12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í C-deild Alþingistíðinda. (1597)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Hv. flm. þessa máls, þm. Mýr., flutti ítarlega ræðu um það við 1. umr.; sé ég því ekki ástæðu til að vera langorður, þar sem hv. landbn. hefir fallizt á frv. að mestu leyti. N. hefir aðeins lagt til, að gerðar væru á því nokkrar smávægilegar breyt., eins og sjá má af nál.

Ég vil samt með fáum orðum minnast á aðalbreyt. frv. frá gildandi lögum. Er þá fyrst ákvæði um að 4. gr. falli burt. Hún ákvað, að byggingar á jörðum og nýbýlum á ræktuðu landi skyldu sitja fyrir nýbýlum á óræktuðu landi um lán. Þetta hefir verið tekið svo bókstaflega, að bankastjórnin hefir ekki séð sér fært að lána til neinna nýbýla á óræktuðu landi. Það hefir að vísu ekki verið mikið sótt eftir slíkum lánum; en það þykir þó rétt að veita bankastj. heimild til að veita þau, ef álitlegir menn eiga í hlut, eða aðrar ástæður mæla með því. Eftir viðtali við bankastj. Búnaðarbankans mun áfram verða fylgt þeirri reglu að miklu leyti, að láta byggingar á ræktuðu landi sitja fyrir, en með þessum ákvæðum opnast leið til þess, að hitt sé þó ekki alveg útilokað.

Við 3. gr. frv. flytur landbn. ofurlitla brtt. Eftir henni má jarðareigandinn leigja jörð sína fyrir 5% af jarðarverðinu og 4% af húsaverðinu. Það kom í ljós, að eins og lögin voru upphaflega, þurftu jarðeigendur eiginlega að gefa með jörðunum, ef þeir leigðu þær samkv. fyrirmælum laganna. Á þessi breyt. að bæta úr því, og munu landeigendur sleppa skaðlausir, ef brtt. er samþ.

3. brtt. n. er þess efnis, að 4. gr. frv. falli burt. Í nál. er tekin fram skoðun meiri hl. n. á því atriði, en ég er ekki sammála hinum nm. að því er það snertir.

Þá flytur n. brtt. um það, að auka við frv. einni gr., um breyt. á 3. gr. laganna. Það hefir komið í ljós, að bankastj. er erfitt að átta sig á, hvort umsækjendur eru svo efnum búnir, að þeir geti hæglega fengið fé annarsstaðar eða hvort þeir hafa þörf fyrir hjálp sjóðsins. Landbn. áleit tryggast í þessu efni, að umsækjendur sendu afrit af skattskýrslum sínum með umsókn. Ætti það að fyrirbyggja, að stórefnum búnir menn fái lán úr þessum sjóði, sem ætlaður er til stuðnings þeim fátækari.

Vænti ég svo, að hv. d. fallist á frv., með þeim breyt., sem landbn. leggur til, að gerðar verði á því.