12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í C-deild Alþingistíðinda. (1608)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Sigurðsson:

Ég er þakklátur hv. þm. fyrir að hann viðurkenndi, að mín hugmynd væri réttmæt. En þá er hann kominn inn á það, að hann býst við, að þessir menn séu helzt efnamenn. En það stríðir raunverulega á móti reglum sjóðsins, að efnuðum mönnum sé helzt veitt lán úr honum. Og þó að maðurinn væri bjargálnamaður, eða varla það, — hvernig ætlast hv. þm. til, að sjóðsstj. fari að? Það er búið að byggja stórar og dýrar byggingar, og svo sýnir það sig, að maðurinn er ekki fær um að reka fyrirmyndarbú. Hvernig á þá að fara að? Ekki verða byggingarnar teknar af honum.

Ég vil aðeins benda á það viðvíkjandi þessum fyrirmyndarbúum, að það er í raun og veru ekki hægt að koma fjölda manns að t. d. við fjármennsku. Nei, það verður betra, að 1–2 menn komi sér fyrir hjá góðum fjármönnum, því að það eru ekki líkur til, að hægt sé að koma mannsöfnuði þar að. Ég held því, að skaðlaust sé, þótt þessi heimild yrði niður felld. — Hv. þm. A.-Sk. þarf ég ekki að svara, þar sem hann sagði allt hið sama og hv. þm. Mýr.