25.03.1930
Neðri deild: 62. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. Dal. hélt langa ræðu, sem að nokkru leyti snerti grein, sem ég hefi skrifað, og þýdd hefir verið í ýms útlend blöð. Þessi grein mín fjallaði um mikilvægt mál, sem er viðhorf íslenzku þjóðarinnar sem sjálfstæðs ríkis til erlendrar þjóðar, og það brot, sem Morgunblaðsflokkurinn hefir drýgt á þeim velsæmisreglum, sem tíðkast milli síðaðra þjóða.

Hv. þm. Dal. heldur því fram, að sú skoðun, sem ég setti fram í þessari grein, sé löng. Ber því að líta á rökin.

Hv. þm. Dal. heldur því fram, að hvorki hann sjálfur, blað hans né heldur Íhaldsflokkurinn fyrrverandi og aðalblöð hans hafi farið út fyrir þau takmörk, sem viðunandi eru í sambúð velviljaðra þjóða. Ég held því aftur á móti fram, og ýmsir fleiri með mér, að blöð Íhaldsflokksins og blað hv. þm. Dal. hafi brotið svo mikið af sér í þessu efni, að hættulegt hafi verið fyrir sjálfstæði Íslands. — Ég tel því gott, að þetta mál var reifað hér á Alþingi. Hv. 2. þm. Árn. hefir að vísu skýrt frá því í sinni ræðu, í hverju hann álíti brot hv. þm. Dal. og samherja hans í þessu máli fólgið, en ég vil þó skýra þetta nokkuð frá mínu sjónarmiði.

Það sem hefir komið fyrir, er það, að fáeinir gamlir sjálfstæðismenn gerðu bandalag síðastliðið vor við þann flokk, sem þungfærastur hefir verið í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga. Formaður þessa flokks, hv. 3. landsk. þm., var t. d. allra manna linastur í kröfunum um sjálfstæði Íslands, þegar mest reið á, 1908 og fram að 1918. Það er kunnugt, að hann barðist mjög á móti því, að við Íslendingar fengjum okkar sérstaka þjóðfána. Hann var einn af þeim, sem taldi það goðgá af Íslendingum að geta ekki sætt sig við danska fánann sem þjóðfána sinn. En smátt og smátt bar þjóðartilfinningin málið svo áfram, að við Íslendingar fengum okkar eigið flagg, þrátt fyrir andstöðu þeirra manna, sem undu sér svo vel sem hluti úr danska ríkinu og síðar skipuðu hinn alræmda Íhaldsflokk. Því að það er alkunna, að í þeim flokki, sem hv. þm. Dal. bræddi sig saman við, eru öll þau frumefni, sem þyngst og skilningsminnst hafa verið í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga, að ég ekki tali um það, að í þeim flokki eru flestir þeir menn, sem með fjárglæfrum sínum hafa veikt fjárhagslegt sjálfstæði landsins og komið óorði á þjóðina erlendis. Mér þykir það því harla undarlegt, að ég ekki segi ósvífið, þegar slíkir menn fara að blása sig upp og þykjast vera hinir einu sönnu föðurlandsvinir, menn, sem í leynum hjarta síns er ekki verr við neitt annað en að Ísland verði sjálfstæð þjóð í framtíðinni. Ég tala þetta ekki til hv. þm. Dal. Ég er ekki í neinum vafa um það, að hann hefir alltaf viljað landinu eitthvað betur til handa í þessum málum en sumir núverandi vinir hans. Þó get ég ekki neitað því, að allmargt í framkomu hv. þm. Dal. bendir ekki til þess, að hann hafi mikinn skilning á þessum málum, sérstaklega að því, er snertir hið fjárhagslega sjálfstæði landsins, eins og ég mun koma nánar að síðar.

Orsökin til stofnunar „Sjálfstæðisflokksins“ núveranda var sú, að Íhaldsflokkurinn var orðinn vonlaus um að komast í meiri hluta, nema með því að beita sérstökum úrræðum, og helzt einhverri meiri háttar lymsku. Hann bar ugg í brjósti út af úrslitum landskjörsins 15. júní í ár. Vesalings íhaldsmennirnir bjuggust ekki við því að fá nema einn mann í stað þeirra tveggja, sem nú ganga úr hjá þeim, og hugsuðu sem svo, að ef þeir rugluðu nú reitum sínum saman við leifar Frelsishersins, mundi þeim meiri von til að tapa ekki manni við þær kosningar. Voru nú gerðir einhverjir þeir einkennilegustu samningar, sem sögur fara af, þannig, að einn af fulltrúum Íhaldsflokksins hér í Reykjavík var settur í hættu, til þess að koma að við kosningarnar 1931 einum af vinum hv. þm. Dal., hr. Jakobi Möller, sem álitið var, að hefði nokkurt fylgi enn í sambandi við blaðið „Vísi“. Ástæðan til þess, að þessari nýju sambræðslu var valið sjálfstæðisnafnið, var tregða Jakobs Möllers til þess að ganga í bandalag við þessa gömlu innlimunarmenn, sem að Íhaldsflokknum stóðu, Jakob Möller vildi því helzt vera laus við Íhaldið. Um leið og hann heimtaði sér til handa efsta sætið á lista Íhaldsins við næstu kosningar hér í Reykjavík, heimtaði hann, að Íhaldið gengi undir „sjálfstæðis“-nafnið. Hann vildi láta hv. 3. landsk. þm. ganga undir forsvaranlegt jarðarmen, áður en hann gengi í flokk með honum. Hv. 3. landsk. þm. varð að ganga að öllu. Svo hræddur var hann um það, að flokki hans væri engin von um framgang, ef þetta litla brot, sem hv. þm. Dal. taldist fyrir, væri ekki brætt saman við Íhaldsflokkinn.

Það er hægt að vorkenna aumingja Íhaldinu, a. m. k. hinum óbreyttu liðsmönnum þess, þó þeir uni ekki vel þessu nýja nafni flokksins, enda er það mála sannast, að það eru ekki einungis andstæðingarnir, sem kenna þennan umskírða flokk til síns upprunalega nafns, íhaldsnafnsins, heldur kalla „Sjálfstæðismennirnir“ núverandi sig sjálfir að jafnaði íhaldsmenn, þegar þeir tala saman sín á milli. Það má því með sanni segja, að hv. 3. landsk. þm. hafi orðið að taka út sömu þjáningarnar sem skógarbjörninn, þegar verið er að temja hann og hann er látinn dansa á heitum járnteinum, til þess að hann læri dansinn betur. Hv. 3. landsk. þm. hafði ekkert yfirdrifið álit á hv. þm. Dal., eins og oft kom fram hjá honum, allt þar til hann gerði þetta bandalag við flokksbrot hv. þm. Dal. En hann varð að dansa með nauðugur viljugur, taka á sig þann þunga kross að bera nafn sjálfstæðismannanna gömlu, andstæðinga sinna, og vera á móti Dönum, til þess að fylgjast með í bjarnardansinum. Ég veit, að þetta var ekki að skaplyndi hv. 3. landsk. þm., og er ég ekki að lasta hann fyrir það, því að ég tel það í senn skaðlegt og ómannlegt, þegar verið er að bera erlenda þjóð röngum sökum. En hv. 3. landsk. þm. komst ekki hjá því að dansa þennan dans á heitu járnteinunum. Hann skrifaði grein í „Morgunblaðið“ og „Vísi“ síðastliðið vor, þar sem hann sló á skjöldinn og lék dátahlutverkið hjá hv. þm. Dal. og vini hans, Jakob Möller. Hann útskýrði þar þörfina fyrir því, að Íhaldsflokkurinn kastaði sínu gamla nafni og kenndi sig við „sjálfstæðið“. Og skýring hans var sú, að okkur Íslendingum stæði svo mikil hætta af Dönum, vegna fiskimiðanna hér og fólksfjölda Dana. Yfirleitt var kjarni þessarar greinar hv. 3. landsk. þm. allt það, sem í hans augum hafði verið hégóminn einber fram að innlimuninni í Frelsisherinn. En það var ekki nóg með þetta. Síðastliðið sumar var boðað til fundar að Skeggjastöðum í Flóa, og þar hélt hv. 3. landsk. þm. kröftuglega fram þessum nýja barnalærdómi, sem hv. þm. Dal. hafði kennt honum, að það væri mikil og yfirvofandi hætta á nýrri innlimun frá Dana hálfu, að nauðsynlega þyrfti að safna þjóðinni saman um hinn íslenzka málstað, móti Dönum, sem stæðu reiðubúnir til að gleypa hina íslenzku þjóð.

Af því að hv. 3. landsk. hafði um nokkur ár verið foringi Íhaldsflokksins, og litið hefir verið á hann út á við sem foringja þessa sambræðsluflokks íhaldsins og Frelsishersins, var þessari grein hans, sem ég áðan nefndi, veitt töluverð eftirtekt af erlendum þjóðum, sérstaklega þó Norðurlandaþjóðunum, og ýmsir stjórnmálamenn, bæði í Danmörku og Noregi, litu á hinn umsteypta Íhaldsflokk sem nokkurskonar landvarnarflokk gegn danskri ásælni. Í Danmörku var það tekið sem sérstakt merki þess, að hér á landi væri straumur í þessa átt, að hv. þm. Dal. stóð að þessari nýju flokksmyndun og komst í miðstjórn flokksins, því að þar var það vitað, að hv. þm. Dal. hafði mjög slegið á skjöldinn í þessu efni og alið stöðugt á óvild til Danmerkur í blaði sínu, sem að vísu aldrei var víðlesið, en kom þó út, þangað til Íslandsbanki lokaði, á sinn hátt eins og „Hænir“ kom út til þess dags, að útibúi Íslandsbanka á Seyðisfirði var lokað. Þetta gefur manni annars ástæðu til að halda, að þessum áðurnefndu blöðum hafi verið haldið uppi eftir einhverjum leynilegum vegum af Íslandsbanka. Hvað Íslandsbanka hefir gengið til, er ekki gott að vita, en ef til vill gefur hv. þm. Dal. skýringu á því næst þegar hann talar.

Það, sem fyrst var gripið til, til þess að brýna Dani á, var það, að danska varðskipið stæði illa í stöðu sinni hér við land. Eins og ég benti á í áðurnefndri grein minni, hafa Danir hér samskonar skip til þess að uppfylla sambandslögin og þeir höfðu árið 1923. Og það þurfti tíma til þess að láta hreinsa katla sína, engu síður þá en nú. En þá sagði hv. þm. Dal. ekkert, enda var hann þá í stjórn. Þá fann hann enga ástæðu til þess að tala um, að Danir brytu samningana frá 1918 við það, að danska varðskipið gaf sér tíma til þess að hreinsa katla sína, eftir því sem reglur stóðu til. En eftir að hv. þm. Dal. komst inn á þetta nýja frelsisplan, hefir hann alltaf verið að áfellast danska varðskipið fyrir það, að það uppfyllti ekki skyldu sína, þó að störf þess hafi verið nákvæmlega með sama hætti eins og þegar hann hafði yfirumsjón landhelgismálanna.

Það hefir oft verið skipt um yfirmenn á þessu skipi, og þó að eitt árið hafi verið frekar værukær foringi á því, held ég, að yfirleitt megi segja, að á því hafi verið góðir og duglegir foringjar. En þessi „kritik“ hv. þm. Dal. fór út fyrir þau takmörk, sem voru eðlileg fyrir stjórnmálamann, sem hafði nokkra þýðingu á meðal þjóðar sinnar, og gat ekki annað en vakið úlfúð á milli okkar og sambandsþjóðar okkar. Ef eitthvað var að setja út á það, hvernig „Fylla“ rækti skyldu sína hér við land, var hægurinn á að snúa sér til stjórnarinnar með umkvartanir sínar, og fullt eins áhrifavænlegt sem að vera að áfellast dönsku þjóðina í heild sinni fyrir það, að varðskipið kæmi oft inn á höfn. Danska þjóðin gat lítið um það mál vitað.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í það hér, þar sem ég skýrði það ítarlega á eldhúsdaginn í fyrra, að það gegnir öðru máli um danska varðskipið en þau íslenzku. „Fylla“ er gamalt skip og þarf óvenjulega langan tíma til þess að láta hreinsa katla sína, og það hefir enga þýðingu að vera að áfellast foringja hennar fyrir það, sem þeir geta ekki gert að, Það tekur „Óðin“ og „Ægi“ 2–3daga að hreinsa vélar sínar, og engum hefir þó dottið í hug að áfellast foringjana á þessum skipum fyrir það, að þeir liggi í höfn meðan það starf er innt af höndum. Og það er ekkert vit í að vera að áfellast foringja hennar fyrir það, þó að þeir hlýði þeim lögum, sem skipinu eru sett með hreinsun vélar þess.

En undirróður Íhaldsmanna gegn sambandsþjóðinni hélt áfram. Það var í fyrstu nokkuð mikill hiti í þessum nýja flokki, sem þurfti að þurka af sér alla gamla innlimun, eins og er um menn, sem skipta um trú í hagnaðarskyni og þurfa að sýna sig á torgum úti í nýju fötunum. Þeir leggja allt kapp á að sýna sína nýju trú og ofsækja jafnvel sína fyrri trúarbræður. Því var það, að „Morgunblaðið“ gat ekki nógsamlega slegið á skjöldinn í þessu efni, og þegar svo að því kom, að halda skyldi fundi í ráðgjafarnefndinni íslenzk-dönsku síðastliðið sumar og álitið var, að vafasamt væri, hvort einn af fulltrúum Íhaldsflokksins ætti að sækja þessa fundi, af almennum velsæmisástæðum, lýsti blaðið yfir því, að nú ætluðu Danir að sýna okkur Íslendingum í tvo heimana í sambandi við jafnréttisákvæðið og fiskiveiðarnar, og að þar sem dómsmrh. og hv. 4. landsk. þm. væru báðir ónýtir fyrir hinn íslenzka málstað, en Einar Arnórsson hinsvegar of veikur einn, væri nauðsynlegt, að hv. þm. Seyðf. sigldi líka. Föðurlandið, væri í bráðri hættu gagnvart hinum danska úlfi, ef hans nyti ekki við. Um þetta sama hélt hv. þm. Dal. og ýmsir hinna nýju flokksbræðra hans hverja æsingaræðuna á fætur annari á fundunum úti um land og gengu þær í sömu átt og umrædd grein „Mbl.“. En það fór nú líkt með þessa för hv. þm. Seyðf. og þegar fjöllin tóku léttasóttina. Sjá, það fæddist lítil mús. Hv. þm. Seyðf. mun hafa fundið það, þegar hann var kominn til annars lands, að áliti hans var nú annan veg farið en áður, fyrir eigin tilverknað hans, sem ég skal ekki koma nánar inn á. Þó að honum væri sýnd fullkomin ytri kurteisi, mun enginn hafa fundið það betur en hann sjálfur, hvílíkt óhappaverk það var af flokksbræðrum hans að velja hann til þessarar farar, sem fulltrúa hinnar íslenzku þjóðar hjá erlendu ríki. Hann tók einu sinni til máls á fundinum, og það atriði, sem hann benti á til varnar flokki sínum, reyndist rangt. Svo lítið varð úr landvörn þessarar þjóðhetju, sem Mbl. hélt að verði íslenzka málstaðinn gegn Dönum.

Á þessum fundum ráðgjafarnefndarinnar bar það annars við, að vinstrimaðurinn Kragh, sem hvað eftir annað hefir hlaupið undir bagga með Íslandsbanka og stutt hv. þm. Dal. í því að bjarga þessu fyrirtæki úr hengingaról skuldanna, sagði sem svo við fulltrúa íhaldsins í n.: Þið segið beint og óbeint og segist trúa því, að við ætlum að innlima ykkur, og gera hið íslenzka sjálfstæði nafnið tómt á þeim grundvelli. Nú er bezt að fá gögnin á borðið og þið skýrið frá því, hvað það er, sem við höfum gert á hluta ykkar, því að einhver raunveruleg ástæða hlýtur að liggja bak við allar þessar umræður um hættu af danskri innlimun.

Hvað er það þá, sem getur gert það sennilegt, að hafa þurfi mikinn viðbúnað til að verjast árásum Dana? Og hverjar eru þessar árásir Dana á sjálfstæði Íslendinga?

Í þessari nefnd átti Íhaldsflokkurinn langbezta manninn, sem hann gat fengið til að verja sinn málstað í þessu efni, sem sé próf. Einar Arnórsson. Þessi maður hafði sýnt, að hann bar góðan hug til sjálfstæðismála vorra, þótt hann að vísu hafi tvisvar fallið frá skoðun sinni í þeim, í fyrra skiptið 1908 og hið síðara 1915, er hann snérist á móti hv. þm. Dal. Þótt þessi maður léti undan í þessi bæði skipti, þá hefir hann endranær haldið fram málstað Íslendinga, en jafnvel honum vafðist tunga um tönn, þegar hann átti að fara að sanna innlimunarframkvæmdir Dana. Þetta gat hann ekki varið sökum þess, að honum hafði verið fengið svo vont málefni til að verja. Einar Arnórsson skorti ekki vilja til að verja málstað Íhaldsins, en hann gat ekki komið fram með neitt dæmi þess, að Danir hefðu misbrúkað sambandslögin eða sýnt, að þeir hygðu á að innlima Ísland. Úr hv. þm. Seyðf. varð bókstaflega ekki neitt við þessar umræður, eins og áður er sagt, enda myndu fáir, sem til þekktu, hafa vonazt eftir miklu af honum í þessu efni, ef til átaka hefði komið.

Ég hefi nú sýnt fram á, að þessi nafnbreyting var óeðlileg, að færasti maður flokksins gat ekki varið hana þar, sem mest reið á, ef taka átti trúanlegt orðagjálfur Mbl. um danska innlimun. Nafnbreytingin var pólitísk spekulation, gerð í því augnamiði að blekkja þjóðina með því, að sambandsþjóð okkar væri okkur fjandsamleg og sæti á svikráðum við okkur. Allar slíkar fullyrðingar eru nú orðnar að engu, og það er þýðingarlaust fyrir hv. þm. Dal. að bera slíkar fullyrðingar og dylgjur á borð fyrir þjóðina, því að hún veit, að Danir hafa enn sem komið er alls ekki unnið til neins ámælis í sambúð við Íslendinga eftir 1918.

Það er eins og hv. þm. Árn. sagði hér áðan, að frjálsar, vinsamlegar þjóðir eru ekki með dylgjur í garð nábúanna.

Ég þori að fullyrða, að við Íslendingar höfum ekki enn sem komið er ástæðu til að óttast um innlimunartilraunir frá nokkurri nábúaþjóð, en hinsvegar er mér kunnugt um, að þær viðurkenna sjálfstæði okkar til fulls. Í því sambandi get ég skýrt frá því, að þegar ég kom á fundinn, sem haldinn var í Genf síðastliðið sumar, til að ræða um þátttöku Íslands í þjóðabandalaginu, þá létu aðrir fulltrúar Norðurlanda óskipt ánægju sína í ljós yfir því, en vel má vera, að það hafi nokkuð verið sprottið af hrósverðum eigingjörnum hvötum, því að þá myndu Norðurlönd eignast einu atkvæði meira í viðbót við það, sem nú er. Með hverju ári vex viðurkenning grannþjóðanna á því, að Ísland sé fjórða skandinavíska ríkið og þjóð okkar eigi jafnt rétt og hinar stærri Norðurlandaþjóðir til fullkomins sjálfstæðis, og því er það heimskulegt, að reyna til að spilla sambúðinni við nágrannaþjóðir okkar með því að bera á þær ósannar ásakanir. Því að sannleikurinn er sá, eins og Halfdan Hendriksen sagði á umræddum nefndarfundi út af hugsanlegri fjármálainnlimun frá Dana hálfu, að ekkert danskt fé hefir til Íslands runnið nema eftir beinni ósk Íslendinga sjálfra.

Það er ómögulegt að ásaka Dani fyrir það, þótt þeir láni einstökum fyrirtækjum eða mönnum fé til að byggja hús sín, eins og t. d. Hótel Borg, Jóni Þorlákssyni og Knúti Zimsen, og það dettur engum manni með sæmilegri skynsemi það í hug, að með því séu Danir að kaupa sér ítök eða innlima okkur á nokkurn hátt. Hitt er vitaskuld óviðkunnanlegt, að menn eins og borgarstjórinn og fyrrverandi ráðherra séu að berjast fyrir að halda vátryggingu Rvíkur hjá erlendu félagi, sem gefur bænum kjör, sem eru 60 þús. kr. lakari en hægt var að fá annarstaðar, og biðja þessi félög um leið um lán.

Þegar ég sá, að Íhaldsblöðin ætluðu að gera land vort að nokkurskonar skopmynd meðal frjálsra þjóða með þessu sífellda glamri, þá skrifaði ég grein í blað Framsóknarmanna og reif burtu allan þennan blekkingahjúp, og afleiðingin varð sú, að það sló í dúnalogn, og engar slíkar dylgjur hafa sést á prenti síðan, enda var Íslandsbanka lokað og um leið dó blað hv. þm. Dal. Það eru sennilega mjög fáar blaðagreinar, ritaðar á seinni árum, sem haft hafa jafnmikla þýðingu eins og þessi umrædda grein, því að nú sjá Íhaldsmenn, að þeir mega ekki byggja flokkslíf sitt á upplognum ásökunum á vinsamlega þjóð.

Hvað þeirri samþykkt viðvíkur, sem gerð var hér á þingi í sambandi við fyrirspurn hv. þm. Dal., þá er því til að svara, að það voru allir þingflokkarnir, sem gáfu samhljóða yfirlýsingu um vilja sinn, og því er þetta stefnuskráratriði Íhaldsmanna sameign allra Íslendinga og sízt af öllu sérmál þeirra, sem barizt hafa á móti þjóðfána landsins og fullkomnu frelsi.

Ég ætla nú ekki að fara mikið frekar út í þetta atriði, en vil víkja að hinu, sem er aðalatriðið fyrir þjóðina í þessu máli, og það er, hvort henni muni takast að standa á eigin fótum í framtíðinni, og hvort hún hafi til að bera þá menningu og þann dugnað, sem nauðsynlegur er til þess að svo megi verða. Eins og við vitum vel, þá er þjóð vor svo lítil, að það væri hægur hjá fyrir hverja nágrannaþjóð okkar að taka okkur með valdi, en hinsvegar hygg ég, að engin hætta sé á því, og því síður, sem ég vona, að við göngum í alþjóðabandalagið og að full velvild ríki með Íslendingum og öðrum frjálsum þjóðum. En leiðin til þess er sízt sú, að gera þeim upp getsakir að ástæðulausu.

Voðinn, sem yfir okkur vofir, er fólginn í öðru, sem er öllu varúðarverðara, að útlent fjármagn fái drottinvald yfir fjármálastefnu landsins og atvinnurekstri, og útlendingum sé þannig selt landið á vald, eða að ómenntaðir og siðlausir braskarar séu látnir vaða uppi í fjármálum landsins, án þess að nokkuð sé að gert, og landið tapi þannig áliti í augum siðaðra þjóða. Eitt sorglegasta dæmi af þessu tægi er innganga erlends steinolíuhrings hér á landi, sem íslenzks fyrirtækis undir verndarvæng Morgunbl.-manna og alls þess flokks.

Þegar það er athugað, hvaða flokkur það er, sem mest og bezt hefir unnið að sjálfstæði voru, þá er það sýnilegt, að það er Framsóknarflokkurinn. Það erum við, sem höfum barizt fyrir því, að rétta við hinn forna atvinnuveg, landbúnaðinn, sem verið hefir meginstoð íslenzku þjóðarinnar í þúsund ár. Þegar við hófumst handa, var svo komið, að landbúnaðurinn var að fara í kaldakol, en takist það, að gera hann svo sterkan, að helmingur þjóðarinnar geti lifað af honum, þá hefir mikið unnizt á með hinum margháttuðu umbótum, er Framsóknarflokkurinn hefir komið á viðvíkjandi landbúnaðinum og menningu sveitanna.

Skilyrðið fyrir því, að fólkið haldist í sveitunum, er fyrst og fremst, að það fái bætt húsakynni sín, að ræktunin vaxi, samgöngur aukist, að fullkomnir skólar séu til fyrir æskuna og góð verzlunarskilyrði og fjármagn til framkvæmda. Ef þessi skilyrði eru fyrir hendi, þá er enginn efi á því, að hér blómgast sterk, heilbrigð og framtakssöm þjóð, með öruggum bakhjalli í byggðum landsins. Þetta verður þó að takast, án þess að það sé gert á kostnað bæjanna, en til þess að þeir úrkynjist ekki, verður að setja þær öryggisráðstafanir, sem hægt er að gera. Ef hv. þm. Dal. snýr frá skvaldri sínu og að þessu, þá gæti hann frekar valið flokki sínum fegurra heiti en íhaldsnafnið, en það er neyðarlegt að velja sér sjálfstæðisnafnið handa flokki, þar sem mest hefir borið á leppmennsku og yfirdrepsskap, eins og t. d. hjá þeim mönnum, sem riðnir eru við Shell-félagið og síldarbraskið sem leppar útlendinga, eins og það var áður, þar sem bankarnir töpuðu stórfé fyrir leppmennsku þessara manna. Það fer illa á því hjá hv. þm. Dal. að látast berjast fyrir sjálfstæði landsins, þar sem hann hefir gert sig beran að mótstöðu við ýms helztu framfaramál þjóðarinnar, eins og t. d. einkasölu á áburði og einkasölu á síld, sem hvorttveggja braut af þjóðinni hlekki erlendrar leppmennsku og er að fæða af sér sterkt, íslenzkt atvinnulíf.

Nei, hv. þm. Dal. má taka sig á og þarf að losa sig við alla þá óhollustu, sem við hann loðir úr sjúkri sambúð við gamla fjendur íslenzka fánans, þarf að hugsa um, hvað er framtíð þjóðarinnar fyrir beztu, og þá mun hann ganga úr skugga um, að ég hefi rétt að mæla.

Hv. 2. þm. G.-K. réðist að mér með allmörgum orðum og fremur ógreindarlegum, enda var ræða hans sundurlaus og illa byggð. Hann talaði allmikið um ástandið í Menntaskólanum og vítti setningu hins nýja rektors og sagði, að setning hans hefði verið fjarstæða, því að elztu kennararnir hefðu átt að ganga fyrir. Þessi hv. þm. hefir frá því fyrsta sýnt hinum nýja rektor fullan fjandskap og gengið manna fremstur fram í því að koma af stað óeirðum í skólanum móti stjórn hans, en það hefir ekki tekizt og tilraunir hans engan árangur borið, og sýnir fátt betur, hvor fremur eigi erindi til áhrifa í skólanum, hv. 2. þm. G.-K. eða Pálmi Hannesson rektor. Það fór nú svo með það mikla veður, sem gert var út af rektorssetningunni, að eftir að „Morgunblaðið“ hafði rifizt í viku og orðið síðan að éta ofan í sig öll sín ummæli í málaferlum við hinn nýja skólameistara, datt allt í dúnalogn. Á stúdentafundinum fræga fór það líka svo, að háskólaborgararnir klofnuðu í tvennt um málið, og sá hluti, sem skildi hvert stefndi í þessu máli, er alltaf að vinna á. Það er líka sjáanlegt, að sú stefna, sem miðar að því að gera skólann að góðri stofnun, er þegar orðin ofan á og allt er tapað fyrir andstæðingunum, sem vilja hafa skólann í ófremdarástandi. Hv. 2. þm. G.-K. gat heldur ekki afsannað orð mín, er ég sýndi með rökum fram á, hvernig ástandið hefði verið í skólanum og minnti á ummælin í Kirkjublaðinu frá 1913, þar sem íhaldsprófessorinn talar um skólaárin frá 1880–1890. Hann segir, að þá hafi skólastjórinn gengið í barndómi og illur andi hafi ríkt meðal kennara og lærisveina, enda hafi lognar sakargiftir verið hafðar á lofti gegn piltum og vakið fullan fjandskap nemenda í garð kennaranna. Þá vita allir um, af hve viturlegum orsökum átti að reka úr skóla slíkan mann sem Sigurð skólameistara Guðmundsson um aldamótin 1900, en þá var það landsstjórnin, sem bjargaði og kom í veg fyrir, að fræðimennskulíf hans yrði eyðilagt.

Þá ætti mönnum einnig að vera minnisstætt ástandið í skólanum 1903, þegar Þorgrímur Kristjánsson var teymdur eins og fangi ofan af sal og niður í kennarastofu og leitað á honum eins og þjófi, til þess að ganga úr skugga um, hvort hann hefði eldspýtur í vasanum, en af því að hann getur blekkt kennarann, biður rektor hann fyrirgefningar. Árið 1906, þegar hv. 2. þm. G.-K. er í skóla, þá skrifar Sigurður Thoroddsen til rektors og kvartar undan, að hann trufli kennslustundir, sýni þrjózku, stelist úr kennslustundum og hafi allskonar óknytti í frammi. Á allri lýsingu kennarans á þessum pilti sést, að hann hefir þegar á unglingsaldri verið sami óróa- og hávaðaseggurinn eins og nú. Þá kvartar kennarinn undan þrjózku hans og leti. Nú á Alþingi hefir hann eyðilagt vinnubrögð í tveim nefndum með því að vanrækja fundi, en heimtar þó, að ekkert sé gert nema hann sé við.

Hv. 2. þm. G.-K. fann sök hjá sér, og að kennarinn myndi hafa haft rök að mæla, því að hann sagði, að óknyttastráka, eins og hann hefði verið, ætti að kúga. (ÓTh: Og þá Héðin líka). Sök hv 2. þm. Reykv. er, eins og orð kennarans bera með sér, næsta lítilfjörleg, enda orðið munur á mönnum síðan þeir komu á fullorðinsár.

Svona var nú sambúðin á milli kennara og nemenda á þeim góðu gömlu dögum í Menntaskólanum. Ég drap áður á dæmi síðast í vor, er piltur var felldur úr skóla fyrir stirfni kennara, þrátt fyrir mjög háar einkunnir. Það var búið að gera skólann að dauðri vél, sem átti að unga út andlega stirðnuðum nemendum.

Hv. 2. þm. G.-K. var að víta mig og Pálma Hannesson rektor fyrir að hafa ekki rekið pilta úr skóla, sem ekki vildu leggja á sig nám, utan reglugerðar af hugsjónaástæðum. Hann vildi umsvifalaust láta reka þá. (ÓTh: Ég sagði ekkert um það). Og brá rektor um hugleysi fyrir að beita ekki sömu heimskulegu hörkunni og gert var við óknyttastrákana fyrr á tímum.

Ég þekki þessar bækur, prótokolla Menntaskólans frá síðasta mannsaldri, sem ég hefi hér fyrir framan mig, og þær bera vitni um, hve fjarstæðum uppeldisaðferðum hefir verið beitt í skólanum. Og ég geri alls ekki sömu kröfur til þeirra manna, sem skólinn hefir þrælkað, og ég myndi gera til manna, sem vandir hafa verið við þá hugsun, að þeir væru að læra fyrir lífið. Þeir hafa of oft fundið til þess, að skólinn gæfi þeim steina fyrir brauð; hann hefir gefið hugsjónalífi þeirra litla fullnægingu. En það er það, sem skólar eiga að veita nemendum sínum, en ekki eingöngu nótur, próf og brottrekstur. Mér dettur ekki í hug að ætlast til þess, að þeir piltar, sem við slíkan skóla hafa átt að búa, séu í einni svipan orðnir þeir „idealistar“, að þeir fari að leggja á sig aukanám í jarðfræði, líffræði eða öðru slíku, um leið og þeim er gefinn kostur á slíku. Þegar kennararnir skilja þetta, þá fara þeir öðruvísi að en Björn Ólsen, þegar hann dró Þorgrím Kristjánsson niður stigann og inn á kennarastofu, gaf honum þar tækifæri til að segja ósatt og bað hann svo fyrirgefningar á eftir. Úr þessum jarðvegi er hv. 2. þm. G.-K., þetta skrautblóm í mannasiðum, sprottinn. Þegar kjósendum hans suður með sjó verða þessar upplýsingar kunnar, fer þeim að verða skiljanlegra en áður, hvers vegna hv. þm. hagar sér eins og hann gerir. (ÓTh: Hæstv. dómsmrh. var nú engin fyrirmynd, þegar hann var í Bárðardalnum). Ekki eru sveitungar mínir á sömu skoðun um það og rógtungan við Mbl.

Hefir hlýr hugur og óhvikull stuðningur sveitunga minna og sýslunga verið mér betra nokkru öðru brautargengi í baráttu minni við eldri og yngri „óknyttapilta“ Íhaldsflokksins. Hefði Menntaskólinn verið betri, er alls ekki ómögulegt, að hv. þm. hefði verið eitthvað skárri sjálfur. Því þó hann sé nú að vísu bæði fremur ógreindur, og samt öllu meira pöróttur en sem svarar heimskunni, þá er alls ekki ólíklegt, að vist í góðum skóla hefði lagað hann svo að hann hefði orðið til minni lýta fyrir þingið og minni trafala í nefndarstörfum en raun hefir á orðið.

Hv. 2. þm. G.-K. var að dylgja með það, að Pálmi Hannesson hefði getið sér lélegan orðstír sem kennari á Akureyri. Í tilefni af þessum ummælum ætla ég að lesa upp kveðjuorð til Pálma Hannessonar úr blaðinu „Muninn“, sem gefið er út af málfundafélagi Gagnfræðaskólans á Akureyri. Þessi kveðjuorð birtust í blaðinu 1. nóv. í vetur og eru þannig:

„Það hafa orðið mikil umskipti hér við skólann, nú í haust. Kennarar hafa horfið hver eftir annan frá starfi sínu, og nýir menn komið í þeirra stað.

Á einn þessara manna vil ég minnast hér, og það er Pálmi Hannesson.

Pálmi hafði starfað hér við skólann í þrjú ár. Ekki er það langur tími, en hann kynnti sig þannig meðal nemenda, að enginn gat hugsað til að missa hann. En þó — — eftir aðeins þriggja ára starf, var Pálma kippt burtu, öllum að óvörum. — — —

Við vorum saman í hóp nokkrir skólasveinar, er við fengum þá fregn, að Pálmi hyrfi frá skólanum. Okkur setti hljóða. Öllum var ljóst hið mikla tjón, er skólinn hafði beðið. Allir minntumst við samvistanna við Pálma með söknuði, — — kennslustundanna, sem margar voru hreinustu skemmtanir, um leið og þær voru til leiðbeiningar og fræðslu.

Við vissum, að Pálmi var farinn, að við ættum ekki framar að njóta hans sem kennara. Þess vegna setti okkur hljóða.

Nú er Pálmi, eins og allir vita, orðinn rektor Menntaskólans í Reykjavík. Margir álitu veitingu þessa banatilræði við stofnunina, og svívirðingu gagnvart kennarastéttinni. En við nemendur Pálma hér vitum, að hann er maður, sem óhætt er að treysta —, er flestum mönnum duglegri og einbeittari. Við álítum, að valið hafi fallið á þann rétta, þótt brotið hafi verið í bág við gamlar reglur. — — Við fyrrverandi nemendur Pálma Hannessonar hér í Gagnfræðaskólanum, sendum honum hugheilar óskir um góða framtíð, og kærar þakkir fyrir starf hans hér“.

Hugsum okkur nú muninn á þessari kveðju og því, sem ég las í gær upp úr plöggum Menntaskólans um sambúð nemenda og kennara. Hugsið ykkur muninn á þessari grein, og greininni, sem Guðmundur Hannesson skrifaði í „Nýtt kirkjublað“ 1913. Þegar menn heyra þann vitnisburð, sem hann gefur þar skólalífinu og kennurunum, þá fara menn kannske að skilja, hvers vegna stjórnin er nú að reyna að breyta þeim „traditionum“, sem Gestur Pálsson og Þórhallur Bjarnarson hafa líka skrifað um nálega jafnátakanlega og Guðm. Hannesson. Þessi bókun á ávirðingum nemenda í Menntaskólanum, þar sem meðal annars er lýsingin á Ólafi Tryggvasyni Jensen, er hvað órækasti votturinn um, að skólalífið var eins og það átti ekki að vera. Því þó að einhver nemandi trufli kennsluna með hávaða, stelist úr tímum, og sé leiðinlegur, eins og sagt er um þennan pilt, þá getur slík bókfærsla og þvílíkar yfirheyrslur, sem prótokollarnir bera vott um, ekki orðið nema til að bæta gráu ofan á svart, gera breyska unglinga til muna lakari en þeir hefðu þurft að vera.

Aðalböl Menntaskólans hefir verið forusta gömlu mannanna. Þeir Guðmundur Hannesson og Þórhallur Bjarnarson benda líka á það, að áttræðir menn séu ekki heppilegir leiðtogar fyrir unglinga á aldrinum 14–20 ára.

Kunnugir menn segja, að dr. Valtý Guðmundssyni hafi á síðari árum förlazt allmjög skilningur á málefnum Íslands, enda kom það í ljós á síðustu árum hans, að hann var hættur að skilja íslenzku þjóðina og var slitnaður úr andlegu sambandi við hana. En ef þetta er rétt um Valtý Guðmundsson, hvað mætti þá ætla um menn, sem orðnir eru eldri, og ógáfaðri eru að eðlisfari en hann var? Það er hin mesta yfirsjón í uppeldismálum, að láta gamla menn, slitna og þreytta, sem komnir eru út úr sambandi við æskuna, hafa þar æðstu völd og forustu kynslóð eftir kynslóð. Þá koma fyrir dæmi eins og þau, sem ég hefi skýrt frá í undangengnum ræðum.

Ríkisstjórnin hefir sennilega ekki fyrr en nú skilið það nokkurnveginn, að í skólastjórastöðu við stóra skóla er bezt að hafa unga og miðaldra menn, og langverst að hafa að staðaldri gamla menn. Rektorar ættu að láta af embætti, þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri. Í þessum efnum ætti að snúa við reglu hv. 1. þm. Reykv., á þann hátt, að lögákveðið væri, að skólastjórar væru aldrei gamlir menn.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að ég hefði sagt, að drykkjufýsn flokksbræðra hans væri þess valdandi, að selt væri vín hér á landi. Hvað sem um það er, þá er víst, að stærstu viðskiptamenn áfengisverzlunarinnar á hverjum útsölustað eru broddar Morgunbl.liðsins. Og ég get fyrir hönd ríkissjóðs látið í ljós takmarkaða ánægju yfir þessum miklu viðskiptum, úr því þetta fólk hefir ekki annað betra að gera við tíma sinn eða peninga. Aukningin á sölu vínanna hlýtur annaðhvort að stafa af því, að sorgir þær, er Íhaldsmenn þurfa að drekkja, fari sívaxandi eða þá af hinu, að smyglun hafi minnkað stórkostlega síðan íhaldsstjórnin fór frá völdum, nema hvorttveggja sé. Ég spurði fyrir nokkru einn sameiginlegan kunningja okkar hv. 2. þm. G.-K., hvort hann gæti ekki alltaf fengi whisky hjá vinum sínum, útgerðarmönnunum, þegar hann langaði til. Hann sagðist bara ekki fá lengur nokkurn dropa. Og þó var mér kunnugt um, að áður fyrr lágu margir þessara manna sýknt og heilagt í whisky. (ÓTh: Hefir ráðherrann verið innan um svoleiðis menn?). Nei, mér þykir whisky andstyggilegt, og þótt hv. 2. þm. G.-K. segi, að ég lifi á eitri, þá lifi ég ekki á whisky. Annars hugsa ég, að flestir meiriháttar Mbl.-menn eigi oftast eitthvað af whisky, þó þeir séu kannske orðnir sparir á að gefa það öðrum.“

Ég hefi aldrei gert mér svo háar vonir, að mér tækist að uppræta smyglunina með öllu. En ef whiskyflaskan kemst upp í 30 krónur sökum áhættu og örðugleika við smyglunina, myndi ég þó telja, að málið væri komið í þolanlegt horf í bili.

Ég hefi viljað hafa vínin sem bezt, úr því ríkið á annað borð verzlar með þau, og ef sá draumur minn og tengdaföður hv. 2. þm. G.-K. rætist, að þjóðleikhúsið komist upp í náinni framtíð, þá hefi ég hugsað mér, að þar í kjallaranum mætti geyma vínin, svo að íhaldsmenn fái sem bezta vöru og borgi sem mest í ríkissjóð, þangað til að hægt er að gera vínið rækt úr landinu. En til þess þarf að vinna svo stórkostlega sigra á íhaldinu, að andstæðingar vínanna geti bókstaflega gert við það hvað sem þeim sýnist.

Hv. 2. þm. G.-K. var að álasa mér fyrir, að ég hefði dregið Hermann Jónasson út í stjórnmálin með því að greiða honum atkvæði í bæjarstjórn. Sagði hann, að jafnmikill tími færi í það að sitja í bæjarstjórn og að vera á þingi. En hvernig í ósköpunum fer þá hv. 2. þm. G.-K. að færa þá fórn frá Kveldúlfi, að sitja á þingi? Hann er framkvæmdarstjóri milljónafyrirtækis með 40–50 þús. kr. árslaunum og er þó að „jolla“ hér niðri á þingi 3–4 mánuði á ári. Nú er það á hvers manns vitorði, að Hermann Jónasson hefir hrundið merkilegum hlutum í framkvæmd þann stutta tíma, sem hann hefir gegnt stöðu sinni. En hvað liggur eiginlega eftir hv. 2. þm. G.-K.? Eftir hans eigin vitnisburði ætti það ekki að vera mikið, þar sem hann hefir kastað sér út í pólitíkina, enda mun fáum kunnugt um afrek hans í þágu þess fyrirtækis, sem hann er talinn stjórna, fremur en hér á þingi.

Þá mætast leiðir okkar í kjördæmi hv. þm. sjálfs, sem hingað til hefir verið kallað svartasta íhaldshreiðrið á landinu, en er nú, fyrir starfsemi Framsóknarflokksins, að breytast í framsóknarkjördæmi. (ÓTh: Ég skora á hæstv. dómsmrh. að mæta mér þar við næstu kosningar). Ég hefi að vísu stærra kjördæmi sjálfur, en hv. þm. mun fá að reyna um hæstu kosningar, hve létt honum veitist að sigra fulltrúa Framsóknarmanna. Fyrir ekki alllöngu fékk hv. þm. þvílíka útreið á Brúarlandi, að mönnum er það minnistætt ennþá og hlakka til, að hann fái aftur álíka bað á næsta almennum fundi. Þær fregnir, sem berast um breytingar á hugarfari kjósenda hv. þm., bera allar vott um minnkandi fylgi hv. þm. suður með sjó.

Hv. þm. var að tala um það, að Kaldalóns væri ofvaxið að gegna embætti sínu. Í þessu læknishéraði hefir farlama maður, sem varla hefir farið út úr húsi í 12–13 ár, setið í læknisembætti. Við því ástandi sagði Læknafélagið ekki neitt og við því steinþagði Íhaldið. Stjórnin fékk þennan lækni til að segja af sér og embættið var auglýst til umsóknar. En hvað skeður? Fyrir atbeina Læknafélagsins er nálega 20 umsóknum stolið á leiðinni til stjórnarinnar. Aðeins ein kom fram, en eins og allt var í pottinn búið, hefði verið móðgun við þjóðfélagið að sinna henni. Þá var umsókn Sigvalda Kaldalóns eftir, og honum var veitt embættið. Engin óánægjurödd hefir heyrzt yfir þessu þar syðra, og er það til sæmdar fyrir kjósendur hv. 2. þm. G.-K. Almenningur skilur það, að stjórnin gat ekki veitt þetta embætti öðrum en þeim, sem stóð utan við uppreisnina. Ef Jónas Kristjánsson hefði sótt beint til stjórnarinnar og ekki með þeim endemum, sem kunn eru, hefðu ríkisstjórn og landlæknir ef til vill verið til með að veita honum embættið, ekki vegna þess, að hann sé svo sérstaklega góður læknir, heldur meðfram vegna þess að það hefði verið gustuk, að láta hv. 2. þm. G.-K. fá þarna nýjan liðsmann, til að smala atkvæðum fyrir sig við næstu kosningar! En eins og á stóð var ekki hægt að taka umsóknina til greina, og því var ekki hægt að gleðja hv. 2. þm. G.-K. með þessu.

Hv. þm. getur verið viss um, að framsóknarstjórnin hefir ekki grætt jafnmikið almenningsálit á neinu máli og þessu. Óteljandi orðsendingar, sem mér hafa borizt, sýna ánægju manna yfir því, að ríkisvaldið skyldi ekki láta fámenna klíku vaða uppi með ofsa og lögleysu.