja, að í veiðilöggjöf, þar sem ár eru yfirleitt styttri en hér, er ákveðin 72 stunda friðun, t. d. hjá Norðmönnum. Og það er meira að segja hægt að auka þá friðun.

Við höfum lagt til 60 stunda vikufriðun, og er það sízt um of. Það má vera, að þegar veiðiskapurinn er kominn í gott horf, þá þurfi ekki að hafa þessi ákvæði eins ströng. En það er þá hlutverk þeirra tíma að laga það. Það er mín persónulega skoðun, að ég hefði kosið gagnvart laxakistum að hafa friðunartímann enn lengri.

Hv. þm. drap á, að óhyggilegt væri að ákveða veiðitímann með löggjöf, þar sem hið sama gilti naumast um allt land, og sagði, að laxinn hagaði misjafnlega göngu sinni, færi fyrri í sumar ár en aðrar. Þetta er að vísu rétt, en eftir þeirri reynslu, sem fengin er um að héraðsstjórnir ákveði þetta, þá leizt n. ómögulegt að hafa þetta öðruvísi en hún leggur til. Væru þau ákvæði, sem nú eru um þetta, látin halda sér, þá gengju þau allt of nálægt fiskistofninum. Viðvíkjandi hinu friðlýsta svæði um árósa og leirur leizt n. nauðsynlegt að setja reglur til þess að fiskur kæmist í ár og gæti haldið áfram göngu sinni. Þess ber og að gæta, að aðstaða þeirra, sem við árósa búa, til veiðiskapar er miklu betri en þeirra, sem búa ofar við ár. Fiskurinn nemur staðar jafnan fyrir mynni árinnar, fyrst er hann kemur úr sjó og fer upp í árnar um flóðið og til baka aftur með útfallinu. Þetta gerir hann nokkrum sinnum á meðan hann er að venjast ferska vatninu. Svo þegar hann er lagður af stað upp í árnar fyrir fullt og allt, heldur hann áfram ferð sinni. Sami fiskur gengur því margsinnis fram með landi þess, er við ósa býr, en við það verða veiðilíkurnar meiri. Eru þeir því þrátt fyrir þessar takmarkanir betur settir en þeir, sem ofar búa.

Þá drap hv. þm. á þá takmörkun, sem gerð er um silungsveiði. Er það gert vegna þess, að hrygningartími hans er þá byrjaður, enda oftast lítið um veiði eftir og um þann tíma. Á öðrum tímum fá menn þetta líka margborgað með meiri veiði.

Þá drap hv. þm. á lagnirnar samkv. 25. gr. frv., þar sem leyfi ráðh. og veiðin, þarf til að taka upp nýja lögn. N. þótti nauðsynlegt að setja slíkt ákvæði, svo fyrir það væri byggt, að menn settu upp nýjar lagnir, sem skaðlegar væru göngu fiskjar. Ákvæðið um millibil lagna er líka gert í sama tilgangi. Sama er að segja um friðun kringum fossa. Öll eru þessi ákvæði til þess gerð að tryggja viðhald og göngu fiskjarins.

Þá talaði hv. þm. um eftirlitsmenn, hreppstjóra o. fl. Ef um eftirlitsmenn skipaða er að ræða, þá fá þeir laun fyrir það, en þar sem þeir eru hvort sem er ráðnir til þess, þá er ekki gert ráð fyrir sérstakri borgun. Þetta þótti n. sanngjarnt.

Þá drap. hv. þm. á 2. lið 69. gr. og þótti það ákvæði fullstrangt. Hér eru ákvæði, sem eru alveg sambærileg við landhelgisveiðarnar. Og þetta ætti ekki að koma að sök, því manninum ætti að vera hægt að sanna, hvernig á för sinni stæði, ef hann hefir ekki ætlað sér að veiða, en er þó með veiðarfæri.

Ég hefi þá stiklað á nokkrum atriðum, sem hv. þm. Borgf. minntist á, en ekki farið út í málið að öðru leyti eins og það verðskuldaði. Ég skal aðeins, áður en ég lýk máli mínu, drepa á tvær prentvillur í frv. Önnur er á bls. 7 í byrjun 21. gr., þar sem talað er um bann gegn því að selja lax frá 20. sept. til 1. júlí, en á að vera til 1. júní. Hin er á bls. 42 í greinargerð. Þar segir, að ársfriðun sé 2½ mánuður, en á að vera árlegur veiðitími. Fleiri prentvillur geta vel leynzt þar. Þetta bið ég hv. þdm. að taka til greina.

Að lokum vildi ég beina orðum mínum til hv. landbn. og vænti þess, að hún hraði svo störfum, að frv. megi komast í gegn á þessu þingi. Það er hin mesta nauðsyn að ráða bætur á þessum málum nú, en það verður því erfiðara og kostnaðarsamara að ganga frá málinu sem það dregst lengur. Samkv. því verðl., sem er á þessum hlunnindum, má reikna árlegar tekjur um ¼ úr millj. En allar horfur eru á, að verðmæti veiðinnar komist bráðlega upp í ½ millj., án þess að veiðin aukist til muna. Nú eru frystihús að rísa upp víðsvegar og kæliskip eða frystiskip fara nú að flytja laxinn á erlendan markað. Því má gera ráð fyrir, að innan skamms tíma hækki verðið. Þá mætti auka árlegar tekjur upp í tugi millj. að öllum líkindum, ef við kunnum að hagnýta okkur vatnsföllin okkar og frjómagn þeirra til framleiðslu þessara fisktegunda. Ekkert verður gert til þess án þess að ný löggjöf komi til. Þá fjarlægjast með hverju ári möguleikarnir, sem nú blasa við augum. Ég vænti þess, að hv. Alþingi sé ljóst, hvað hér er um mikið þjóðnytjamál að ræða.