26.06.1930
Sameinað þing: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

Þingsetning á Þingvöllum

forseti (ÁÁ):

Þingheimur hefir heyrt, að konungur vor hefir kvatt Alþingi til funda hér á Þingvelli. Enn einu sinni kalla Þingvellir Íslendinga til allsherjarþings. Þetta er sú þinghöll, sem vér höfum tekið í arf, — vellirnir eru fótaskör, og súlur fjallahringsins standa allt í kring undir heiðbláu himinhvolfi — vissulega er þetta þingsalur af guði gerður! Þessi svipmikla náttúra hefir fóstrað þing vort í nærfellt níu aldir. Hér er hjarta landsins, helgidómur þjóðarinnar, sem gerir oss minnuga mikilla atburða og langrar sögu. Fylkingar aldanna geysa fram og þúsund ár renna saman í einn dag.

Ingólfur, faðir landsbyggðarinnar, er oss nú nálægur. Gifta hans var mikil og fylgir þjóðinni. Í hans landnámi og af þess rót var sett allsherjarþing á Þingvelli, og í hans landnámi var reistur núverandi höfuðstaður landsins. Ef að líkindum hefði látið, þá hefðu goðarnir orðið smákonungar um land allt, unz einn þeirra hefði brotið hina undir sig með oddi og egg á sama hátt og varð í Noregi á dögum Haralds hárfagra. Til lítils hefðu þá frjálsir, ættbornir höfðingjar numið nýtt land. En gifta íslenzks-landnáms var meiri en svo, að yfir dyndi sú hættan, sem undan var haldið. Í eggjum sverðsins er uppruni flestra ríkja, en í voru landi var það hin vaknandi friðar- og skipulagsskrá víkingsins, sem skapaði allsherjarríki með fullu samþykki allra landsmanna, án alls ofríkis. Það er glæsilegt upphaf lögþings í stað vopnaþings. Um upphaf Alþingis mun Þorsteinn, sonur Ingólfs en faðir Þorkels mána, hafa ráðið miklu, en Úlfljótur, kyrrlátur höfðingi og spakur að viti, sagði fyrstur upp lögin, — „en þau voru flest sett að því, sem þá voru Gulaþingslög, og ráð Þorleifs hins spaka Hörðu Kárasonar (móðurbróður Úlfljóts) stóðu til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja“. Þann veg „var Alþingi sett að ráði Úlfljóts og allra landsmanna, þar er nú er“. Hinir kynbornu höfðingjar, sem vildu heldur láta óðul sín en lúta valdi konungs, báru gæfu til að stofna hér lýðveldi, sem um marga hluti varð upphaf og fyrirmynd þess stjórnskipulags, sem er enn við lýði og í uppgangi meðal hinna þroskamestu þjóða. Þann veg er upphaf þingaldar á Íslandi, þeirrar aldar, er vér enn lifum á og vildum fegnir leiða til fulls þroska. Oss ber og að minnast Gríms geitskós, sem kannaði hugi landsmanna og mun hafa átt þátt í vali þessa þingstaðar, sem er eins og af guði skapaður til að varðveita þrótt og heiðríkju fornaldarinnar í huga þjóðarinnar. Það er staðurinn, þar sem öxin týndist og land afbrotamannsins var gert að almannafé. Það er hvorttveggja tilvalið upphaf þingsögu og réttar. Þessi atburður hefir mestur gerzt á voru landi.

Þingvellir varðveita svip hinna fornu laga, sem voru stuttorð og gagnorð, meitluð eins og klettarnir í gjánni af skapferli bóndans og víkingsins í huga lögsögumannsins, hinni fyrstu lifandi lögbók hins unga lýðveldis. Víkingseðlið varð að vísu ekki bráðkvatt við stofnun Alþingis. Mannlegur þroski heimtar þúsundir ára. En þó varðveittist hið unga allsherjarríki fyrir hinum stærstu hættum. Kristnitakan varð þrekraun hins nýja skipulags. Þjóðin skiptist í tvo harðsnúna flokka, kristna menn og heiðna. Það var ekki útlit fyrir annað en að þjóðin mundi klofna í tvö ríki, og af því leiða borgarastyrjöld. En slík stjórnvísi var höfðingjum landsins í brjóst lagin, að sú hörmungasaga gerðist ekki að því sinni. Lögsögumennirnir, sem kosnir voru af hvorum flokki, Þorgeir Ljósvetningagoði og Hallur af Síðu, vizkan og göfgin, sveigðu toppana saman, svo að af varð full sátt. Lögin mátti eigi slíta sundur. Þau urðu að vera ein fyrir alla. Þannig var kristnin lögtekin fyrir tilstilli Þorgeirs hins spaka, sem lá hugsi þrjú dægur undir feldinum, og Halls hins góða, sem vildi eiga Michael engil að vin, af því að hann mat meira allt það, sem vel var gert. Á því þingi hafa fleiri verið, sem létu vitsmuni stýra tilfinningum sínum, en Snorri goði, er spurði, hverju goðin reiddust, þá er jörð brann, „þar sem nú stöndum vér“. Þetta var kristnitaka með öðrum hætti en hjá þeim þjóðhöfðingjum, sem ráku sigraða menn út í ár og vötn til skírnar. Varðveizla allsherjarríkis, án borgarastyrjaldar, réði úrslitum, og síðan hafa heiðni og kristni búið saman með einstæðum hætti í landinu til þessa dags, Íslendingasögur og guðspjöll, manndómur og mannúð. Lausnin var þinglegt snilldarverk, og jafnframt menningarlegt. Þjóðareðlið býr að því allt til þessa dags.

Tilgangur þingstjórnar er lausn deilumála án friðslita og blóðsúthellinga. Er þar margra fleiri að minnast en Halls og Þorgeirs. Ber sérstaklega að nefna Þórð gelli, Skafta Þóroddsson og Njál Þorgeirsson. En eik fellur ekki við fyrsta högg. Eftir þingsetning sjáum vér Kjartan og Gunnar vegna og Njál og Bergþóru örend undir húðinni. En það er ekki einsdæmi í samtíðarsögunni. Hins ber heldur að minnast, hvar Íslendingar hafa stigið feti framar samtíð sinni um löggjöf og stjórnmálaþroska.

Það er almennt álitið, að höfðingjar einir hafi öllu ráðið um stjórn hins íslenzka lýðveldis. En þess ber að minnast, að allir frjálsbornir menn áttu hlut að máli. Þrælahald féll hér skjótt niður og svo hljóðalaust, að engar sögur fara af. Goðar voru skyldir að nefna tvo menn með sér í lögréttu til ráðuneytis, og þingbændum var frjálst að segja sig úr lögum og í við hvern þann höfðingja, er þeim leizt. Er þetta upphaf dreifingar valdsins og vísir til almenns kosningarréttar. Höfðingjum var þetta ríkt aðhald. Trúnaðarskyldan var gagnkvæm, en blind hlýðni og þrællynd undirgefni óþekkt. Þörf þegnsins réði úrslitum um fylgið, en ekkert guðs-náðar-vald höfðingjans. Að Lögbergi, þar sem nú stöndum vér, var hverjum frjálsum manni heimilt að flytja mál sitt. Því var Lögberg helgasti staður hins forna þings. Þá er þess og að minnast, að sett var á Alþingi hinu forna hreppaskipting sú, er enn helzt við lýði, og þar með fátækralög og tryggingarlöggjöf um eldsvoða og nautpening, sem helzt minnir á löggjöf síðustu áratuga í helztu menningarlöndum. Sú löggjöf var einstæð, sprottin af landsþörf og jafnaðarhugsjón. Það er dómur hinna merkustu vísindamanna síðari tíma, að löggjöf Íslendinga á lýðveldistímanum standi um margt framar annari löggjöf, einkum að því er tekur til jafnréttis og félagshyggju.

Oftlega voru á Alþingi sefaðar deilur, er horfðu til vandræða, og má þar nefna deilur þeirra Hafliða og Þorgils og áhrif hins mikla höfðingja. Jóns Loftssonar, er mat meira venjur forfeðra sinna en boð páfans í Róm. En þó fól íslenzk stjórnarskipan í sér þá meinsemd, sem leiddi til falls hins forna lýðveldis; goðorðin gengu erfðum, kaupum og sölum, og söfnuðust í fárra hendur. Þar með var jafnvæginu raskað og erlendu konungsvaldi greidd gatan til afskipta og yfirráða.

Á árunum 1262–4 leið lýðveldið undir lok, og gengust Íslendingar þá á hönd Hákoni gamla Noregskonungi. Eymdi þó eftir af fornum hugmyndum um trúnað þegns og þjóðhöfðingja, því að sá sáttmáli, sem gerður var, var bundinn því skilyrði, „að vér og vorir arfar haldi við yður (konung) allan trúnað meðan þér og yðar arfar halda við oss þessa sáttargerð, — en lausir ef hún rýfst að beztu manna yfirsýn“. Með Járnsíðu og Jónsbók var mikil breyting á íslenzku stjórnskipulagi, en þó hélzt um langt skeið löggjafarvald lögréttunnar, og var fjarlægð konungsvaldsins í fyrstu vernd landsréttindanna. Og allt fram um síðaskipti höfðu Íslendingar einurð á að minna konung á landsréttindi sín samkvæmt Gamla sáttmála. En þó er engrar framsóknar að minnast frá tímum hins erlenda konungsvalds. Síðan gekk þróunin erlendis í einveldisátt, og leituðu hin erlendu áhrif á, með þunga tíðarandans og mætti hins sterkara. Úr því varð ekki rönd við reist; það var hægt að falla, en ekki að sigra. Loks dró Árni Oddsson síðasta andvarp íslenzkrar sjálfstjórnar, við undirskrift einveldisins í Kópavogi 1662, þögull og hryggur af hjarta. Höfðingjar lutu upp frá því erlendu valdi og urðu óvinsælir af alþýðu, sem mundi forna sögu og lifði í skauti íslenzkrar náttúru því lífi, sem hlýtur að ala sjálfstjórnar- og frelsisþrá. Fjarlægð erlendra einvalda var nú til ills eins sakir fjárdráttar og ókunnugleika, þó ekki brysti ætíð á velvild. Konungdæmið af guðs náð er hvorki norrænt né vestrænt, heldur suðrænt og austrænt að eðli og uppruna. Áin, þar sem öxin týndist, var eftir þetta vanhelguð með drekkingum og gjárnar með gálga og galdrabrennum. Löggjafarvald lögréttunnar dvínaði þar til dómsvaldið stóð eitt eftir, svo að það mátti næstum framför heita, er landsyfirrétturinn var stofnaður í Reykjavík árið 1800, þó alþingisheitið gengi til viðar um stund.

En jafnframt sást dagsbrúnin. Með aðdáanlegri þrautseigju höfðu landsmenn jafnan óskað að fá að ná íslenzkum lögum eftir fornum landsréttindum, þó að bænakvak væri að lokum í rómnum. Og skömmu eftir að nafn Alþingis var gengið til viðar, hófst hin harða sókn, sem 1918 leiddi til fullveldis Íslands, með líkum hætti og var á lýðveldistímanum.

Vorhugur Baldvins Einarssonar og kvæði Jónasar Hallgrímssonar kveiktu eldmóð í þjóðinni, tíðarandinn í álfunni snerist til hjálpar, og þá kom fram, fleygur og fullþroskaður, hinn ókrýndi konungur Íslands, Jón Sigurðsson, sem ber ægishjálm yfir alla íslenzka stjórnmálamenn á öllum tímum. Frá upphafi er braut hans bein. Bændur landsins fylktust undir merki hans. Á Alþingi, sem var endurreist af hinum góða konungi Kristjáni VIII., vann hann látlaust að starfi sínu. Í fullan mannsaldur var hann foringi þjóðarinnar. Réttur til innlendrar verzlunar, fjárstjórnar- og löggjafarvald í sérmálum vannst á hans tíð, og hefir borið hundraðfaldan ávöxt. Sjálfstjórnin hefir leyst hina bundnu krafta, og enn þann dag í dag eykst ávöxturinn af starfi Jóns Sigurðssonar og hans samtíðarmanna. Endurheimt Alþingis og landsréttinda, fyrir aukin áhrif engilsaxneskrar erfðavenju og fyrir franska stjórnvísi, er móðir þessa fjörkipps, sem nú hefir skilað oss aftur í spor hins forna þjóðveldis. Það hefir kostað baráttu, sem vér teljum ekki eftir, því að þvingun til sjálfstjórnar er engu betri en kúgun til hlýðni. Sótt hefir verið fram og vér höfum öðlazt þroska í baráttunni. Einu vopnin hafa verið hinn sögulegi og náttúrulegi réttur. Endurheimt verzlunurfrelsisins, fjárráða og fullveldis hefir hrundið fram ótrúlegum framförum. Íbúum fjölgar. Atvinnuvegir eflast. Ný landnámsöld er hafin. Árangur sjálfstæðisbaráttunnar hefir fyllt hinar djörfustu vonir manna og sannað það, sem Íslendingar hafa ávallt vitað, að heimastjórnin er hollust. Jón Sigurðsson sótti í sögu þjóðarinnar vopn sín, og það er heiður sambandsþjóðar vorrar, að þau vopn bitu.

Sagan hefir aldrei verið hlekkur um fót Íslendinga, heldur aflgjafi. Saga og bókmenntir vorar hafa aflað oss virðinga og vinsælda meðal hinna beztu manna erlendis. Lýðveldistíminn, löggjöf og bókmenntir, hefir svo að segja farið með utanríkismál Íslendinga og fengið því áorkað, að málum vorum er nú komið í gott horf. Það var ekki til einskis, að forfeður vorir fluttu í norður- og vesturátt, þó að þjóðflutningar leiti yfirleitt í suður- og austurátt. Hér í norðrinu hefir varðveitzt einn hinn sterkasti þáttur, sem menning nútímans er ofin úr: þáttur forn-germanskrar menningar. Það er hinn vígði þáttur okkar sögu, sá þátturinn, sem hélt og varðveitti þjóðina frá glötun, þegar loppa erlendra yfirráða, óáran og vesöld var næst því komin að klippa sundur lífsþráð hennar. Frumgermanskt frelsi og þjóðstjórn er nú aftur orðinn heimaofinn þáttur í íslenzku þjóðlífi. Hebreskra, hellenskra og rómanskra áhrifa gætir að vísu, enda er það þroskaskilyrði, að íslenzkt og erlent verði kembt saman í réttum hlutföllum í vef örlaganna. En suðurgöngur þarf ekki til að leita helgra staða og minninga. Hingað til Þingvalla leitum vér til þess að lauga oss í heilagri sögu og fegurð náttúrunnar. Hér er fortíðin næst oss og samhengi sögunnar augljósast. Fylkingar þúsund ára líða framhjá; göfugir höfðingjar, frjálsir bændur, hugprúðar hetjur, fagrar meyjar og tígulegar konur. Við látum á þessari stundu vatna yfir láglendi sögu og þjóðlífs, dægurþrasið, svik og launráð, ofstopa og sérgæði, en höfum augun á tindunum, sem blána aftur til upphafs Íslands byggðar. Á þá slær nú björtum roða.

Þessi stund á að vígja oss til starfa. Framtíð Íslands á allt undir nútíðinni. Eins og forðum daga heldur hver frjáls maður í hendi sér hluta af þjóðveldinu. Engin erlend bönd eru því til hindrunar, að þjóðin nái þeim þroska, sem henni er áskapað að geta náð. Skilyrðin eru önnur en meðal hinna stærri þjóða, og um sumt betri. Vér höfum hvorki her né flota og friðsamleg viðskipti ein við aðrar þjóðir. Vér tölum sömu tungu um land allt, bóndinn og háskólamaðurinn eru þar jafningjar. Tungan hefir varðveitt fjársjóði þúsund ára sögu. Hvert mannsbarn skilur mál Ingólfs og Úlfljóts og bókmenntir allra tíma eru lifandi verðmæti. Trúin er ein að kalla og þjóðerni landsmanna, lifnaðarhættir líkir og öll aðstaða. Hætturnar búa í oss sjálfum, hvort vér nefnum þær spilling kunningsskaparins eða fjandskap fámennisins. Fámennið hefir kosti og galla. Lífið er baráttan, og langt til hins fullkomna réttlætis, þar sem jafnvægi hæfileika og hagsmuna ríkir. En sagan brýnir fyrir uss að berjast drengilega, en ekki með grimmd og svikum. Norræn drengskapar- og manndómshugsjón, kristnitakan og fleiri atburðir sýna það, að forfeður vorir kunnu að eigast við, án þess er ríkið skiptist. Í þessu landi býr ein þjóð, en ekki tvær eða fleiri. Hér hefir aldrei orðið bylting, og vopnaviðskipti við aðrar þjóðir þekkjum vér ekki.

Mun svo enn verða um ókomnar aldir, ef oss tekst að varðveita jafnræði í aðstöðu þegnanna og halda uppi frjósömum viðskiptum við aðrar þjóðir með viturlegri löggjöf, í samræmi við eðli mannsins og náttúru landsins. Möguleikar Íslands eru miklir bæði um fjárhag og stjórnarþroska. Guð gefi, að oss takist að leysa svo vel sem upphafið spáir viðfangsefni mannlegs samlífs og skapa hér göfugt og glæsilegt þjóðlíf í fögru og svipmiklu landi. Til þess höfum vér hin ytri skilyrði. En skipulagið er ekki einhlítt. Á Alþingi eiga að sitja vitsmunir Snorra goða, stjórnvísi Þorgeirs, göfgi Halls af Síðu og manndómur Jóns Sigurðssonar, en hann bar allt þetta í brjósti.

Í dag erum vér sama hugar og forfeður vorir á hinum fyrsta fundi Alþingis. Þingstaður er hinn sami, og hátíð vor um margt lík hinu forna þingi. Tíu alda þingsaga talar til vor í þessu heilaga musteri manndóms og drengskapar undir bláum himni. Það hitar um hjartaræturnar. Tign fjallanna, niður ánna, grænka jarðarinnar og blámi himinsins rennur saman við minning Ingólfs og Úlfljóts, drengskap, manndóm, löggjöf og bókmenntir, — allt rennur það saman í eina mynd, mynd hinnar ættgöfgu Fjallkonu, dóttur íslenzkrar náttúru og norræns eðlis. Varðveitum þá mynd í brjóstum vorum og vinnum Íslandi meðan æfin endist.

Ísland lengi lifi!