16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í C-deild Alþingistíðinda. (1620)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki að svara hv. 3. landsk. neinu verulegu, af því þessi hugmynd hans um 9. gr. er nú orðin nokkuð gömul og þekkt og hefir, að hans eigin skoðun; aldrei haft mikið fylgi með þjóðinni, og hefir það ekki farið vaxandi.

Það, sem vakir fyrir hv. 3. landsk. og vissum hluta manna, er, að ríkissjóður leggi fram fé í framkvæmdir hjá einstaklingunum, þannig, að eignin vaxi í verði. Fyrsti eigandi fær þá reist myndarlegt hús af styrk úr ríkissjóði, en ef eigendaskipti verða, er eignin svo dýr, að ekki er hægt að nota hana. Þessi styrkur, sem á bæði að vera einstaklingunum og þjóðfélaginu til gagns, kemur þá aðeins einstaka manni að notum.

Ég vil minna hv. þm. á, að á þinginu 1925, þegar hann beitti sér fyrst gegn þessu máli hér í þessari hv. deild, lagði hann áherzlu á það, að þessi hjálp myndi hafa spillandi áhrif á siðferðislíf þeirra, sem styrksins nytu. Þeir myndu þá skoða sig sem betlara fyrir bragðið. Hv. þm. lagði þá áherzlu á að fresta málinu hér í deildinni, því það væri óheppilegt, að menn fengju slík vildarkjör úr ríkissjóði til húsabygginga. Nú hefir hv. þm. horfið frá þessari skoðun sinni, því að í fyrra bar hann hér fram frv. um raforkuveitur utan kaupstaða, sem byggðist á sömu hugsun, nema hvað fjárframlög úr ríkissjóði voru þar enn meiri. Hv. þm. hlýtur því að sjá, að hann er ekki lengur á móti 9. gr., heldur á móti sinni fyrri skoðun. Hv. þm. hefði ekki dottið í hug að gefa bændum millj. kr. í rafmagn, ef hann hefði verið eins viss um það árið 1929 eins og hann var árið 1925, að slík framlög hefðu siðspillandi áhrif á þann, sem við tæki. Það er því skoðanabreyt. á bak við þetta hjá hv. þm. Hann hefir nú snúið frá sinni fyrri skoðun og á skoðun mína, sem kom fram í frv. 1925.

Ég get sagt hv. þm., að fyrsta árið eftir þetta voru margir bændur hér á landi, sem lögðu trúnað á þessa skoðun hv. 3. landsk. og héldu, að það væri óheppilegt að hafa svo niðursetta vexti til bygginga. En svo hvarf þessi mótstaða og allur sá gauragangur, sem þyrlaðist upp út af 9. gr., datt niður. Ég skoða þetta sem forngrip, sem fundinn var einu sinni upp til þess að tefja framgang góðs máls.

Þá kom hv. 3. landsk. með sína gömlu firru, að vilja fella 9. gr. niður. Ég ætla því lauslega að útskýra, hvað vakir fyrir bankastjórunum með þessari viðbót við 9. gr., sem hv. 3. landsk. er svo mikið á móti.

Það, sem átti að fyrirbyggja með 9. gr., var það, að þegar ríkissjóður er búinn að leggja fram stórfé í byggingu fyrir einstakan mann, geti hann selt eignina svo háu verði, að næsti eigandi sé engu betur farinn en áður, en fyrsti eigandi þurfi aldrei að greiða nema nokkurn hlut af húsverðinu. Menn vita það vel, að það eru í raun og veru ekki reiknaðir neinir verulegir vextir af húseignum í sveit. Dugnaðarbóndinn Ágúst Helgason í Birtingaholti hefir t. d. mikið gert fyrir þá jörð. Ég má segja, að landeignin væri metin á 9000 kr., en húsin á 16000 kr. Ég man eftir því, að hann sagði við mig fyrir nokkrum árum — það var áður en 9. gr. kom til sögunnar —, að þegar hann hætti, væri ómögulegt fyrir son sinn, sem viðtæki, að borga bankavexti af fasteignamatinu, en það væri nær 30 þús. kr. Hann yrði því að leggja húsaverðið með jörðinni, til þess að hægt væri að búa á henni.

Ég tek þetta dæmi um þennan þekkta mann og þessa þekktu jörð, af því að það er svo áberandi, en sömu tilfellin eru um allt land, þar sem bændur hafa lagt mikið í sínar jarðir, t. d. girt eða sléttað. Það er því stærsta vandamál ábúandans, hvernig hægt sé að hindra það, að jörðin, eða sérstaklega húsin, verði of dýr þeirri kynslóð, sem við tekur. Sú djarfa hugmynd, sem hv. þm. Ísaf. (HG) og hans flokksmenn hafa haldið fram bæði á fundum og hér á Alþingi, að ríkið kaupi allar jarðirnar, er líka alveg fjarstæða.

Því það, sem bændur langar til, er að vera sjálfseignarbændur og láta börn sín svo taka við. En það er þó svo, að á fundaferðum mínum út um land hefi ég orðið var við, að þessari kenningu er samt sem áður að vaxa fylgi, af því að ungir bændur sjá engin sköpuð ráð til að taka við jörðunum af feðrum sínum, ef þeir eiga að borga fulla vexti af öllu. Og það er ekki eingöngu fasteignamat, sem þarf að borga af. Það er enn hærra verð, eins og hv. 3. landsk. tók réttilega fram. Ég tek það sem dæmi, hvernig þessi stefna er að vinna sér fylgi, af því að nú er skórinn að kreppa að í þessu efni.

3. leiðin, sem hv. 3. landsk. benti á og mest mun vera dáð innan hans flokks, er „spekúlation“ í lóðum. Sú stefna hefir nú fullt svigrúm til að njóta sín, nema hvað 9. gr. takmarkar þetta. Aftur er það stefna Alþýðuflokksins, að ríkið kaupi jarðirnar og leigi þær síðan út aftur. Þessi stefna hefir hingað til haft lítið fylgi í sveitum, en er nú eitthvað að vinna á, af því að stefna hv. 3. landsk. er farin að gefast svo illa.

Framsóknarflokkurinn er milliflokkur í landinu. Það er stefna hans, sem táknuð er í 9. gr., að styðja að því, að „spekúlantar“ nái ekki í jarðirnar til þess að gera þær svo dýrar, að það sé drápsbyrði fyrir hverja kynslóð að greiða vexti til þeirra, sem einhverntíma áður hafa átt þær. Ég held því, að það sé alveg vonlaust fyrir hv. 3. landsk. að vera að halda. því fram, að stefnan í 9. gr. sé dauð. Nei, það er stefna, sem er í vexti.

Hv. þm. virðist ekki skilja viðbótina við 9. gr., sem er 4. gr. frv. á þskj. 509. Þar er talað um það, að ef einhver lánþegi greiðir upp fyrir umsaminn tíma lán, sem hvílir á jörð, þá geti stj. bankans látið hann greiða nokkra uppbót á lánið. Það, sem liggur þessu til grundvallar, er það, að það er undir sumum kringumstæðum rétt, að lán sé ekki endurborgað, t. d. þegar eljusamur maður hefir ráð á því að endurborga eða selur barni sínu jörðina við lögleg ábúendaskipti. Ég álít, að núv. stj. Búnaðarbankans hafi fullan skilning á þessu máli og láti þá ekki greiða neina viðbót. En ef t. d. lánið er búið að standa í 35 ár, hefir ríkið borgað allmikinn part af vöxtunum, og er því farið að eiga part af eigninni, og finnst mér þá rétt, að bankanum sé borgað það, sem hann hefir létt undir með framleiðslu á jörðinni, ef seljandi ætlar að fá „spekulations“-gróða af sölu á jörðinni. Það er að vísu erfitt fyrir stj. að hafa eftirlit með þessu, en þetta er gert til þess, að ríkið fái sitt aftur frá þeim, sem vilja fara með jarðirnar úr framleiðslunni og út í „spekulationina“. Og þetta er sá skoðanamunur, sem alltaf helzt milli mín og hv. 3. landsk. og hans flokks. Ég vil styðja framleiðsluna, en þeir vilja styðja „spekulationina“.