12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í C-deild Alþingistíðinda. (1598)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil í öllum aðalatriðum styðja þetta frv., sem flutt er eftir tilmælum bankastjóra Búnaðarbankans. Þó þykir mér mjög leitt, að þurfa skuli að gera breytingar í þá átt að gera lánskjör fyrir nýbýli á óræktuðu landi örðugri. Þó ætla ég ekki að fara að hefja gagnrýni á það atriði, þar sem lítið mun veitt af slíkum lánum, og reynslan mun þá sýna, hvort þau kjör, sem nú er gert ráð fyrir, verða of erfið eða ekki.

Ég er alveg sammála því atriði, að bankastj. eigi að fá heimild til að veita lán til nýbýla á óræktuðu landi, og að hún fái að ráða, hvað mikið hún gerir að því. Það getur undir mörgum kringumstæðum verið sjálfsagt að veita slík lán.

Samhliða því, að búskapurinn fer nú að verða meira og meira rekinn með vélum, fækkar fólkinu á heimilunum. Það mun ekki líða á löngu, þar til hægt verður að framfleyta jafnmiklum bústofni á heimilum með helmingi færra fólki heldur en hægt var um síðustu aldamót. En þegar fólki fækkar á hverju heimili, er óhjákvæmilegt að fjölga heimilunum, ef sveitirnar eiga að blómgast og njóta starfskrafta þess fólks, er þar elst upp. Ég þekki t. d. tvær opinberar jarðeignir, sem reisa mætti á 8 nýbýli. Og á þeim stöðum er mikill áhugi hjá unga fólkinu á því að vera kyrrt í sveitinni sinni, ef það fengi land til ræktunar. Það er því vel, að ekki sé útilokað með formslegum erfiðleikum, að hið opinbera geti hlaupið undir bagga á slíkum stöðum. Ég geri ráð fyrir, að áfram verði aðallega lánað til bygginga á gömlum býlum, en lögin mega ekki hindra það, að hægt sé að lána til nýbýla, ef sérstakar ástæður mæla með því.

Hv. landbn. leggur til, að felld verði úr frv. heimildin til að lána til fyrirmyndarbúa, eins í hverjum fjórðungi. Ég vil geta þess, að ég er mjög hlynntur þessari hugmynd þess af bankastjórum Búnaðarbankans, sem nú er tilvonandi þm. Nú hygg ég að hv. þm. Mýr. flytji brtt. við þessa gr., til að gera það ljósara, að aðeins er átt við lán til bygginga á fyrirmyndarbúunum. Meiningin er, að eitt slíkt bú komist upp í hverjum landsfjórðungi; yrði það einskonar viðbót við búnaðarskólana, og mundu þau annast kennslu í ýmsum vinnubrögðum. Það er hart, að hvergi skuli vera af hálfu landbúnaðarins neinn staður, sem menn geta gengið að og sagt t. d.: ég vil læra fjárhirðingu. — Að vísu eru til mörg góð heimili, sem menn gætu lært á fjármennsku, en það er enginn viss staður til nú, sem menn geta gengið að. Á Hvanneyri eru ekki skilyrði til að kenna fjárhirðingu. Á Hólum eru þau aftur allgóð, og verður sennilega tekin upp slík kennsla þar. En það yrði þá líka eini staðurinn á landinu. En fjárhirðingin er dálítið mismunandi víðsvegar á landinu eftir staðháttum, og hafa menn því ekki alstaðar gagn af sömu kennslunni. Það væri t. d. ekkert vit í að ætla sér að innleiða fjármeðferð, sem tíðkast í snjóahéruðum á Norður- og Austurlandi, hér á Suðurlandsundirlendinu. Meðferð fjár á alstaðar að vera góð, en ekki alstaðar sú sama. Er því nauðsynlegt, að hver fjórðungur hafi fyrirmyndarbú fyrir sig.

Ég hygg, að þegar hv. þm. Mýr. er búinn að bera fram till. um að veita lán til fyrirmyndarbúa í skýrari mynd og ákveðnari en upphaflega, að hún verði aðgengilegri fyrir hv. landbn., og vona ég, að hún haldi þá ekki fast við að vera á móti henni.