12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í C-deild Alþingistíðinda. (1599)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Ég þakka hv. landbn. fyrir fljóta afgreiðslu á þessu máli. Get ég verið henni í flestum atriðum sammála og mæli með brtt. hennar á þskj. 479, að þeirri 3. undantekinni, sem er um að fella niður 4. gr. frv. Hæstv. dómsmrh. hefir gert nokkra grein fyrir, hvað fyrir okkur vakir með þeirri gr., og skal ég því ekki fara mikið út í það.

Búnaðarkennslunni er nú verið að breyta í þá átt, að leggja meiri áherzlu á verklega kennslu en áður og að láta fara fram ýmsar hagnýtar tilraunir í sambandi við hana. Af því ekki gilda sömu reglur um allt land, vegna ólíkra skilyrða, er nauðsynlegt að koma upp fyrirmyndarbúum sem víðast. Og við teljum heppilegra að velja úr nokkra framúrskarandi menn og styðja þá með ódýrum lánum til að koma upp fyrirmyndarbúskap og verklegri kennslu, heldur en að láta ríkið reka öll slík bú.

Ég vildi því mælast til, að 3. brtt. n. yrði felld. En eins og hæstv. ráðh. gat um, ber ég fram skriflega brtt. við greinina, til að gera það skýrara, að aðeins er átt við lán til bygginga, sem fyrirmyndarbúin þarfnast, en ekki til bústofns eða búrekstrar. Lái ég ekki hv. n., þó hún vildi fella niður gr., ef hún hefir skilið hana þannig. Vona ég, að hv. n. geti fallizt á að láta 4. gr. frv. standa þannig breytta:

„Stjórn sjóðsins er heimilt að lána til nauðsynlegra bygginga á fjórum fyrirmyndarbúum, einu í hverjum fjórðungi“, o. s. frv.